Útvarpslög og samkeppnislög

Miðvikudaginn 12. maí 2004, kl. 17:24:30 (8014)

2004-05-12 17:24:30# 130. lþ. 113.1 fundur 974. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum) frv. 48/2004, EKH
[prenta uppsett í dálka] 113. fundur, 130. lþ.

[17:24]

Einar Karl Haraldsson:

Hæstv. forseti. Ég kveð mér hljóðs til að ræða það frv. sem hér liggur fyrir um breytingar á útvarpslögum og samkeppnislögum og nefndarálit frá allshn. og þær brtt. sem allshn. hefur gert við frv.

Ég vil minna á það í upphafi að þetta er ekki eina málið sem er til umræðu hér í dag því að í áliti minni hluta allshn. er einnig tillaga um að þessu breytingafrumvarpi við útvarpslög og samkeppnislög verði vísað frá með rökstuddri dagskrá. Sú tillaga er einnig hér til umræðu svo því sé haldið til haga.

Ég hyggst ræða lítillega nokkur atriði sem tengjast a-lið í brtt. allshn., þ.e. um þann 1. lið sem á að koma eftir 3. mgr. útvarpslaga, 1. mgr., ræða sérstaklega um hana, og síðan um útvarpsréttarnefnd og þá nýju skipan sem lögð er til varðandi hana. Í þriðja lagi langar mig til að ræða nokkuð um stöðu mála í fjölmiðlum á Íslandi í dag og reynslu mína af því að hafa komið nálægt þeim málum.

Fyrst, hæstv. forseti, langar mig að taka samlíkingu sem mér finnst ekki út í hött. Þótt ólíku sé þar saman að jafna er eitthvað kunnuglegt við aðferðafræðina í báðum tilvikum.

Úr Íraksstríðinu þekkjum við hugtakið um hinar staðföstu þjóðir sem fylgdu Bush og Blair í blindni út í það forað án sjálfstæðrar skoðunar á forsendum og tilefnum þess stríðs. Við þekkjum líka að þarna var um að ræða ólögmætt stríð sem hafði ekki lögmæti alþjóðasamfélagsins eða stuðning Sameinuðu þjóðanna og það var farið í það á fölskum forsendum. Gereyðingarvopnin sem voru ein af ástæðunum fyrir innrásinni hafa ekki fundist og ekki hefur tekist að sanna að Saddam Hussein, sá grimmi einræðisherra, hafi verið sú bráðaógn við heimsfriðinn sem látið var að liggja eða eins stórvirkur í skipulagi og samstarfi um alþjóðleg hryðjuverk eins og fullyrt var. Sannleikurinn er miklu nær því að harðstjórinn hafi verið að veslast upp á leikfanga- og vopnaskranhaug sínum og Írakar hefðu sjálfir losað sig við hann innan tíðar án þess að hægt sé að fullyrða hvað það hefði tekið langan tíma. Markmið stríðsins um að koma á lýðræði í Írak er fjarlægt, afar fjarlægt. Framkvæmdin á hernáminu er hneisa fyrir vestrænar lýðræðishugmyndir og mannréttindi.

Hér höfum við verið að fjalla um frv. til laga sem nánast samanlagður lögfræðingaskari landsins sem að hefur verið spurður er sammála um að hafi hæpið lögmæti. Það sé tæpt, ef ekki mjög tæpt, að frv. og lögin ef það verður að lögum standist stjórnarskrá og Evrópureglur. Þau eru líka stríðsyfirlýsing gagnvart einni fjölmiðlasamsteypu, eru svokölluð mónísk lög, beinast að einu fyrirtæki, einni samsteypu og því fólki sem hjá henni vinnur. Ekki hefur heldur tekist að sanna, hvorki með áliti allshn. né í þeim litlu umræðum sem hér hafa orðið af hálfu stjórnarliða, sem nánast eru ekki fyrirfinnanlegar enn þá, að samsteypa Norðurljósa sé bráð ógn gegn pólitískri og menningarlegri fjölbreytni eða samkeppni.

Þvert á móti er það þannig í dag eins og nefnd á vegum menntmrh., fjölmiðlanefndin svokallaða, viðurkennir að fjölbreytni er tiltölulega mikil á íslenskum fjölmiðlamarkaði og samkeppnin er hörð og mikil þó að ekki séu margir aðilar á markaðnum.

Það er óvíst líka hvort markmiðið með lögunum sem í sjálfu sér er jákvætt, fjölbreytni á fjölmiðlamarkaði, náist með þessum lögum. Margir telja eins víst að lögin hafi þveröfug áhrif þegar fram í sækir miðað við markmiðið. Það er eins víst að markaðurinn sjálfur hefði tryggt dreift eignarhald betur í nánustu framtíð en lögin ef markaðurinn hefði fengið að vera í friði fyrir frjálshyggjupostulunum sjálfum og valdstjórninni sem við búum við í þessu landi um þessar mundir.

[17:30]

Hinar staðföstu þjóðir í Írak halda áfram að fylgja Bush og Blair í blindni án sjálfstæðrar skoðunar á Íraksmálinu. Eins og við vitum hefur það ekki fengist skoðað hér á Íslandi frekar en annað hver tildrögin urðu til þess að forsrh. og utanrrh. bundu okkur sem þjóð til stuðnings við þetta stríð. Staðföstu þjóðirnar halda sem sagt enn þá fast við stuðning sinn nema Spánverjar. Þó sjáum við að það eru komnir brestir í samstöðu staðfastra þjóða sem við hugsanlega eigum eftir að sjá meira til á næstunni.

Hinir staðföstu nefndarmenn í allshn. halda áfram að hlýða forsrh. og utanrrh. í blindni án nokkurrar sjálfstæðrar viðleitni þingnefndarinnar eða þingmeirihlutans til að meta fjölmiðlamarkaðinn eða áhrifin af lögunum sem ætlunin er að setja. Alveg eins og í Írakstilfellinu og með hinar staðföstu þjóðir er einn hv. þm. fallinn frá, hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson. Efasemdirnar læðast að fleira fólki, bæði meðal hinna staðföstu þjóða eins og ég sagði áðan og líka hinna staðföstu þingmanna í allshn. og stjórnarmeirihlutanum. Við vitum að nánast liggur við uppreisn innan Sjálfstfl. og meðal almennra stuðningsmanna hans vegna þessa máls. Sú andstaða nær alveg inn í kirkjueigendur í Sjálfstfl., til fólks sem áratugum saman hefur bundið trúnað sinn við Sjálfstfl., stutt hann með ráðum og dáð, fjármunum og starfi. Auðvitað finna forustumenn flokksins fyrir þessari andúð á framkomu hans, á valdníðslunni, á hrossalækningunum sem hann stendur fyrir, og fá að finna það á baki sínu. Stuðningur við bæði forsrh. og flokkinn minnkar í skoðanakönnunum.

Það er hins vegar helsta einkenni Sjálfstfl. og Framsfl. að raddirnar innan þeirra flokka eru þagnaðar. Hefði ekki verið eðlilegt og skynsamlegt af forráðamönnum Sjálfstfl. sem finna fyrir þessu gríðarlega andófi innan síns flokks gagnvart því lagafrumvarpi sem verið er að reyna að þrýsta gegnum Alþingi á þessum dögum að heyra í flokksfólkinu, halda fundi í miðstjórn, halda fundi í flokksfélögunum, mæta sínum eigin stuðningsmönnum og ræða við þá, gera smáhlé á verkunum hér og ræða við sitt fólk? Nei, umræður tíðkast ekki lengur innan þessara flokka. Maður sér trúnaðarmenn flokksins kvarta opinberlega í blöðum yfir því sama. Það virðast því vera örlög þessara flokksmanna sem hafa bundið trúnað sinn við Framsfl. og Sjálfstfl. um þessar mundir að bíða tilskipana að ofan. Þeim er síðan ætlað að fylgja þeim í blindni eins og hinum staðföstu þingmönnum og ungherjum Sjálfstfl. í allshn. þingsins.

