Útvarpslög og samkeppnislög

Miðvikudaginn 12. maí 2004, kl. 22:53:23 (8046)

2004-05-12 22:53:23# 130. lþ. 113.1 fundur 974. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum) frv. 48/2004, HjÁ
[prenta uppsett í dálka] 113. fundur, 130. lþ.

[22:53]

Hjálmar Árnason:

Virðulegur forseti. Óhætt er að segja að fá mál á hv. Alþingi hafi fengið jafnmikinn tíma til umræðu og valdið jafnmikilli umræðu í samfélaginu og það mál sem hér er verið að ræða við 2. umr. sem staðið hefur nú í nokkra sólarhringa. Þá hlýtur að vera eðlilegt að spyrja, virðulegur forseti, hvers vegna eitt mál hljóti svo mikla og almenna umræðu úti í samfélaginu eins og á hv. Alþingi.

Svarið er auðvitað augljóst. Það er verið að takast á um alveg gríðarlega hagsmuni. Það er verið að fjalla um og takast á um fyrirkomulag, leikreglur á samkeppnismarkaði sem hefur verið að skapast og þróast í okkar litla landi á síðustu árum og áratugum. Þegar inn í það blandast einnig að það snertir fjölmiðlamarkaðinn segir sig sjálft að hagsmunirnir eru gífurlegir. Þess vegna er eðlilegt að mikil umræða verði innan þingsins og utan.

Að sjálfsögðu er umræða nauðsynleg og umræða góð en mér hefur fundist dálítið gæta þess að hún fjalli um mjög afmarkaða þætti málsins og jafnvel komi hér upp hv. þm. með fullyrðingar sem ekki eiga sér stoð, eins og fram kom í síðustu ræðu. (Gripið fram í.) Mér finnst mjög mikilvægt að horft sé á grundvallaratriðin í málinu, þ.e. þá þróun sem verið hefur á neytendamarkaði okkar að undanförnu, þá tilhneigingu til samþjöppunar þar sem fyrirtæki hafa runnið saman og það er sú samþjöppunartilhneiging sem hefur orðið á íslenskum neytendamarkaði að undanförnu. Það er grundvöllur málsins og mér finnst að það eigi í rauninni að vera kjarni umræðunnar hér því að það hefur ekki verið annað að heyra en hv. þm. úr öllum flokkum hafi á síðustu árum borið mikinn ugg og kvíða yfir þeirri þróun og hafi haft mjög afdráttarlausar skoðanir á því. (Gripið fram í: Afleiðingar stjórnarstefnunnar.) Það vekur hins vegar mikla athygli mína, og ég vék að því við 1. umr. og mér finnst ástæða til að gera það aftur, að Samf. hefur tekið allhressilega beygju í málinu í afstöðu sinni til þróunar á neytendamarkaði og þeirrar samþjöppunar sem þar hefur orðið og er að verða. Ég hef kallað það U-beygju og það er hægt að gera það með fullum rökum.

Ég leyfi mér, með leyfi forseta, að vitna til ræðu sjálfs formanns Samf., hv. þm. Össurar Skarphéðinssonar, sem hann flutti á Alþingi þar sem verið var að fjalla um samþjöppun á neytendamarkaði og þar sem hv. þm. skammar ríkisstjórnina fyrir það sem honum fannst litlar aðgerðir á því sviði. Þá sagði hinn virðulegi formaður Samf.:

,,Það er hins vegar Svarti-Pétur í stokknum. Stóru keðjurnar hafa í skjóli einokunar keyrt upp matarverð. Hreðjatak þeirra á markaðnum hefur kallað fáheyrða dýrtíð yfir neytendur. ... þá er það skoðun okkar í Samfylkingunni að Samkeppnisstofnun eigi að fá í hendur þau tæki sem hún þarf til þess að skipa fyrir um breytingar, þar á meðal að skipta upp slíkum einokunarrisum ef hún telur þess þörf til þess að vernda hagsmuni neytenda.``

Svo endar hv. þm. Össur Skarphéðinsson, formaður Samf., ræðu sína á þeirri spurningu: ,,Hvað ætlar ríkisstjórnin að gera?`` (ÖS: Svarið kom.)

