Útvarpslög og samkeppnislög

Miðvikudaginn 12. maí 2004, kl. 23:21:54 (8052)

2004-05-12 23:21:54# 130. lþ. 113.1 fundur 974. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum) frv. 48/2004, HjÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 113. fundur, 130. lþ.

[23:21]

Hjálmar Árnason (andsvar):

Virðulegi forseti. Ekki ætla ég að fara í sálfræðianalýsu eða -stúdíu við hv. þingmann eins og hann er að mælast til en auðvitað hljótum við að hugsa til þess starfsfólks sem þarna er. Það hlýtur samt líka að vera skylda okkar stjórnmálamanna, ef menn meina eitthvað með því að þeir vilji hafa dreifðan neytendamarkað, vilja ekki hafa fákeppni, að setja almennar leikreglur. Eins og ég nefndi áðan kann það að koma illa við einhver fyrirtæki.

Ég hef ekki heyrt þá fjárfesta, fulltrúa lífeyrissjóða, þá sem hafa lagt peninga í þessi fyrirtæki segja að með þessum lögum muni þeir draga sig í hlé. Ég hef ekki heyrt orð um það frá þessum fjárfestum. Að vísu hefur stjórnarmaður, líklega framkvæmdastjóri Norðurljósa, tjáð sig um það. Ég hef ekki heyrt fjárfesta tala með þeim hætti.

Það sem auðvitað skiptir mestu máli eru hinar almennu leikreglur til framtíðar.