Útvarpslög og samkeppnislög

Þriðjudaginn 11. maí 2004, kl. 18:33:29 (7868)

2004-05-11 18:33:29# 130. lþ. 112.1 fundur 974. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum) frv. 48/2004, SigurjÞ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 112. fundur, 130. lþ.

[18:33]

Sigurjón Þórðarson (andsvar):

Frú forseti. Það eru ekki mín orð að ég hefði viljað eyða tveimur vikum meira í þessa vinnu, alls ekki. Ég hefði viljað verja í það miklu lengri tíma, fara í opna umræðu í þjóðfélaginu og gera málið vel úr garði. Það hefði eflaust mátt taka á eignarhaldinu með þeim hætti. Ég er ekki að draga úr því. En menn eiga ekki að vinna verkin með þessum hætti.

Þessar tvær viku hefðu ekki leyst úr vandanum, eins og hv. þm. hélt fram. Ég tel hins vegar að sá tími hefði dugað til að leiða meiri hlutanum fyrir sjónir að þeir eru á villigötum. Þeir hefðu áttað sig á því í staðinn fyrir að æða áfram eins og vagnhestar, keyrðir áfram með forsrh. sem vagnstjóra. Auðvitað eiga menn að fara í opna lýðræðislega umræðu. Ég er sannfærður um það, ég hef ekki misst það mikla trú á þessum hv. ungu þingmönnum, að ef þeir hefðu fengið tveimur vikum lengri tíma og fengið lögfræðiálit sem gengi þvert á þessa fyrirætlan, þá væru a.m.k. einhverjar líkur á að mennirnir hefðu séð að sér.

Hvað liggur okkur á? Er ekki mikilvægara að hafa vaðið fyrir neðan sig og taka þann tíma sem þarf til að vera viss um að við séum ekki að brjóta stjórnarskrána eða fara á svig við Evrópureglur.