Þarna kemur alveg glöggt fram að hv. þm. Össur Skarphéðinsson hefur eða hafði, réttara sagt, þungar áhyggjur af þeirri þróun sem hefur orðið á neytendamarkaði hér og hann er með ráð til ríkisstjórnarinnar um leið og hann kallar eftir úrræðum hennar og þau ráð eru að Samkeppnisstofnun gangi strax inn í þessi fyrirtæki og leysi þau upp með hagsmuni neytenda að leiðarljósi. Þetta er tilvitnun, virðulegur forseti, í ræðu hv. þm. Össurar Skarphéðinssonar, formanns Samf., þar sem hann hvetur til þess að Samkeppnisstofnun gangi strax inn í það hreðjatak sem stóru blokkirnar hafi á neytendamarkaði og leysi þær blokkir upp. Þetta var hin almenna skoðun Samf. fyrir örfáum missirum á stöðunni á neytendamarkaði.

Hv. formaður Samf. fjallar síðan á öðrum stað um fjölmiðlamarkaðinn sérstaklega í svipuðu samhengi. Það er fróðlegt, virðulegur forseti, að stinga þar niður hvað virðulegur formaður Samf. sagði fyrir örfáum missirum um fjölmiðlamarkaðinn og þá þróun sem þar á sér stað. Með leyfi forseta:

,,... þá er ekki bara blokkamyndun til staðar í atvinnulífinu heldur eru nýjar blokkir að hreiðra um sig m.a. í afþreyingariðnaði. Ég spurði`` --- segir hv. þm. Össur Skarphéðinsson --- ,,hæstv. ráðherra áðan hvernig stæði á því að ekki er tekið á þeim iðnaði. Af hverju er t.d. ekki blokkarinnar í kringum Norðurljós að nokkru getið?``

Ég er að vitna hér, virðulegur forseti, í ræðu hv. þm. Össurar Skarphéðinssonar sem er að brýna ríkisstjórnina til þess að ganga í skrokk á Norðurljósum. (ÖS: Nei.) Hann er að brýna ríkisstjórnina til þess að gera það, hann hvetur ríkisstjórnina, hann hvetur Samkeppnisstofnun til þess að ganga inn í blokkirnar og leysa þær upp með hagsmuni neytenda að leiðarljósi.

Annar hv. þm. Samf., öflugur þingmaður, hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir, hefur einnig tjáð sig um þessi mál hér í ræðustól og á öflugri heimasíðu sinni.

Hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir segir á einum stað, með leyfi forseta, þar sem fyrirsögnin er Tímasprengjan tifar:

,,Þá tímasprengju sem nú tifar verður að aftengja. Örfáar stórar valdablokkir gífurlegra sterkra fjármagnseigenda ráða orðið öllum helstu atvinnugreinum í landinu. Það hefur leitt til fákeppni, sem komið hefur fram í dýrara verði á vöru og þjónustu fyrir neytendur.``

Þetta eru orð hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttir sem talar um tifandi tímasprengju og fellur vel saman við það sem formaður Samf. sagði og ég vísaði til áðan, að það yrði strax að grípa til aðgerða.

Hér er verið að aftengja hinar tifandi tímasprengjur, hér er verið að bregðast við ákalli m.a. hv. þm. Össurar Skarphéðinssonar. En hvað gerist þá? Sprengjan springur í bæli Samf. Hún bregst við í vörn, og er nema von að maður spyrji: Hvað veldur þeirri 180° beygju Samf.? Það hlýtur að þurfa að koma fram í umræðunni hvers vegna Samf., sem kallað hefur hér missiri eftir missiri eftir aðgerðum, hörðum aðgerðum, að ganga inn í stóru blokkirnar, að brjóta þær upp með hagsmuni neytenda að leiðarljósi. Hvers vegna snýr Samf. þá svona skyndilega við blaðinu? Við hljótum að þurfa að fá skýringar á því í þessari umræðu. Ég kann þær ekki en það er augljóst að hér hefur orðið stefnubreyting miðað við þær ræður, sumar langar, sem hafa verið fluttar í þessari umræðu.

