Útvarpslög og samkeppnislög

Fimmtudaginn 13. maí 2004, kl. 10:54:01 (8091)

2004-05-13 10:54:01# 130. lþ. 114.1 fundur 974. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum) frv. 48/2004, ÞSveinb
[prenta uppsett í dálka] 114. fundur, 130. lþ.

[10:54]

Þórunn Sveinbjarnardóttir:

Hæstv. forseti. Sem kunnugt er þá er mælendaskrá við 2. umr. sem hér stendur yfir um svokallað fjölmiðlafrumvarp hæstv. forsrh. nokkuð löng og menn hafa viljað halda því fram að eitthvert málþóf væri í gangi í umræðunni. Ég vil taka það fram í upphafi máls míns, hæstv. forseti, að ég er algjörlega ósammála því mati því að allar ræður sem hér hafa verið haldnar af hv. þm. stjórnarandstöðunnar við 2. umr. málsins hafa verið efnismiklar, vel rökstuddar og tekið á kjarna málsins. Það sem hefur hins vegar að stórum hluta vantað, herra forseti, og þess vegna verður maður að staldra við og spyrja sig hvernig sé ástatt með lýðræðið á Íslandi, er að fá fram skoðanir og viðbrögð stuðningsmanna ríkisstjórnarinnar. Jú, það var mælt fyrir meirihlutaáliti allshn. og nokkrir stjórnarliðar hafa verið í andsvörum, gott og vel. Í gærkvöldi kom hv. þm. Framsfl., Hjálmar Árnason, og flutti hér ræðu. Ég hef fylgst nokkuð vel með umræðunum, herra forseti, og ég man ekki til þess að aðrir hafi talað frá stjórnarliðinu en ég á von á að úr því rætist í dag við þessa umræðu. Ég geri athugasemd við það, herra forseti, vegna þess að svona umræða, 2. umr. um frv. til laga, hvert sem frv. er, á að vera efnisumræða, já, og skoðanaskipti. Skoðanaskipti þeirra sem eru að einhverjum hluta eða að öllu leyti ósammála í málinu og í þessu tilviki skoðanaskipti stjórnarandstöðu og stjórnaliða. Það liggur í hlutarins eðli að á hinu háa Alþingi fari umræður fram með þeim hætti.

Eins og þingheimi er kunnugt hefur það ekki verið þannig og það er reyndar ekki bara í þessu máli, herra forseti, sem það hefur viðgengist að það er líkt og það sé sérstök áþján fyrir stjórnarliða að sitja undir ræðum stjórnarandstöðunnar, þeir jafnvel dæsa og kvarta yfir því bæði opinberlega og óopinberlega að hér sé fólk í málþófi og það sé erfitt að sitja undir löngum umræðum á Alþingi. Ja, heyr á endemi, herra forseti. Til hvers voru þessir menn kosnir á þing?

Mig langar til í upphafi máls míns að rifja upp orð sem féllu í gærkvöldi í ræðu hv. þm. Hjálmars Árnasonar, þingmanns Framsfl. í Suðurk. Fyrir utan að hafa eytt drjúgum tíma ræðu sinnar í að vitna í gamlar ræður frá þingmönnum Samf., sem ég svo sem lái honum ekki enda voru það ágætar ræður, vel fluttar og vel samdar eins og gjarnt er með þá þingmenn, hafði hann frá litlu að greina er varðaði stefnu Framsfl. í málinu. Hún liggur hreinlega ekki fyrir, herra forseti. Mér liggur við að segja að hún sé engin önnur en sú að stíga skrefið inn í lið Sjálfstfl. í þessu máli og fylgja hæstv. forsrh. upp á gott og vont í þeirri von að þjóðin síðan gleymi, þegar afgreiðslu málsins verður loks lokið, ef því lýkur nú á næstu vikum, og svo renni upp 15. sept. 2004 og hæstv. utanrrh. verði hugsanlega forsrh. landsins. Ég hygg að þannig sé málið vaxið frá sjónarhóli Framsfl. Og það er dapurlegt, herra forseti, að þurfa að horfa upp á það með þeim hætti sem við höfum þurft að horfa upp á, m.a. hér í gærkvöldi.

Það sem hins vegar ber að þakka fyrir í þeim málflutningi hv. þm. Hjálmars Árnasonar er að hann staðfesti með algjörlega óyggjandi hætti að frv. sem hér er til umræðu beinist gegn einu fyrirtæki. Það fór ekki á milli mála í ræðu þingmannsins. Hafi menn reynt hingað til að rökstyðja mál sitt með því að hér eigi að setja almenn lög til þess að stýra eignarhaldi á fjölmiðlum hér á landi þá liggur það algjörlega fyrir núna að svo er ekki. Stjórnarliðar geta þess vegna sparað sér ómakið við að reyna að búa málið í þann búning að hér sé um almenn lög að ræða. Þau eru sértæk, frv. er mónískt eins og lagamenn sem þekkja til kalla það.

(Forseti (ÞBack): Má ég biðja hv. þingmenn í hliðarsal að hafa fund annars staðar en hér rétt í dyragættinni.)

Þakka þér fyrir, frú forseti.

