Útvarpslög og samkeppnislög

Miðvikudaginn 12. maí 2004, kl. 17:02:18 (8006)

2004-05-12 17:02:18# 130. lþ. 113.1 fundur 974. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum) frv. 48/2004, MÁ
[prenta uppsett í dálka] 113. fundur, 130. lþ.

[17:02]

Mörður Árnason (frh.):

Forseti. Ég átti eftir af ræðu minni og ætla nú að hafa það styttra en ég hélt upphaflega. Það dregst úr þeim plöggum sem maður hefur og stundum er það þannig að þótt maður telji sig vera nokkuð einarðan og markvissan í málflutningi verða útúrdúrar fleiri en upphaflega var áætlað, eins og hér hefur sannast. Vona ég þó að enginn hafi beðið skaða af.

Ég var þar kominn í ræðu minni að ég var að leggja út af umsögn frá öxli hins illa, Norðurljósum, sem talinn er vera hér í landinu eins og öxull hins illa telst í heiminum ýmis vond ríki. Þetta voru staðreyndir sem þeir Norðurljósamenn töldu fram um þá fjölmiðlun sem ekki er fjallað um í frv. og ég var búinn að rekja frásögn þeirra um breiðvarp og um frekari starfsemi Landssímans og Og Vodafones, hvernig sem á að beygja þetta furðulega nafn á því fyrirtæki sem einu sinni hét Tal. Norðurljósamenn segja líka frá því að Fjarski, sem er landsbyggðarfyrirtæki, hafi byggt upp stafrænt sjónvarpskerfi á Faxaflóasvæðinu sem megi stækka með litlum tilkostnaði þannig að það nái til Akureyrar og jafnvel annarra þéttbýlisstaða, t.d. Egilsstaða. Þeir hafa dreift erlendum gervihnattadagskrám um kerfi sitt en skort innlenda dagskrá til að dreifa, segja þeir kunnáttumenn hjá Norðurljósum. Ítrekað hefur verið leitað eftir því við Íslenska útvarpsfélagið, segja þeir, að þeir flytji dagskrá stöðva sinna á kerfi Fjarska. Af því hefur ekki orðið þar sem það hefur verið talið of dýrt. Þeir segja enn fremur frá því að Orkuveita Reykjavíkur hafi fjárfest í ljósleiðurum og fjarskiptabúnaði til gagnaflutnings. Sá búnaður getur flutt sjónvarpsefni en vantar slíkt efni. Þar er enn ein leiðin opin fyrir framtíðina. Þar er reyndar verið að ræða hugmyndir um að koma á laggirnar einhvers konar myndveitu, hugmyndirnar eru þær að menn geti pantað sér með einhverjum hætti kvikmyndir eða myndefni til sýnis eins og títt er orðið í erlendum borgum.

Lokaniðurstaða þeirra í þessum kafla hvað okkur varðar a.m.k. er þessi, með leyfi forseta:

,,Íslenskt sjónvarpsefni fyrir alla þessa dreifingaraðila`` --- sem er eins og rakið hefur verið opinberar stofnanir, það er sérkennilegt við þetta mál --- ,,verður ekki til ef koma á í veg fyrir frjálst flæði fjármagns inn í ljósvakamiðla eins og frumvarpið gerir ráð fyrir.``

Þetta er í menningarlegum efnum hin mikla spurning sem framtíðin spyr okkur: Ætlið þið, Íslendingar, með þennan mikla arf, ykkar litlu þjóð en miklu möguleika, á næstu áratugum að hafa framtíðina íslenska eða ætlið þið að láta ykkur renna bakleiðina inn í hið alþjóðlega efni sem verður til þess að hér dofnar sá rammi safi sem runnið hefur frjáls í gegn meðan við höfum haft sæmilega skynsemi og stjórn á okkar málum og ekki látið persónulega hagsmuni, kreddur og kenjar ráða því sem hér skiptir máli?

