Útvarpslög og samkeppnislög

Miðvikudaginn 12. maí 2004, kl. 20:01:19 (8015)

2004-05-12 20:01:19# 130. lþ. 113.1 fundur 974. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum) frv. 48/2004, EKH
[prenta uppsett í dálka] 113. fundur, 130. lþ.

[20:01]

Einar Karl Haraldsson (frh.):

Hæstv. forseti. Í ræðu minni fyrir matarhlé fjallaði ég aðallega um a-lið b-liðar í brtt. með frv. til laga um breytingar á útvarpslögum og samkeppnislögum sem við höfum fengið frá meiri hluta allshn. Það er sá liður sem fjallar um fimmfalt bann og margs konar takmarkanir á eignarhaldi á fjölmiðlum og sem gerir það að mínu mati að verkum að hér er farið offari og stofnað í hættu sjálfum markmiðum frv. um fjölbreytni á fjölmiðlamarkaði. Einkenni fjölmiðlamarkaðarins í dag er einmitt að þar er meiri fjölbreytni en oft áður og meiri samkeppni. Þær framtíðarógnir og sú vá sem er fyrir dyrum sem allshn. kallar svo og frv. virðist eiga að stemma stigu við hafa ekki verið nægilega rökstuddar. Ekki hefur heldur verið nægilega rökstutt af hendi ríkisstjórnarflokkanna að ekki sé hægt að bægja henni frá dyrum, ef hún er fyrir hendi, og að sú meinta samþjöppun sem er á eignarhaldi skapi slíka ógn að ekki sé hægt að ná markmiðinu með vægari og mildari aðgerðum, og jafnframt aðgerðum sem ættu að geta skilað okkur meiri árangri.

Í síðari hluta ræðu minnar vil ég gera a-lið brtt. að umræðuefni, þ.e. breytingu við 1. gr. í útvarpslögunum eins og þau eru nú. Það segir að greinin skuli orðast svo, með leyfi forseta:

,,Menntamálaráðherra skipar þrjá menn í útvarpsréttarnefnd til fjögurra ára og jafnmarga til vara. Tveir skulu skipaðir samkvæmt tilnefningu Hæstaréttar en einn skipar ráðherra án tilnefningar og skal hann jafnframt vera formaður nefndarinnar. Varamenn skulu skipaðir á sama hátt og skal varamaður formanns jafnframt vera varaformaður nefndarinnar. Nefndarmenn og varamenn þeirra skulu uppfylla starfsgengisskilyrði héraðsdómara. Nefndinni er heimilt að kalla sér til ráðgjafar og aðstoðar sérfróða aðila eftir því sem hún telur þörf á.``

Í athugasemdum við þessa tillögu segir:

,,... skipan útvarpsréttarnefndar verði breytt á þann hátt að í stað þess að Alþingi kjósi sjö menn í nefndina verði hún skipuð þremur mönnum, sem ráðherra skipar, þar af meiri hlutann samkvæmt tilnefningu Hæstaréttar. Eftir sem áður er þó gert ráð fyrir að nefndin verði sjálfstæð og óháð í störfum sínum og að ákvarðanir hennar feli í sér fullnaðarúrlausn mála innan stjórnsýslunnar, sbr. 6. mgr. 6. gr. útvarpslaga, nr. 53/2000. Samhliða því sem auknar kröfur eru gerðar til eftirlits af hálfu nefndarinnar er jafnframt lagt til að allir nefndarmenn og varamenn þeirra skuli uppfylla sams konar kröfur og gerðar eru til starfsgengis héraðsdómara í því skyni að tryggja enn frekar hlutlægni í störfum nefndarinnar.``

Hér er verið að breyta skipan útvarpsréttarnefndar í grundvallaratriðum. Hins vegar er ekki með neinum hætti gert ljóst í hverju þær auknu kröfur eru fólgnar sem gerðar eru til eftirlits af hálfu nýrrar nefndar, miðað við það sem áður var og hefur tíðkast sl. 20 ár. Af því sem hér stendur og því sem ég hyggst ræða og reifa á eftir er augljóst að þessi nefndarskipan er í rauninni miðuð við frv. forsrh., breytingar við það og þær greinar sem þar koma inn nýjar í útvarpslögin, en ekki við útvarpslögin sjálf og framkvæmd þeirra. Það er erfitt að sjá á hvaða hátt þessi nefnd verður annað en nokkurs konar dómstóll yfir úthlutun útvarpsleyfa. Það er ekki hægt að lesa út úr textanum eins og hann stendur, hvorki tillögugreininni né skýringunum, hvernig þessir þremenningar eiga að rækja eftirlitsstörf sín og hafa áhrif á framkvæmd útvarpslaganna. Þar er skilað auðu og við fáum ekki um það að vita.

