Útvarpslög og samkeppnislög

Miðvikudaginn 12. maí 2004, kl. 22:34:44 (8034)

2004-05-12 22:34:44# 130. lþ. 113.1 fundur 974. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum) frv. 48/2004, SigurjÞ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 113. fundur, 130. lþ.

[22:34]

Sigurjón Þórðarson (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka ágæta og efnismikla ræðu en það eru nokkur atriði sem ég hefði viljað fá frekari skýringar á, einkum varðandi rót vandans sem við ræðum hér.

Stjórnarliðar hafa bent á að fyrir dyrum standi einhver vá sem þurfi að taka á, helst í gær, en við í stjórnarandstöðunni föllumst ekki á það og sjáum enga stóra hættu. Hv. þm. Jóhann Ársælsson sagði í upphafi máls síns að upphaf þessa máls mætti e.t.v. rekja til bolludagsmálsins. Það væri fróðlegt að fá að heyra nánar um það og hvort við ættum þá ekki að horfa á það mál sérstaklega, rannsaka það og reyna að höggva að rót vandans. Ég tek ekki trúanlega þá vá sem menn hafa bent á. Ég hefði talið að við ættum að fara vel yfir og skoða einmitt rót vandans og skoða hvort ekki beri að rannsaka hana frekar.

Ástæðan fyrir því að ég spyr að þessu og bið um nánari skýringar er að enginn í stjórnarliðinu hefur neitað því að þetta gæti verið möguleg orsök þess máls sem stefnir, ekki bara nokkrum í hættu, heldur störfum hundruða manna í þjóðfélaginu í hættu, og jafnvel málfrelsinu. Menn hafa látið að því liggja. Þess vegna ættu menn að horfa til þess hver raunveruleg rót vandans er og reyna að höggva á hana í stað þess að vera að búa til einhverja vá og færa ekki fyrir henni nein rök. Alltént eru þau rök sem hér hafa verið borin á borð ekki mjög málefnaleg.