Menn hafa nokkuð rætt um það hver kunni að vera ástæðan fyrir þögn stjórnarþingmanna hér í salnum. Hugsanlega eru menn að gera því skóna að okkur þrjóti örendið í þessum ræðustól, stjórnarandstæðinga, og höfum ekki neitt um þetta frv. að tala, hugsanlega bíða þeir eftir því að við tölum okkur dauða, eins og sagt er. Önnur ástæða hefur líka verið nefnd sem mér finnst miklu sennilegri. Ýmsir ráðherrar og þingmenn hafa talað mjög óvarlega í þessum málum, í hitaumræðum hér á Alþingi. Ég mun víkja að því síðar í ræðu minni. Sú ástæða kann að vera fyrir þessari þögn að menn vita að þessi mál munu koma fyrir dómstóla, hugsanlega hér heima og örugglega í Evrópu. Eins og fram hefur komið hafa forráðamenn Norðurljósa þegar ákveðið að vísa málinu til Eftirlitsstofnunar EFTA. Þá kann að vera að stjórnarþingmönnum þyki ráðlegt að hafa ekkert á prenti og í þingtíðindum um þær ritskoðunartilhneigingar eða önnur rök sem hægt væri að nota gegn stjórnarmeirihlutanum og lögmæti laganna við dómsmeðferð.

Hæstv. forseti. Það er engum blöðum um það að fletta að þetta eru bannlög sem verið er að þrýsta í gegnum þingið. Þetta eru lög um boð og bönn. Það er sérkennilegt að það skuli vera örlög þeirra þingmanna sem rétt eru orðnir ársgamlir á þingi og voru kosnir hingað sem sérstakir boðberar frjálshyggjunnar og studdir, eins og fram kom hjá hv. þm. Merði Árnasyni, mjög drengilega af Heimdellingum og Frjálshyggjufélaginu og sækja í rauninni sitt bakland þangað, að standa fyrir frv. sem fjallar fyrst og fremst um boð og bönn.

Eftir að frv. forsrh. hefur verið breytt er það nú á þann veg að á eftir 3. mgr. útvarpslaga eiga að koma fjórar nýjar málsgreinar og sú fyrsta, a-liður greinarinnar, er banngreinin. Þar kemur orðið ,,óheimilt`` fyrir fimm sinnum. Fimm sinnum í frv. forsrh. um breytingu á útvarps- og samkeppnislögum og jafnoft, fimm sinnum, í a-liðnum eftir breytingar sem allshn. skrifaði upp á. Það er ekki neinum blöðum um það að fletta að þetta er lagafrv. um boð og bönn. Við skulum aðeins fara yfir það hvað er bannað samkvæmt þessu frv. ef það verður að lögum.

Fyrirtæki sem hefur að meginmarkmiði rekstur sem er óskyldur útvarpsrekstri er óheimilt að eiga ljósvakamiðla. Hér kemur orðið óheimilt fyrir í fyrsta skiptið. Þetta er fyrsta bannið.

Fyrirtæki sem er að meira en 5% í eigu fyrirtækis eða samstæðu í markaðsráðandi stöðu á einhverju sviði viðskipta er óheimilt að eiga í ljósvakamiðli nema ársvelta þess sé undir tveimur milljörðum. Þarna fáum við orðið óheimilt í annað sinn.

Í þriðja lagi er fyrirtæki sem annað fyrirtæki á meira en fjórðungseignarhlut í óheimilt að eiga í ljósvakamiðli. Þarna kemur orðið óheimilt fyrir í þriðja sinn í þessum a-lið.

Í fjórða lagi er fyrirtæki í fyrirtækjasamstæðu sem á yfir fjórðungseignarhlut í fyrirtækinu eða önnur fyrirtæki í samstæðunni eiga yfir fjórðung í því óheimilt að eiga í ljósvakamiðlum. Í fjórða sinn er hér komið orðið óheimilt. Fjórða bannið.

Fimmta bannið. Fyrirtæki sem á hlut í dagblaði eða er útgefandi dagblaðs er óheimilt að eiga hlut í ljósvakamiðli.

Hér hefur verið látið að því liggja af hálfu hv. allshn. og hv. þm. Bjarna Benediktssonar, formanns nefndarinnar, sem mælti fyrir nefndarálitinu hér á Alþingi, að um væri að ræða veigamiklar breytingar frá frv. forsrh. og að tillit hefði verið tekið til athugasemda lögfræðinga og ýmissa annarra umsagnaraðila sem kallaðir voru í mikilli skyndingu eins og menn vita á fund allshn. og fengu lítinn sem engan tíma til að koma málum sínum á framfæri. Ég fullyrði hér að breytingarnar á þessum bannákvæðum eru óverulegar. Bönnin og boðin eru veruleg eftir sem áður. Þau eru á þann veg að þau ganga lengra en nauðsyn krefur. Það hefur ekki verið sannað eða rökstutt af hálfu þingmeirihlutans hér eða allshn. að ekki hefði verið hægt að ná markmiðum laganna með öðrum og vægari aðgerðum, eins og í rauninni er skylt miðað við meðalhófsreglu og alla leiðsögn sem við getum fengið í þessum málum, t.d. úr Evrópusamfélaginu.

Fullyrt hefur verið að breytingarnar sem gerðar voru í meðförum allshn. væru fyrst og fremst sniðnar að hagsmunum Skjás 1 og Íslenska útvarpsfélagsins. Ég er ekki kunnugur hvernig málum er háttað þar á bæ en kannski eru refirnir þannig skornir vegna þess að það er alls ekki óheimilt, samkvæmt frv. eins og það liggur fyrir, að safna sjónvarpsstöðvum eða sjónvarpsleyfum á eina hönd. Ekkert bannar það. Kannski eru refirnir skornir til þess að eigendur Skjás 1 sem lengi hafa sóst eftir eignaraðild eða kaupum á Stöð 2 komist yfir þá sjónvarpsstöð. Um það verður ekkert fullyrt, en það er a.m.k. ekki sannað af hálfu allshn. og meiri hlutans hér og ekki hafa verið færð rök fyrir því að frv. geti ekki eins og margir halda fram gengið þvert gegn markmiðum sínum, þ.e. stuðlað að fábreytni í fjölmiðlaumhverfinu frekar en fjölbreytni.

[17:45]

Fyrir utan það að bannákvæðin eru enn þá mjög íþyngjandi og veruleg, stórtæk, regluleg hrossalækning, eru enn líkur á því að frv. brjóti í bága við EES-reglur um staðfesturétt, þ.e. að fyrirtæki á EES-svæðinu geti haslað sér völl hér í fjölmiðlarekstri, um þjónustufrelsi og um frjálst flæði fjármagns. Eins og ég sagði áðan er ekki líklegt að gengið sé nægilega langt til þess að meðalhófsreglu stjórnsýslulaga sé gætt og að ekki sé beitt meiri takmörkunum en þörf krefur og nauðsyn kallar á.

Í EES-samningunum er nefnilega að finna ákvæði sem segir ,,að setja megi lög gegn öðrum ákvæðum samningsins sem grundvallast á sjónarmiðum um allsherjarreglu, almannaöryggi eða almannaheill``. Lögin verða hins vegar að ná eins skammt og mögulegt er til að ná settu markmiði. Þetta frv. rýmkar ekki takmarkanir á fjárfestingum í fjölmiðlum eins og ég sagði og fyrirtæki á EES-svæðinu eru hindruð í að stofna fjölmiðlafyrirtæki hér.

Eins og hv. þm. Mörður Árnason nefndi í sinni yfirgripsmiklu ræðu áðan kemur fram í Fréttablaðinu í dag í viðtali við Karin Karlekar frá Frelsisstofnuninni í Bandaríkjunum, eða Freedom House, að verði þetta frv. að lögum muni Ísland ekki lengur vera í efsta sæti hvað fjölmiðlafrelsi varðar ásamt frændum okkar í Skandinavíu. Við höfðum þann glæsilega sess áður en þetta valdboð kom að ofan, frá þeim ráðherra sem nefndur hefur verið stjórnandi þingsins.

Það er fróðlegt að kynna sér viðhorf Karinar Karlekar frá Freedom House. Hún segir nefnilega að það sé vandratað, meðalhófið. Of mikil samþjöppun er að sjálfsögðu ákveðin ógn til lengri tíma litið, eins og sagt er í áliti allshn. Of miklar takmarkanir á eignarhaldi geta líka haft neikvæð áhrif á frelsi fjölmiðla og rétt fólks til að eiga kost á fjölbreyttu flæði upplýsinga. Þessi atriði verður að hafa í huga og bent er réttilega á það í athugasemdum hennar.

