Útvarpslög og samkeppnislög

Þriðjudaginn 11. maí 2004, kl. 16:31:48 (7855)

2004-05-11 16:31:48# 130. lþ. 112.1 fundur 974. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum) frv. 48/2004, BjörgvS (um fundarstjórn)
[prenta uppsett í dálka] 112. fundur, 130. lþ.

[16:31]

Björgvin G. Sigurðsson (um fundarstjórn):

Frú forseti. Eins og fram kom í máli hv. þm. Marðar Árnasonar og fleiri þingmanna barst okkur í menntmn. erindi í hádeginu í gær, virðulegi forseti, um að okkur væri ætlað að skila áliti til allshn. um frv. hæstv. forsrh. um eignarhald á fjölmiðlum sem hér liggur fyrir. Þetta var í hádeginu í gær.

Virðulegi forseti. Nefndinni var ætlað um korter í gær til að ræða málið. Öllum var því morgunljóst að útilokað væri annað en að nefndin þyrfti að setja sig í startholurnar og ákveða hvernig hún ætlaði að taka á málinu. Fulltrúar stjórnarandstöðunnar í menntmn. mættu að sjálfsögðu vel vopnum búnir á þann fund, með ítarlegan lista yfir fræðimenn, fjölmiðlamenn, fréttamenn, höfunda fræðibóka um fjölmiðla og fleiri tengda fagstéttum innan menningargeirans sem við töldum, frú forseti, að yrðu að koma að störfum nefndarinnar til að hv. menntmn. gæti skilað vönduðu og ítarlegu áliti til hv. allshn. og þar með unnið sitt lögbundna starf, að skila ítarlegu og greinargóðu áliti.

Virðulegi forseti. Við förum því fram á það hér og nú að þingfundi þessum verði frestað þar til menntmn. hefur komið saman, unnið vinnu sína, og skilað því áliti sem hv. allshn. óskaði eftir að hún skilaði. Það hefði ómögulega getað orðið í gær áður en 2. umr. um frv. hófst. Nefndinni einfaldlega gafst ekki tími til þess, enda barst erindið ekki fyrr en í gær.

Þó að einungis örfáir aðilar af þeim sem við stjórnarandstöðuþingmenn menntmn. óskuðum eftir að kæmu á fund nefndarinnar séu boðaðir í fyrramálið er það samt ágætisbyrjun, ef menntmn. gæfist nú sæmilega rúmur tími, t.d. út þessa viku og eitthvað fram í næstu viku, til að sinna verki sínu og skila ítarlegu og vönduðu áliti til allshn. um frv. sem hér er til umræðu. Því er bara alls ekki að heilsa og því tek ég undir það að ef virðulegur forseti kemst ekki að þeirri niðurstöðu að þessum þingfundi verði frestað og ákveður að 2. umr. um frv. haldi áfram fram eftir degi, fram eftir kvöldi og fram eftir nóttu, þá er það ekki annað en hrein og klár móðgun við það ágæta fólk sem boðað er á fund menntmn. klukkan korter yfir átta í fyrramálið, að láta það mæta þar eftir að 2. umr. um frv. hefur átt sér stað.

Virðulegur forseti. Við förum fram á það að forseti fresti þessum fundi þegar í stað svo menntmn. geti hafið störf sín og unnið það ítarlega nefndarálit sem hún ætlaði sér af miklum metnaði að skila til allshn. eða einfaldlega beiti sér fyrir því að fundi menntmn. verði frestað.