[11:00]

Frv. er mónískt í eðli sínu, eins og stjórnarandstaðan hefur margoft bent á og það hefur verið staðfest af hv. þm. Hjálmari Árnasyni og í sjálfu sér er engin ástæða til að eyða meiri dýrmætum tíma þingmanna og fólksins í landinu til þess að þrefa um það. Það liggur fyrir að því er stefnt gegn einu fyrirtæki.

Rétt í lokin um þá ræðu sem hér var flutt af hv. þm. Hjálmari Árnasyni í gærkvöldi þá varð honum tíðrætt um vernd neytenda hér á landi. Nú vill svo til að Framsfl. hefur haft þann málaflokk með höndum um nokkurra ára skeið, níu ára skeið líklega, hæstv. iðn.- og viðskrh. Valgerður Sverrisdóttir fer með málefni neytenda, neytendavernd og -réttindi. Það er einnig vitað og hefur reyndar verið rætt á hinu háa Alþingi að í þeim efnum standa Íslendingar langt að baki nágrannaþjóðum sínum, langt að baki Norðurlöndunum, svo langt að baki að hér eru neytendamál að stærstum hluta í grárri forneskju ef ekki væri fyrir þær leiðbeiningar, lög og reglugerðir sem komið hafa hingað til lands í gegnum EES-samninginn. Annars hefði lítið verið gert. Hafandi þetta í huga verður það í besta falli hjákátlegt að sjá þingmann þess flokks sem farið hefur með þennan málaflokk í níu ár berja sér á brjóst og tala um neytendavernd þegar eignarhald fjölmiðla er annars vegar. En það er eins og annað í þessu máli, frú forseti, að flestu því sem satt er og rétt í málinu er snúið á haus. Menn koma hér fram og segja að frv. sé almenns eðlis, því sé alls ekki beint gegn einu fyrirtæki. Samþjöppun eignarhalds á fjölmiðlamarkaði leiðir til skorts á fjölbreytni. Allt það sem hér er haldið fram er eins og öfugmælavísa.

Í sjálfu sér mætti afgreiða frv. með þeirri einföldu lýsingu að það gengur gegn þeim markmiðum sem það á að ná, þeim markmiðum sem lýst er og ætlast er til að frv. nái. Leiðin að því markmiði, eins og hún er lögð fram í frv., er einfaldlega leið sem fer í þveröfuga átt við markmiðið, leið sem gæti riðið íslenskum fjölmiðlamarkaði að fullu, gert það úrval sem þó er á útvarpi, hljóðvarpi, sjónvarpi að næstum því engu. Og það að þeir stjórnarliðar sem hafa í áranna rás gagnrýnt Ríkisútvarpið hvað harðast og stöðu þess á íslenskum fjölmiðlamarkaði, sem vissulega er sterk og að mínu áliti á að vera sterk, skuli nú ganga harðast fram í að styðja frv. sem hér um ræðir sem gæti, eins og tugir ábendinga hafa bent til, hreinlega riðið hinum einkarekna fjölmiðlamarkaði á Íslandi að fullu.

Hver er þá tilgangurinn? Tilgangurinn liggur jú fyrir eins og ég hef hér áður nefnt. Tilgangurinn er sá að stöðva framrás eins tiltekins fyrirtækis, og ég vil þakka það aftur, hæstv. forseti, að hv. þm. Hjálmar Árnason hafi tekið af allan vafa um það í ræðu sinni í gærkvöldi.

Í umræðu á dögunum um fjölmiðlaskýrsluna frá ríkisstjórn Íslands, sem sögð er liggja til grundvallar þessu frv., og sú umræða var í raun og veru eins og upptaktur að þeirri umræðu sem nú fer fram, 1. umr. um frv. og nú 2. umr., mátti heyra stjórnarliðana hafa uppi makalausar fullyrðingar um eðli, starf og ábyrgð fjölmiðla og fólksins sem þar starfar. Það var ekki annað að heyra á sumum stjórnarliðum en að flestir blaða- og fréttamenn landsins væru handbendi einhverra, handbendi eigenda sinna. Því var haldið fram að blaðamaður réði aldrei fyrirsögn á frétt sem hann skrifaði. Eru menn að gefa það í skyn að eigendur liggi í símanum allan daginn til að búa til fréttir og að heiður og starf blaðamanna á Íslandi sé ekki meiri en svo að menn láti það yfir sig ganga?

Það er einfaldlega ekki svo. Blaðamennska er fag, blaðamennska er starf sem lýtur ákveðnum reglum, ákveðnum lögmálum, gamalt starf, starf sem er eins mikilvægur hluti af lýðræðissamfélagi og starf hinna kjörnu fulltrúa. Starf sem sér til þess að hinir kjörnu fulltrúar fái það aðhald sem þeir þurfa á að halda. Þá í raun gildir einu hvort sú umfjöllun er smekkleg eða ósmekkleg eða hvort einhverjum finnst hún góð eða vond, allir hafa full réttindi til þess að gefa út vond blöð, vondan texta, fullan af stafsetningarvillum og vitleysu. Um það snýst frelsið. Okkur varðar engu um það hvernig umfjöllun um forsrh. er slegið upp í tilteknu dagblaði. Stjórnmálamenn eru opinberar persónur og víða í kringum okkur er aðhald við þá og gagnrýni á þá í fjölmiðlum miklu grimmari en nokkru sinni hér á landi. Menn þurfa ekki annað en að líta til breskra dagblaða og fjölmiðlaumfjöllunar um stjórnmál og stjórnmálamenn til þess að komast að því hvernig aðhaldið er þar. Það að reyndir stjórnmálamenn skuli kveinka sér undan umfjöllun eða því að það sé gert grín að þeim í einhverjum fjölmiðlum ber ekki vott um stóran hug, stórt hjarta eða bein í nefi.