Ég hefði viljað lesa úr fleiri álitum og greinargerðum en ætla að láta það eiga sig að sinni, enda eigum við möguleika á að tala hér síðar við þessa umræðu. Þar vil ég sérstaklega benda á Samkeppnisstofnun sem menn hafa lesið hér, einkum vegna lögfræðilegra álitamála, en kemur í raun og veru inn á þessi menningarlegu og atvinnulegu álitamál líka. Ekki má heldur gleymast í þessari umræðu að minnast á skýrslu útvarpslaganefndar 1996 sem m.a. fjallar um þær hættur sem of ströng takmörkun á eignarhaldi getur sett fyrirtækjum við okkar aðstæður. Skýrsluhöfundar komust að þeirri niðurstöðu þá. Í nefndinni sátu, eins og ég hef rakið nokkuð oft hér á þinginu, valinkunnir íhaldsmenn sem enn eru í ábyrgðarstörfum fyrir Sjálfstfl. á ýmislegum vettvangi. Lítið hefur að vísu heyrst til þeirra um þetta frv., enda sumir þeirra þannig að þeir selja kannski ekki frumburðarrétt sinn fyrir væntanlega brauðbita eins og hefur komið fyrir nokkra hv. alþingismenn hér og rætt hefur verið lengi.

Ég get ekki látið hjá líða að minnast á álit Sigurðar Líndals sem sameinar tvennt, annars vegar það að vera spekingur mikill í lögum og hins vegar íslenskur menningarmaður, fremstur meðal jafningja eins og nú er ástatt á Íslandi. Hann er ekki frægur fyrir róttækni í stjórnmálaskoðunum, þvert á móti, en hann hefur hins vegar staðið mjög fast á íslenskum viðhorfum og jafnvel þótt það hafi gengið gegn skammtímastjórnmálalegum hagsmunum þess flokks sem hann studdi eða þeirra hópa sem hann hefur leitað sér fylgilags við í stjórnmálum. Það má minna á Keflavíkursjónvarpið því til staðfestingar.

Fyrir utan hin lögfræðilegu álitamál sem menn hafa rakið hér segir Sigurður Líndal að allur samanburður við fjölmennari ríki um samkeppni á fjölmiðlamarkaði sé villandi vegna þess að strangar takmarkanir henta illa á smáum markaði og litlu málsvæði. Sigurður Líndal vitnar svo í kafla 6.3 í fjölmiðlaskýrslunni sem heitir því skrýtna nafni Kostir samþjöppunar, en það verður að horfa framan í það líka að samþjöppunin getur haft ákveða kosti á Íslandi, en þar segir að það verði að tryggja íslenskum fyrirtækjum aðstæður til að þrífast. Höfundar benda líka á að því öflugri sem innlend fyrirtæki eru, því minni hætta sé á yfirtöku eða uppkaupum erlendra aðila og því líklegra að þau hafi burði til að standa undir innlendri dagskrárgerð. Þarna bendir sjálf fjölmiðlaskýrslan sem sumir segja að standi undir frv., sem er auðvitað fásinna, á enn einar hætturnar af því að veikja stoðir innlendra fyrirtækja.

Ég vil hafa þetta eftir Sigurði, með leyfi forseta:

,,Því hefur verið haldið fram að hvergi í nálægum löndum sé viðlíka samþjöppun á fjölmiðlamarkaði og hér á landi. En hér er verið að stilla upp ósambærilegum hlutum. Við Íslendingar erum í alþjóðlegri samkeppni, þurfum að verja menningararfleifð okkar, hlúa að henni og sækja fram á grundvelli hennar. Eins og fjölmiðlanefnd bendir á verða íslensk fjölmiðlafyrirtæki að vera tiltölulega stór á innlendan mælikvarða og því fylgir óhjákvæmilega nokkur samþjöppun og hún reisir einnig skorður við fjölda slíkra fyrirtækja. Þá verður að hafa í huga að lítil og veikburða fjölmiðlafyrirtæki eru miklu líklegri til að verða leiksoppar hagsmunaafla en þau sem stærri eru og standa styrkum fótum fjárhagslega.``

Ég vil gera það að lokaorðum mínum hér í þessari ofurlitlu ræðu að við eigum að taka mark á Páli Þórhallssyni, Evrópuráðinu, Herdísi Þorgeirsdóttur og þeim öðrum sem benda okkur á meðalhófsregluna í tengslum við þetta frv. Við eigum að leita að hinum vægari aðgerðum, að öðrum aðgerðum sem taka í raun og veru á vandanum, en ekki búa til lög sem bara beinast gegn einu fyrirtæki sem er ósanngjarnt og óréttlátt, heldur leiða líka til þess að draga úr möguleikum íslenskrar menningar, innlendrar fjölmiðlunar og minnka veg Íslands og Íslendinga til frambúðar. Þegar maður lítur á þetta mál frá menningarlegum sjónarhól er það hin stóra og mikla hætta af kenjum og skapsmunum hæstv. forsrh. sem að baki þessu frv. stendur.