Útvarpslög og samkeppnislög

Miðvikudaginn 12. maí 2004, kl. 17:11:47 (8007)

2004-05-12 17:11:47# 130. lþ. 113.1 fundur 974. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum) frv. 48/2004, PHB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 113. fundur, 130. lþ.

[17:11]

Pétur H. Blöndal (andsvar):

Frú forseti. Hv. þm. hefur haldið langa og djúpvitra ræðu í tvo tíma og tuttugu og fimm mínútur og fórst honum mjög vel. Nú er það þannig, frú forseti, með mína persónu að athygli vill dofna eftir 5--10 mínútur og rennur þá allt í eina móðu. Því miður veldur þessi annmarki minn því að ég náði ekki nema hluta af ræðu hv. þingmanns og vildi ég gjarnan að hann súmmeraði upp fyrir mig aðalatriðin ef hann gæti og kannski aðallega hvort hann er með málinu eða á móti. Ég náði því ekki heldur.

Samf. hefur verið að tala um flýtimeðferð, afbrigði, sértæk lög, lög á eitt fyrirtæki o.s.frv. en nú fyrir ekkert voðalega löngu síðan, ég ætla ekki að fara marga áratugi aftur í tímann, ég ætla að fara 100 daga, frú forseti, aftur í tímann en þá var hér í þessu þingi rætt mál sem almennt gengur undir nafninu SPRON-málið. Það var tekið í gegn á þrem dögum, kom fram 3. febrúar, 1. umr. var 4. febrúar, allt tekið í gegn með miklum afbrigðum, 2. umr. var 5. febrúar og 3. sömuleiðis, málið gert að lögum, allt tekið með miklum afbrigðum. Því frv. var stefnt gegn einu fyrirtæki, einum samningi og kom í veg fyrir að sjóður upp á sex þús. millj. til menningar- og líknarmála myndaðist en beindist gegn eitt þúsund litlum hluthöfum, stofnfjáreigendum í SPRON. Þá var Samf. eindregið með slíkri lagasetningu. Núna, þegar um er að ræða reyndar frv. sem sagt er að beinist að einhverju leyti gegn einu stóru fyrirtæki, einum auðhring sem er miklu ríkari en allir þessir stofnfjáreigendur, er Samf. allt í einu á móti. Hvernig stendur á þessum umsnúningi?