Eins og svo margt í þessari umfjöllun hafa lýsingar stjórnarliðanna einkennst af ákveðnum ranghugmyndum og ég vil segja þekkingarskorti á því starfi sem fer fram á fjölmiðlum hér á landi, hvort sem það eru dagblöð, vikublöð, tímarit, hljóðvarp, sjónvarp, vefmiðlar eða annað. Við búum svo vel í okkar litla landi að eiga fjölmiðlaflóru sem er gífurlega fjölbreytt og hefur sem betur fer fengið nú á síðustu missirum tækifæri til að dafna bærilega vegna þess að í henni hefur verið fjárfest.

Sjálfstæði fjölmiðla er ekki síst hið fjárhagslega sjálfstæði og því hefur verið lýst hér, m.a. af hv. þm. Einari Karli Haraldssyni, hvernig það er að vera ritstjóri á blaði sem er alltaf að fara á hausinn og það er ekki hægt að greiða laun um mánaðamót og það er allt í eindaga í rekstri. Sú reynsla er mörgu fjölmiðlafólki á Íslandi vel kunnug og ekki aðstæður sem stuðla að sjálfstæðum, faglegum og góðum fréttaflutningi. Skortur á fjármagni í rekstri fjölmiðla dregur nefnilega úr fagmennskunni og þar með úr sjálfstæði þeirra. Við þekkjum það öll hvernig kvartað er undan hroðvirknislegum vinnubrögðum, oft hraðsoðnum fréttum, ég tala nú ekki um í sjónvarpi sem er miðill sem býður upp á stutta og hnitmiðaða umfjöllun en ekki langan texta eða mjög ígrundaðan eins og t.d. prentmiðlarnir gera. En það kostar peninga að halda úti góðri, faglegri og sjálfstæðri fréttamennsku af því að það kostar peninga að setja fréttamann í mál til þess að rannsaka það og segja honum að hann hafi sjö daga til þess að komast til botns í málinu eða, eins og oftast er, að segja honum að hann hafi tvær klukkustundir til þess og fréttin verði að vera tilbúin fyrir klukkan fimm í dag. Í því felst munurinn.

Það liggur í augum uppi, frú forseti, að sú umfjöllun sem fréttamaðurinn síðan væntanlega skilar eftir vandlega og ítarlega yfirlegu, rannsóknir þar sem talað er við alla sem málið varðar, að sú umfjöllun sem fær tíma verður miklu betri, verður réttari og verður sannleikanum samkvæm. Um það snýst sjálfstæði fjölmiðla. Það snýst um að hafa svigrúm til þess að vinna þá vinnu sem þar fer fram þannig að sómi sé að og þannig að menn fái borgað fyrir vinnuna sína. Það gerist ekki þegar fjölmiðlar eru í stöðugri kreppu. Það vita þeir sem starfað hafa við slík skilyrði og þeir vita að úr því verður yfirborðskennd, oft fálmkennd umfjöllun og umfjöllun sem lýsir oftast aðeins einni hlið á máli vegna þess að það er fljótlegast að gera það þannig og það þarf meiri vinnu, meiri tíma, meiri hugsun, flóknari rannsóknir til þess að fá fleiri fleti upp og helst alla fleti upp á einu máli.

Ég veit, frú forseti, að ég þarf ekki að fara nánar út í það, þingmenn þekkja það líklega best, enda fylgjast þeir mjög vel með fréttum, hvernig stundum er sagt frá því sem gerist í þessum sal t.d. og kannski upplifun okkar í stjórnarandstöðunni á ákveðinni umræðu, ákveðnum orðaskiptum, er með ákveðnum hætti. Svo kveikjum við á útvarpi eða sjónvarpi um kvöldið og sjáum allt aðra hlið. Það er ekki röng hlið en það er bara ein hlið á málinu. Ósjálfstæðir, veikburða fjölmiðlar sem hafa ekki nóg fé til rekstrar og til þess að vinna vinnu sína faglega stuðla að fátæklegri og einhliða umræðu í samfélaginu.

Í því ljósi liggur líka alveg fyrir að það er alltaf miklu auðveldara að greina frá þeirri hlið mála er snýr að valdhöfunum. Það er alltaf miklu einfaldara að matreiða fréttatilkynningar sem koma frá þeim sem valdið hefur til þess að greina frá því sem er að gerast. Það er miklu flóknara mál og oft erfiðara að tala við þá sem eiga ekkert undir sér, og þá er ég ekkert endilega að tala um stjórnmálaflokka eða stjórnmálamenn, heldur bara almennt séð fólk í landinu. En það er m.a. ábyrgð fjölmiðla, sem fjórða valdsins í samfélaginu, að endurspegla líka líf og störf þeirra sem eiga minna undir sér en valdhafarnir, sem gegna öðrum störfum. Annars eru þeir ekki að endurspegla samfélagið.

