Útvarpslög og samkeppnislög

Þriðjudaginn 11. maí 2004, kl. 21:07:51 (7887)

2004-05-11 21:07:51# 130. lþ. 112.1 fundur 974. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum) frv. 48/2004, ISG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 112. fundur, 130. lþ.

[21:07]

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir (andsvar):

Virðulegur forseti. Það sem við erum með hér til umfjöllunar á þingi er frv. til laga sem lýtur að því að skerða möguleika tiltekinna aðila á því að eignast í ljósvakamiðlum og reka ljósvakamiðla. Það mál er til umfjöllunar hér.

Ég vildi svo gjarnan að við værum með öðruvísi frv. Sú er bara ekki raunin, virðulegur forseti. Ég vildi svo gjarnan að við værum hér með frv. sem tæki m.a. á útvarpsráði, eins og ég nefndi fyrr í kvöld, að það væri ekki skipað með þeim hætti sem það er skipað núna, sem tæki á gagnsæi eignarhalds, sjálfstæði ritstjórna, samkeppnislögum og því að tryggja það að menn geti ekki misbeitt markaðsráðandi stöðu sinni í fjölmiðlum. Ég vildi svo gjarnan að við tækjum á öllum þessum hlutum en það bara er ekki þannig, virðulegi forseti. Við erum með frv. sem tekur á tilteknu atriði og öðrum ekki.

Ég vil leyfa mér að endurtaka það, virðulegur forseti, að hér er ekki um formsatriði að ræða, hér er um efnisatriði að ræða.