Útvarpslög og samkeppnislög

Miðvikudaginn 12. maí 2004, kl. 23:35:10 (8063)

2004-05-12 23:35:10# 130. lþ. 113.1 fundur 974. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum) frv. 48/2004, ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 113. fundur, 130. lþ.

[23:35]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Sem gamall umhvrh. er ég almennt hlynntur endurvinnslu. Það er þó fullmikið af því góða að hlusta á hv. þingmann endurtaka orðrétta ræðu sína úr 1. umr. Ég svaraði því sem hann spurði mig um þá og ég get gert það aftur.

Það er alveg hárrétt að ég var á móti því að Baugur beitti markaðsráðandi stöðu sinni gegn almannahagsmunum. Ég spurði hæstv. viðskrh. hvort ekki væri rétt að Samkeppnisstofnun fengi úrræði sem gætu leitt til þess, ef um ítrekuð brot væri að ræða, að fyrirtækið yrði hlutað upp. Hæstv. ráðherra svaraði: Þau úrræði eru fyrir hendi. Ef þau eru fyrir hendi gagnvart matvælamarkaðnum hljóta þau að vera fyrir hendi gagnvart fjölmiðlamarkaðnum líka.

Herra forseti. Það vill svo til að þetta er rætt í fjölmiðlaskýrslunni og þar segir á bls. 68, þar sem verið er að ræða um úrræði Samkeppnisstofnunar, með leyfi forseta:

,,Ef niðurstaða þessa mats sýnir að markmiði samkeppnislaga verði ekki náð með öðru og vægara móti en því að [tilteknu fyrirtæki] verði skipt upp eða fyrirtækið skyldað til að stofna sérstakt fyrirtæki [...] er ótvírætt að heimilt er að grípa til slíkra aðgerða.``

Það er þess vegna sem ég segi að þessi lög séu óþörf. Úrræðin eru fyrir hendi.