Afgreiðsla fjölmiðlafrumvarps

Miðvikudaginn 12. maí 2004, kl. 10:37:47 (7964)

2004-05-12 10:37:47# 130. lþ. 113.93 fundur 553#B afgreiðsla fjölmiðlafrumvarps# (aths. um störf þingsins), PHB
[prenta uppsett í dálka] 113. fundur, 130. lþ.

[10:37]

Pétur H. Blöndal:

Herra forseti. Hv. allshn. leitaði eftir umsögn hv. efh.- og viðskn. í því máli sem um ræðir og gaf frest til síðasta föstudags. Við ræddum það í efh.- og viðskn. á föstudaginn. Fékk ég framlengdan frestinn til mánudags og það var rætt á mánudaginn í hv. efh.- og viðskn. Ég lagði þá til að það yrði tekið út en heyrðist á mönnum að þeir teldu málið ekki fullreifað.

Benti ég mönnum á að við mundum frjósa inni með umsögnina ef við ekki skiluðum henni þann dag. Menn hlýddu því ekki og málið var rætt í gær og aftur í morgun.

Ég tel að það hafi ekki mikið upp á sig að ræða svar efh.- og viðskn. til allshn. eftir að allshn. hefur lokið umfjöllun um málið. Málið er komið til 2. umr. á Alþingi. (ÖJ: Við ...) Þá værum við í efh.- og viðskn. enn þá að fjalla um málið sem allshn. var með til umsagnar eftir 1. umr. Þess vegna lagði ég til í morgun að málið yrði tekið út. Ég taldi að það hefði lítið upp á sig að ræða það áfram. Niðurstaðan varð að menn vildu ræða það áfram. Menn vilja sem sagt ræða það áfram í hv. efh.- og viðskn. Það er guðvelkomið, bara fram eftir sumri þess vegna.