Útvarpslög og samkeppnislög

Þriðjudaginn 11. maí 2004, kl. 21:13:18 (7890)

2004-05-11 21:13:18# 130. lþ. 112.1 fundur 974. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum) frv. 48/2004, SKK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 112. fundur, 130. lþ.

[21:13]

Sigurður Kári Kristjánsson (andsvar):

Frú forseti. Það var sem mig grunaði, ekki kom neitt svar við spurningu minni. Hv. þm. svaraði ekki spurningunni um hvort stefnubreyting hefði orðið hjá flokknum hennar, Samf., eða hvort það skipti máli hvort löggjöfin sneri að einu fyrirtæki fremur en öðru.

Ég veit mjög vel að hv. þm., sem er varaformaður Samf., ætti að geta svarað fyrir afstöðu síns flokks þrátt fyrir að hún hafi ekki verið hér á þingi þegar þetta mál var til umfjöllunar. Það þýðir ekki að skýla sér á bak við það. Það sem skiptir máli, og er nauðsynlegt fyrir umræðuna að komi fram svar við, er að ef menn eru á móti sértækri lagasetningu hljóta þeir að vera á móti henni í öllum tilvikum. Ekkert frv. á þessu þingi hefur beinst jafnbeint að einu ákveðnu fyrirtæki og þetta SPRON-mál. (Forseti hringir.) Það er alveg ljóst og það er ekkert hægt að deila um það. Hvar stóð Samf. í því máli? (Forseti hringir.) Hún greiddi öll atkvæði með því að einum þingmanni undanskildum.

(Forseti (JBjart): Forseti minnir þingmenn á að virða þröng tímamörk í andsvörum.)