Sú umræða er náttúrlega þess eðlis að hér vinnst ekki tími til að fara í hana að neinu ráði, en ég vildi þó, frú forseti, hefja mál mitt í dag með þessum hætti vegna þess að mér þykir miður, og það kemur mér nokkuð á óvart, hversu yfirborðskennd umræða stjórnmálamanna getur oft verið um þessi mál, um fjölmiðlana sem skipta okkur líklega meira máli en flestar aðrar stéttir í landinu. Það er einfaldlega svo og það vita allir þeir sem hér starfa.

Frú forseti. Það hefur komið fram við þessa umræðu að það sé ákveðin ólga í samfélaginu. Fólk hefur áhyggjur, það hefur áhyggjur af lýðræðinu, það hefur áhyggjur af þingræðinu, það hefur áhyggjur vegna þess að hér er of langt gengið. Með þessu frv. er of langt gengið, frú forseti. Þessar áhyggjur endurspeglast m.a. í ályktunum félaga stjórnarflokkanna, Sjálfstfl. og Framsfl., sem sagt hefur verið frá í fjölmiðlum. Félag sjálfstæðismanna í Hlíða- og Holtahverfi í Reykjavík ályktaði í fyrradag, held ég, og bað forustu flokks síns að staldra við og fresta umfjöllun um þetta mikilvæga mál og leyfa landsfundi Sjálfstfl. að fjalla um það áður en lengra væri haldið. Ég býst við því, frú forseti, að það sé vegna þess að þessir sjálfstæðismenn hafi áhyggjur af því að flokkurinn og forusta hans séu á rangri leið í málinu, það hlýtur að blasa við. Framsóknarfélagið í mínum heimabæ, Garðabæ, og í Bessastaðahreppi skorar einnig á þingflokk Framsfl. að fresta umfjöllun um málið og gefa betri tíma og nota sumarið til að ná breiðari samstöðu um málið í samfélaginu.

[11:15]

Ég tel að full ástæða sé til þess að taka tillit til þessara ábendinga beggja félaganna. Ég veit það líka, vegna þess að ég þekki nokkuð til þess hvernig flokkarnir eru uppbyggðir að það þarf nokkuð mikið til að hinum venjulega félagsmanni í Framsfl. og Sjálfstfl. sé svo nóg boðin framganga forustunnar að það sé blásið til fundar og ályktað gegn forustunni. Það hefur a.m.k. ekki tíðkast mjög lengi í Sjálfstfl., frú forseti.

Það er því ljóst að það er víða ólga úti í samfélaginu og hún er ekki síst meðal þeirra sem stutt hafa ríkisstjórnina og sem stutt hafa þá flokka sem verið hafa við völd hér á landi síðustu níu ár, vegna þess að stuðningsmenn þeirra sjá vel að þessir flokkar eru á rangri leið, þeir eru á kolrangri leið í málinu. Þeir stýrast af einhverju allt öðru en umhyggju fyrir almannahagsmunum og lýðræðinu og fjölbreytni á fjölmiðlamarkaði. Hér býr eitthvað allt annað undir og það fengum við staðfest í ræðu hv. þm. Hjálmars Árnasonar í gærkvöldi. Þetta frv. til laga beinist gegn einu fyrirtæki, það er mónískt og sem slíkt þó að ég þekki lítið til laga veit ég þó að það er óeðlilegur grunnur lagasetningar. Lagasetning á að vera almenn, hún á að gæta meðalhófs og hún á að hafa almannahagsmuni að leiðarljósi.

Það er þrennt sem stendur upp úr sem hefur auðvitað komið fram ítarlega í málflutningi stjórnarandstöðunnar í málinu og ber að hafa mestar áhyggjur af í umfjöllun þess á hinu háa Alþingi. Í fyrsta lagi að frv. fari í bága við stjórnarskrá Íslands, þó nokkur ákvæði hennar. Í öðru lagi að það samræmist e.t.v. ekki reglum EES-réttar. Og í þriðja lagi að meðalhófsreglunnar sé ekki gætt við samningu þess.

Um þessi þrjú atriði hefur hið háa Alþingi og þær nefndir sem um málið hafa fjallað fengið margar vel rökstuddar ábendingar, greinargerðir, umsagnir og bréf um að of langt sé gengið hvað þau þrjú atriði varðar.

