Útvarpslög og samkeppnislög

Miðvikudaginn 12. maí 2004, kl. 20:54:52 (8022)

2004-05-12 20:54:52# 130. lþ. 113.1 fundur 974. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum) frv. 48/2004, EKH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 113. fundur, 130. lþ.

[20:54]

Einar Karl Haraldsson (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. þm. Bjarni Benediktsson heldur áfram að spyrja og vill fá að vita hvort ég sé ánægður með þá stöðu mála sem er á fjölmiðlamarkaði í dag (BjarnB: Eignarhaldið.) og í eignarhaldinu. Ég gerði í löngu máli grein fyrir þeirri ríkjandi skoðun innan Evrópuráðsins að þessi áhersla á eignarhaldið væri víkjandi í öllum löndum Evrópu vegna þess að það er svo auðvelt að fara í kringum slíkar reglur. Ég taldi að það væri dæmigert um það hvað stjórnarliðar virðast hafa hunsað alla samvinnu í Evrópu um þróun útvarps- og sjónvarpsmála að þeir skuli detta ofan í það að fara verstu leiðina til að tryggja fjölbreytni og menningarlegt framboð í fjölmiðlum. Þetta frv. er frv. um fortíðina.

Ég get alveg sagt hv. þingmanni það varðandi tilfinningar mínar til fjölmiðlamarkaðarins í dag, sem virðast vera áhugamál hans, að ég vil frekar hafa fjölmiðla lifandi en dauða. Ég vil frekar hafa Fréttablaðið á lífi en dautt. Ég vil frekar hafa DV á lífi en dautt. Ég vil frekar hafa Stöð 2 öfluga og fjárhagslega vel skipulagða en blanka og á barmi gjaldþrots. Ég tel að Norðurljós hafi tryggt þetta markmið og að fjársterkir aðilar hafi komið inn til þess að tryggja stöðu þessara fjölmiðla og 2.400 manns sem eiga beint afkomu sína undir þessum fjölmiðlum. Ég hef sjálfur tekið þátt í að stofna einn þeirra og rekið hann á blankheitatímabili þegar menn vissu aldrei hvort þeir fengju kaupið sitt eða hvort fyrirtækið færi í gjaldþrot á morgun. Ég veit alveg hvernig fólkinu líður á þessum fjölmiðlum.