Útvarpslög og samkeppnislög

Fimmtudaginn 13. maí 2004, kl. 11:45:43 (8092)

2004-05-13 11:45:43# 130. lþ. 114.1 fundur 974. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum) frv. 48/2004, ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 114. fundur, 130. lþ.

[11:45]

Ögmundur Jónasson:

Hæstv. forseti. Mig langar til í upphafi máls míns að gera grein fyrir grundvallarafstöðu minni til málsins. Hún er sú að mér finnst eðlilegt að við tryggjum með lögum að eignarhald og vald yfir fjölmiðlum safnist ekki á fáar hendur, að ekki sé minnst á eina hönd, og gildir einu hvernig sú hönd er á litinn, rauð, blá, græn eða brún. Vald yfir fjölmiðlum skiptir máli, eignarhald á fjölmiðlum skiptir máli.

Ég verð líka að segja að mér finnst að við eigum að fara svolítið varlega í sakirnar þegar við kveðum upp úr um að löggjöf sem tekur á einokun --- látum málið núna og aðstæður sem nú eru uppi liggja á milli hluta --- að undir öllum kringumstæðum sé rangt að beina slíkri löggjöf gegn tilteknum fyrirtækjum. Einokunarlöggjöf er yfirleitt sett vegna þess að völdin og eignarhaldið er að safnast á fáar hendur. Má í því sambandi vísa til Microsoft í tölvugeiranum í Bandaríkjunum svo dæmi sé tekið. Ég vil að það komi fram að mér finnst eðlilegt að þingið taki lagasmíð af þessu tagi til umfjöllunar. Það er ekki þar með sagt að ég sé að leggja blessun mína yfir þetta frv. Fjarri því. Þetta er svo gallað frv. og svo vanreifað að það er með öllu ótækt að taka það til afgreiðslu nú í vor og reyndar held ég að það sé ekki hægt að lappa upp á frv., það er svo gallað.

Þrátt fyrir þessa afstöðu mína vil ég að það komi líka fram að þótt ég vilji setja skorður við eignarhaldi vil ég jafnframt fara gætilega í sakirnar hvað varðar þau fjölmiðlafyrirtæki, þá fjölmiðla sem nú eru starfræktir í landinu. Þar erum við að tala um stóra vinnustaði. Við erum að tala um vinnustaði sem hafa tæplega 700 manns í vinnu, og þá er ég að vísa til fjölmiðlanna undir regnhlíf Norðurljósa. Við höfum, þingmenn, verið að fá bréf frá starfsmönnum þessara fyrirtækja, við höfum verið að fá ályktanir frá samtökum þeirra, við höfum verið að hlusta á varnaðarorð frá aðstandendum fyrirtækjanna, eigendum, og ég vil taka þau alvarlega. Ég vil taka öll þessi varnaðarorð alvarlega og allar þær óskir sem settar eru fram við okkur um að við stígum gætilega til jarðar. Við eigum að hlusta á það.

Það sem ég held að sé kannski erfiðast fyrir þetta fólk að kyngja eru viðbrögð ríkisstjórnarinnar við þessum eðlilegu óskum. Viðbrögðin eru á þá lund að verið sé að gera þetta, að verið sé að hraða málsmeðferð fyrir fólkið sjálft. Það er verið að gera þetta allt fyrir fólkið. Og hvernig? Í fyrsta lagi er sagt að það þurfi nauðsynlega að eyða óvissu, þess vegna þoli málið ekki bið fram á haustið. Í öðru lagi, og það hlýtur nú að flokkast undir óskammfeilni, er sagt að menn séu að slá skjaldborg um lýðræðið.

