Útvarpslög og samkeppnislög

Miðvikudaginn 12. maí 2004, kl. 20:48:36 (8019)

2004-05-12 20:48:36# 130. lþ. 113.1 fundur 974. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum) frv. 48/2004, Frsm. meiri hluta BjarnB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 113. fundur, 130. lþ.

[20:48]

Frsm. meiri hluta allshn. (Bjarni Benediktsson) (andsvar):

Herra forseti. Ég fylgdist eftir bestu með þessari ágætu ræðu hv. þingmanns sem mér fannst vera fyrst og fremst löng og tiltölulega efnislega þunn. Það sem eftir stendur (Gripið fram í: Ágæt ...) er að ég hef ekki fengið svör við ákveðnum spurningum sem varða þetta frv. sérstaklega. Það er þá í fyrsta lagi þetta: Er það rétt skilið hjá mér að hv. þm. sé ánægður með þá eignasamþjöppun sem hefur átt sér stað í Norðurljósum?

Ég spyr sérstaklega að þessu vegna þess að hann tók fram að hann hefði viljað sjá draum þess fyrirtækis um að komast á markað verða að veruleika í óbreyttri mynd.

Er það í annan stað rétt skilið hjá mér að þingmaðurinn sé mótfallinn þeirri tillögu í frv. að gerð séu skil á milli eigenda í prentmiðlum, þ.e. dagblöðum, og ljósvakamiðlum? Er það rétt skilið hjá mér að hann sé mótfallinn því grundvallarprinsippi í frv.?

Í þriðja lagi hefði ég viljað spyrja hv. þingmann: Telur hann yfir höfuð einhverja ástæðu til þess að hafa afskipti af því hverjir fara með eignarhluti í fjölmiðlum? Ég spyr kannski þessarar síðustu spurningar sérstaklega vegna þess að hv. þm. Össur Skarphéðinsson hefur hér í þingsölum teflt fram kröfu um að brugðist verði við blokkamyndun í fjölmiðlum. Hann hefur beinlínis sagt héðan úr ræðustól, formaður í flokki hv. þingmanns, að það sé nauðsynlegt til að tryggja lýðræðislega umræðu í samfélaginu að bregðast við vaxandi samþjöppun á fjölmiðlamarkaði.