Þetta leiðir hugann að þeim ágöllum sem hafa verið á starfi núverandi útvarpsréttarnefndar sem starfað hefur um nærfellt 20 ára skeið. Kannski er rétt að fara aðeins yfir það í byrjun hvernig hún kom til. Árið 1985 varð verkfall opinberra starfsmanna sem lauk með því að starfsmannafélag útvarpsins stöðvaði útsendingar útvarps. Þá voru hér nokkrir frjálshyggjumenn, m.a. Kjartan Gunnarsson, núverandi framkvæmdastjóri Sjálfstfl. og stjórnarmaður í Landsbankanum, sem stofnuðu til útvarpsreksturs og spruttu upp margar svokallaðar ólöglegar útvarpsstöðvar sem aðstandendur þeirra vildu kalla frjálsar útvarpsstöðvar. Í kjölfar þess var einkaréttur Ríkisútvarpsins til útvarps- og sjónvarpssendinga afnuminn og sett útvarpslög um rekstur einkarekinna stöðva. Í þeim lögum sem tóku gildi 1986 er útvarpsréttarnefnd falin framkvæmd mikilvægra verkefna. Það er ekki hægt að lesa útvarpslögin sem að stofni til eru frá þessum tíma, en hefur verið breytt síðan, öðruvísi en að nefndinni hefði verið ætlað að hafa allrúmt umboð til að móta starfssvið sitt frá upphafi. (RG: Mætti Kjartan vera áfram formaður í útvarpsréttarnefndinni?) Ég efast um að hann hafi gegnt lögmannsstörfum upp á síðkastið þannig að hann hafi hæfi lögfræðings. Ég kann annars ekki þannig skil á menntun hans að ég geti svarað fyrir um það. Hann lagði hins vegar til á fundi allshn. að skipan útvarpsréttarnefndar yrði breytt og sagði að samkvæmt hugmyndum valdhafanna hér yrði henni breytt í slíkum grundvallaratriðum að hann sæktist ekki eftir því að leiða nefndina áfram og mæltist til þess að hún yrði kosin í sumar svo núverandi útvarpsréttarnefnd gæti lokið störfum sínum um mitt sumar og ný útvarpsréttarnefnd tæki þá við og héldi í öxina fyrir ríkisstjórnarmeirihlutann þegar kemur að því að búta Norðurljósin niður eða tína þau niður af himinhvolfinu.

Ég ætlaði að fara að vitna í lögin því til stuðnings að nefndinni hefði verið ætlað töluvert starfssvið í upphafi. Í 6. gr. laganna segir:

,,Útvarpsréttarnefnd getur veitt lögaðilum og einstaklingum tímabundið leyfi til útvarps. Leyfi til hljóðvarps má lengst veita til fimm ára í senn en til sjónvarps lengst til sjö ára í senn. Nánari ákvæði um gildistíma útvarpsleyfa skulu sett í reglugerð. Heimilt er að binda leyfi við afmörkuð svæði.``

Þorbjörn Broddason prófessor hefur bent á að hann hafi alla tíð skilið þetta orðalag þannig að í því fælist heimild til nefndarinnar að móta almenn skilyrði fyrir leyfum, þar með talið fjölda leyfa á hverjum stað og hverjum tíma. Á þetta hefur nærri því aldrei reynt vegna þess að stefna nefndarinnar var frá upphafi mótuð, undir forustu framkvæmdastjóra Sjálfstfl. sem lengst af hefur stýrt þessari nefnd, í anda afskiptaleysis og óheftrar samkeppni. Til vitnis um það er viðtal við hann úr Morgunblaðinu frá 1987, þar sem hann segir:

,,Útvarpsfrelsi byggist á sömu forsendum og prentfrelsi og annað tjáningarfrelsi. Það orkar því mjög tvímælis hvort sérstök lög þurfi um þessa tegund tjáningar. Þetta tel ég að eigi að taka til endurskoðunar þegar útvarpslögin falla úr gildi í lok ársins 1988. Almenn prent- og meiðyrðalöggjöf ætti að ná yfir ábyrgð á efni og einungis þyrfti að setja reglur um úthlutun tíðnisviða.``

Það er nefnilega þannig að ... já, enn láist mér að biðja um leyfi forseta til þess að lesa orðrétt úr texta.

