Útvarpslög og samkeppnislög

Miðvikudaginn 12. maí 2004, kl. 20:53:03 (8021)

2004-05-12 20:53:03# 130. lþ. 113.1 fundur 974. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum) frv. 48/2004, Frsm. meiri hluta BjarnB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 113. fundur, 130. lþ.

[20:53]

Frsm. meiri hluta allshn. (Bjarni Benediktsson) (andsvar):

Herra forseti. Ég fékk ekki svar við því sérstaklega hvort hv. þm. væri sáttur við þá þróun sem hér hefur átt sér stað undanfarin ár í eignarhaldi á ljósvakamiðlum og ekki heldur því hvort hann teldi yfir höfuð ástæðu til að hafa afskipti af eignarhaldi á fjölmiðlafyrirtækjum. Ef ég skildi hugsanlega hv. þingmann rétt taldi hann að markaðurinn ætti að leysa úr þessu.

Markaðurinn hefur haft algjörlega frjálsar hendur og eignasamþjöppunin hefur aldrei orðið meiri. Hún er meiri hér en á nokkrum stað öðrum sem við getum borið okkur saman við.

Varðandi þær tækninýjungar sem hv. þm. vísaði til er það nú þannig að þetta frv. lætur frjálsræðið gilda áfram um alla aðra miðla, um netið og hvað það kann nú allt að heita. Þetta frv. fjallar eingöngu um prentmiðlana og ljósvakamiðlana. Það er af ásettu ráði. Það stendur ekki til í þessu frv. að hafa afskipti af hinum tegundum fjölmiðlunar. Það er sérstök pólitísk ákvörðun og ég vona að ég eigi ekki að skilja hv. þingmann þannig að hann telji ástæðu til þess að fara að setja sérstakar reglur um þá miðla.