Útvarpslög og samkeppnislög

Miðvikudaginn 12. maí 2004, kl. 20:41:43 (8016)

2004-05-12 20:41:43# 130. lþ. 113.1 fundur 974. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum) frv. 48/2004, ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 113. fundur, 130. lþ.

[20:41]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir prýðilega ræðu. Við þingheimur nutum þess þar að hv. þm. hefur setið í útvarpsréttarnefnd og er gjörkunnugur störfum hennar. Það kom fram í máli hv. þingmanns að hann hefur kynnt sér mjög rækilega þau tilmæli Evrópuráðsins sem lúta að almannaútvarpi. Hv. þm. rakti sérstaklega þau tilmæli þar sem lögð er rík áhersla á að frelsa, ef svo má að orði kveða, almannaútvarp undan pólitískri forsjón. Í tilmælunum kemur skýrt fram, eins og hv. þm. rakti, að eftirsóknarvert væri að koma í veg fyrir að almannaútvarpið og veiting útvarpsleyfa væri, eins og mig minnir að hv. þm. hafi orðað það, á pólitísku áhrifasvæði. Síðan rakti hv. þm. þær breytingar sem í brtt. meiri hluta allshn. lúta að útvarpsréttarnefnd. Þar er lagt til að skipuð verði þriggja manna útvarpsréttarnefnd, tveir tilnefndir af Hæstarétti, en einn af hæstv. menntmrh. Hv. þm. svo sem spurði sjálfan sig upphátt og þingheim hvort þetta dygði til þess að verða við tilmælum Evrópuráðsins. Ég er ekki sannfærður um það. Ef hæstv. menntmrh. tilnefnir mann er það alveg ljóst að þótt hann þurfi að uppfylla ákveðnar kvaðir er þar um pólitíska tilnefningu að ræða.

Ég vil því spyrja hv. þingmann hvort hann telji þetta nægilegt til þess að koma veitingu útvarpsleyfanna undan pólitísku forræði. Ég er alls ekki sammála því að svo sé, en það mátti ráða af máli hv. þingmanns að hann teldi það vera.