Hv. allshn. heldur því fram í áliti sínu að frv. sem hér um ræðir sé reist á almennum viðurkenndum viðhorfum um mikilvægi fjölmiðla fyrir skoðana- og tjáningarfrelsi í nútímalýðræðisþjóðfélagi. Þetta held ég að sé víðs fjarri vegna þess hvernig frv. er lagað. Það hefur komið fram þvert ofan í það sem haldið var fram í fjölmiðlanefnd menntmrh. að engar þjóðréttarlegar skyldur hvíla á íslensku þjóðinni og Alþingi til þess að setja takmarkandi reglur um eignarhald. Það er fásinna. Hins vegar er sjálfsagt og eðlilegt að hér séu lög um útvarps- og sjónvarpssendingar eins og hér eru, bæði um Ríkisútvarp og sérstök útvarpslög. Þetta á náttúrlega sérstaklega við þegar um er að ræða takmarkað tíðnisvið til sendinga í ljósvakanum.

Frumvarpshöfundar vitna til ráðlegginga og tilmæla Evrópuráðsins frá 1999. Það er mjög sérkennilegt í áliti fjölmiðlanefndarinnar sem frv. er sagt byggt á að eingöngu er fjallað um þessa ályktun. Eins og fram hefur komið, bæði hjá fræðimönnum og öðrum sem fjallað hafa um málið, hefur Evrópuráðið fjallað um þessi mál, fjölmiðlamálin í Evrópu, reglulega á fundum sínum síðustu 20 árin. Við þingmenn höfum fengið safn af tilmælum og ályktunum Evrópuráðsins um þetta efni og þar er t.d. ályktun frá 1991 um útvarpssendingar þar sem fjallað er fyrst og fremst um almannaútvarp og um ríkisútvarp. Það er mjög eðlilegt því að á þeim tíma hafði Sovétlýðveldið byrjað að liðast í sundur og frelsisstraumar voru um alla Austur-Evrópu. Menn stóðu þar frammi fyrir miklum vanda um hvernig ætti að hafa útvarps- og sjónvarpsumhverfið á hinum nýju tímum. Evrópuráðið fjallar um það í ályktunum sínum að safna saman reynslu annarra þjóða og reyna að leiðbeina Austur-Evrópuríkjunum um það.

Árið 1994 er gerð mjög merk ályktun um gagnsæi fjölmiðla. Það eru tilmæli sem Samf. hefur sérstaklega skoðað í stefnumótun sinni og telur afar gagnlega. Þar er lagt til og mönnum bent á að setja í lög mjög ítarlegar reglur um það hvernig menn eigi að greina frá því hverjir þeir eru á fjölmiðlamarkaði, þ.e. ekki bara um hverjir eigi fjölmiðlana, heldur hverjir stjórna þeim, hvernig breytingar verða á stjórnarháttum, að það sé ljóst hver gefur fjölmiðilinn út, hverjir móta ritstjórnarstefnu hans, helst að ritstjórnarstefnan sé skráð og útgefin og öllum ljós, hvaða menn eru áhrifamenn á ritstjórn blaðsins, hafa áhrif á ritstjórnarstefnu og segja blaðamönnum fyrir verkum. Allar þessar ábendingar eru þarfar og afar mikilvægt að þetta liggi ljóst fyrir svo að almenningur hafi einhver tök á því að taka afstöðu til fjölmiðilsins og geti svo að segja lesið eða horft á hann með réttum gleraugum, einnig til þess að hægt sé að snúa sér til réttra aðila á fjölmiðlunum og gera þá ábyrga fyrir misbeitingu þeirra, bæði að lögum og í samskiptum við almenning. Í því fjölmiðlafrumvarpi sem hér liggur fyrir, þ.e. frv. um breytingu á útvarpslögum, er ekkert um gagnsæi fjölmiðlanna hér, það er ekkert fjallað um það mikilvæga atriði í umhverfi fjölmiðla að við höfum einmitt staðið frammi fyrir slíku vandamáli hér á Íslandi. Þegar Fréttablaðið fór af stað í útgáfu Fréttar ehf. eftir að fyrsta rekstrarfélagið hafði orðið gjaldþrota lá ekki fyrir hverjir væru þar eigendur. Það stóð í þófi heilan vetur að fá fram hverjir ættu það blað. Útgefandi blaðsins varði afstöðu sína í fjölmiðlum út og suður heilan vetur. Það var gjörsamlega óverjandi afstaða og það er afar brýnt að búa svo um hnúta að svona lagað geti ekki endurtekið sig.

Árið 1996 eru önnur mjög merk tilmæli gerð, um sjálfstæði almannaútvarps. Við búum enn þá við það hér heima að Ríkisútvarpið er undir flokkspólitískri stjórn þar sem teknar eru ákvarðanir um ráðningar, dagskrárstefnu og þess háttar. Það er ekki hægt að tala um að Ríkisútvarpið sé fullkomlega sjálfstætt eða nægilega sjálfstæður almannamiðill. Í þessum tilmælum er að finna margvíslegar ábendingar um það hvernig hægt er að koma stjórn almannaútvarpsins þannig fyrir að hún sé bæði trúverðug, endurspegli almannahagsmuni og sé fulltrúi þeirra sem hlusta og horfa á sjónvarp og útvarp.

Árið 1999 er svo þessi Evrópuráðsályktun um fjölbreytni fjölmiðla sem ég ætla að ræða aðeins síðar.

Það eru fleiri ályktanir. 2001 koma tilmæli frá Evrópuráðinu um frelsi til tjáningar og aðgengis að upplýsingum í evrópskum fjölmiðlum. Þá fer nú skörin að færast upp í bekkinn því þar er í rauninni komið að kjarna málsins. Það sem skiptir máli varðandi fjölbreytni í fjölmiðlum er auðvitað að það sé tjáningarfrelsi í fjölmiðlunum, að ritstjórnirnar séu sjálfstæðar, séu ekki undir óeðlilegum þrýstingi frá viðskiptaaðilum, eigendum eða pólitískum aðilum. Það er líka réttur almennings að hafa aðgang að trúverðugum upplýsingum í fjölmiðlunum. Þetta er kjarni málsins. Þetta er það viðmið sem við hljótum að hafa hugfast í öllum okkar störfum hér á Alþingi og þegar við ræðum um fjölmiðlamál. Það eru í rauninni ekki eigendurnir. Það er ekki pólitíkin. Það er frelsi til tjáningarinnar og rétturinn til aðgengis að upplýsingum sem skiptir öllu máli í þessu viðfangi.

Árið 2003 er gerð ályktun um stafrænar útvarpssendingar í ljósi lýðræðisviðhorfa og félagslegra viðhorfa. Hvar sér maður endurspeglun af þessari umræðu í frv. til breytinga á útvarpslögum og samkeppnislögum sem hér liggur fyrir eða í umfjöllun allshn.? Hvergi.

[18:00]

Það er sem sagt látið eins og framtíðin sé ekki til. Það er látið eins og ekkert sé að gerast í tækniþróun á útvarps- og sjónvarpsmarkaðnum. Það er alveg augljóst að það er engin tilraun gerð til að hugsa um nánustu framtíð, reyna að setja ramma utan um þær tækninýjungar sem fram undan eru og nánast liggja fyrir. Spurningin er bara hvernig þeim verður hrint í framkvæmd. Um þetta eru Evrópuríkin að fást. Á þetta hefur margoft verið bent hér. Einn mesti brandarinn í umfjöllun stjórnarliða á þessum málum er hinn nývakti áhugi þeirra á tilmælum og viðhorfum Evrópusambandsins í útvarpsmálum og fjölmiðlamálum og lesháttur þeirra á þessum ályktunum og tilmælum Evrópuráðsins þar sem þeir virðast eingöngu hafa staðnæmst við ályktunina frá 1999.

Árið 2004, hvað eru menn að gera í Evrópuráðinu í ár? Þeir eru að samþykkja tilmæli um frelsi til stjórnmálaumræðu í fjölmiðlum. Þar erum við þá kannski komin að því hvar hundurinn liggur grafinn í þessu öllu saman. Eins og Mannréttindadómstóll Evrópu hefur sagt í einni af niðurstöðum sínum eiga fjölmiðlar og blaðamenn að vera varðhundar almennings. Í dómum Mannréttindadómstóls Evrópu er lögð sérstök áhersla á pólitíska fjölhyggju. Almenningur á að hafa aðgang að öllum skoðunum og sjónarmiðum sem uppi eru á sviði stjórnmála. Hann þarf að hafa frelsi til þess að koma stjórnmálaumræðunni á framfæri, inn í fjölmiðlana og koma þeim áleiðis til stjórnmálamannanna.