Örfá orð um þessi atriði. Óvissu verður ekki eytt með þessu frv., það er síður en svo. Það sem hefur verið að koma fram við vinnslu á málinu í þingnefndum er að óvissan fer vaxandi. Því er haldið fram af Samtökum banka og verðbréfafyrirtækja að nái frv. fram að ganga verði ekki hægt að skrá Norðurljós í Kauphöllinni. Við höfum fengið gagnstæð sjónarmið í efh.- og viðskn., úr nefndinni. Þarna ríkir óvissa. Það ríkir óvissa um hvað verður um skuldir fyrirtækisins og þessara fyrirtækja sem nema 5,7 milljörðum kr., þar af eru 2 milljarðar fjármagn sem lífeyrissjóðirnir eiga. Kemur þetta til með að gjaldfalla? Menn spyrja þessara spurninga. Þarna er óvissa sem ekki verður eytt með samþykkt þessara laga, hún verður aukin.

Þá er komið að hinu, að slá skjaldborg um lýðræðið. Þar kann að vera snertiflötur til langs tíma litið við það sem ég sagði í upphafi, að það er spurning um lýðræði eða snertir einn af grunnþáttum í lýðræðisþjóðfélagi hvernig fyrirkomulagi á fjölmiðlamarkaði er háttað til langs tíma litið. En hér er ekki staðið lýðræðislega að verki, nema síður sé. Lýðræði snýst nefnilega ekki um það eitt að kjósa fulltrúa á þing eða í bæjarstjórnir og taka ákvarðanir í krafti meirihlutavalds. Lýðræði er vönduð umræða sem er opin og allir eiga aðkomu að. Lýðræði er að hlusta á vel grunduð og sanngjörn sjónarmið sem við erum að fá hér í hendur daglega. Það er lýðræði.

Umræðan í gær var að mörgu leyti mjög fróðleg. Mér fannst ágæt ábendingin frá formanni þingflokks Framsfl., Hjálmari Árnasyni, að við skyldum hafa í huga það sem hann kallaði Berlusconi-ástand. Hann vísaði til þess að á Ítalíu hefði átt sér stað mikil samþjöppun á fjölmiðlamarkaðnum og að einn maður, Berlusconi, ætti stóra hluti og í sumum tilvikum ráðandi í fjölmiðlafyrirtækjum. En hv. þm. Hjálmar Árnason gleymdi einu. Berlusconi er líka forsætisráðherra Ítalíu. Og við skulum þá halda áfram með þessa samlíkingu og hafa Berlusconi-ástandið í huga. Berlusconi hefur nefnilega verið sakaður um að beita valdi sínu á ítalska þjóðþinginu og viti menn, í ítölskum fjölmiðlum sem reknir eru á vegum ríkisins. Það mun tíðkast að honum sé boðið í það sem kallað hefur verið drottningarviðtöl þar sem Berlusconi fær að tjá sig óhindrað og baða sig í kastljósum sjónvarpsstúdíóanna.

Þó að ég leggi áherslu á eignarhald, það skiptir máli, þá er eitt hugtak ofar því, það er vald. Ástæðan fyrir því að ég horfi til eignarhaldsins er að það veitir völd. En pólitíkin getur líka veitt mönnum völd og ég hef stundum hugsað til þess hvort við höfum verið nógu dugleg sem berum hag Ríkisútvarpsins og almannaútvarps sérstaklega fyrir brjósti að halda þeirri stofnun við efnið og taka kannski svolítið betri og kröftugri umræðu um, ja, drottningarviðtöl og aðkomu stjórnarherranna að umræðu um málefni dagsins, um málefni líðandi stundar. Ég ætla því að taka hv. þm. Hjálmar Árnason, formann þingflokks Framsfl., á orðinu og hvetja menn til að hafa Berlusconi-ástandið í huga þegar við hyggjum að stöðu fjölmiðlanna í landinu. (Gripið fram í: Og í framtíðinni líka.) Og í framtíðinni.

Hv. þm. Hjálmar Árnason sagði, og ég hef heyrt það úr munni fleiri stjórnarsinna í þinginu, þar á meðal formanns þingflokks Sjálfstfl., að hér fari fram geysilega mikil og vönduð og góð umræða, það geti enginn kvartað yfir því að þetta mál verði vanreifað. Ég skal taka undir það að einu leyti að þær ræður sem hér hafa verið fluttar hafa að mínum dómi margar verið mjög góðar og upplýsandi. Ég var annaðhvort í þingsalnum eða sat á skrifstofu minni og hlýddi á þessar ræður og þau sjónarmið og þær upplýsingar sem þar komu fram.