Ég hef hér undir höndum álit frá prófessor Sigurði Líndal, Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á útvarpslögum, sem hefur líklega verið afhent allshn., og er dags. 7. maí 2004. Í IV. kafla þessa álits stendur, með leyfi forseta:

,,Hér koma fyrst til athugunar ákvæði 1. gr. a-b [í frv.]. Eins og þegar hefur verið rakið fela þau í sér að mjög er þrengt að fjárhagslegu sjálfstæði fjölmiðlafyrirtækja, þar sem þeim eru sett veruleg takmörk að afla áhættufjár. Þá vakna spurningar um það hvort slíkt reisi ekki tjáningarfrelsi skorður og kunni að fara í bága við 73. gr. stjórnarskrárinnar, einkum 3. mgr. sem hljóðar svo:

,,Tjáningarfrelsi má aðeins setja skorður með lögum í þágu allsherjarreglu eða öryggis ríkisins, til verndar heilsu eða siðgæði manna eða vegna réttinda eða mannorðs annarra, enda teljist þær nauðsynlegar og samrýmist lýðræðishefðum.``

Í öllum mannréttindaskrám er lögð mikil áhersla á vernd tjáningarfrelsis, þannig að allar takmarkanir ber að túlka þröngt og gjalda varhuga við hverju einu sem setur því skorður, þar á meðal fjárhagslegar.``

Prófessor Sigurður Líndal heldur áfram, með leyfi forseta:

,,Einnig kemur til álita hvort ekki sé með ákvæðum frumvarpsins þrengt að atvinnufrelsi umfram það sem heimilað er í 75. gr. stjórnarskrárinnar, þar sem segir:

,,Öllum er frjálst að stunda þá atvinnu sem þeir kjósa. Þessu frelsi má þó setja skorður með lögum, enda krefjist almannahagsmunir þess.``

Hér eru settar svo miklar hömlur á atvinnustarfsemi manna á sviði fjölmiðlunar að mjög tvísýnt er að þær samrýmist ákvæði greinarinnar.``

Að lokum, frú forseti, segir prófessor Sigurður Líndal, með leyfi forseta:

,,Hér má einnig huga að 72. gr. [stjórnarskrárinnar] um friðhelgi eignarréttar þar sem lagðar eru víðtækar hömlur á rétt manna til að ráðstafa eignum sínum, sem er ein meginheimild eignarréttarins.

Þetta er nauðsynlegt að skoða vandlega áður en frumvarpið verður afgreitt.``

Í ljósi þessarar umsagnar, frú forseti, má skoða þær umræður sem hér hafa farið fram í upphafi hvers fundar frá því að málið var tekið á dagskrá hins háa Alþingis, um störf þingsins og fundarstjórn forseta, um afgreiðslu nefndanna þriggja sem um þetta mál hafa fjallað. Sú umræða hefur ekki farið fram að ástæðulausu. Sú umræða hefur farið fram vegna þess að málið er vanreifað í nefndunum og álit meiri hluta allshn. ber þess skýr merki að ekki hefur verið tekið fullt tillit til ábendinga sem þessara um að frv. fari að öllum líkindum í bága við stjórnarskrá Íslands í nokkrum atriðum, frú forseti, ekki bara einu, heldur nokkrum, um tjáningarfrelsi, atvinnufrelsi, friðhelgi eignarréttar. En það varðar meiri hlutann á hinu háa Alþingi engu um. Þar gildir bara gamla viðkvæðið: Ja, þeir geta þá bara farið í mál, dómstólar munu fjalla um það, e.t.v., kannski einhvern tíma í framtíðinni.

Þetta eru einfaldlega ekki boðleg vinnubrögð, frú forseti, og þau standast engan veginn lýðræðislegar hefðir og bera vott um virðingarleysi fyrir því kerfi, þeim hefðum sem við höfum komið okkur upp á Íslandi og stöndum flestöll í þeirri trú að við búum í lýðræðissamfélagi. Þessi vinnubrögð bera ekki vott um það, frú forseti. Hér er of langt gengið.

Þá hefur einnig verið um það fjallað að þær breytingartillögur sem lagðar hafa verið fram af meiri hluta allshn. við frv. breyti engu um þau grundvallaratriði er lögð eru fram í frv. Þar eru gengin hænufet, eins og einn maður orðaði það, og þetta eru málamyndatillögur, frú forseti, og þær breyta engu um eðli frv. Eðli þess er enn hið sama, það er hið móníska eðli frv. sem gengur gegn einu fyrirtæki eins og staðfest hefur verið af hv. þm. Hjálmari Árnasyni.

Annað atriði sem ég vil minnast á og taldi upp áðan er hvort frv. samræmist reglum í EES-rétti. Evrópuréttarstofnun Háskólans í Reykjavík skilaði inn stuttri umsögn til allshn. um málið og þar segir, með leyfi forseta:

,,Ljóst er að þessi tímarammi`` --- þ.e. þeir örfáu dagar sem Evrópuréttarstofnunin fékk til umsagnar --- ,,hefur sniðið Evrópuréttarstofnun HR mjög þröngan stakk og að á umræddum tíma var ekki hægt að gera viðeigandi efnisréttarlegum álitaefnum Evrópu- og EES-réttarins forsvaranleg skil. Þannig hefur Evrópuréttarstofnunin nálgast málið með þeim hætti að skoða á hvaða reglur Evrópuréttarins gæti helst reynt í samhengi framkomins frumvarps. Þær reglur sem helst koma til álita eru eftirfarandi:`` --- og svo eru þær taldar upp:

Reglur ESB- og EES-réttar um staðfesturétt. Reglur þess réttar um þjónustufrelsi. Meginreglur ESB- og EES-réttarins, um tjáningarfrelsi, um eignarrétt, um lögfræðilega vissu og afturvirkni. Og að síðustu afleidd löggjöf ESB sem er hluti EES-réttarins, sem varðar tilskipanir er varða útvarpsleyfi og um samræmingu útsendingarstarfsemi sjónvarps.

