Útvarpslög og samkeppnislög

Þriðjudaginn 11. maí 2004, kl. 22:35:48 (7893)

2004-05-11 22:35:48# 130. lþ. 112.1 fundur 974. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum) frv. 48/2004, menntmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 112. fundur, 130. lþ.

[22:35]

Menntamálaráðherra (Þorgerður K. Gunnarsdóttir) (andsvar):

Frú forseti. Mér er bæði ljúft og skylt að fá að svara spurningum hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar sem flutti nokkuð skemmtilegt og áheyrilegt erindi þó ég hafi nú ekki verið sammála honum í einu og öllu --- ég verð nú að undirstrika það --- og síst af öllu því sem hann nefndi hér síðast varðandi hrossalækningar og valdníðslu. Ef við höldum okkur nú við hrossalækningarnar þá veit ég að hv. þm. er ágætur hestamaður og hann veit það jafnvel að þegar hross taka hrossasótt þá þurfa þau skjóta og fljóta lækningu annars drepast þau. Það má kannski segja að það sama gildi um fjölmiðlamarkaðinn hér, að við þurfum að bregðast skjótt við. Þetta veit hv. þm.

Ég sé, frú forseti, að tími minn er að renna út en hv. þm. beindi til mín tveimur spurningum, annars vegar um Ríkisútvarpið og hins vegar um fjölmiðlastofnunina. Eins og margoft hefur komið fram þá er ég einmitt með málefni Ríkisútvarpsins til endurskoðunar og einmitt með það að markmiði að taka á þeim atriðum sem hv. þm. nefndi sérstaklega, að gera stjórnskipulagið og stjórnsýslu Ríkisútvarpsins skýrari og breyta henni í grundvallaratriðum frá því sem nú er.