Ef menn meina eitthvað með því að vilja hindra samþjöppun á neytendamarkaði þá kunnum við að þurfa að grípa til aðgerða, eins og hv. þm. Össur Skarphéðinsson sagði, eins og fram hefur komið í ræðum og pistlum frá hv. þm. Margréti Frímannsdóttur, Bryndísi Hlöðversdóttur, Jóhönnu Sigurðardóttur og fleiri hv. þingmönnum Samf. Þeir hafa kallað eftir þessum aðgerðum, þeir hafa hvatt til þeirra. Og ef menn meina eitthvað með því að koma þurfi í veg fyrir og jafnvel að brjóta upp slíka hringi sem hafa myndast verða menn líka að stíga næstu skref og fylgja því eftir.

Vitanlega, svo að ég bara vísi til ræðu hv. þm. Össurar Skarphéðinssonar og greinar hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttir þar sem þau kalla eftir aðgerðum til þess að ganga inn í stóru blokkirnar, segir það sig sjálft að ef menn ætla að stíga þau skref hlýtur það að koma við einhver kaun vegna þess að hér eru miklir hagsmunir í húfi. Ég hlýt að kalla eftir svörum við því hvers vegna Samf. vildi áður, fyrir örfáum missirum, ráðast með oddi og egg gegn samþjöppun, gegn jafnvel tilteknum nafngreindum fyrirtækjum, gegn tifandi tímasprengju og þannig má áfram telja. Hvað veldur þeirri kúvendingu? Við hljótum að kalla eftir þeim svörum vegna þess að ræðurnar og textarnir liggja fyrir.

Ef samþjöppun, hæstv. forseti, var til staðar árin 2001, 2002 og 2003, þegar þessi orð féllu á Alþingi, þegar þessar greinar eru skrifaðar, þegar þessar brýningar eru bornar á torg, hafi samþjöppun verið mikil þá er hún enn meiri í dag. Og miðað við þessar röksemdafærslur og þessar brýningar er enn meiri ástæða til að fara í harðar aðgerðir í dag.

Þegar Samf. vildi ganga í beinar aðgerðir og beita Samkeppnisstofnun, hvers vegna er hún þá ekki tilbúin til þess að ganga í slíkar aðgerðir eins og hún krafði ríkisstjórnarflokkana um að grípa til? (ÖS: Úrræðin eru núna fyrir hendi.) Þá átti að vaða í aðgerðir strax, þá átti að brjóta upp blokkir og hringa. Nú er of langt gengið, nú er samþjöppunin ekki jafnmikil og áður var.

Ég er sammála þeim sjónarmiðum sem virtust hafa verið ríkjandi í röðum Samf. á fyrri missirum um að samþjöppun á samkeppnismarkaði sé ekki holl og góð fyrir neytendur. Ég tek undir þau sjónarmið og um það fjallar þetta mál, það er grundvöllur þessa máls.

Ég er líka sammála þeim sjónarmiðum að samkeppni veiti aðhald, samkeppni á milli fyrirtækja þar sem eignaraðild er dreifð og markaðurinn er dreifður. Það veitir fyrirtækjum aðhald og ég er sammála því að slík heilbrigð samkeppni er vörn fyrir neytendur. En til þess þurfa leikreglur að vera til staðar þannig að hér verði ekki eignaþjöppun á hendur fárra fyrirtækja sem verða drottnandi yfir markaðnum, sem ráða markaðnum og ráða yfir verði og kjörum neytendanna.

