Útvarpslög og samkeppnislög

Miðvikudaginn 12. maí 2004, kl. 22:40:40 (8038)

2004-05-12 22:40:40# 130. lþ. 113.1 fundur 974. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum) frv. 48/2004, Frsm. meiri hluta BjarnB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 113. fundur, 130. lþ.

[22:40]

Frsm. meiri hluta allshn. (Bjarni Benediktsson) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. spyr hvernig það megi vera að einstaklingar geti samkvæmt þessu frv. sölsað undir sig alla einkareknu fjölmiðlana og verið hér einráðir á fjölmiðlamarkaði á meðan frv. gerir ráð fyrir því að fyrirtæki sem hafi þennan sama áhuga geti einungis eignast 25%. Ég hygg að svarið við þessu sé einfalt: Það þykir einfaldlega svo ólíklegt að einstaklingar sækist eftir slíku. Dæmið sem hv. þm. nefnir hér, Rupert Murdoch, er einkennilegt fyrir þær sakir að hann stendur ekki í rekstri fjölmiðlaveldis síns í eigin nafni, ég leyfi mér að fullyrða það.

Öll ákvæði þessa frv. miða sérstaklega að fyrirtækjum, til að mynda ákvæði sem fjallar um fyrirtæki í markaðsráðandi stöðu. Einstaklingur sem slíkur kemst seint í markaðsráðandi stöðu án þess að vera með einhvern rekstur á bak við sig í fyrirtækjaformi.

Þetta er það helsta.

Ég ætla aðeins að víkja að öðru atriði sem hv. þm. fór yfir þegar hann fjallaði um þá nýbreytni í íslenskum fjölmiðlum að nú væri farið að dreifa dagblöðum frítt inn á heimili landsins. Ég gat ekki skilið hv. þm. betur en svo að hann teldi að frv. bannaði fyrirtækjum í framtíðinni að gera slíkt eða vægi með einhverjum hætti að þessari þróun með þeim efnisákvæðum sem er að finna í frv. Ég ætla að biðja hv. þm. aðeins um að útskýra betur hvað hann á við þar.