Afgreiðsla fjölmiðlafrumvarps

Miðvikudaginn 12. maí 2004, kl. 11:08:25 (7982)

2004-05-12 11:08:25# 130. lþ. 113.92 fundur 552#B afgreiðsla fjölmiðlafrumvarps# (um fundarstjórn), KHG
[prenta uppsett í dálka] 113. fundur, 130. lþ.

[11:08]

Kristinn H. Gunnarsson:

Herra forseti. Ég tel að það sé mjög skýrt í þingsköpum hvernig standa eigi að því að ljúka athugun máls og taka það út úr nefnd. Í fyrri mgr. 27. gr. þingskapa sem ég las upp áðan er kveðið á um það að framsögumaður geri tillögu um afgreiðslu þess þegar hann telur athugun málsins lokið. Til þess að gera þá hluti alveg skýra með hvaða hætti athugun máls í nefnd væri lokið samþykkti Alþingi lagabreytingu fyrir 11 árum sem er síðari mgr. 27. gr., svohljóðandi, með leyfi forseta:

,,Ef nefndarmaður gerir tillögu um að athugun máls sé hætt og það afgreitt frá nefndinni er formanni skylt að láta ganga atkvæði um þá tillögu á þeim fundi sem hún er borin fram. Tillagan telst því aðeins samþykkt að meiri hluti nefndarmanna greiði henni atkvæði.`` (Gripið fram í: Já, já.)

Ég tel þetta alveg skýrt og tæmandi og finn engin önnur ákvæði í þingsköpum um það með hvaða hætti mál eigi að vera tekið úr nefnd.

Þá segir í 29. gr. þingskapa að þegar nefnd hefur lokið athugun máls með þeim hætti sem ég las upp áðan lætur hún uppi álit sitt, en ekki fyrr. Ég fæ ekki séð stoð í þingsköpum fyrir því áliti forseta að hver nefndarmaður geti gefið út álit í máli þegar hann sjálfur telur athugun málsins lokið í nefndinni. Ég óska eftir að forseti vísi á þær greinar þingskapa sem kveða á um þetta.

Í 31. gr. þingskapa er á hinn bóginn gert ráð fyrir því að nefnd geti með skýrslu gert þinginu grein fyrir athugun sinni á þingmáli sem hún hefur ekki lokið athugun á, þ.e. gert stöðuskjal, lýst því hvernig staða máls er í nefndinni með sérstakri skýrslu. Það er hvergi tekið fram í þessari grein að einstökum nefndarmanni sé heimilt að gera slíkt. Ég ætla ekki að útiloka að það kunni að vera rétt sjónarmið hjá forseta að hver nefndarmaður geti hvenær sem er gefið út þingskjal þar sem hann lýsir afstöðu sinni til hvers þess máls sem er til umfjöllunar í nefndinni sem hann situr í. Það getur samt ekki falið í sér ákvörðun um að umfjöllun nefndarinnar um málið sé lokið. Það verður aðeins gert samkvæmt ákvæðum 27. gr.