Ef einn aðili er stór, og ég tek undir það sjónarmið sem Samf. áður hélt á lofti, að ef einn aðili er orðinn of stór á markaði ræður hann yfir öðrum fyrirtækjum, þá ræður hann kjörum fólksins, þá stýrir hann verðlaginu með sínum aðferðum. Samanburðarfræði við slíka markaðsstöðu í Evrópu sýnir að þar sem samkeppnin er sem mest, þar sem fyrirtækin dreifast jafnast um markaðinn eru verðin hagstæðust. Þess vegna er mikilvægt að leikreglurnar séu skýrar þannig að þær tryggi dreifðan markað og dreifða eignaraðild fyrirtækja. Um það snýst málið.

Við þekkjum hvernig markaðurinn er hér þegar matvælamarkaðurinn er kominn á hendur eins aðila yfir 50%. Við vitum hvaða áhrif það hefur gagnvart birgjum, við vitum hvaða áhrif það hefur gagnvart samkeppnisaðilum, við vitum hvaða áhrif það hefur gagnvart nýjum aðilum sem vilja hasla sér völl á markaði. Þeir eiga afskaplega takmarkaða möguleika. Ég hefði talið eðlilegt að umræða hv. stjórnarandstöðu snerist um að skamma ríkisstjórnarflokka fyrir að hafa ekki fyrir löngu komið þessum leikreglum upp en ekki að snúast til varnar þeirri samþjöppun sem átt hefur sér stað á á íslenskum neytendamarkaði, matvælamarkaði með einum risa með 50%. Við vitum um lyfjamarkaðinn sem skiptist á milli tveggja til þriggja aðila, afþreyingarmarkaðurinn er kominn í sömu spor, byggingarvörumarkaðurinn, flutningamarkaðurinn og þannig mætti áfram telja. Og það er einn risi sem drottnar yfir þessu öllu saman, sem drottnar yfir neytendamarkaði. Það hlýtur að vera áhyggjuefni miðað við þær ræður sem haldnar hafa verið í sölum Alþingis árum saman. Því hljótum við að kalla eftir hvað valdi stefnubreytingu.

Gæti t.d. verið að hið háa vöruverð á Íslandi tengist því hve markaðurinn hefur farið í gegnum mikla samþjöppun? Það skyldi þó ekki vera að skortur á dreifðum markaði, að skortur á alvörusamkeppni eigi sinn þátt í því að vöruverð er hærra hér en víðast annars staðar vegna samþjöppunar. (Gripið fram í.) Það sem ógnar kjörum íslenskra neytenda, virðulegur forseti, er samþjöppunin sem á sér stað á íslenskum neytendamarkaði. Á því verður að taka.

Ég trúi því ekki að hv. þm. Samf., sem hafa á síðustu missirum tjáð sig mjög fjálglega um þetta, hafi skipt um skoðun. Hér þarf að vera dreifð markaðsaðild, hér þarf að ríkja virk samkeppni. Um það snýst málið, það er bakgrunnur þess frv. sem hér er til umræðu.

Auðvitað kemur það við kaunin á einhverjum og ætli það mundi ekki heyrast eitthvað frá Berlusconi-veldinu ef Ítalir ætluðu sér að setja lög sem tækju á Berlusconi-ástandinu á Ítalíu. Ég hef grun um að þá heyrðust ramakvein á ítölsku ef menn ætluðu sér að taka á því Berlusconi-veldi sem allir þekkja.

Talandi um hið mikla frelsi á markaði þá leyfi ég mér að vitna til þess sem ágætur og virtur tónlistarmaður sagði, og kýs að nafngreina hann ekki hér, enda hef ég ekki heimild til þess. Hann var að fjalla um frelsi í fjölmiðlun og vildi lítið með það gera. Og hvers vegna vildi hann lítið með það gera? Hann fullyrti að á fjölmiðlamarkaði, á ljósvakamiðlum, hinum frjálsu ljósvakamiðlum ríkti ekki annað frelsi en það að þar væru þáttastjórnendur skyldaðir til að leika lög sem gefin eru út eða flutt inn af einum aðila, aðila sem er í eigu sama fyrirtækis. Hvaða frelsi er það? spurði þessi ágæti tónlistarmaður sem taldi sig og aðra sem ekki væru gefnir út á vegum þeirrar hljómplötuútgáfu eiga litla möguleika í tölvukerfi sem prógrammerar lögin sem flutt eru á þeim ljósvakamiðlum. Hvaða frelsi er það? (ÖS: Það er eftirspurn ...) Það segir töluvert um einmitt eignatengsl á milli fyrirtækja, ljósvakamiðla og annarra fyrirtækja. Það er þetta sem tengist einmitt grundvelli málsins, hv. þm. Össur Skarphéðinsson, það er akkúrat slík eignasamþjöppun og samspil margra fyrirtækja í eigu sömu aðila. Það er ekki hollt gagnvart neytendum, eins og hv. þm. hefur margsinnis haldið fram á hv. Alþingi.

