Afgreiðsla fjölmiðlafrumvarps

Miðvikudaginn 12. maí 2004, kl. 10:44:38 (7968)

2004-05-12 10:44:38# 130. lþ. 113.93 fundur 553#B afgreiðsla fjölmiðlafrumvarps# (aths. um störf þingsins), KolH
[prenta uppsett í dálka] 113. fundur, 130. lþ.

[10:44]

Kolbrún Halldórsdóttir:

Herra forseti. Ég er að koma af fundi í menntmn. Alþingis. Eins og komið hefur fram í máli þingmanna á undan mér ber auðvitað að þakka það litla sem gert er í hinu ótrúlega ferli sem hér fer fram. Það sem ég get þakkað hv. þm. Gunnari Birgissyni, formanni menntmn., fyrir er að hann hafði ekki tilbúið á borði sínu áður en fundurinn hófst umsögn meiri hluta menntmn. Í þeim skrípaleik sem hér fer fram ber að þakka slíkt því að satt að segja átti ég von á því að slíkt álit lægi þegar fyrir.

Hitt ber að harma að við fáum ekki þann tíma sem nauðsynlegur er fyrir nefndina til að fjalla um það málasvið sem nefndinni er ætlað að fjalla um. Við óskuðum eftir því í stjórnarandstöðunni að fá að fjalla sérstaklega um þann þátt í þessu frv. sem lýtur að hinni menningarlegu fjölbreytni. Það er mál sem þarf að taka til sérstakrar skoðunar og við verðum að taka það til umfjöllunar áður en umfjöllun um málið lýkur. Það hefur enn ekki verið gert í menntmn. því að í morgun höfðum við svo margar lögfræðilegar spurningar og tíminn fór í annað en það sem við hefðum kannski viljað einbeita okkur að. Við óskuðum eftir því, stjórnarandstæðingar, að hv. þm. Gunnar Birgisson, formaður nefndarinnar, færi fram á það við forseta að þessum fundi yrði frestað fram til hádegis. Við því var ekki orðið en þá ítreka ég hér og tek undir ósk hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur um að forseti taki af skarið og sjái til þess að svigrúm verði veitt fyrir áframhaldandi umfjöllun í þessum tveimur nefndum og að þingmenn fái þá líka tækifæri til að skrifa álitin sín.

Menn hafa verið að tala um leikrit. Ég vil óska eftir því að við hættum að kalla þennan skrípaleik sem hér fer fram leikrit vegna þess að ekkert íslenskt leikrit er svo illa skrifað að það verðskuldi að vera í flokki með þeirri fléttu sem ríkisstjórnin er að búa til í þessu máli. Þetta er ekki íslenskt leikrit. Þetta er skrípaleikur.