Útvarpslög og samkeppnislög

Þriðjudaginn 11. maí 2004, kl. 18:35:44 (7869)

2004-05-11 18:35:44# 130. lþ. 112.1 fundur 974. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum) frv. 48/2004, ÁÓÁ (um fundarstjórn)
[prenta uppsett í dálka] 112. fundur, 130. lþ.

[18:35]

Ágúst Ólafur Ágústsson (um fundarstjórn):

Frú forseti. Fyrr í dag kom fram ósk frá hv. þingmönnum Samf. í menntmn. um að umræðu um svonefnt fjölmiðlamál yrði frestað á meðan fagnefndir þingsins væru enn að fjalla um málið. Nú hefur komið í ljós að menntmn. mun á fundi í fyrramálið taka þetta mál til umfjöllunar og taka á móti gestum. Svipaða sögu er að segja af efh.- og viðskn. þannig að það er ljóst að málið er enn þá í umræðu hjá fagnefndum þingsins sem ætlunin var að mundu nálgast þetta umfjöllunarefni frá öðrum sjónarhóli en allshn. hefur gert. Bæði hæstv. forsrh. og allshn. óskuðu á fyrri stigum þessa máls eftir áliti þessara fagnefnda og þær hafa ekki enn gefið álit sitt.

Svo það komi fram í þessum sal var þeirri kröfu Samf. og stjórnarandstöðunnar, um að fresta umræðu á meðan fagnefndir þingsins væru enn að fjalla um málið, hafnað af hæstv. forseta Alþingis, Halldóri Blöndal. Þessi fundur átti sér stað fyrir rúmum hálftíma og það er rétt að það komi fram með formlegum hætti.

Hæstv. forseti Halldór Blöndal taldi þetta eðlilegt, að umræðan færi fram þrátt fyrir að fagnefndirnar væru að störfum og mundu fjalla um þetta mál á morgun. Þingflokksformenn Sjálfstfl. og Framsfl. tóku undir það og vörðu þessi vinnubrögð. Þeir töldu að hér hefði verið afskaplega vel að máli staðið.

Nú kemur að sjálfsögðu annað í ljós. Það hefur ekki verið vel að þessu máli staðið. Aðrar nefndir hafa ekki lokið yfirferð sinni yfir málið og það er rétt að undirstrika að það eru einmitt flokksbræður þingflokksformanns Sjálfstfl. og hæstv. forseta sem stjórna umræddum nefndum. Það er alveg ljóst að þessir flokksbræður hæstv. forseta og þingflokksformannsins hafa metið það svo að málið þarfnist frekari umfjöllunar. Við í Samf. höfum talið rétt að þessari lykilumræðu, sem við teljum 2. umr. vera, verði frestað meðan fagnefndirnar eru að fjalla um þetta mál. Því var sem sagt hafnað af hæstv. forseta Halldóri Blöndal nú seinni partinn.