Það hefur verið fróðlegt að fylgjast með því hér, eins og ég hef lofað að koma að síðar, að ráðherrar og þingmenn hafa kveinkað sér undan gagnrýni og skrifum fjölmiðla að undanförnu. Það er einmitt til vitnis um það að þeim líkar ekki það frelsi sem er í stjórnmálaumræðu og umfjöllun dagblaða og fjölmiðla um stjórnmálin í dag. Þá er spurningin hvort komi á undan, eggið eða hænan. Verður framferði stjórnmálamannanna tilefni til skrifanna í fjölmiðlunum eða er það einhver sérstakur skepnuskapur blaðamanna eða eigenda fjölmiðla sem þeir vinna hjá sem ræður harðri gagnrýni og óvæginni umfjöllun í fjölmiðlum um ýmislegt það sem er að gerast á vettvangi stjórnmálanna hér í dag?

Ég held að það geti allt eins verið að stjórnmálamenn sem fara út fyrir valdmörk sín, stjórnmálamenn sem beita valdníðslu og hrossalækningum, eigi í rauninni ekkert betra skilið í fjölmiðlum en harða og óvægna gagnrýni og umræðu. Það er einmitt þetta sem Evrópuráðið vill að sé verndað og að menn hafi frelsi til að koma á framfæri.

Mig langaði aðeins til að víkja þá að þeim reglum um eignarhald sem hér eru lagðar til grundvallar í banngrein frv. um breytingu á útvarpslögunum. Þær eru mjög fróðlegar. Þær eru á bls. 70--71 í áliti útvarpsnefndar. Reglurnar stafa ekki af neinum þjóðréttarlegum skuldbindingum. ,,Lagt er fyrir aðildarríkin að huga að því að setja í lög reglur til að hamla gegn samþjöppun sem gæti stefnt markmiðinu um fjölbreytni í fjölmiðlun í hættu, hvort heldur á landsvísu eða svæðisbundið.`` Evrópuráðið mælir með því að ríkið skoði möguleika á því að afmarkaðir verði í lögum við úthlutun leyfa eða aðra lagaframkvæmd þröskuldar til að takmarka áhrif sem eitt fyrirtæki eða fyrirtækjasamsteypa getur haft í einni eða fleiri greinum fjölmiðlunar.

Auðvitað er hægt að gera þetta með ýmsum hætti. Í dæmaskyni er nefnd leyfileg hámarksmarkaðshlutdeild þar sem mælikvarði á markaðshlutdeild er annaðhvort fjárhagsleg velta eða útbreiðsla, þ.e. lestur, áhorf eða hlustun. Þeir segja að einnig ,,megi huga að því að setja takmörk á hlutafjáreign einstakra aðila í fjölmiðlafyrirtækjum á frjálsum markaði``. Það er varla hægt að segja að menn hafi bara hugað að því á hv. Alþingi því að í banngreinunum eru ákvæði beinlínis þvers og kruss sem setja takmörk á hlutafjáreign einstakra aðila.

Eins og líka hefur komið fram frá ýmsum aðilum þarf að hafa í huga stærð fjölmiðlamarkaðarins í viðkomandi landi og fjárhagslegt bolmagn hans. Það kostar marga milljarða að reka almennilega sjónvarpsstöð. Það er mjög mikilvægt að hún hafi fjárhagslegt bolmagn og þolinmótt fjármagn til þess að byggja sig upp og helst þarf hún að hafa þannig starfsskilyrði, þannig fjármögnun, að hún geti lagt í metnaðarfulla eigin dagskrárgerð sem síðan er söluvara hennar á markaði.

Það eru ýmsar leiðir aðrar nefndar varðandi það hvernig hægt er að takmarka eignaraðild og koma í veg fyrir samþjöppun á markaði. Það er t.d. nefnt að fyrirtækjum sem náð hafa leyfilegri hámarksstærð á tilteknum markaði verði ekki úthlutað frekari leyfum til að senda út á þeim markaði. Auðvitað er bent á það að við leyfisveitingar til einkaaðila geti yfirvöld haft sérstaklega í huga að auka fjölbreytni í fjölmiðlun.

Sú fullyrðing að bannmálsgrein frv. byggi á þessum tilmælum Evrópuráðsins á sér vægast sagt litla stoð. Það er athyglisvert að í sömu tilmælum er fjallað um gríðarlega mörg önnur atriði sem skipta máli. Það er fjallað um tækninýjungar og hvernig aðildarríki styðji við og styrki þróun nýjunga í fjölmiðlun og hvernig nýjungar sem koma inn, eins og stafrænt sjónvarp, verða að hlíta ramma og stjórnun til þess að tryggja fjölmiðlafjölbreytni. Eins og menn hafa nefnt hér eru öll hin nýju svið sem fjarskiptakerfin og fjarskiptafyrirtækin, símafyrirtækin, geta farið inn á í nýrri samskipta- og fjarskiptatækni. Sérstök áhersla er lögð á þetta atriði til að tryggja framþróun stafræns sjónvarps.

Talað er um efni fjölmiðla og hvernig eigi að tryggja almenningi aðgang að dagskrárefni sem endurspegli mismunandi pólitísk og menningarleg sjónarmið um leið og gerðar eru ráðstafanir til að tryggja sjálfstæði ritstjórna, dagskrárstjórna og fjölmiðlafyrirtækja. Það er einmitt þetta atriði sem Samf. hefur staldrað við í stefnumótun sinni í þessum málum og kosið að sú leið yrði frekar farin, enda er hún meðal þeirra tilmæla sem felast í rauninni í sömu ályktun og ríkisstjórnin sækir sína visku til. Síðan er það spurningin hvernig ríkið styrkir framleiðslu útsendingar á fjölbreyttu dagskrárefni. Það er líka ein af stóru spurningunum sem Evrópuráðið veltir fyrir sér.

Síðan kemur að þessu sem ég hef nefnt áður, ábyrgð eigenda og/eða ritstjórna og dagskrárstjórna. Ekkert er um það fjallað í því frv. sem hér liggur fyrir. Þar er mælst til þess að ríkið hvetji fjölmiðlafyrirtæki til að styrkja sjálfstæði ritstjóra og blaða- eða fréttamanna í sínum röðum, m.a. með því að setja sér innri reglur þar um. Síðan er talað, eins og Evrópuráðið gerir jafnan, um Ríkisútvarpið. Eins og við vitum hefur hæstv. ríkisstjórn ekki tekist að koma sér saman um nokkurn hlut í sambandi við Ríkisútvarpið og það gengur hvorki né rekur að koma fjárhagslegum rekstri þess í viðunandi horf, né að ákveða hvernig framtíðarskipulag Ríkisútvarpsins eigi að vera. Hæstv. menntmrh. bregst ekki venjunni frá því sem aðrir menntamálaráðherrar hafa tekið upp, þ.e. að lofa því sífellt að slíkar tillögur um Ríkisútvarpið séu á næsta leiti. Eins og við vitum líður hvert missirið á fætur öðru án þess að ríkisstjórnin og ríkisstjórnarflokkarnir geti komið sér saman um nokkurn skapaðan hlut í þeim efnum.

Síðan er komið að því merkilega atriði sem er opinber fjárstuðningur við fjölmiðla. Hann kemur náttúrlega til greina líka til að tryggja og auka fjölbreytni. Ég er ekki að mælast til þess að ríkisstjórnin fari að styrkja Norðurljós sérstaklega en kannski þarf að koma að því að við verðum að vernda Morgunblaðið fyrir harðri samkeppni og tryggja að það geti komið sér upp nýrri prentsmiðju ef þar á bæ eru rekstrarerfiðleikar. Það væri mér a.m.k. mikið ánægjuefni sem gömlum Þjóðviljaritstjóra að fá tækifæri til þess að standa að því á Alþingi að styrkja útgáfu Morgunblaðsins sem ég les með mikilli ánægju á hverjum degi.

Eitt svið sem ekkert er tekið fyrir í frv. er rannsóknir. ,,Mælst er til þess að aðildarríki styðji við rannsóknir og þróun á sviði fjölmiðlunar og samþjöppunar, sérstaklega að því er varðar áhrif nýrrar fjarskiptatækni og -þjónustu á þessum sviðum.`` Hinn einkennilegi lestur á þessu hlaðborði ályktana Evrópuráðsins undrar mig. Það er virkilega hægt að sækja í sjóð Evrópuráðsins til þess að efna sér í skynsamlega umræðu til þess að reyna að átta sig á því hvaða atriði væri rétt að við tækjum til eftirbreytni hér á landi og hentuðu okkar aðstæðum. Eins og fram kemur þarna þarf að taka samræmt á miklu fleiri þáttum en gert er ráð fyrir í frv.