,,Niðurstaða könnunar Evrópuréttarstofnunar HR á þeim réttarreglum sem tilgreindar eru hér að ofan er sú að ekki sé hægt að slá því föstu að frumvarp það sem fyrir liggur samræmist að öllu leyti ofangreindum reglum.``

Frú forseti, ,,að ekki sé hægt að slá því föstu að frumvarp það sem fyrir liggur samræmist að öllu leyti ofangreindum reglum``. Hér er enn önnur vísbendingin um að í þessu frv. sé of langt gengið, allt of langt gengið við reglusetningu sem samræmist ekki þeim skuldbindingum sem við höfum axlað með öðrum hætti og hér í þessu dæmi í EES-rétti. Hvernig stendur á því, frú forseti, að þetta er ekki athugað til fullnustu? Hvernig stendur á því að málinu er ekki frestað og þessi mál skoðuð ofan í kjölinn, krufin til mergjar?

Það er ekki vilji meiri hlutans. Vilji meiri hlutans er að frv., að hið móníska frv., svokallað fjölmiðlafrumvarp hæstv. forsrh., verði að lögum sem fyrst og ekki annað að heyra en það verði nauðsynlega að gerast nú á 130. löggjafarþingi, enda verði sá hinn sami maður líklega eða að öllum líkindum ekki lengur forsrh. á því 131. Það verður ekki annað séð en að flýtirinn og asinn sé þess vegna.

Í þriðja lagi, frú forseti, vil ég gera að umtalsefni meðalhófsregluna svokölluðu, sem er annað lagalegt hugtak sem sú sem hér stendur hefur ekki sérþekkingu á. En ég hef leitað mér heimilda um það efni og í grein sem birtist í Lögbergi, sem er rit Lagastofnunar Háskóla Íslands, á síðasta ári eftir prófessor Björgu Thorarensen og ber yfirskriftina Áhrif meðalhófsreglu við skýringu stjórnarskrárákvæða, kemur ýmislegt fróðlegt fram um meðalhófsregluna við lagasetningu hér á landi og í íslensku réttarfari. Ég vil, með leyfi forseta, lesa upp hvert er markmið meðalhófsreglunnar. Í III. kafla greinarinnar eftir Björgu Thorarensen stendur:

,,Meðalhófsreglan á sér langa sögu sem ein af grundvallarreglum stjórnsýsluréttar í ríkjum sem byggja á þeirri réttarhefð að opinberu valdi skuli setja skorður þegar teknar eru ákvarðanir sem takmarka réttindi einstaklinga. Fela þessi lagaviðhorf í sér að þegar efni stjórnvaldsákvörðunar er að einhverju leyti komið undir mati stjórnvalds er því skylt að vega og meta hagsmuni sem fara ekki saman og að fara í athöfnum sínum og ákvörðunum tiltekinn meðalveg með tilliti til þeirra andstæðu hagsmuna sem í hlut eiga og gæta hófs í meðferð valds síns. Segja má að heiti hugtaksins á nokkrum erlendum málum (d. proportionalitetsprincippet, e. principal of proportionality) vísi einnig til þess að aðgerðir sem takmarki réttindi manna skuli vera í tilteknu hlutfalli með vísan til þess markmiðs sem þær stefna að.``

[11:30]

Hér eru grundvallaratriði á ferðinni, frú forseti, grundvallaratriði í íslensku réttarkerfi og í hinu íslenska réttarríki. Í greininni er bent á að fyrir gildistöku stjórnsýslulaganna árið 1993, fyrir 11 árum, hafi meðalhófsreglan ekki verið bundin í lög með almennum hætti fremur en aðrar meginreglur stjórnsýsluréttar en hún hafi reyndar um langt skeið verið lögfest á ýmsum réttarsviðum.

Stjórnvöld hér á landi hafa þó haft rúman áratug til þess að tileinka sér meðalhófsregluna við lagasetningu og það hugarfar sem býr að baki hennar. Það virðist þó algjörlega hafa gleymst við samningu þess frv. sem hér um ræðir. Ég leyfi mér að vísa aftur til greinar Bjargar Thorarensen, með leyfi forseta:

,,Stjórnvald skal því aðeins taka íþyngjandi ákvörðun þegar lögmætu markmiði, sem að er stefnt, verður ekki náð með öðru og vægara móti. Skal þess þá gætt að ekki sé farið strangar í sakirnar en nauðsyn ber til.``

Ég vitna áfram í greinina, frú forseti, með leyfi forseta:

,,Litið hefur verið svo á að í meðalhófsreglu stjórnsýsluréttarins felist þrjú skilyrði sem öll verða að vera uppfyllt og segja má að séu stigskipt. Í fyrsta lagi er sú krafa gerð til stjórnvalds að efni ákvörðunarinnar sé til þess fallið að ná því markmiði sem að er stefnt. Í öðru lagi að velja skuli það úrræði sem vægast er þar sem kostur er á fleiri úrræðum til að ná sama markmiði. Í þriðja lagi að gætt sé hófs í beitingu þess úrræðis sem hefur verið valið, eða með öðrum orðum að reynt sé að beita því með sem vægusta móti.``

Frú forseti. Ekki verður annað séð fyrir leikmann a.m.k. en að það frv. sem hér um ræðir þverbrjóti meðalhófsreglu íslensks stjórnsýsluréttar og að hér sé gengið gegn þeim skilgreiningum og þeim markmiðum sem hún setur og í raun þeim leiðbeiningum sem meðalhófsreglan er við lagasetningu. Ég leyfi mér að vitna aftur til þessarar greinar, frú forseti.

,,Stjórnvald skal því aðeins taka íþyngjandi ákvörðun þegar lögmætu markmiði, sem að er stefnt, verður ekki náð með öðru og vægara móti. Skal þess þá gætt að ekki sé farið strangar í sakirnar en nauðsyn ber til.``

Nú liggur fyrir, frú forseti, að markmið þessara laga er ekki hið almenna markmið sem talað hefur verið um og látið í veðri vaka, nema síður sé. Því má draga þá ályktun að það markmið sé ekki lögmætt, enda stefnt að einu fyrirtæki eins og hv. þm. Hjálmar Árnason staðfesti í ræðu sinni í gærkvöldi.

Að auki er greinilegt og hefur komið skýrt fram í ræðum þingmanna stjórnarandstöðunnar við 1. umr. og nú við 2. umr. málsins að hér er ekki verið að grípa til vægra úrræða eða vægustu úrræða sem völ er á. Þau úrræði, frú forseti, liggja fyrir í tillögum Samf. Það eru væg úrræði þar sem meðalhófs er gætt um ritstjórnarlegt sjálfstæði, um að tryggja ritstjórnarlegt sjálfstæði og gegnsæi í eignarhaldi á fjölmiðlum. Það eru úrræði sem eru í takt við meðalhófsregluna. Ég leyfi mér að halda því fram að þau séu líka í takt við stjórnarskrá landsins. Það liggur hins vegar fyrir að í því frv. sem hér er til umfjöllunar er þessa meðalhófs ekki gætt og þá hlýtur maður að spyrja sig, frú forseti: Hvernig stendur á því að stjórnvöld ana af stað í þessa vegferð vitandi að það leikur vafi á ýmsum grundvallaratriðum í lagasetningunni? Færustu lögspekingar landsins segja hana brjóta í bága við stjórnarskrána að öllum líkindum. Þeir segja að hún samræmist að öllum líkindum ekki reglum í EES-rétti í þó nokkuð mörgum atriðum, og það liggur algjörlega fyrir að við samningu þessa lagafrv. hefur meðalhófsreglan ekki verið höfð að leiðarljósi. Hér er einfaldlega allt of langt gengið, frú forseti.

Ég vil leyfa mér í lok máls míns, frú forseti, að vitna til míns gamla læriföður, prófessors Þorbjörns Broddasonar, sem segir í umsögn sinni um frv. sem skilað var til allshn. --- hér vitnar Þorbjörn Broddason til fundar sem haldinn var hér í borg 5. maí sl. þar sem verið var að ræða fyrirhugaða löggjöf og fengnir erlendir sérfræðingar til að ræða hana:

,,... að hin fyrirhugaða löggjöf sem hér er til umræðu muni skapa Íslendingum algera sérstöðu meðal þjóða heims nái hún fram að ganga.`` --- Segir prófessor Þorbjörn Broddason þegar hann vitnar til eins sérfræðingsins sem talaði á þessum fundi. --- ,,Satt mun það vera, en Abrams`` --- sérfræðingurinn sem talaði --- ,,láðist hins vegar að geta þess (enda ekki inntur eftir því) að núverandi útvarpslöggjöf (eða framkvæmd hennar) skapar Íslendingum líklega jafnmikla sérstöðu með þeim losarabrag sem nú viðgengst.``

Hér komum við að öðru kjarnaatriði í málinu og atriði sem farið hefur verið ítarlega yfir, m.a. af hv. þm. Einari Karli Haraldssyni. Það er í raun þau lausatök og sá losarabragur sem hefur verið á framkvæmd útvarpslaganna hingað til, ofan í skúffu hjá framkvæmdastjóra Sjálfstfl. með nefnd sem hittist sjaldan og veiting útvarpsleyfa greinilega engum skriflegum skilyrðum háð eða engum reglum háð sem hægt er að nálgast fyrir fram og annað slíkt. Það er vert að hafa þessa ábendingu Þorbjörns Broddasonar í huga og hann bætir við, með leyfi forseta:

,,Með samþykkt frumvarpsins færumst við því öfganna á milli.`` Þ.e. frá algjörum losarabrag á fjölmiðlasviðinu yfir í þvílíka ofstjórnun að svo langt er gengið að samþykkt frv. gæti hreinlega riðið hinum einkarekna útvarpsmarkaði hér á landi að fullu.

