Útvarpslög og samkeppnislög

Miðvikudaginn 12. maí 2004, kl. 21:04:04 (8027)

2004-05-12 21:04:04# 130. lþ. 113.1 fundur 974. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum) frv. 48/2004, RG (um fundarstjórn)
[prenta uppsett í dálka] 113. fundur, 130. lþ.

[21:04]

Rannveig Guðmundsdóttir (um fundarstjórn):

Herra forseti. Gerir forseti sér grein fyrir því sem hér er að koma fram, að þingmenn ganga í ræðustól einn af öðrum til að þakka fyrir það að hafa fengið að halda fund um kvöldmatarleytið vegna þess hversu miklar og alvarlegar upplýsingar komu þar fram? Gerir hæstv. forseti sér grein fyrir því að svo er komið fyrir hv. Alþingi að menn þakka fyrir það einum og hálfum sólarhring eftir að mál hefur verið tekið með offorsi út úr nefnd? Í raun og veru hefði þá átt að vera búið að ljúka allri umfjöllun í öllum nefndum, þeim nefndum sem málinu var vísað til. Það hefur þurft að berjast fyrir því á hæl og hnakka að fá að ljúka umfjöllun í nefndum. Þegar það hefur fengist með miklum harmkvælum er það upplýst hér klukkan níu að kvöldi annars dags umræðunnar að mjög alvarlegar upplýsingar hafi komið fram í efh.- og viðskn.

Ég man ekki eftir öðru eins og því sem hefur verið að gerast undanfarna daga og hef ég þó setið á hv. Alþingi í 15 ár. Samt ætla ég að taka undir þessar þakkir málsins vegna. Málsins vegna ætla ég að taka undir það hversu mikilvægt það var að það náðist að halda fund í efh.- og viðskn. og ræða við þá aðila sem nú hafa komið fram með veigamiklar upplýsingar, en jafnframt harma ég það að vinnubrögðin á Alþingi Íslendinga séu orðin þannig af hálfu gjörspilltra valdhafa að þeir gera ekkert með það sjálfir að sækja þær upplýsingar sem nauðsynlegar eru til þess að fagleg vinnubrögð eigi sér stað á Alþingi og að löggjöf verði þannig að um hana verði ekki efast í kjölfarið.

Þetta hef ég að segja um fundarstjórn forseta.