Hæstv. forseti. Þetta er viðamikið mál og kannski ekki alltaf auðvelt að fylgja fyrir fram skipulagðri uppsetningu ræðunnar. Ég vildi aðeins víkja að öðrum þætti þessa máls og hér er hann. Ég var að nefna það að ríkisstjórnin og allshn. hefðu lesið þessi tilmæli Evrópuráðsins með einhverjum sérstökum gleraugum sem aðeins komu auga á tilmælin um takmörkun á eignarhaldi. Það sem þá blasir við og maður getur lesið í þessum textum er að Evrópuráðið segir sjálft að í flestum aðildarríkjum þess sé verið að hverfa frá áherslu á takmörkun eignarhalds í fjölmiðlun. Af hverju eru menn að hverfa frá þeirri áherslu sem ríkisstjórnin hér vill taka upp? Það er eins og vant er að þegar við höfum ekki fylgst með í Evrópu, erum komin aftur úr öllum öðrum þjóðum, rjúkum við til og ætlum að fara að gera eitthvað en þá lenda menn í því að fara að setja lög og reglur hér sem menn eru búnir að fá þá reynslu af í öðrum löndum að gangi ekki upp. Ástæðan sem tilgreind er hjá Evrópuráðinu eða niðurstaða 40 ríkja sem fjalla um þetta og hafa víða yfirsýn í Evrópu fyrir því að menn eru að hverfa frá áherslu á takmörkun eignarhalds í fjölmiðlum er að það er svo auðvelt að fara í kringum það. Þá erum við komin að því sem skiptir máli en hættan er sú að þessi lög ríkisstjórnarinnar hafi lítil sem engin áhrif.

[18:15]

Það er hættan við lagasetningu af þessu tagi. Það eru tvær hættur, annars vegar að inngripið sem verið er að gera með boðum og bönnum hafi í för með sér það mikla skerðingu á rekstrarmöguleikum fjölmiðlafyrirtækja að þar verði um að ræða rekstrarstöðvun, gjaldþrot og vandræði í rekstri og hins vegar að farið verði í kringum lögin eins og í Evrópulöndunum. Hinir raunverulegu eignaraðilar finna þá leiðir með einhverjum hætti til að stjórna og ráða þessum fjölmiðlum áfram. Í hvoru tilfellinu sem er nær frv. ekki markmiði sínu sem er að tryggja fjölbreytni og lýðræðislega umræðu fyrir almenning í landinu.

Í áliti allshn. stendur að þar standi eftir sú ályktun meiri hlutans að ,,ætla verði löggjafanum eðlilegt svigrúm til þess að bregðast við þeirri vá sem almannaheill stafar af óeðlilegri samþjöppun eignarhalds á fjölmiðlamarkaði hér á landi``. Þá er spurningin: Hver er þessi vá? Hugsanlega vondir, óheppilegir eigendur. Ritstjóri Morgunblaðsins sagði einhvers staðar að sumir væru heppnir með eigendur og aðrir óheppnir. Sannleikurinn er sá að í sjónvarpsrekstrinum hér hafa menn lengst af verið mjög óheppnir með eigendur. Frumkvöðlarnir sem komu Stöð 2 af stað voru miklir bjartsýnis- og hugsjónamenn og eiga hrós skilið sem frumkvöðlar en þeir steyptu félaginu í miklar skuldir og við tók eignarhald sem var mjög brokkgengt þar sem skiptust á kaup og sölur og mikil átök innan hluthafahópsins. Fyrirtækið var meira og minna stjórnlaust löngum stundum og reksturinn kannski eftir því. Upp úr því náði Jón Ólafsson athafnamaður öllum tökum á félaginu og það er spurning hvort hann hafi í ljósi sögunnar verið heppilegur eigandi miðað við þá miklu rekstrarörðugleika sem upp komu í tíð hans.

Það er erfitt að átta sig á því hvað átt er við með vondum eigendum og góðum eigendum. Ég hef tilhneigingu til að skilgreina góðan eiganda þannig að hann sé tiltölulega afskiptalítill um ritstjórnarstefnu fjölmiðilsins en sjái hins vegar til þess að nægilegt fjármagn sé í rekstrinum og annist endurnýjun á tækjum, tólum og tækni þannig að fjölmiðillinn eigi greiða leið til almennings.

Hin skýringin er hugsanlega sú að um sé að ræða misnotkun á eignarhaldi. Það kann að felast ákveðin ógn í eignarhaldinu sjálfu, ógn um að því kunni að verða misbeitt. Við höfum hlýtt á það hér á hv. Alþingi að stjórnarherrarnir líta svo á að eigendur fjölmiðlasamsteypunnar Norðurljósa hafi misnotað fjölmiðlana sína, að blaðamenn séu í rauninni ekkert annað en viljalaus verkfæri í höndum eigenda og láti bjóða sér að þeir séu misnotaðir í þágu eigendanna til þess að ráðast á hæstv. ríkisstjórn, hæstvirta ráðherra og þar fram eftir götunum.

Við sáum þetta t.d. í Viðskiptablaðinu 5. maí þar sem forsrh. segir: ,,Ef einhver hefur velkst í vafa um það að fjölmiðlar kynnu að hafa verið misnotaðir í þágu eigenda, þá hafa allir fyrir framan sig einhver hrikalegustu dæmi um það sem við höfum séð, ekki bara á Íslandi, heldur í þessum heimshluta.`` --- Það er gott að menn eru sigldir. Ég hef dvalið langdvölum erlendis, bæði í Frakklandi og í Svíþjóð, og þar eru tiltölulega kurteisir fjölmiðlar en samt er harkalega tekið á stjórnmálamönnum og óvægin gagnrýni sem þar kemur fram oft og tíðum, ekki síst í sjónvarpi. Fari maður síðan í önnur lönd, eins og t.d. til Bretlands, er nú ekki verið að spara skotfærin. Ég fullyrði að íslenskir fjölmiðlar hafa aldrei komist í hálfkvisti við það sem bresku götublöðin leyfa sér í framkomu og gagnrýni, nánast við að hundelta opinberar persónur í Bretlandi. Þessi fullyrðing forsrh. getur varla talist mjög vísindaleg.

Menntmrh. og félmrh. hafa veifað hér DV í ræðustól og tekið, a.m.k. félmrh., grínsíðu og hæðnissíðu um forsrh. sem dæmi um að þarna sjái menn að setja þurfi lög. ,,Þetta verður að stöðva,`` sagði félmrh., en mér er sagt að það efnisatriði hafi verið strokað út úr þingtíðindum. Svo er sagt.

Fjmrh. Geir H. Haarde hefur sagt að Kim Il Sung opnan í DV hafi verið sjúkleg. Hann verður náttúrlega að standa fyrir ... (JÁ: Í hvaða merkingu?) Eflaust vantar orðskýringu á því en þessi skilgreining á húmor hefur oft verið tekin upp. Það eru þessi einkunnarorð á húmor að hann sé sjúkur, ,,sick humor``. Ég veit að hv. þingmaður kannast eflaust við það. Ef ég man rétt var það kímni sem þeir ástunduðu í Útvarpi Matthildi, Davíð Oddsson, núverandi forsrh., Hrafn Gunnlaugsson og Þórarinn Eldjárn. Við höfðum gríðarlega gaman af því á þeim árum sem við vorum að skríða til stúdentsprófs hér, ég norðan heiða en þeir sunnan þeirra.