Þetta er ekki í eina skiptið sem komið hefur fram hjá Kjartani Gunnarssyni að hann er það sem hann sjálfur kýs að kalla útvarpsanarkisti. Hann hefur ekkert breytt þeirri skoðun sinni. Það væri fróðlegt fyrir frjálshyggjuþingmennina fyrrverandi sem eru hér ársgamlir á þingi og hafa stjórnað störfum allshn. að kynna sér hversu staðfastur í trúnni á frjálshyggjuna framkvæmdastjóri Sjálfstfl. hefur verið þessi síðustu 20 ár. Hann hefur hvergi hvikað og hann hefur í rauninni sameinað teoríu og praxís í störfum sínum fyrir útvarpsréttarnefnd. Enda segir Þorbjörn Broddason í áliti sínu til allshn., með leyfi hæstv. forseta:

,,Framkvæmdin hefur nær undantekningarlaust verið í samræmi við þessa stefnuyfirlýsingu því útvarps- og sjónvarpsleyfi hafa verið afhent öllum sem hafa vildu. Útvarpsréttarnefnd hefur því í raun haldið á lofti fána stjórnleysis nær óslitið í tæpa tvo áratugi. Þessi stefna --- eða stefnuleysi --- á sinn þátt í þeirri stöðu sem nú blasir við í íslenskum fjölmiðlum, jafnvel þótt margir aðrir skýringarþættir komi einnig við sögu. Skýrt dæmi um erfiðleika sem útvarpsréttarnefnd átti þátt í að skapa snemma á ferli sínum (vissulega með atbeina ráðherra úr tveim ólíkum ríkisstjórnum) er ,,Málefni Sýnar hf.`` eins og það heitir í ársskýrslu útvarpsréttarnefndar 1992--1994. Þetta fyrirtæki hafði orðið sér úti um eftirsóknarverða senditíðni fyrir sjónvarp og ógnaði árið 1991 stöðu Stöðvar 2 sem greip til þess örþrifaráðs að kaupa Sýn hf. þrátt fyrir bágan eigin fjárhag og enga þörf fyrir aðra rás á þessum tíma.``

Kannski er rétt að geta þess að bak við þá hógværð sem þarna kemur fram í textanum mun vera hið sanna að Þorbjörn Broddason var þá sjálfur formaður útvarpsréttarnefndar.

En áfram með umsögn hans, með leyfi forseta:

,,Í skýrslu útvarpsréttarnefndar 1992--1994 er þannig sagt frá (þess ber að geta að 1991--1993 var útvarpsréttarnefnd undir stjórn hins formannsins sem kemur við sögu hennar):

,,Í samningi sem gerður var samhliða útvarpsleyfi Sýnar hf. dags. 25. júlí 1991 var sett það skilyrði að innan tveggja ára hefði eignarhlutur Íslenska útvarpsfélagsins hf. minnkað úr 70% í 20%.

Í júlí 1993 leitaði útvarpsréttarnefnd eftir upplýsingum um hvort að ofangreind skilyrði hefðu verið uppfyllt. Samkvæmt upplýsingum frá Íslenska útvarpsfélaginu hf. var 80% hlutafjár í Sýn hf. selt til þriggja einstaklinga og þar með átti Íslenska útvarpsfélagið hf. 20% hlutafjár eins og kveðið er á í ofangreindum samningi. Útvarpsleyfi Sýnar hf. rennur út 25. júlí 1996.``

Kaupendur hlutafjárins voru þrír lögfræðingar sem voru í stjórn Íslenska útvarpsfélagsins, en seljandi mun hafa átt endurkauparétt innan tiltekins árafjölda. Þessi tilraun útvarpsréttarnefndar til að efla fjölbreytni og sjálfstæði í ljósvakanum rann þannig út í sandinn.``

[20:15]

