Útvarpslög og samkeppnislög

Þriðjudaginn 11. maí 2004, kl. 16:29:55 (7854)

2004-05-11 16:29:55# 130. lþ. 112.1 fundur 974. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum) frv. 48/2004, EKG (um fundarstjórn)
[prenta uppsett í dálka] 112. fundur, 130. lþ.

[16:29]

Einar K. Guðfinnsson (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég kem hingað fyrst og fremst til að þakka hæstv. forseta fyrir ágæta fundarstjórn. Þetta mál er prýðilega þingtækt, það er búið að afgreiða það úr þeirri nefnd sem hafði forræði málsins. Við tókum um það ákvörðun hér í þinginu að vísa málinu til allshn. Hún hefur unnið að málinu og skilað því frá sér. Það er hér í efnislegum ágreiningi og það er mjög mikilvægt, virðulegi forseti, að við fáum tækifæri til þess að skiptast á skoðunum um efni málsins. Það er engin ástæða til að bíða eftir því þó að önnur nefnd sé að fjalla um anga þessa máls. Kjarni málsins er bara sá að allshn. hafði forræði málsins og allshn. hefur lokið því, það er komið hingað aftur til 2. umr.

Það var mjög sérkennilegt fyrr í dag þegar leitað var atbeina forseta fyrir því að hann færi að skipta sér af störfum nefnda, færi að reyna að leika hér einhvern yfirformann í tiltekinni nefnd og segja nefndinni fyrir verkum, hvernig og hvenær hún ætti að vinna og að nefndin ætti að koma saman o.s.frv. Það er einfaldlega ekki hlutverk forseta þingsins og það geta menn lesið um í þessu ágæta plaggi sem heitir Þingsköp Alþingis og er frá árinu 1993. Þar er greinilega kveðið á um að það er auðvitað formaður sem stýrir störfum nefndarinnar og engin ástæða er til að reyna að hvetja hér til brota á þingsköpum Alþingis með þeim hætti að hvetja til þess að forseti þingsins fari að seilast um hurð til lokunnar og fari að skipta sér af starfi sjálfstæðrar nefndar sem Alþingi hefur kosið.

Þetta er furðuleg umræða sem á auðvitað ekki að eiga sér stað og er truflun á hinni góðu fundarstjórn forseta. Ég hvet hv. þingmenn til að láta af þessum leiða sið og leyfa umræðunni að halda áfram eins og formaður allshn. hvatti hérna mjög til, að við getum farið að skiptast efnislega á skoðunum um mál sem skiptir mjög miklu og við þurfum að fara að leiða til lykta.