Það sem þarna liggur fyrir er að verið er að gagnrýna af hálfu stjórnvalda efnistök, uppsetningu, framsetningu og innihald í fjölmiðlunum. Látið er að því liggja að það kunni að vera ein af ástæðunum fyrir nauðsyn þess að setja þessi lög sem hér er ætlunin að þrýsta í gegn. Þá spyr maður sig náttúrlega: Hvað er í gangi? Ég held að það sé lágmarksskilyrði til að grípa til slíkra aðgerða að fyrir liggi, ekki bara huglægt mat einstakra stjórnmálamanna sem hafa orðið fyrir gagnrýni, heldur rannsóknir, rökstutt álit frá fræðimönnum. Ég tók sérstaklega eftir því að Sigríður Árnadóttir, fréttastjóri Stöðvar 2, hafði frumkvæði að því að láta Háskólann á Akureyri meta frásagnir Stöðvar 2 af fjölmiðlafrumvarpinu sem hér er til umræðu, miðað við frásagnir Ríkisútvarpsins. Þetta finnst mér afskaplega lofsvert frumkvæði. Samkvæmt útvarpslögunum hvíla ríkar skyldur á Stöð 2, ríkar skyldur til að hafa lýðræðislega umræðu og jafnvægi í allri umfjöllun. Það varðar við missi útvarpsleyfis ef þeirri sjálfsögðu skyldu er ekki sinnt. Þess vegna leggur hún mikið undir, enda veit ég að þar er metnaður til að halda vel á málum. Allar aðfinnslur í þessa veru varðandi einstakar fréttir, einstakt efni fjölmiðlanna, verður að styðja með rökum, rannsóknum og athugun yfir lengri tíma.

Ég er enn að tala um eignarhaldið og bannákvæðin í frv. Áður en ég lýk því langar mig til að koma aðeins inn á tilurð Norðurljósa.

Málið er mér ekki alveg óskylt. Ég var fyrsti ritstjóri Fréttablaðsins en var horfinn af þeim vettvangi áður en fyrirtækið varð gjaldþrota. Þá kom mér það ekki á óvart að Baugsmenn hefðu fjárfest í Frétt ehf. Ég fagnaði því að nýr aðili væri kominn að Fréttablaðinu til að tryggja útgáfu þess. Ég fagnaði því líka þegar sami aðili bjargaði eftirhreytunum eða hirti eftirhreyturnar, hvort sem maður vill nú segja, bjargaði eða hirti upp. Það fer eftir því hvort maður hefur jákvæða eða neikvæða afstöðu til þeirra sem þar stóðu að málum. Ég fagnaði því að þessir fjölmiðlar lognuðust ekki út af, að sjálfsögðu. Ég var samt mjög undrandi þegar þessu fylgdu svo eignabreytingar, sala Jóns Ólafssonar á Stöð 2 og Norðurljósum þegar tilkynnt var að Baugur og aðilar honum skyldir hefðu tekið þar við taumunum. Það fannst mér vera einhvers konar gleypugangur og ég, eins og margir aðrir, undraðist þessa athöfn. Ég sá heldur ekki hvaða rök lægju fyrir því að reka saman dagblað og sjónvarpsstöð við þáverandi aðstæður. Kannski má finna fyrir því rök eftir því sem tækninni vindur fram. Miðað við þekkingu mína á þessum rekstri sá ég það ekki beinlínis. Þegar viðskiptahugmyndin var hins vegar loksins kynnt var maður kannski tilbúinn til að gefa hugmyndinni möguleika því að rökin fyrir uppbyggingu Norðurljósa voru sem sagt þau að til stæði að mynda öflugt fjölmiðla- og afþreyingarfyrirtæki sem hefði innan vébanda sinna, ekki bara sjónvarpsrásir, heldur líka dagblöð og hefði þar fyrir utan afþreyingarfyrirtæki eins og Skífuna og kvikmyndahús. Rökin fyrir því voru þau að einungis með þessum hætti væri hægt að mynda nógu sterkt og fjölbreytt fyrirtæki til að fara með á markað. Sannleikurinn er sá að gerðar hafa verið tilraunir og menn hafa haft áform um að fara með Stöð 2 á markað oftar en einu sinni en það hefur alltaf mistekist vegna þess að reksturinn var of einhæfur og fjárhagsgetan, stöðugleikinn ekki nógu mikill í umhverfinu.

Þannig var greinilega viðskiptahugmynd eigendanna að fyrirtækið væri skráningarhæft á markaði með þessum stoðum. Kosturinn við að fara á markað er sá að þá eru kvaðirnar á upplýsingagjöf gríðarlega miklar og möguleikar þeirra eigenda sem hafa tekið að sér að endurskipuleggja þetta fyrirtæki í einni heild og fjölmiðlafyrirtækið sem slíkt eru þá þeir, eftir að hafa endurskipulagt fyrirtækin með góðum árangri, grynnkað á skuldum og gert þau verðmætari en þau voru áður, að losa sig við þau verðmæti til fleiri fjölmiðla og finna út eignaraðild sína. Það er það sem ég átti við áðan um það að ef þessi áform hefðu fengið að vera í friði fyrir valdsherrunum hér hefði markaðurinn kannski séð um þetta sjálfur. Hefðu þá ekki frjálshyggjumennirnir, ungu drengirnir sem sátu í allshn. og véluðu þar um, án þess að þar væri um mikla sjálfstæða umfjöllun að ræða, fagnað því að geta sannað yfirburði markaðarins með slíkum hætti? Ég trúi því. Núna fá þeir ekki að upplifa hvers konar töfratæki markaðurinn getur verið ef allar áætlanir ganga eftir. Markaðurinn er tæki sem sjálfsagt er að nota og getur oft og tíðum komið góðu til leiðar.

[18:30]

Það sem gerst hefur hér með þessu frv. --- ég er enn að tala um bannákvæðin og vek athygli á því að ég hef alveg haldið mig við efni frv. í þessari ræðu. Ég er enn þá að tala um a-liðinn og eru þá fjórir liðir eftir í 1. gr. Ég á enn eftir að ræða hér talsvert um útvarpsréttarnefnd sem var annar liðurinn og síðan um reynslu mína af fjölmiðlum hér á landi á síðustu árum.

Sá gjörningur sem við erum að horfa upp á hér kemur í veg fyrir að fyrirtæki geti farið á markað. Það liggur alveg fyrir. Þeir sem segja að þetta sé ekki róttækt ákvæði fara villir vegar, þetta er ákvæði um að brjóta upp Norðurljós sem fjölmiðlasamsteypu. Þetta er ákvörðun um að Norðurljós verði bútuð í sundur. Þetta er ákvörðun um að koma í veg fyrir að viðskiptaáætlun sem að baki stofnunar þessa fyrirtækis liggur komist aldrei til framkvæmda. Ég held að atriði af þessu tagi hljóti að gera það að verkum að þetta frv. þoli ekki skoðun og meðferð hjá evrópskum dómstólum, hjá evrópskum eftirlitsstofnunum og ekki hjá Samkeppnisstofnun á Íslandi.

Áður en ég vík frá þessu efni og áður en ég kem að umræðunni um útvarpsréttarnefnd, sem er afskaplega skemmtileg og fróðleg umræða fyrir þá sem hafa áhuga á útvarpslögum og tæknilegri framkvæmd þeirra, langar mig aðeins til að tala um reynslu mína í þessum efnum.

Ég er sannfærður um að ef eitthvað er hættulegt frjálsri fjölmiðlun, sjálfstæði fréttamanna, eru það blankir fjölmiðlar. Blankheitin eru miklu hættulegri en ríkir einstaklingar, íslenskir auðjöfrar og þar fram eftir götunum. Þess vegna má kannski segja að frv. sem hér liggur fyrir miði að því að allir fjölmiðlar verði áfram blankir í landinu eins og þeir hafa verið fram að því að íslenskir auðmenn fóru að dæla inn peningum í Norðurljós. Þá erum við komin að því hvort það verði ekki til þess í framhaldinu að niðurstaðan af þessu brölti ríkisstjórnarinnar verði fábreyttari fjölmiðlun.

Fyrir um þremur árum var ég, hæstv. forseti, að vinna sem deildarstjóri í fyrirtæki hér í bæ og sá þar um almannatengsladeild. Þá komu að máli við okkur útgefendur DV sem þá voru Eyjólfur Sveinsson og Sveinn Eyjólfsson og viðruðu mjög merkilega hugmynd. Þeir vildu að við skoðuðum sjálfstætt það sama og þeir voru að skoða. Ég gerði í framhaldi af því úttekt á nýju fyrirbæri sem var að ryðja sér til rúms í borgum Evrópu og líka í Bandaríkjunum, svokölluðu ,,free paper``. Það voru blöð sem var deilt út til þeirra sem eru á hreyfingu í borgum, getur maður sagt. Þeim var deilt út á morgnana á lestarstöðvum, flugvöllum, umferðarmiðstöðvum, alls staðar þar sem mikill fjöldi fólks fór um. Menn gátu tekið sér eitt eintak og lesið það á leiðinni á áfangastað. Þetta voru blöð með stuttar fréttir til að lesa á leiðinni, blaða í gegnum. Þau nutu strax mikilla vinsælda, voru mikið lesin og urðu eftirlæti auglýsenda. Þau eru orðin útbreidd og er að finna mjög víða í borgum, bæði víða í Evrópu, Skandinavíu, Frakklandi, Hollandi, og sums staðar í Bandaríkjunum. Við skoðuðum þessi blöð og komumst að sömu niðurstöðu og þeir DV-feðgar, að það vantaði fólk sem væri ,,á leiðinni`` hér á Íslandi. Hér væru menn aldrei á leiðinni í gegnum einhverjar miðstöðvar í slíkum mæli að menn mundu hirða upp blað í það stórum stíl að auglýsendur vildu auglýsa í slíku blaði.

