Útvarpslög og samkeppnislög

Miðvikudaginn 12. maí 2004, kl. 21:10:21 (8029)

2004-05-12 21:10:21# 130. lþ. 113.1 fundur 974. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum) frv. 48/2004, SigurjÞ (um fundarstjórn)
[prenta uppsett í dálka] 113. fundur, 130. lþ.

[21:10]

Sigurjón Þórðarson (um fundarstjórn):

Herra forseti. Ég er algjörlega ósammála þeim orðum sem féllu hjá þeim forseta sem sat hér á undan þeim sem situr nú, að það væri verið að ræða efnisatriði málsins. Ég er bara ekki sammála því. Það væri ágætt að sá ágæti þingmaður, hv. 11. þm. Reykv. s., kæmi hér og skýrði mál sitt. Hann á sæti í efh.- og viðskn. þingsins og menn hafa komið hér hver á fætur öðrum og sagt ófagrar sögur af því sem fór þar fram, að grafalvarlegar upplýsingar hefðu komið fram um gang þessa máls ...

(Forseti (HBl): Má ég spyrja hv. þingmann hvort hann telji sig vera að tala um fundarstjórn forseta?)

Já, ég er að því.

(Forseti (HBl): Ég vil þá biðja hv. þingmann að halda sig við það.)

Já, ég er að ...

(Forseti (HBl): Gjöra svo vel að gera það og sýna þinginu þá virðingu að reyna að halda ...)

Ég er að reyna ...

(Forseti (HBl): Ekki grípa fram í. Ég vil biðja hv. þingmann að sýna þinginu virðingu.)

Ég vonast til þess og það er ætlun mín að sýna herra forseta mikla virðingu. Ég ætlast einnig til þess að fá tíma til að skýra mál mitt.

Hér hafa fallið þungar ásakanir um að það alvarlegar upplýsingar hafi komið fram á fundi efh.- og viðskn. að ekki sé rétt að halda áfram umræðu um það mál sem við erum að ræða hér. Þess vegna væri réttast að bíða með umræður þangað til eftir fund í allshn. Nú vill svo ágætlega til að það er búið að boða fund í allshn. og hann er boðaður í hádegishléinu á morgun. Ég hefði talið réttast, vegna þess að málið er vanreifað, að við biðum og létum þá allshn. sem hefur forræði í málinu --- það var að sérstakri ósk hæstv. forsrh. að sú nefnd færi með málið --- ljúka umfjöllun sinni. Við höfum engar aðrar upplýsingar en þær að mjög alvarlegar upplýsingar hafi komið fram sem varða þetta mál. Það væri þá réttast að þeir stjórnarliðar sem vilja bera á móti því, svo sem hv. þm. Birgir Ármannsson, kæmu hér og greindu okkur frá því að þetta væru léttvægar upplýsingar og að við ættum að halda málinu áfram. Ég vænti þess að hv. þingmaður komi í ræðustól og greini okkur frá því.