Útvarpslög og samkeppnislög

Þriðjudaginn 11. maí 2004, kl. 18:51:15 (7876)

2004-05-11 18:51:15# 130. lþ. 112.1 fundur 974. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum) frv. 48/2004, BjörgvS (um fundarstjórn)
[prenta uppsett í dálka] 112. fundur, 130. lþ.

[18:51]

Björgvin G. Sigurðsson (um fundarstjórn):

Frú forseti. Það er að sjálfsögðu ekki annað hægt en að beygja sig undir þá niðurstöðu sem virðulegur forseti Alþingis komst að í dag með formönnum þingflokka um að umræðan fari fram. Um leið verður það samt að koma fram vegna þessara upplýsinga frá forsetaembættinu að við, hv. fulltrúar Samf. í menntmn., hljótum að harma það mjög að 2. umr. skuli hafa farið af stað í Alþingi um þetta mikla mál. Í ljósi þess að upplýsingarnar og álit menntmn. vantar er hún, svo vægt sé til orða tekið, meingölluð ef ekki handónýt. Það er skaði að 2. umr., meginumræðan, um þetta grundvallarmál í stjórnskipun okkar Íslendinga skuli fara fram á hinu háa Alþingi án þess að sú nefnd sem málið snertir hvað mest, menntmn. Alþingis, skuli hafa fjallað um það í störfum sínum. Því var þeirri ósk svo skýrt og skorinort komið á framfæri við virðulegan forseta fyrr í dag að fundi yrði frestað þá þegar, nefndir kallaðar saman svo að þær gætu hafist handa við að viða að sér gögnum, kalla til sín gesti og vinna alla þá ítarvinnu sem nefndunum ber að vinna, þá vandvirknislegu ítarvinnu sem þingnefndunum ber að vinna til að þær séu, frú forseti, í stakk búnar til að skila því inn á hið háa Alþingi sem þær eiga að skila inn. Það er grundvöllur og undirstaða þeirrar umræðu sem fer fram hérna, þeirrar lýðræðislegu umræðu sem fer fram í þingsölum um öll okkar meginmál.

Og þar sem um meginmál er að ræða, frú forseti, tókum við mjög ákveðið á málinu fyrr í dag þegar við ítrekað óskuðum eftir því að þingfundi yrði frestað og nefndum gefið tóm til að starfa vegna þess að hér er um að ræða meginmál í samfélagi okkar, grundvallarmál sem margir telja að vegi að stjórnskipun landsins þar sem málið brjóti harkalega á öllum mannréttindaákvæðum stjórnarskrárinnar fyrir utan þá sem lýtur að trúfrelsi. Þetta álítum við að komi fram hjá fjöldamörgum sérfróðum aðilum, frú forseti, og þess vegna fórum við fram á það ...

(Forseti (JóhS): Forseti vill biðja hv. þingmann að fara ekki í efnislega umræðu um frv. undir fyrirsögn um fundarstjórn forseta.)

Ég verð við þeirri ósk, frú forseti, en var að færa rök fyrir því af hverju við sóttum það svo stíft á þingfundi fyrr í dag að fundi yrði frestað og fundið yrði tóm fyrir nefndirnar til að starfa. Vil ég ítreka við þann forseta sem nú situr að við, fulltrúar Samf. og stjórnarandstöðunnar í menntmn., höfum farið þess á leit enn og aftur við hæstv. forsetaembættið að það gefi okkur tíma til að sinna þessum störfum okkar.