Það var fróðlegt að hlusta á samanburðarfræði Einars Karl Haraldssonar þar sem hann bar saman þær breytingar sem höfðu átt sér stað frá þeim tíma sem hann var annars vegar ritstjóri Þjóðviljans og hins vegar ritstjóri Fréttablaðsins. Hann komst að þeirri niðurstöðu að menn væru faglegri og málefnalegri nú en áður. Ég er honum reyndar ósammála. Mér fannst miklu safaríkari fréttamennska hér fyrr á tíð og sakna hennar stórlega þegar flokksblöðin voru upp á sitt besta. Ekki þannig að það er margt ágætt gert í fjölmiðlum okkar í dag þó að ég sakni þess stundum að þeir séu ekki nægilega kröftugir.

En það er eitt sem formenn þingflokka stjórnarmeirihlutans gleyma þegar þeir segja að hér fari fram mikil umræða. Þótt hún kunni að vera ágæt og málefnaleg þarf hún tíma, vegna þess að á skömmum tíma koma ekki öll sjónarmið fram. Menn eru enn að reifa málin, menn eru enn að finna nýja vinkla og reyna að gera sér grein fyrir afleiðingum og hún þarf einfaldlega tíma.

Frá því að ég kom inn á Alþingi árið 1995 hefur verið tekist á um mörg hitamál í þingsölum. Ég minnist Símans, hlutafélagavæðingar Símans og bankanna, Kárahnjúkamálsins, gagnagrunnsins, og fleiri mál mætti telja. Stjórnvöld litu svo á í öllum tilvikum að umræðan væri í rauninni af hinu illa, hún væri í besta falli ill nauðsyn. Okkur sárnaði það oft í stjórnarandstöðunni hve miklar brotalamir voru í umræðunni og margt sagt og staðhæft sem var villandi og reyndist rangt, eins og varðandi Landssímann. Þá var sagt að verið væri að breyta rekstrarfyrirkomulagi, ekki stæði til að selja. Það vissu allir að það var ósatt, að þetta væri aðeins fyrsta skrefið. Sama gilti um bankana. Og Kárahnjúkar, sú virkjun átti að vera geysilega arðsöm. Núna tala forsvarsmenn Landsvirkjunar um að setja beri Landsvirkjun á markað eftir einhvern tiltekinn árafjölda. Lífeyrissjóðirnir kunni að koma að kaupunum. Það verði hins vegar ekki gert fyrr en Kárahnjúkadæmið er uppgert. Hvers vegna? Vegna þess að það er óarðbært. Nú kemur það í ljós. Þannig hefur það verið með margt af því sem við bentum á við þá umræðu, að það hefur hreinlega komið á daginn. En í öllum þeim tilvikum sem ég nefndi fór umræðan fram á löngum tíma. Það er mergurinn málsins. Sjónarmiðin komu fram vegna þess hve löng umræðan var, hve langan tíma hún spannaði.

[12:00]

Mér kemur í hug frv. sem kom fyrir þingið síðastliðið vor, um vatnsveitur, heimildir til sveitarfélaga að hlutafélagavæða vatnsveitur. Þetta var hitamál fyrir réttu ári. Samkomulag náðist á lokadögum þingsins um að taka það út úr umræðunni og setjast yfir það sumarlangt. Það var gert. Ég er ekkert sérstaklega ánægður með þá niðurstöðu sem varð. En hún er miklu betri en við blasti fyrir réttu ári. Hvers vegna? Menn gáfu sér tíma til að skoða málið og leita eftir því hvort samkomulagsgrundvöllur væri fyrir hendi.