Þó kom upp sú hugmynd að láta blaðið liggja frammi í verslunarmiðstöðvum sem eru kannski slíkar miðstöðvar hér á landi. Reynslan af að láta liggja blöð þar frammi var samt ekki talin góð eða ekki talið líklegt að það hefði aðdráttarafl fyrir auglýsendur. Niðurstaða almannatengsladeildarinnar hjá mér og hjá þeim DV-feðgum var sú að svona blað sem væri gefið væri aðeins hægt að gefa út með því að dreifa því inn á hvert heimili. Það var byrjað að dreifa því inn á hvert heimili í Reykjavík og síðan smám saman út um landsbyggðina. Þetta hafði hvergi verið reynt í heiminum og sýndist vera óðs manns æði. Samt lögðu hinir vösku menn í þetta ævintýri og úr varð að ég samþykkti að ritstýra þessu blaði fyrstu sex mánuðina.

Ég var þó alls ekki á leið í mitt gamla ritstjórastarf. Eins og kannski hv. þm. sumir vita og muna erum við hér nokkrir samfylkingarþingmenn sem höfum allir haft þá ánægju að bera titilinn ritstjóri Þjóðviljans. Það voru skemmtilegir tímar ... (Gripið fram í: Skemmtilegt blað.) (Gripið fram í: Já, það var skemmtilegt blað.) Já, ég held að Þjóðviljinn hafi verið á köflum mjög hressilegt blað. Ég man t.d. að á tímabilinu 1974--1978 sem var undanfari kosningasigursins mikla 1978 var Þjóðviljinn hresst blað og íhaldsmenn um allt land kepptust við að fá sunnudagsblaðið okkar og lásu það ... (Gripið fram í: Hver var þá ritstjóri?) Þá voru Kjartan og Svavar ritstjórar, ég var fréttastjóri blaðsins. Það var öflugur hópur sem kom að Þjóðviljanum þá og öflugur hópur sem var þar á eftir líka, oft skemmtilegir sprettir og tök á Þjóðviljanum. En auðvitað var þetta blað undir pólitískri ráðstjórn. Þegar ég var að byrja mína ritstjóratíð áttum við setu í þingflokki Alþýðubandalagsins. Við vorum hluti af hinu pólitíska apparati flokksins. Síðan losnaði aðeins um þau tök en engu að síður höfðu þingmenn og ráðherrar mjög mikið að segja um allan fréttaflutning og ritstjórnarstefnu blaðsins. Þjóðviljinn þróaðist svo líka með öðrum fjölmiðlum. DV og Vísir breyttu um svip og auðvitað var í gangi þróun sem hélt svo áfram eftir að ég hvarf þaðan frá ritstjórn.

Ég kom sem sagt þarna inn í ritstjórn Fréttablaðsins eftir, hvað á ég að segja, 15 ára hlé í dagblaðamennsku. Við byrjuðum á að ráða vaskan hóp af bæði reyndu fólki og svo ungu og frísku fólki sem við töldum efnilegt. Þessi hópur fór af stað með Fréttablaðið og vann sér til húðar við að koma út blaði með ónýtri prentsmiðju eða lélegri prentsmiðju þar sem útgefendurnir stóðu ekki við áform um það fé sem átti að setja í reksturinn. Það varð að taka fé út úr veltunni í stofnkostnað blaðsins. Það olli gríðarlegum erfiðleikum í rekstrinum frá degi til dags og menn vissu aldrei eiginlega að kvöldi hvort blaðið kæmi út að morgni, hvort blaðberarnir fengju borgað eða hvort menn fengju laun um hver mánaðamót. Þegar upp var staðið eftir sex mánaða tímabilið hafði ritstjórinn ekki fengið laun í þrjá mánuði. Þannig var ástandið. Engu að síður tókst þessum vaska hópi sem var á Fréttablaðinu þá að forma blað í meginatriðum eftir þeirri hugmynd sem við ætluðum og sem hefur í meginatriðum sýnt sig að átti erindi. Síðan seig á ógæfuhliðina eftir því sem leið á veturinn þó að blaðinu væri gríðarlega vel tekið hjá almenningi. Það var vissulega ófullkomið en mæltist samt vel fyrir. Svo kom að um vorið stöðvaðist rekstur blaðsins og rekstrarfélagið varð gjaldþrota. Fjölmiðlasamsteypa þeirra DV-feðga, eins og þeir voru kallaðir eins og við þekkjum, hrundi og nýir eigendur tóku við báðum blöðunum. Þá hafði útgáfa þeirra beggja stöðvast um tíma og tugir blaðamanna og starfsmanna blaðanna stóðu atvinnulausir sem og starfsmenn í prentsmiðju.

[18:45]

Það er engum blöðum um það að fletta að þetta var hörmungarástand. Þess vegna skilur maður starfsfólkið vel. Hér hafa verið lesin upp bréf frá starfsfólki fjölmiðla, starfsfólki Stöðvar 2 sem hefur sent persónuleg bréf sem sýna okkur inn í þá kviku sem þar er undir. Þetta er allt saman fólk sem hefur haft yfir sér rekstrarstöðvun, yfirvofandi uppsagnir, hefur lent í hremmingum út af því að hafa lagt út á þá braut að vinna hjá blönkum fjölmiðlum og hefur séð fram á betri tíð, meiri stöðugleika, meira tekjuöryggi og spennandi verkefni, en sér nú aftur fram á það að hugsanlega sé verið að kippa fótunum undan þessu öllu saman. Ég hef mikla samúð með þessu fólki, ekki síst fyrrverandi samstarfsmönnum mínum á Fréttablaðinu sem margir vinna þar enn þá og hafa staðið sig frábærlega vel. Mér svíður það þegar verið er að bera þeim á brýn að þeir gangi erinda eigenda blaðsins.

Það sem kom mér mjög á óvart þegar ég settist í ritstjórastól á Fréttablaðinu var að viðhorfið hjá blaðamönnum, reynslan og þekkingin, hefur tekið stakkaskiptum. Þá er ég ekkert að segja að við hv. þm. Mörður Árnason höfum verið lélegir blaðamenn eða ekki kunnað til verka. Við vorum frábærir blaðamenn, góðir í íslensku og kunnum vel að beita penna þegar sá gállinn var á okkur. Það voru samt allt önnur viðhorf í gangi, miklu harðari, og mér fannst allt þetta fólk hafa lært að draga miklu meira mörkin milli blaðamennsku og umhverfisins. Menn virkilega stóðu, nánast allir sem einn, vörð um það að ekki væri hægt að draga stöðu þeirra og heiðarleika sem blaðamanna í efa. Það var forgangsmál þeirra. Eitt helsta einkenni margra þeirra blaðamanna sem ég kynntist þarna aftur eftir 15 ára hlé var að broddarnir voru út á þeim um leið og þeir héldu að með einhverjum hætti væri verið að reyna að hafa áhrif á þá, fá þá til að ganga erinda einhverra eða að sinna málum sem þeir töldu að væri ekki rétt mat að sinna. Það kom mér á óvart hvað þessi heimur var gjörólíkur þeim sem ég hafði farið frá fyrir 15 árum.

Engu að síður hefur maður auðvitað tilfinningar og taugar til samstarfsmanna, sérstaklega hjá Frétt ehf., á Fréttablaðinu. Þess vegna langar mig til að vitna í umsögn Starfsmannafélags Fréttar ehf. um fjölmiðlafrumvarpið sem hér er til umræðu. Ég held að hún lýsi mjög vel hvernig því fólki líður sem vinnur á blöðunum og aðstandendum þeirra um þessar mundir.

,,Starfsmannafélag Fréttar ehf. harmar að hafa ekki fengið nægan tíma til að skoða hugsanlegar afleiðingar fjölmiðlafrumvarpsins og því telur félagið sig ekki geta metið að fullu hvaða áhrif það muni hafa á hagsmuni félagsmanna sinna.

