Útvarpslög og samkeppnislög

Miðvikudaginn 12. maí 2004, kl. 13:08:20 (8002)

2004-05-12 13:08:20# 130. lþ. 113.1 fundur 974. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum) frv. 48/2004, BjörgvS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 113. fundur, 130. lþ.

[13:08]

Björgvin G. Sigurðsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta er gott sjónarhorn í málinu. Ég komst ekki að því að ræða þetta en tel að hv. þingmaður hafi að einhverju leyti verið að vísa til frægrar ritgerðar sem virðulegur forseti skrifaði á sínum tíma um meðalhófsregluna. Kannski hæstv. forseti svari okkur hv. þm. Sigurjóni Þórðarsyni um það hvort hann muni taka til máls um efnið eða hvort hann sé e.t.v. að láta fjölrita ritgerðina svo að henni verði jafnvel dreift á eftir eða látin liggja frammi á bókasafni Alþingis. Það væri mjög upplýsandi. (Gripið fram í.) Þegar hæstv. forseti hefur lokið setu sinni í forsetastól og annar úr forsn. hefur tekið sæti hans tekur hann sig kannski til og les valda kafla úr ritgerðinni. Ég óska eftir því að hv. þm. Birgir Ármannsson lesi bitastæðustu bútana úr ritgerð sinni um meðalhófsregluna. Ég held að það yrði umræðunni mjög til framdráttar, mjög gott fyrir bæði stjórnarliða og eins okkur stjórnarandstæðinga, bara til að fá fram merkilegar upplýsingar sem geta nýst okkur í varðstöðunni um mannréttindaákvæði stjórnarskrárinnar, frjálsa fjölmiðlun á Íslandi og lýðræðislega umræðu á Íslandi.

Þá held ég að umrædd ritgerð gæti komið að mjög fínu gagni, rétt eins og lestur minn úr Frelsinu eftir John Stuart Mill minnir vonandi ýmsa þá á sem hafa misst sjónar á takmarkinu um hvað er hér að tefla. Það er ekki bara leikaraskapur að sinna starfi löggjafans. Þetta er grafalvarlegt hlutverk. Menn verða að taka það alvarlega og það þýðir ekkert að láta geðþóttaákvarðanir einstakra ráðamanna koma þar inn.

Til að svara honum er meðalhófsreglunnar að sjálfsögðu alls ekki gætt, enda segir hún að ekki eigi að ganga lengra en þörf krefur til að ná markmiðinu. Velja skal vægasta úrræðið til að ná því markmiði sem að var stefnt. Það er alls ekki gert.