Það segir sig sjálft, frú forseti, að hér er ekki gætt meðalhófs, ekki með neinum hætti.

Ýmsir hafa verið kallaðir til og nefndir í umræðunni allt frá því að við hófum umræðu á hinu háa Alþingi um fjölmiðlaskýrslu ríkisstjórnarinnar. Þá fór ráðherra menntamála mikinn og hefur reyndar gert áfram í umræðunni. Í blaðagrein sem Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, hv. þm. og hæstv. ráðherra, skrifaði með yfirskriftinni ,,Erum við sammála Murdoch?`` nefnir hún til sögunnar Rupert nokkurn Murdoch, sem nefndur hefur verið hér í umræðunni af ýmsum ástæðum, ástralskur fjölmiðlakóngur sem hefur ítök í fjölmiðlum víða um heim. En á það hefur verið bent að stjórnarliðarnir hafa í raun búið svo um hnútana í frv., á það benti hv. þm. Jóhann Ársælsson m.a. í ræðu sinni, að þeir hafa búið til sérstakt Murdoch-ákvæði. Ég er ekki viss um að þetta ágæta fólk hafi gert sér grein fyrir þessu eins og það hefur rætt um Rupert Murdoch og hlutverk hans í fjölmiðlaheiminum. Það er nefnilega ákvæði um það að einn maður, einn milljóner, getur svo gott sem safnað til sín ljósvakamiðlum, eignast þá alla. Þetta dæmi, frú forseti, fyrir utan að vera náttúrlega grátbroslegt sýnir það líka svo vel hversu illa frv. er samið og hversu blindaðir þeir sem setið hafa yfir samningu þess hafa verið af annarlegum tilgangi þess. Þess vegna, virðist vera, hefur þeim sést yfir algjört grundvallaratriði í málinu og færa hér fyrir hið háa Alþingi alveg séríslenskt Murdoch-ákvæði. Ef málið væri ekki svona grafalvarlegt, frú forseti, þá væri þetta náttúrlega bara fyndið.

Síðasta dæmið mitt af því hversu langt er gengið, ekki bara í ákvæðum frv. heldur í umfjöllun um það og hvernig það hefur verið varið af stuðningsmönnum þess, hvar sem þeir finnast í samfélaginu, hvort þeir eru hér innan búðar eða annars staðar, er leiðari Morgunblaðsins frá 29. apríl þessa árs sem ber yfirskriftina ,,Hvers vegna vill vopnaframleiðandi eiga fjölmiðil?``

Hæstv. forseti. Ég get verið algjörlega sammála leiðarahöfundi Morgunblaðsins um að það er alveg út í hött að vopnaframleiðendur eigi fjölmiðil. Það blasir við hverjum manni. En við erum að setja íslenska löggjöf fyrir íslenskt samfélag. Síðast þegar ég vissi, frú forseti, störfuðu ekki vopnaframleiðendur á Íslandi. Kannski hefur það breyst. Kannski er það eitthvað nýtt í atvinnusköpun ríkisstjórnarinnar að búa hér til aðstæður fyrir vopnaframleiðslu. Það væri þá eftir öðru, frú forseti. Það er með öllu óforsvaranlegt að beita slíkum rökum í þessu máli, frú forseti. Það er ekki málefnalegt og það er ósköp einfaldlega allt of langt gengið. Fólki er misboðið.

Það er þó huggun harmi gegn, frú forseti, að eigendur og stjórn þess blaðs er birti þennan leiðara eru á allt öðru máli en höfundur hans. Í umsögn Árvakurs er send var allshn. segir, með leyfi forseta:

,,Stjórnin telur hins vegar fram komið lagafrumvarp ganga of langt og fela í sér óþarflega röskun á starfsumhverfi fjölmiðlafyrirtækja í ljósvakamiðlun.``

Í sjálfu sér er hér saman komið í einni setningu allt sem segja þarf um frv. með yfirveguðum hætti. Hér er allt of langt gengið, frú forseti. Hér hafa menn farið af stað, blindaðir af annarlegum tilgangi, í þeim tilgangi að setja lög sem eru mónísk í eðli sínu, brjóta líklegast í bága við nokkur ákvæði stjórnarskrár Íslands, samræmast líklegast ekki EES-rétti og eru ekki í neinu samræmi við meðalhófsreglu stjórnsýsluréttarins. Því verður maður að spyrja að lokum, frú forseti: Hvað ræður í raun þessari ferð? Hvernig stendur á því að stjórnarliðar, hvort heldur það eru þingmenn Sjálfstfl. eða þingmenn Framsfl., taka þátt í þeirri vegferð? Hvernig stendur á því að annars vel gefnir og ábyrgir þingmenn leggjast svo lágt að taka þátt í þeim leiðangri, frú forseti? Því hefur ekki verið svarað, og þeir örfáu stjórnarliðar sem hér hafa talað hafa ekki fært nein haldbær rök fyrir því hvernig standi á því að þetta fólk geti stutt frv. Það eina sem hefur þó komið í ljós og ber að þakka fyrir enn og aftur, frú forseti, er að hv. þm. Hjálmar Árnason staðfesti það hér í gærkvöldi að frv. er beint gegn einu fyrirtæki.