Hvað frv. sem hér er til umræðu varðar lýtur það einmitt að því að reyna að setja leikreglur sem stuðla að því að markaðsaðild á fjölmiðlamarkaðnum verði sem dreifðust þannig að við höfum hér til framtíðar frjálsa fjölmiðla sem byggja á dreifðri eignaraðild en ekki drottnandi af einum aðila, sem þar að auki drottnar á öðrum sviðum atvinnulífsins.

Eftir að breytingartillögur komu frá hv. allshn. tel ég að komið hafi verið mjög vel til móts við þau sjónarmið sem upphaflega frv. hlaut hvað mesta gagnrýni fyrir. Ég nefni þar sérstaklega ákvæðið um 5% sem stærri aðilar mega fjárfesta í ljósvakamiðlum. Mér finnst ég hafa orðið dálítið var við það jafnvel í umræðunni hér en ekki síður úti í þjóðfélaginu að menn hafa túlkað ákvæðið sem svo að fyrirtæki almennt mættu ekki eiga meira en 5%. Það er auðvitað rangt. Þar er einungis átt við þau fyrirtæki sem að mati Samkeppnisstofnunar eru talin vera drottnandi á tilteknum markaði og með yfir 2 milljarða kr. ársveltu. Önnur fyrirtæki sem ekki eru drottnandi á markaði og hafa undir 2 milljarða kr. veltu geta fjárfest fyrir allt að 25%. Ég tel þetta vera nokkuð skynsamlegt til þess að ná því markmiði sem er grundvöllur alls þessa, að hafa dreifða eignaraðild, þannig að það sé ekki einn eigandi sem er drottnandi og allt um vefjandi, vegna þess að fjölmiðlun er mikilvæg.

Með því atriði og tveggja ára aðlögunartímanum, þ.e. að fella bráðabirgðaákvæðið út, tel ég að skapist einmitt það svigrúm sem þarf líklega að vera til þess að fyrirtæki á markaði geti aðlagað sig að nýjum lögum, ef að lögum verða. Og talandi um tvö ár þá veit enginn hver verður ráðandi á markaði eftir tvö ár. Við þurfum ekki annað en að skoða þá þróun sem átt hefur sér stað bara á fyrirtækjamarkaði á allra síðustu árum, þar eru miklar sviptingar fram og aftur, skipt er um eigendur, fyrirtæki renna saman, eru leyst upp og seld sundur og saman, má segja, þannig að hver verður ráðandi á hvaða sviði að tveimur árum liðnum getur enginn svarað í dag. En það er einmitt Samkeppnisstofnun ætlað að meta hverju sinni á hlutlægan hátt.

Virðulegi forseti. Ég vil árétta það rétt að lokum að mér finnst skipta mestu máli að horfa á þau grundvallaratriði að verið er að fjalla um það sem margsinnis hefur komið til umræðu á hv. Alþingi, mikilvægi þess að fyrirtæki og markaðurinn sé sem dreifðastur þannig að hér geti ríkt hörð og grimm samkeppni neytendum til hagsbóta þannig að samkeppnin leiði til þægilegra vöruverðs, lægra vöruverðs. Með dreifðum markaði í stað þess að fákeppni sé ríkjandi trúi ég að þau markmið náist og það á að sjálfsögðu að gilda ekki síður, og er jafnvel enn mikilvægara, um fjölmiðla en önnur fyrirtæki á neytendamarkaði.