Afgreiðsla fjölmiðlafrumvarps

Fimmtudaginn 13. maí 2004, kl. 10:20:01 (8079)

2004-05-13 10:20:01# 130. lþ. 114.91 fundur 555#B afgreiðsla fjölmiðlafrumvarps# (aths. um störf þingsins), Flm. ÖS
[prenta uppsett í dálka] 114. fundur, 130. lþ.

[10:20]

Össur Skarphéðinsson:

Herra forseti. Það eru svo margar atkvæðagreiðslur í efh.- og viðskn. að það er ekki nema von að aðeins skolist til hjá manni hvernig niðurstöður voru í sérhverri þeirra. Nú höfum við borið saman bækur okkar, ég og hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir og Ögmundur Jónasson. Það er rétt sem hv. þm. Pétur H. Blöndal sagði, sú tillaga sem ég bar fram um að nefndin skilaði áfangaáliti og héldi síðan áfram umræðu fékk fimm atkvæði gegn einu. Sú tillaga sem hv. þm. Pétur H. Blöndal bar fram um að umfjöllun málsins yrði lokið var felld á jöfnu, fjögur atkvæði gegn fjórum.

Auðvitað koma stöðugt nýjar upplýsingar inn í þetta mál sem varða þingið allt. Á fundunum í gær kom t.d. fram sú skoðun hjá fulltrúa Samtaka banka og verðbréfafyrirtækja að fjölmiðlafyrirtæki eins og Norðurljós yrði ekki tækt til skráningar í Kauphöllinni ef þessi lög yrðu samþykkt. Þetta eru nýjar upplýsingar í málinu. Það var líka upplýst á fundi efh.- og viðskn. að fulltrúi Kauphallarinnar hefur ekki verið kvaddur til fundar við allshn. til þess að ræða þetta mál. Þetta skiptir öllu máli og það er þess vegna sem efh.- og viðskn. mun halda umfjöllun sinni áfram til þess að grafast fyrir um svona mál og geta skilað því síðan til þingsins í einhverju formi.

Alvarlegast í þessu, herra forseti, er þó að meiri hlutinn sem skapast hefur í efh.- og viðskn. telur það mjög alvarlegt umhugsunarefni að lögð voru fram gögn sem benda til að hugsanlega stríði frv. gegn ýmsum ákvæðum stjórnarskrárinnar. Það er enginn valinkunnur lagaspekingur sem hefur stigið fram á sviðið og sagt annað nema einn, einkavinur hæstv. forsrh., Jón Steinar Gunnlaugsson. Við hljótum, þingmenn og þingheimur, þegar svona alvarlegt álit kemur frá einni af nefndum þingsins að staldra við og skoða málið, brjóta það til mergjar. Getur verið að við sem höfum unnið eið að stjórnarskránni séum að taka þátt í því að brjóta ákvæði hennar? Það má aldrei verða.