Útvarpslög og samkeppnislög

Miðvikudaginn 12. maí 2004, kl. 20:57:10 (8023)

2004-05-12 20:57:10# 130. lþ. 113.1 fundur 974. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum) frv. 48/2004, ÖS (um fundarstjórn)
[prenta uppsett í dálka] 113. fundur, 130. lþ.

[20:57]

Össur Skarphéðinsson (um fundarstjórn):

Herra forseti. Ég kem hér að gefnu tilefni. Ég vil byrja á því að þakka hæstv. forseta fyrir að hafa skapað tóm fyrir efh.- og viðskn. til að halda áfram yfirferð sinni um fjölmiðlafrumvarpið. Eins og kom fram í morgun var lögð rík áhersla á það af hálfu okkar sem sitjum í nefndinni að hægt yrði að fá ákveðna fulltrúa til að varpa ljósi á tiltekin atriði málsins. Í nefndinni reyndist vera mikill meiri hluti fyrir því og hæstv. forseti varð ljúfmannlega við því að skapa hér tíma til þess að það væri hægt. Þetta skiptir mjög miklu máli. Þarna komu fram grundvallaratriði í þessu máli, herra forseti.

Þó að ég ætli ekki í neina efnisumræðu hér tel ég eigi að síður að það verði að koma fram að það reyndist rétt sem við sögðum, bæði Samkeppnisstofnun og Samtök banka og verðbréfafyrirtækja höfðu yfir að ráða upplýsingum sem setja málið í töluvert annað ljós. Það kom fram hjá fulltrúa Samtaka banka og verðbréfasjóða að það er álit þeirra að þetta frv. setji það miklar hömlur á starfsemi fyrirtækja á fjölmiðlamarkaði að ekki verði tök á að skrá þau í Kauphöll. Þetta er allt annað en hv. formaður allshn. hefur upplýst og sömuleiðis lögmaðurinn, hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson. Enn merkilegra var líka að heyra að það væri álit fulltrúa þessara samtaka sem ég nefndi hér, Guðjóns Rúnarssonar, að frv. eins og það er kæmi í veg fyrir að bankar gætu komið inn með tímabundið eigið fé til þess að fleyta fjölmiðlafyrirtækjum yfir erfiðan hjalla eins og gerist oft í atvinnulífinu. Þetta skiptir ákaflega miklu máli. Sömuleiðis var það upplýst á þessum fundi að lífeyrissjóðir eru með 2 milljarða sem þeir hafa lánað Norðurljósum án nokkurra veða. Þetta er í uppnámi. Miðað við þær upplýsingar sem þarna komu fram kynni svo að fara að þetta tiltekna stóra fyrirtæki yrði til jarðar slegið og þar með yrðu þessar upphæðir í uppnámi.

Ég vildi, herra forseti, koma hingað til að þakka hæstv. forseta fyrir að hafa gert okkur kleift að halda áfram þessari rannsókn málsins. Það er alveg ljóst að þær upplýsingar sem þarna komu hafa ekki komið fram á fundi allshn. því það kom t.d. fram hjá hv. þm. Sigurði Kára Kristjánssyni fyrr í dag að hann er allt annarrar skoðunar. Hann hefur ekki séð þessar upplýsingar. Því mælist ég til þess við forseta að hann hlutist til um það að allshn. nái sömuleiðis að halda fund og fá þessa menn til fundar við sig til þess að hún geti rætt þessar nýju upplýsingar í málinu.