Það er þetta sem við erum að leggja áherslu á í stjórnarandstöðunni. Það kunna að vera mismunandi áherslur í afstöðu okkar, einstaklingsbundin milli flokka að einhverju leyti, en í öllum höfuðdráttum erum við fullkomlega samstiga um afgreiðslu þessa máls, að við teljum ekki vera stætt á því að samþykkja eða ganga til atkvæðagreiðslu um frv. (Gripið fram í: Og þjóðin öll.) Og þjóðin öll, það eru í rauninni allir sammála þessu.

Síðast gerðist það í morgun að meiri hluti efh.- og viðskn. þingsins, ekki minni hlutinn, meiri hlutinn samþykkti álitsgerð sem send yrði til allshn. og vakin athygli á í þingsölum þar sem varað er við því að afgreiða málið í vor. Hvers vegna? Það stríði hugsanlega gegn stjórnarskrá landsins. Það séu svo mörg álitamál uppi að stórlega varhugavert muni reynast að afgreiða málið núna.

Hér segir í álitsgerð meiri hluta, og ég legg áherslu á meiri hluta, efh.- og viðskn. þingsins, með leyfi forseta:

,,Málið er augljóslega vanbúið og ekki tækt til afgreiðslu á þeim skamma tíma sem þinginu er ætlaður til að fjalla um frv. Þá er það alvarlegt umhugsunarefni að á fundum nefndarinnar voru lögð fram gögn sem benda til að hugsanlega stríði frv. gegn ýmsum ákvæðum stjórnarskrárinnar.``

Áfram segir, með leyfi forseta:

,,Við umfjöllun málsins upplýsti fyrirtækið Norðurljós að þrátt fyrir breytingartillögur sé líklegt að lögfesting frv. geti leitt til verulegra rekstrarerfiðleika fyrirtækisins og hugsanlega gjaldþrots. Atvinna fjölmargra starfsmanna í greininni er því sett í uppnám að ástæðulausu, þar sem hægt er að vinna gegn óæskilegum áhrifum samþjöppunar með öðrum og mildari hætti en lagt er til í frv. Enn fremur upplýstu Norðurljós að lífeyrissjóðir ættu veðlaus lán hjá fyrirtækinu ...``

Síðan er fjallað nánar um það en um er að ræða 2 milljarða í eigu sex lífeyrissjóða. Efh.- og viðskn. þingsins mun fara nánar í saumana á því máli á fundi í fyrramálið en þetta er að sjálfsögðu umhugsunarefni sem taka ber alvarlega. Síðan segir enn fremur, með leyfi forseta, í áliti meiri hluta efh.- og viðskn.:

,,Samtök banka og sparisjóða töldu að lögfesting frv. leiddi til þess að fyrirtæki á fjölmiðlamarkaði mundu að öllum líkindum ekki geta skráð sig hjá Kauphöllinni. Samtökin lýstu jafnframt þeirri skoðun að slík lög mundu leiða til að bankar og fjármálastofnanir gætu ekki lagt til tímabundna aukningu á eigið fé fjölmiðla sem augljóslega takmarkar verulega möguleika fjölmiðlafyrirtækja til að endurskipuleggja rekstur sinn á tímum erfiðleika. Í ljósi þess að rekstrarerfiðleikar hafa verið tíðir hjá fjölmiðlafyrirtækjum á síðustu árum má ætla að þetta feli í sér verulega skerðingu á starfsgrundvelli þeirra.

Sérstaka athygli vekur að Samkeppnisstofnun lýsti þeirri skoðun við nefndina að þrátt fyrir breytingartillögur stríddi frv. enn gegn markmiðum samkeppnislaga.

Meginniðurstaða umfjöllunar nefndarinnar er að mati meiri hlutans því sú, að málið sé vanbúið og vanreifað og þurfi augljóslega miklu víðtækari og ítarlegri skoðunar við. Með hliðsjón af ofangreindu er því lagt til að Alþingi fresti afgreiðslu frv., tíminn í sumar verði nýttur til að vinna málið betur og í nánara samráði við sérfræðinga, og það lagt að nýju fyrir Alþingi í haust.``

Þetta er úr álitsgerð meiri hluta efh.- og viðskn. sem samþykkt var í morgun og við hljótum að taka alvarlega tillit til.

