Útvarpslög og samkeppnislög

Miðvikudaginn 12. maí 2004, kl. 23:17:59 (8049)

2004-05-12 23:17:59# 130. lþ. 113.1 fundur 974. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum) frv. 48/2004, SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 113. fundur, 130. lþ.

[23:17]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Það er ekki Framsfl. sem er að bregðast við í þessu tilviki, það vita allir. Það er hæstv. forsrh. sem flytur þetta mál og Framsókn er dregin á halanum til stuðnings við að málið sé lagt hér fram. Það er ekki hæstv. viðskrh. sem er að bregðast við. Það er einmitt öfugt. Og þó að menn hafi áhyggjur af þróun mála á einhverju sviði þýðir það ekki að tilgangurinn helgi algerlega meðalið, að menn geti leyft sér hvers konar vinnubrögð. Þá er verr af stað farið en heima setið. Það má vel færa fyrir því rök að þessi vinnubrögð ríkisstjórnarinnar geri illt verra, þau nái engan veginn þeim markmiðum sem þeim er ætlað að ná. Þess vegna er það þannig að þó að málið sé í sjálfu sér þarft, þ.e. að skoða hvort þarna þurfi að koma til reglur og eigi að reisa einhverja rönd við, má ekki leiðangurinn vera svo ógæfulegur að það sé verr af stað farið en heima setið. Það skyldi þó ekki eiga við í þessu tilviki?