Starfsmannafélag Fréttar ehf. telur það frumvarp um fjölmiðla sem hér er til umsagnar, þar sem stefnt er að þrengingu á eignarhaldi og banni við samrekstri prentmiðla og ljósvakamiðla, gangi gegn eigin markmiðum um fjölbreytni fjölmiðla og muni þess í stað draga úr mætti og fjölbreytni íslenskra fjölmiðla.

Í greinargerð með frumvarpinu segir: ,,Við mat á þeim úrræðum, sem til greina kemur að mæla fyrir um til að hamla gegn óæskilegum áhrifum samþjöppunar á fjölmiðlamarkaði, er óhjákvæmilegt annað en að líta til smæðar íslenska markaðarins. Nefndin telur að forðast beri að reglur séu með þeim hætti að þær setji fyrirtækjum í fjölmiðlun ótilhlýðilegar skorður og raski rekstrargrundvelli þeirra.``

Það er mat okkar að frumvarpið geri einmitt þetta; raski rekstrargrundvelli þess fyrirtækis sem við störfum fyrir. Hvorki í skýrslu nefndar sem lögð var til grundvallar frumvarpsins né í greinargerð með frumvarpinu eru gerðar tilraunir til að meta afleiðingar frumvarpsins á framtíð fjölmiðlafyrirtækja. Á meðan frekari upplýsingar eru ekki fyrir hendi um hvaða áhrif frumvarpið muni hafa á rekstrargrundvöll íslenskra fjölmiðlafyrirtækja teljum við að fresta eigi frekari umræðu á Alþingi.

Við teljum að alþingismenn hafi ekki forsendur til að taka upplýsta ákvörðun um innihald frumvarpsins, verði það samþykkt í vor, miðað við þær upplýsingar sem liggja fyrir. Þá viljum við minna á að nefndarmaður fjölmiðlanefndarinnar, Guðmundur Heiðar Frímannsson, hefur sagt í útvarpsviðtali að efni frumvarpsins hafi fengið afar litla umfjöllun af hálfu nefndarinnar. Starfsmannafélag Fréttar ehf. telur það óviðunandi að Alþingi Íslendinga taki ákvörðun um hagsmuni okkar án þess að afleiðingar frumvarpsins hafi verið metnar vandlega.

Margir starfsmenn Fréttar ehf. þekkja af eigin raun gjaldþrot vinnustaða, með tilheyrandi óvissu og erfiðleikum við að standa við eigin skuldbindingar. Það er reynsla sem við óskum hvorki okkur né öðrum í framtíðinni. Rekstur fjölmiðla á Íslandi hefur alla tíð markast af rekstrarerfiðleikum og skorti á fjárfestingarfé. Í því ljósi teljum við að takmörkun sú sem í frumvarpinu felst sé til þess fallin að gera það afar ófýsilegt að fjárfesta í fjölmiðlum. Bann við samrekstri prentmiðla og ljósvakamiðla er einnig vafasamt þegar fjölmiðlun er í örri þróun og stefnir í þá átt að skilin milli farvegs tjáningarfrelsisins á prenti eða á öldum ljósvakans verði ekki jafnafgerandi og nú er.

Niðurstaða okkar er að núverandi frumvarp sé vanhugsað og verði það að lögum á þessu þingi sé sú niðurstaða móðgun við almenna skynsemi og lýðræðishugsun.``

Hæstv. forseti. Ég bið afsökunar ef ég hef gleymt að biðja yður leyfis til að lesa upp úr þessu plaggi.

(Forseti (ÞBack): Tekið til greina.)

Ég skal reyna að muna það framvegis. Ég hef mér það til afsökunar að þingvani minn er ekki langur.

Enn hef ég ekki lokið að ræða um eignarhald. Ég er enn þá að ræða um a-liðinn í frv. forsrh. og brtt. hv. allshn. Það sem mig langaði að ræða aðeins var einmitt þetta sem þau víkja að á Fréttablaðinu sem þau kalla samrekstur prentmiðla og ljósvakamiðla sem líka hefur verið nefnt krosseign. Á bls. 73 í nefndaráliti frá minni hluta allshn. er aðeins fjallað um þetta mál. Mig langar til að víkja að því.

Þar er spurning um hvort efnislega gildi hliðstæðar reglur annars staðar á Vesturlöndum, þ.e. um bann við krosseign eða samrekstri prentmiðla og ljósvakamiðla. Það er alltaf fróðlegt að hugsa sér hvað mundi gerast ef þessi lög sem ætlunin er að við setjum hér á Íslandi yrðu látin gilda um alla Evrópu. Hvað ef þau yrðu látin gilda í Bandaríkjunum? Það er til að mynda mjög fróðlegt nýlegt dæmi um tilraunir heilbrrh. til að koma á viðmiðunarverði fyrir samanburðarlyf í nokkrum flokkum mjög algengra lyfja. Ég man eftir því að hv. þm. Össur Skarphéðinsson, formaður Samf., tók það dæmi á ráðstefnu sem við héldum í Samf. á laugardaginn var. Hann hafði eftir glöggum manni að ef þessi viðmiðunarverðskrá yrði látin gilda um alla Evrópu, gengi í gildi á Íslandi og yrði svo tekin upp í öllum Evrópulöndum, mundi evrópskur lyfjaiðnaður leggjast niður samstundis. Allur evrópskur frumlyfjaiðnaður mundi leggjast niður. Þetta getum við notað sem próf á löggjöf sem verið er að setja. Hvað ef hún gilti erlendis líka? Það er einmitt það sem Norðurljós gerðu þegar þau leituðu til erlendra sérfræðinga um tjáningarfrelsi og löggjöf um eignarhald á fjölmiðlum, bæði í Bandaríkjunum og Evrópusambandinu, þeirra Floyds Abrams frá Bandaríkjunum og Filips van Elsen frá Belgíu. Niðurstaða þeirra varð að engar hliðstæður í þessu efni væri að finna á sameinuðum Vesturlöndum. Hvergi í þessum heimshluta, hvergi á Vesturlöndum er að finna svona lagareglur. Ef slíkar lagareglur yrðu lögfestar t.d. í Þýskalandi, Frakklandi, Hollandi, Belgíu, Bretlandi eða Bandaríkjunum mundu þær leiða til lokunar á flestum einkareknum sjónvarpsstöðvum sem eitthvað kveður að í þessum löndum. Það er ekkert annað. Haldið þið ekki að menn rækju upp ramakvein um alla Evrópu ef þetta yrði? (Gripið fram í: Heldur betur.)

Þannig kom t.d. fram að fjögur stærstu sjónvarpsfyrirtækin í Bandaríkjunum, það sem er kallað TV networks upp á ensku, sem ég veit að formanni Samf., hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni, er vel kunnugt, sem öll sjónvarpa gjaldfrjálst til allra fylkja í því stóra ríki eru hvert um sig í eigu fyrirtækja sem ugglaust yrðu talin markaðsráðandi ef íslensk mælistika yrði lögð á þau og hvert þeirra hefur annars konar rekstur að meginmarkmiði. General Electrics, sem er stærsta fyrirtækjasamstæða heimsins og fjárfestir aðeins í markaðsráðandi fyrirtækjum, yrði að losa sig við NBC. Walt Disney kompaníið, sem er ekkert smáfyrirtæki heldur, yrði að losa sig við ABC-sjónvarpsstöðina. Viacom, fjölmiðlafyrirtækið, yrði að losa sig við CBS-sjónvarpsstöðina. Rupert Murdoch yrði að losa sig við Fox.

(Forseti (ÞBack): Forseti óskar eftir að fá upplýsingar hjá hv. þingmanni um hvort hann eigi mikið eftir af ræðu sinni.)

Ég á alveg eftir þriðja hluta ræðu minnar og (Gripið fram í.) ég spái að það taki mig a.m.k. hálfa klukkustund að gera grein fyrir útvarpsréttarnefnd og skoðunum mínum varðandi það atriði.

(Forseti (ÞBack): Þá óskar forseti eftir því að hv. þingmaður ljúki ræðu sinni eftir hlé. Nú verður gert matarhlé milli klukkan sjö og átta. Mun hv. þm. ljúka ræðu sinni að hléinu loknu.)

Hæstv. forseti. Ég mun að sjálfsögðu fara að tilmælum forseta.