Afgreiðsla fjölmiðlafrumvarps

Miðvikudaginn 12. maí 2004, kl. 10:51:39 (7973)

2004-05-12 10:51:39# 130. lþ. 113.93 fundur 553#B afgreiðsla fjölmiðlafrumvarps# (aths. um störf þingsins), MÞH
[prenta uppsett í dálka] 113. fundur, 130. lþ.

[10:51]

Magnús Þór Hafsteinsson:

Hæstv. forseti. Það kemur svo sem ekki á óvart að heyra lýsingar nefndarmanna í efh.- og viðskn. og menntmn., hv. nefndum þingsins, núna á þessari morgunstundu. Þetta rímar alveg við það sem við reyndum í nótt. Þetta er áframhald á þeim farsa sem átti sér stað í gær. Liðna nótt voru ítrekuð fundahöld með forseta þingsins þar sem hann og stjórnarliðar reyndu að ná samkomulagi, reyndu að draga upp úr okkur, formönnum þingflokkanna, loforð um að eftir að fólk var búið að vera tímunum saman á þingfundi yrði okkur hleypt heim í nótt til að hvílast gegn því að við kæmum með einhver loforð um að umræðan í dag tæki ekki meira en eitthvað í kringum 12 tíma.

Nú sjáum við að þessum tveimur mikilvægu nefndum sem eru að fjalla um mjög mikilvægt frv., þ.e. efh.- og viðskn. sem skiljanlega er að fjalla um þetta frv. þar sem gríðarlegir peningalegir hagsmunir liggja undir og svo hv. menntmn. þar sem málir er mikilvægt fyrir menningu þjóðarinnar, þ.e. framtíð íslenskra fjölmiðla, er ekki leyft að starfa eðlilega. Fundurinn er barinn áfram. Núna byrjum við kl. hálfellefu og sú ósk stjórnarandstöðunnar að fá að byrja kl. hálftvö, til að fólk geti skilað heiðarlega af sér verki sínu, er hunsuð.

Mér finnst þetta alveg með ólíkindum, alveg ótrúleg vinnubrögð. Þetta getur ekki rímað við neitt sem heitir lýðræði eða lýðræðisleg vinnubrögð, svona háttsemi stjórnarliða.

Í þingsölum ríkir núna algert stríð milli stjórnar og stjórnarandstöðu. Ég get fullvissað þig um það, hæstv. forseti, að stjórnarandstaðan stendur mjög vel saman í þessu máli og ég segi fyrir mína parta að það stendur ekki til að gefa eftir eða víkja um eina tommu. Ekki eina tommu, herra forseti.