Afgreiðsla fjölmiðlafrumvarps

Miðvikudaginn 12. maí 2004, kl. 11:05:00 (7980)

2004-05-12 11:05:00# 130. lþ. 113.92 fundur 552#B afgreiðsla fjölmiðlafrumvarps# (um fundarstjórn), ÖS
[prenta uppsett í dálka] 113. fundur, 130. lþ.

[11:05]

Össur Skarphéðinsson:

Herra forseti. Ég held að það mundi greiða mjög fyrir þingstörfum og fyrir þessari umræðu ef við fengjum að sjá þau rök sem stjórnarliðar allir hafa fyrir þessum málum.

Ég vakti máls á því í nótt, herra forseti, að það væri með miklum fádæmum hvernig þingmenn Framsfl. sem voru á mælendaskrá féllu eins og litlir hnullungar fyrir björg eftir því sem fram vatt nóttinni. Hv. þm. Hjálmar Árnason, formaður þingflokksins, lét tveimur sinnum fjarlægja sig af mælendaskrá, bersýnilega vegna þess að þingmenn Framsfl. treysta sér ekki til þess að koma hingað og ræða þetta mál.

(Forseti (HBl): Ég vil biðja hv. þingmann afsökunar en hann telur að hann sé að ræða um þingsköp, um fundarstjórn forseta.)

Herra forseti. Ég hef mikla trú á því afli sem býr í hæstv. forseta og ég veit að ef hann á það féllist mundi atbeini hans duga til þess að hægt yrði að fá fram viðhorf framsóknarmanna hér. Ég hef greint frá því í þessari umræðu að af því að hæstv. forseti hefur gert að umræðuefni álit nefnda þingsins vakti ég máls á því hér að áðan kom fram í efh.- og viðskn. að álit meiri hlutans lá fyrir í höndum formannsins, og hann hafði séð það ásamt þingmönnum Sjálfstfl. Telur hæstv. forseti að það sé fallið til þess að greiða fyrir þingstörfum að hv. formaður efh.- og viðskn. hafði ekki einu sinni haft fyrir því að sýna þingmönnum Framsfl. álitið sem meiri hluti ætlaði að senda frá sér? Er nema von, herra forseti, að ég leiti eftir atbeina hæstv. forseta til þess að fá úr því skorið hvort Framsfl. yfir höfuð stendur á bak við þetta frv. Tilefnið er ærið eins og ég hef rakið, herra forseti, þeir einu þingmenn Framsfl. sem hafa talað í umræðunni eða talað opinberlega, að frátöldum formanni Framsfl., hafa verið ýmist gagnrýnir á inntak frv. eða lagst gegn því. Síðan gerist það að aðrir þingmenn Framsfl. sem hér kveðja sér hljóðs hrapa jafnharðan fyrir björg.

Herra forseti. Ég veit að við þingmenn eigum þrátt fyrir allt skjól í hæstv. forseta. Við þurfum að ljúka umfjöllun okkar í efh.- og viðskn. Sú umfjöllun hófst með samhljóða ákvörðun nefndarinnar. Þegar formaður nefndarinnar reyndi hins vegar með ofbeldi að rífa málið úr nefndinni fékk hann tvö atkvæði. Enginn framsóknarmaður treysti sér til að styðja hann. Sýnir þetta ekki í hvaða klemmu málið er komið af hálfu stjórnarliðsins, herra forseti?