Afgreiðsla fjölmiðlafrumvarps

Miðvikudaginn 12. maí 2004, kl. 10:49:26 (7972)

2004-05-12 10:49:26# 130. lþ. 113.93 fundur 553#B afgreiðsla fjölmiðlafrumvarps# (aths. um störf þingsins), GunnB
[prenta uppsett í dálka] 113. fundur, 130. lþ.

[10:49]

Gunnar Birgisson:

Virðulegi forseti. Rétt til að gefa örstutta mynd af því sem hefur verið að gerast í menntmn. Við vorum að ljúka fundi þar núna kl. hálfellefu. Það er búið að ræða þetta mál tvisvar í nefndinni. Efnisleg umræða hefur aðallega verið á forsjá allshn. enda var málinu vísað til hennar.

Allar skriflegar umsagnir sem bárust allshn. hafa borist menntmn. þannig að nefndarmenn hafa haft aðgang að öllum þeim skjölum sem allshn. hefur haft aðgang að. Ég taldi ekki, virðulegi forseti, efni til að halda fundi í menntmn. meðan allshn. var að fjalla um málið. Margir aðrir nefndarfundir voru í gangi og það hefði ekki gengið upp.

Við fengum í morgun á fund til okkar, virðulegi forseti, sex aðila, þ.e. tvo ritstjóra, annan frá Morgunblaðinu og hinn frá Fréttablaðinu, tvo framkvæmdastjóra, þ.e. framkvæmdastjóra Norðurljósa og Skjás 1, og svo tvo óháða ráðgjafa, þ.e. Sigurð Líndal prófessor og Herdísi Þorgeirsdóttur. Við fórum yfir málið á fundi sem stóð í tvær klukkustundir og 15 mínútur. Áðan sagði hv. þm. Björgvin Sigurðsson að fundurinn hefði staðið í eina klukkustund. Ég veit ekki hvaða klukku hann er með eða hvernig samfylkingarúrið gengur. Svo var alveg hábjartur dagur. Þessir fundir hafa farið fram allir á hábjörtum degi, ekki í skjóli myrkurs þannig að ég ber það til baka.

Ég tel að umfjöllun í nefndinni hafi farið ágætlega, þetta hafi verið ágætisumfjöllun. Við áttum mjög góðan fund í morgun. Það var ákveðið í lok hans að meiri hluti og minni hluti mundu skila umsögn til allshn. fyrir lok 2. umr. Umsögn meiri hlutans verður tilbúin í dag og þar með teljum við að umfjöllun menntmn. um málið verði lokið.