Útvarpslög og samkeppnislög

Miðvikudaginn 12. maí 2004, kl. 21:13:20 (8030)

2004-05-12 21:13:20# 130. lþ. 113.1 fundur 974. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum) frv. 48/2004, ÖJ (um fundarstjórn)
[prenta uppsett í dálka] 113. fundur, 130. lþ.

[21:13]

Ögmundur Jónasson (um fundarstjórn):

Hæstv. forseti. Við höfum komið hingað í ræðustól, tveir fulltrúar úr efh.- og viðskn. þingsins, hv. þm. Össur Skarphéðinsson og ég, til að gera grein fyrir því að á fundi efh.- og viðskn. þingsins sem haldinn var milli kl. sjö og átta komu fram upplýsingar sem við teljum að hafi ekki komið áður fram hér í þinginu. Það hefur verið staðfest að allshn. sem hefur þetta þingmál til umfjöllunar hefur ekki haft vitneskju um það sem okkur var sagt á þessum fundi.

Það lýtur að því að verði þetta frv. að lögum verði ekki hægt að skrá fyrirtækið Norðurljós í Kauphöllinni. Í framhaldinu var á það bent að færi svo yrðu rekstrarforsendur þessa stóra vinnustaðar stórlega skertar. Við bentum einnig á að þetta fyrirtæki væri skuldsett verulega, upp á 5,7 milljarða kr., þar af væru 2 milljarðar frá lífeyrissjóðum landsins, og það sem meira er, þessir 2 milljarðar hefðu ekki veð. Við erum að vekja athygli á því að þessar upplýsingar verða að komast til allshn. og til þeirra þingmanna sem eru að ræða þetta mál. Það er fullkomlega eðlilegt og efnislegt að koma þessum upplýsingum hér á framfæri undir þessum dagskrárlið.