Eins og ég nefndi áðan hefur Evrópuráðið einmitt komist að þeirri niðurstöðu að sú leið að setja takmarkanir á eignarhald og þar fram eftir götunum sé því miður þannig að það sé afar auðvelt að fara í kringum hana. Þess vegna er sú leið sem Samf. hefur predikað, þ.e. að setja og styrkja reglur um sjálfstæði ritstjórna, gegnsæi í öllum athöfnum og skipulagi og stefnu fjölmiðlanna og vernd fyrir heimildarmenn, sú stefna sem reynir að tryggja að almenningur hafi aðgang að fjölbreyttum upplýsingum og að fjölmiðlum séu lagðar á hendur skyldur til þess að vera með metnaðarfulla dagskrá. Þær leiðir sem snúa beint að almenningi eru miklu farsælli í þessum efnum.

Áfram með lýsingu Þorbjörns Broddasonar, prófessors:

,,Nokkrum árum síðar keypti Stöð 2 annan keppinaut, Stöð 3, fyrir háar upphæðir til þess eins að losna við hana af markaðnum. Spyrja má hvort þessi viðskipti öll hafi ekki farið í bága við h-lið 3. málsgreinar 6. greinar útvarpslaganna sem hefst þannig:

,,Leyfi til útvarps verður ekki framselt, leigt eða flutt með nokkrum öðrum hætti til annars aðila...``

Hafi því ekki verið að heilsa hefði Alþingi verið í lófa lagið að skýra orðalag í þessari grein til að styrkja valdsvið útvarpsréttarnefndar. Ekki er um seinan að bæta úr þessu og mætti t.d. fara í smiðju hjá Finnum með þetta atriði og önnur. Þar gildir sú sáraeinfalda regla að verði breytingar á hlutafjáreign í fyrirtækjum sem hafa útvarpsleyfi sem leiða til þess að nýir eigendur fái ráðandi hlut, falla leyfin úr gildi (grg. fjölmiðlanefndar). Aðra einfalda reglu hafa Finnar sett sér sem ég tel til mikillar fyrirmyndar og er á þá leið að þeir einir mega neyta atkvæðisréttar í útgáfuhlutafélagi sem skrá hluti sína opinberlega.``

Svo mörg voru þau orð Þorbjörns. Ég minni á í þessu sambandi að útvarpsstjóri Ríkisútvarpsins hefur einmitt í blaðagrein gagnrýnt þau lausatök sem hafa verið á úthlutun útvarpsréttarnefndar á útvarpsleyfum. Hann telur einnig að framkvæmd útvarpslaganna hafi verið of laus í böndunum gegnum tíðina og styður því sjónarmið Þorbjörns um hvernig þetta hefur þróast.

Nú er til að taka að í skýrslu þeirrar nefndar sem vann álit fyrir menntmrh. um eignarhald á fjölmiðlum á Íslandi er talsvert talað um einmitt þá möguleika sem útvarpsréttarnefnd hefur til að tryggja góða framkvæmd útvarpslaganna. Í 9. gr. útvarpslaganna kemur t.d. fram að ,,útvarpsstöðvar skulu í öllu starfi sínu halda í heiðri lýðræðislegar grundvallarreglur. Þeim ber að virða tjáningarfrelsi og stuðla að því að fram komi í dagskrá rök fyrir mismunandi skoðunum í umdeildum málum. Þó skal útvarpsstöð, sem fengið hefur útvarpsleyfi í þeim yfirlýsta tilgangi að beita sér fyrir tilteknum málstað, vera óskylt að flytja dagskrárefni sem gengur í berhögg við stefnu stöðvarinnar.``

Þarna hlýtur að felast möguleiki til að ganga eftir því að þessar skyldur séu uppfylltar. Til þess þarf þó útvarpsréttarnefnd að hafa einhver tæki og tól. Hún þarf að hafa möguleika til að hafa eftirlit, yfirsýn til þess að fylgja hlutunum eftir, gera rannsóknir, geta rökstutt mál sitt, hvort brotið hafi verið gegn þessum ákvæðum útvarpslaga og til þess að fylgja því eftir. Auðvitað hefur hún heimild til að svipta menn útvarpsleyfi ef þeir hafa brotið grundvallarreglur, eins og t.d. fælist í því ef eigendur misbeittu valdi sínu til að stjórna fjölmiðlum og gæta hagsmuna sinna en ekki hagsmuna lesenda.