Ég vil vekja athygli á því að þegar málið kom fyrst til umfjöllunar í efh.- og viðskn. var óskað eftir því að nefndin fengi rúman tíma til að skoða málið. Efh.- og viðskn. fékk málið til umfjöllunar frá allshn. þingsins og var ætlað að afgreiða álit samdægurs, á sama degi og nefndinni bárust upplýsingar um að hún ætti að tjá sig um efni frv. Þetta eru náttúrlega svo stórlega ámælisverð vinnubrögð að ekki tekur tali, enda voru menn gáttaðir. Þeir aðilar sem nefndin leitaði álits hjá voru voru fullkomlega gáttaðir á þessum vinnubrögðum.

Það er ekki á hverjum degi að sá sem hér stendur getur í einhverju tekið undir eitthvað sem kemur frá Verslunarráðinu eða Samtökum atvinnulífsins en það á nú við í þessu máli að því leyti að þeir aðilar vara við þessum vinnubrögðum. Verslunarráðið leggst mjög eindregið gegn því að frv. nái fram að ganga. Það er feitletrað hér í lokin á þriggja síðna plaggi frá Verslunarráði Íslands, með leyfi forseta:

,,Verslunarráð leggst gegn því að frumvarpið nái fram að ganga.``

Ég ætla ekki að þreyta menn á því að lesa úr umsögninni, það má íhuga það við síðari ræðu eða við 3. umr., en ég ætla að halda mig við aðalefni málsins að þessu sinni.

Samkeppnisstofnun sagði í álitsgerð sem hún sendi nefndinni, var áður búin að óska eftir að fá rúman tíma sem henni var neitað um. Á föstudegi lýsti hún því yfir að hún vildi fá a.m.k. til lokadags, á þriðjudag, ráðrúm til að reifa málið þó ekki væri nema á almennan hátt. Hún segir hér í sínu áliti, með leyfi forseta:

,,Vegna skamms frests til að skila umsögn hefur stofnunin ekki haft tök á að rannsaka ítarlega samkeppnislegar afleiðingar frv. ef það verður að lögum eða áhrifin á störf Samkeppnisstofnunar. Líta ber á eftirfarandi umsögn stofnunarinnar í því ljósi.``

Þetta hefur aftur komið fram á fundum með nefndinni að fulltrúar Samkeppnisstofnunar segja að það sé mjög óljóst hvernig hún eigi að bera sig að í eftirliti með framkvæmd laganna. Það hefur ítrekað komið fram í máli fulltrúa stofnunarinnar.

Í niðurlagi bréfs Samtaka banka og verðbréfafyrirtækja segir, með leyfi forseta:

,,Afdráttarlaus takmörkun á eignarhlut, eins og frumvarpið gerir ráð fyrir, mundi útiloka möguleika fjölmiðlafyrirtækis á slíkri aðkomu þeirrar lánastofnunar sem það er í viðskiptum við og þannig hugsanlega koma í veg fyrir að það geti fetað sig út úr erfiðleikabilum.`` --- Hér er vísað til þess hvort lánastofnanir geti tímabundið komi inn sem eignaraðili í fyrirtæki sem rambar á barmi gjaldþrots. Áfram segir, með leyfi forseta: ,,Slíkt gæti ekki einungis orðið fjölmiðlafyrirtækinu þungbært heldur einnig skaðað þá lánastofnun sem um ræðir. Því væri eðlilegt`` o.s.frv. --- Síðan er vikið að hugsanlegum breytingum.

Hér eru aftur varnaðarorð, ýmis álitamál uppi að áliti þessara aðila og eins og ég gat um áðan sagði fulltrúi samtakanna að hann teldi að Norðurljós gætu ekki skráð sig í Kauphöllinni ef frv. næði fram að ganga.

