Útvarpslög og samkeppnislög

Miðvikudaginn 12. maí 2004, kl. 17:16:10 (8010)

2004-05-12 17:16:10# 130. lþ. 113.1 fundur 974. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum) frv. 48/2004, MÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 113. fundur, 130. lþ.

[17:16]

Mörður Árnason (andsvar):

Forseti. Það mál lá ákaflega ljóst fyrir. Það var enginn vafi í hugum manna um hvað það mál snerist. Það hafði verið reifað hér lengi vegna þess að hv. þm. og félagar hans höfðu verið að berjast í því máli, að reyna að breyta eðli þess fjár sem um var að ræða úr stofnfé í hlutafé og reyna að virkja löngun manna í peninga. Það var spurning um nokkrar milljónir í flestum tilvikum, (Gripið fram í.) jeppa, afborgun af húsi, sér í hag, bankanum í hag, stórgróðafyrirtækjum og auðhringnum í hag. Fyrst og fremst verður náttúrlega hv. þm. Pétur H. Blöndal að eiga um þetta við foringja sinn Davíð Oddsson sem hann gagnrýnir nú mjög ótæpilega.

Ég segi það enn, ég þurfti að bíta á jaxlinn til að gera þetta vegna þess að það lá mjög nærri í þessu efni. Ég tel að málið hafi verið þannig vaxið að þetta hafi þurft að gera og það hafi verið rétt að gera það. Það á ekki að hika við að taka slíkar ákvarðanir þegar öll rök hníga til þess.

Hins vegar verða menn auðvitað að geta tekið afleiðingunum af því þegar þeir gera svona. Það verður að vera byggt á rökum og á grundvelli. Það á ekki við um þetta mál sem við tölum um núna.

Til að svara fyrri spurningu hv. þingmanns um hvað ræða mín hefði í raun og veru sagt ætla ég að gefa honum lítinn útdrátt úr ræðunni sem mér heyrðist hann vera að biðja um. Þegar ég var ungur kom út ljóðabók eftir ljóðskáld og blaðamann sem þá var, og hét sá Ari Jósefsson. Ég get svarað Pétri því um afstöðuna sem fram kom í ræðu minni að henni er best lýst með titli þeirrar ljóðabókar. Hún hét Nei.