Engir tilburðir hafa verið í þessa átt á vegum útvarpsréttarnefndar enda hefur hún í störfum sínum verið undir áhrifum frá stjórnleysishugmyndum formannsins sem óneitanlega hefur mótað starfið.

Andsvarsrétturinn er líka mikilvægur í útvarpslögunum, réttur þeirra einstaklinga, félaga eða stofnana ,,sem telja að lögmætir hagsmunir þeirra, einkum orðspor og mannorð, hafi beðið tjón af því að rangt hafi verið farið með staðreyndir í útvarpsdagskrá`` eða mál þeirra eru afskipt til andsvara ,,á viðkomandi útvarpsstöð eða til annarra jafngildra úrræða``. Menn hafa sem sagt rétt gagnvart þessum útvarpsstöðvum og brjóti þær í bága við grundvallarréttindi manna ber þeim að leyfa þeim að rétta hlut sinn. Útvarpsréttarnefnd getur auðvitað fylgt þessu eftir og sett mönnum reglur.

Það er fróðlegt að kynna sér í þessu sambandi hugmyndir sem koma fram í grein Páls Þórhallssonar í Morgunblaðinu 2. maí 2004. Þær eru fskj. með minnihlutaáliti úr allshn. og liggja fyrir. Fyrir utan það að verið er að fjalla um nauðsyn þess að tryggja sjálfstæði Ríkisútvarpsins og gera það skýrara og betra en það er í dag segir hann hérna, með leyfi hæstv. forseta:

,,Evrópuráðið hefur einnig beint sjónum að hlutverki stjórnvalda sem fara með úthlutun útvarpsleyfa og lagt áherslu á að komið verði á fót sjálfstæðum stjórnvöldum sem hafin séu yfir pólitísk átök.``

Það má segja að í þeirri skipan sem lögð er til í sambandi við útvarpsréttarnefnd nú, með því að tveir af þremur fulltrúum verði skipaðir af Hæstarétti, og einn af ráðherra, séu kannski einhver líkindi til þess að það markmið í sjálfu sér náist.

,,Í tilmælum nr. (2000) 23 um sjálfstæði og hlutverk stjórnvalda á útvarpssviðinu segir þannig að setja beri reglur sem tryggi að þeir sem eiga sæti í opinberum eftirlitsnefndum sem hafi með höndum úthlutun útvarpsleyfa séu ekki undir áhrifum frá pólitískum öflum né séu þeir í slíkum tengslum við fjölmiðlafyrirtæki að draga megi óhlutdrægni þeirra í efa.

Þar segir enn fremur að skilgreina beri með skýrum hætti í lögum hver séu helstu skilyrði fyrir því að fyrirtæki öðlist útvarpsleyfi og fái það endurnýjað.``

Hér er náttúrlega verið að benda mönnum á að það er hægt að skilyrða útvarpsleyfi með miklu fleiri atriðum en sem lúta að eignarhaldi. Það er hægt að skilyrða útvarpsleyfið með áskilnaði um metnaðarfulla dagskrárgerð, að einhver hluti útsendingartímans sé helgaður t.d. íslensku efni, efni frá sjálfstæðum framleiðendum, efni sem tengist börnum, fyrir utan þau skilyrði sem þegar eru um textun efnis o.þ.h.

,,Í skýringum með tilmælunum segir að útgáfa útvarpsleyfa sé venjulega eitt helsta verkefni stjórnvalda á þessu sviði. Í því felist mikil ábyrgð vegna þess að val á rekstraraðilum ráði úrslitum um jafnvægi og fjölbreytni á þessu sviði fjölmiðlunar. ,,Jafnvel þótt rásum eigi eftir að fjölga mjög vegna stafrænnar tækni, þá er sem stendur að vissu leyti skortur á rásum til sjónvarpsútsendinga og þess vegna er nauðsynlegt í almannaþágu að úthluta þeim til þeirra aðila sem bjóða besta þjónustu. Að auki gefur úthlutun leyfa færi á að tryggja að útvarpsfyrirtæki þjóni tilteknum almannahagsmunum eins og vernd ungmenna og fjölbreytni,`` segir þar enn fremur.``

Það er athyglisvert að sjá hverjar eru meginniðurstöður Páls Þórhallssonar sem er lögfræðingur í fjölmiðladeild Evrópuráðsins og öllum hnútum kunnugur. Mig langar að vitna hér, með leyfi hæstv. forseta, í niðurstöðuorð hans:

,,1. Ríkisútvarpið er enn ekki nógu sjálfstætt. Kemur þar sjálfsagt margt til. Eitt af því er að ríkisstjórnarmeirihluti hverju sinni skipar meiri hluta útvarpsráðs á meðan víðast hvar erlendis, sbr. einnig tilmæli Evrópuráðsins nr. (96) 10, hefur verið fundið fyrirkomulag sem tryggir að slík ráð gæti almannahagsmuna en ekki hagsmuna ríkisstjórnar eða stjórnarflokka. Það þætti til dæmis ekki góð latína á Evrópuvettvangi að pólitískt skipað útvarpsráð fjallaði um umsóknir um stöður fréttamanna. ``

Við í Samf. höfum margoft bent á að í fjölmiðlalöggjöf þurfi samtímis að taka á málefnum Ríkisútvarpsins, málefnum einkastöðva, sjónvarpsstöðva og útvarpsstöðva og á málefnum hinna nýju miðla sem taka á sig nýjar myndir og tengjast m.a. möguleikum á stafrænum sjónvarps- og útvarpssendingum.

Í öðru lagi segir Páll í ályktunarorðum sínum:

,,2. Stýring og eftirlit með handhöfum útvarpsleyfa er í lágmarki. Stofnanir sambærilegar útvarpsréttarnefnd erlendis hafa gjarnan á að skipa öflugu starfsliði sem undirbýr útboð leyfa, hefur eftirlit með reglum til dæmis um auglýsingar og takmarkanir á sýningu ofbeldisefnis, safnar upplýsingum um markaðinn og óskir neytenda. Þessar stofnanir hafa með sér samtök á Evrópuvísu, European Platform of Regulatory Authorities (www.epra.org) ...`` --- Mér vitanlega hefur útvarpsréttarnefnd aldrei haft nein samskipti við þessa stofnun og ekki sótt í smiðju hennar að neinu verulegu leyti. Í þessum samtökum er skipst ,,á skoðunum um framkvæmd reglna sem eru í raun svipaðar frá einu landi til annars vegna tilskipunar ESB um sjónvarp án landamæra og samsvarandi sáttmála Evrópuráðsins. Íslendingar eru ein af fáum Evrópuþjóðum sem ekki sækja þessa fundi og ber það kannski vott um að menn hafa allt of lengi kært sig kollótta um þennan markað, þau vandamál sem upp koma við stýringu hans og það jafnvægi sem þarf að finna milli ólíkra hagsmuna``. --- Er það ekki dæmigert að loksins þegar menn taka sig til og finna fyrir samþjöppun á markaðnum og þegar sterkur aðili er kominn inn í fjölmiðlun hér sem efnir til samkeppni, bæði við Ríkisútvarpið og Morgunblaðið, skuli menn rjúka til og án langrar umhugsunar detta ofan á alverstu leiðina sem hægt er að hugsa sér að fara til að tryggja fjölbreytni á fjölmiðlamarkaði hér til frambúðar, þá leið sem Evrópuráðið segir sjálft að menn séu í auknum mæli í öllum Evrópulöndum að hverfa frá? Það hefur komið í ljós að það er svo auðvelt að fara í kringum reglur um eignarhaldið.

[20:30]

Til hvers er þá barist? Auðvitað er það engin réttlæting gegn því að setja lög að einhverjir kunni að brjóta þau en það er líka hægt að fara í kringum þau. Það höfum við séð gerast á fjármálamarkaðnum hvað eftir annað, þar virðast menn sífellt finna nýjar leiðir til að fara fram hjá reglum sem þó eru ærnar á þeim markaði. Stöðugar umræður eru um innherjaviðskipti og meint innherjasvik í milljarðaviðskiptum á Íslandi með hlutabréf, þær eru nánast daglegt brauð hér. Auðvitað er það hygginna manna háttur að huga að og læra af reynslu annarra en það verður ekki gert í skyndingu og þess vegna erum við að súpa seyðið af því að hafa ekki tekið þátt í eðlilegu Evrópusamstarfi á þessu sviði og fylgst með því hvernig mál hafa verið rædd þar, hvernig þau hafa þróast og hvaða reynslu menn hafa aflað sér.

