Útvarpslög og samkeppnislög

Þriðjudaginn 11. maí 2004, kl. 22:37:08 (7894)

2004-05-11 22:37:08# 130. lþ. 112.1 fundur 974. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum) frv. 48/2004, SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 112. fundur, 130. lþ.

[22:37]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Frú forseti. Hrossalækningar geta nú kannski átt við á hross, að minnsta kosti t.d. lyfjaskammtar. En enginn notar hrossaskammt á kettling. Sömu meðul eða sömu skammtar eru ekki notaðir bara algjörlega óháð því hvaða viðfangsefni á í hlut. Ég held að fjölmiðlaheimurinn og ástandið þar eigi nú mest lítið skylt við hrossasótt. Ég held að það sé nú ekki góð samlíking.

Varðandi útvarpið þá spyr ég á móti: Nú, gott og vel ef útvarpið er í skoðun hjá hæstv. ráðherra, af hverju má þá ekki þetta bíða þess? Er ekki skynsamlegt að skoða þetta allt í samhengi? Er ekki samspil á milli Ríkisútvarpsins og stöðu þess og einkamarkaðarins í fjölmiðlun? Ég hefði haldið það. Ég held að það sé ákaflega fátækleg vörn í því að þetta þurfi einhverja flýtimeðferð og að lífið liggi við að pína þetta í gegn, ég tala nú ekki um þegar það á ekki að taka gildi fyrr en 2006. Af hverju má þetta ekki vera samferða skoðuninni á Ríkisútvarpinu?