Afgreiðsla fjölmiðlafrumvarps

Miðvikudaginn 12. maí 2004, kl. 11:15:02 (7985)

2004-05-12 11:15:02# 130. lþ. 113.92 fundur 552#B afgreiðsla fjölmiðlafrumvarps# (um fundarstjórn), JBjarn
[prenta uppsett í dálka] 113. fundur, 130. lþ.

[11:15]

Jón Bjarnason:

Hæstv. forseti. Hv. þm. Einar K. Guðfinnsson veltir fyrir sér hvers vegna verið sé að ræða um fundarstjórn forseta. Ég hélt að hv. þingmanni ætti að vera orðið fullljóst að fundarstjórn forseta er verulega áfátt og að umtalsverðar brotalamir eru á stjórn þingsins. Það er það sem er til trafala.

Ég minni á umræðuna í nótt. Þegar þingflokksformenn komu af fundi með forseta í nótt sagði þingflokksformaður Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs, hv. þm. Ögmundur Jónasson, að hann hefði upplifað það að hann sæi engan mun á forseta þingsins, sem ætti að vera forseti allra þingmanna í hagsmunagæslu sinni, og á formönnum þingflokka stjórnarflokkanna, hann væri genginn í lið með þeim. Ekki mátti á milli sjá hvor væri forseti þingsins, formaður þingflokks Sjálfstfl. eða hæstv. forseti. Þetta er mjög alvarlegt.

Ég vil líka benda á að í þingsköpum stendur, með leyfi forseta:

,,Forseti skal hafa reglulega samráð við formenn þingflokka, eða fulltrúa þeirra, um skipulag þingstarfa og leggja fyrir þá til umfjöllunar starfsáætlun þingsins og áætlanir um þingstörf hverrar viku.``

Hluti af störfum þingsins er nefndarstörfin. Þessu máli var eftir umræðu hér á þingi vísað af hálfu allshn. til bæði efh.- og viðskn. og menntmn. til umsagnar. Það fór því ekkert á milli mála hver vilji þingsins var enda kom það fram einmitt í undirtektum hæstv. forsrh., flutningsmanns frv., að hann sæi ekkert því til fyrirstöðu og þvert á móti væri eðlilegt að aðrar þingnefndir fjölluðu um það.

Spurning mín til forseta er hvort hann hafi nú í morgun, eftir að hafa heyrt hve óbjörgulega var staðið að störfum í nefndum, sérstaklega efh.- og viðskn., kallað til formenn þingflokka, eins og gert er ráð fyrir í þingsköpum, og haft samráð við þá um frekara þinghald í ljósi nefndarstarfanna. Eða hefur hann bara haldið uppteknum hætti og þjösnast áfram í einleik sínum, í mesta lagi haft samráð við formenn stjórnarflokkanna?

Forseta ber að hafa samráð við þingflokksformenn. Með samráði er sjálfsagt þá að taka tillit til þess sem fram kemur og reyna að finna sameiginlega lausn en ekki bara að troða bómull í eyrun, setja undir sig hausinn og vaða áfram.