Í þriðja lagi segir Páll Þórhallsson í niðurlagsorðum sínum, með leyfi forseta:

,,3. Samþjöppun eignarhalds vekur auðvitað athygli líka en utan frá séð mætir það samt skilningi. Í erlendum skýrslum hefur verið talað um að það þurfi marga milljarða króna á ári til að reka alhliða sjónvarpsstöð og það sér hver maður að færri ráða við slíkt hjá smáþjóð heldur en hjá milljónaþjóðum.``

Eins og ég hef rakið hér áður veldur einmitt sú ákvörðun að banna samrekstur sjónvarpsstöðvar og dagblaðs því að Norðurljós geta ekki framkvæmt þá viðskiptahugmynd eigenda að fara með fyrirtækið á markað og bjóða þar hlutabréf til kaups sem hugsanlega gætu leitt til þess að þar yrði dreifðari eignaraðild en nú er. Það er sem sagt verið að koma í veg fyrir að þeirri viðskiptahugmynd verði hrint í framkvæmd og að markaðurinn fái að vinna sína vinnu sem hann gæti hugsanlega skilað. Kannski væri ekki ástæða til að grípa inn í fyrr en í ljós væri komið hvort þær fyrirætlanir sem búa að baki viðskiptahugmyndinni gengju eftir. Auðvitað er ekki hægt að treysta því að þær fyrirætlanir gangi upp en það virðist vera ástæðulaust að grípa inn fyrir fram.

Páll segir áfram:

,,Þeir sem búa við samþjöppunina virðast heldur ekki sammála um að fjölbreytni efnis og þá einkum fréttaefnis sé neitt minni en áður.``

Það er alveg rétt hjá honum. Við upplifum það í dag að fjölbreytni fréttaefnis er meiri en verið hefur á undanförnum missirum. En auðvitað getur enginn spáð með óyggjandi hætti fyrir um hvað verður á ókomnum árum.

Páll Þórhallsson talar líka um brýnar úrbætur:

,,Brýnustu úrbæturnar frá mínum bæjardyrum séð væru því þær að efla stjórnsýslu útvarpsmála til þess að tryggja að þeir mikilsverðu almannahagsmunir sem útvarpslögin kveða á um séu ekki fyrir borð bornir.

Ef menn telja að samþjöppun á fjölmiðlamarkaði sé slík ógnun við frjálst upplýsingastreymi og skoðanamyndun að tafarlausra aðgerða sé þörf væri ein leið að koma strax á fót sjálfstæðri stjórnsýslustofnun sem leysti útvarpsréttarnefnd af hólmi. Hún gæti þegar í stað byrjað eftirlit á grundvelli ákvæðis gildandi laga um að útvarpsstöðum beri að hafa í heiðri lýðræðislegar grundvallarreglur og ,,stuðla að því að fram komi í dagskrá rök fyrir mismunandi skoðunum í umdeildum málum``. Eftir því sem gildandi leyfi renna út væri svo hægt að skilgreina betur, áður en þau eru auglýst aftur, til hvers nákvæmlega er ætlast af leyfishöfum, varðandi til dæmis vægi frétta og innlendrar dagskrárgerðar. Það mætti hugsa sér að sett yrði jafnframt sem skilyrði að innri reglur tryggðu sjálfstæði fréttastjórnar gagnvart eigendum.

Þessi leið væri í góðu samræmi við það sem helst gerist erlendis og engin hætta á að brotið væri gegn stjórnarskránni eða mannréttindasáttmála Evrópu. Að auki þyrfti auðvitað að hafa nákvæmt eftirlit með því að almennar samkeppnisreglur séu ekki brotnar í krafti markaðsráðandi stöðu og ítaka á auglýsingamarkaði.``

Auðvitað er það verkefni Samkeppnisstofnunar að fylgjast með þessum atriðum og það kynni að þurfa að styrkja samkeppnislög sérstaklega til að taka á þessum málum.

,,Eins þyrfti auðvitað að skoða betur þann möguleika,`` segir Páll, ,,að setja almennar reglur sem giltu um alla fjölmiðla til að koma í veg fyrir að einn aðili legði undir sig of stóran hluta af skoðanamótandi fjölmiðlum.``

Hér er í rauninni verið að taka saman þá leiðsögn sem við getum fengið af Evrópuvettvanginum inn í aðstæður okkar hér á Íslandi. Merkilegt nokk er þetta mjög á þeim nótum sem Samf. hefur talað. Við byrjuðum löngu áður en frv. forsrh. um breytingar á útvarpslögum og samkeppnislögum kom fram eða brtt. hv. allshn. Samf. hefur lagt fram þingmál um þessi mál.

