Útvarpslög og samkeppnislög

Þriðjudaginn 11. maí 2004, kl. 22:39:24 (7896)

2004-05-11 22:39:24# 130. lþ. 112.1 fundur 974. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum) frv. 48/2004, SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 112. fundur, 130. lþ.

[22:39]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Frú forseti. Þetta seinna svar var nú aðallega um Samfylkinguna og það er ekki mín deild (Gripið fram í.) þannig að ég leiði það nú hjá mér. En varðandi viðhorf mín í þessum efnum og í mínum flokki, Vinstri hreyfingunni -- grænu framboði, þá höfum við verið nákvæmlega sjálfum okkur samkvæm í gegnum allan þennan málflutning.

Hæstv. ráðherra getur flett því upp eins og hún vill. Við höfum að sjálfsögðu viðurkennt mikilvægi þess að skoða öll þessi mál yfirvegað og rækilega. En við frábiðjum okkur þau vinnubrögð sem hæstv. ríkisstjórn hefur ástundað og þetta meingallaða frumvarp. Auk þess er greinilega ekki áhugi á því á nokkurn hátt hjá ríkisstjórninni að leita eftir því að skapa neinn frið eða neina samstöðu um málið. Ríkisstjórnin vill ófrið um þetta bæði innan þings og utan og þá er best að hún fái hann.