Útvarpslög og samkeppnislög

Miðvikudaginn 12. maí 2004, kl. 23:37:30 (8065)

2004-05-12 23:37:30# 130. lþ. 113.1 fundur 974. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum) frv. 48/2004, ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 113. fundur, 130. lþ.

[23:37]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Svo verð ég að leiðrétta það sem hv. þm. sagði, að ég hefði sagt í þessari tilteknu umræðu að það ætti að ráðast í það að brjóta upp blokkina Norðurljós. Það eru hrein ósannindi. Ég nefndi Norðurljós vegna þess að til umræðu var skýrsla um nýjar valdablokkir í íslensku viðskiptalífi sem hæstv. viðskrh. lagði fram. Ég vakti sérstaka athygli á því að blokkin í kringum einkavin Framsfl., Jón Ólafsson, var ekki nefnd. Hvernig stóð á því? Getur verið að ástæðan hafi verið sú að Jón Ólafsson hefur árum saman verið einn af þeim sem hefur fjármagnað Framsfl.? Ég spyr hv. þingmann. Það var ástæðan fyrir því að ég dró þetta inn í umræðuna þá. Sú blokk var ekki nefnd.

Herra forseti. Það er átakanlegt að sjá með hvaða hætti Framsfl. fer í þessa umræðu. Það eru engin rök. Það eru engin rök hjá hv. þm. Hjálmari Árnasyni fyrir því að styðja frv. sem fram hefur komið að Framsfl. hefur verið kúgaður til að styðja hér á þessu þingi. Hv. þm. er ekki sjálfráður gerða sinna. Það er hæstv. forsrh. sem ræður honum eins og Framsfl.