Það sem mér finnst vera að í greininni um útvarpsréttarnefndina hér og skýringunum við hana er að þetta er í rauninni algjörlega autt blað. Við fáum ekkert að vita um ætlunina með þessa nýju útvarpsréttarnefnd. Innan þess ramma sem lagður er hér upp gæti hún verið með sömu stjórnleysisviðhorfin og núverandi formaður útvarpsréttarnefndar sem hefur mótað starf þeirrar nefndar mestan hluta þess tíma sem hún hefur starfað. Það er engin trygging fyrir því að hún hafi meiri starfsmöguleika til þess að fylgja útvarpslögunum eftir og tryggja fjölbreytni í fjölmiðlunum.

Hér er sem sagt skilað algjörlega auðu, og það er miður. Við fáum ekki að vita í hvaða átt þessi nefnd á að þróast. Eins og ég segi held ég að þetta markist af þeirri fljótaskrift sem er á öllu málinu. Útvarpsréttarnefndin þarna og þær skýringar sem fylgja eru eingöngu hugsaðar út frá þeim breytingum sem fram koma á útvarpslögunum og frv. en ekki út frá framkvæmd útvarpslaganna í heild. Ekkert kemur fram um það hvort þessi útvarpsréttarnefnd verður hótinu skárri eða uppbyggilegri en sú útvarpsréttarnefnd sem setið hefur í anda stjórnleysisins sl. 20 ár.

Ég tel að þarna þyrfti löggjafinn að gefa miklu skýrari vísbendingu. Það er heldur ekkert um það fjallað hver á að kosta störf þessarar nefndar. Það hefur verið til vandræða í rekstri útvarpsréttarnefndar að hún hefur litið á sig sem sjálfstæða stofnun en ekkert ráðuneyti hefur viljað við hana kannast. Þannig hafa óreiðuskuldir hlaðist upp á ríkisreikningi vegna starfa útvarpsréttarnefndar mörg umliðin ár. Ef maður skoðar stjórnsýslu þessarar nefndar er t.d. síðasta skýrslan sem birt er á heimasíðu hennar frá 1997. Sjö ára gömul skýrsla er þar almenningi til sýnis svo hann geti fylgst með því sem er að gerast og þróast á fjölmiðlamarkaðnum fyrir einkareknar útvarps- og sjónvarpsstöðvar. Svona fylgist hún með tímanum. Sjö ára dráttur. Það hefur margt gerst á þessum sjö árum, Stöð 2 hefur skipt um eigendur og markaðurinn breyst mjög mikið. Útvarpsréttarnefnd skilar þannig upplýsingum út til þjóðfélagsins. Við fáum ekkert að vita hvaða kostnaðarrammi verður settur um útvarpsréttarnefnd, hvort óreiðuskuldir muni hlaðast upp á ríkisreikningi vegna hennar af því að enginn vill við hana kannast í kerfinu, hvort hún verður þar óhreina barnið hennar Evu til frambúðar.

Varðandi það hvort hin nýja útvarpsréttarnefnd hefur möguleika til þess að framkvæma útvarpslögin eins og þau eru skilar formaður allshn., hv. þm. Bjarni Benediktsson, algjörlega auðu blaði. Ég tel að það sýni hvernig núverandi frv. keyrir fram úr meðalhófsreglunni að það er ekki virt að ýmis af þeim vandræðum sem við erum í og sú samþjöppun sem hefur orðið á útvarpsleyfum er til komin vegna stjórnleysisviðhorfa í stjórnsýslu útvarpsréttarnefndar á síðustu 20 árum. Þær hrossalækningar sem menn ætla að grípa til hér af hálfu ríkisstjórnarinnar eru úr öllu hófi fram. Með betri stjórnsýslu, markvissri stefnumótun og með því að framkvæma útvarpslögin væri hægt að stýra þessum málum miklu betur en nú hefur verið gert en um það hvernig þeim verður stýrt í framtíðinni fáum við ekkert að vita. Það eru bara hrossalækningarnar sem gilda.