Samtök atvinnulífsins eru við sama heygarðshornið og oft áður og í samfloti með Verslunarráðinu, að þau telja þetta vafasamt en hnýta síðan sérstaklega í Ríkisútvarpið. Ég mun koma aðeins að því áður en ég lýk máli mínu hvernig samhengið í mínum huga er á milli þessa frv. og Ríkisútvarpsins og framtíðar þess. En það segir hér, með leyfi forseta, í niðurlagi álitsgerðar Samtaka atvinnulífsins:

,,Loks vilja samtökin undirstrika, þótt málefni RÚV séu ekki viðfangsefni þessa frumvarps, að brýnt er að jafna samkeppnisstöðu rekstraraðila á útvarpsmarkaðnum. Breytingar í þeim efnum eru forsenda heilbrigðs rekstrargrundvallar í útvarpsrekstri á Íslandi. Í þessu sambandi vísar SA í jákvæða umsögn sína um 337. mál, um breytingu á RÚV í hlutafélag.``

Ég er að reyna að rifja það upp hvaða mál þetta er en sennilega er hér um að ræða þingmannamál nokkurra þingmanna Sjálfstfl. sem leggja til að Ríkisútvarpið verði einkavætt og selt. Það er samhengi sem við skulum ekki gleyma.

Mér finnst í sjálfu sér fullkomlega eðlilegt að eigendur einkarekinna stöðva vilji jafna stöðu sína við það sem Ríkisútvarpið býr við, mér finnst það mjög eðlilegt. Ég hef hins vegar miklar efasemdir á slíku og hef margoft lýst því yfir, en ég vil að hinum gangi vel. Ég vil að einkareknum stöðvum gangi vel. Þess vegna gladdi það að vissu leyti hjarta mitt, og ég sagði það á prenti eða á vefsíðu minni, held ég hafi verið, þegar Norðurljósin breiddu úr sinni regnhlíf, vegna þess að ég hafði þá horft á, eins og aðrir landsmenn, hvern fjölmiðilinn á fætur öðrum ramba á barmi gjaldþrots, jafnvel fara í gjaldþrot, DV ekki alls fyrir löngu, Fréttablaðið, Stöð 2. Það kunna að vera ýmsar ástæður fyrir því, við vitum að eigendur Stöðvar 2 hafa í gegnum tíðina tekið formúur út úr því fyrirtæki. Við eigendaskipti hafa verið teknar mörg hundruð milljónir, jafnvel meira, út úr því fyrirtæki. Maður vonar aðeins að slíkir tímar séu liðnir en þetta hefur því miður gerst. En í ljósi þessa ástands á fjölmiðlamarkaðnum hugsaði ég sem svo hvort sá tími gæti verið að renna upp að þessir fjölmiðlar fengju bakhjarl sem dygði. Forsendan hjá mér er hins vegar að það mál verði hugsað alveg til enda og þá erum við komin að Ríkisútvarpinu því að þar sé ég mótvægið við markaðinn.

Hitt getur nefnilega alveg gerst ef vilji þingmanna Sjálfstfl. og landsfundar Sjálfstfl. um að einkavæða Ríkisútvarpið og setja það á markað nær fram að ganga, að eignaraðili á markaði komi höndum yfir alla fjölmiðla í landinu. Það fyndist mér ekki góð tilfinning og við slíkar aðstæður þyrfti að setja stranga löggjöf að mínu mati. Það er þess vegna sem ég hef alltaf sagt við þessa umræðu að ég vilji vita áður hvað menn hugsa sér um Ríkisútvarpið og framtíð þess. Það er hugsunin á bak við það sem ég hef sagt í þessu efni. Það gæti líka gerst. Morgunblaðið er ekkert eilíft frekar en annað.

[12:15]

Einhvern tíma var sagt að Mogginn væri kominn á matseðil hjá fjölmiðlarisanum nýja á einkamarkaði. Ekki fyndist mér það góður kostur, alls ekki. En við verðum að hugsa þessi mál til framtíðar.

Hér hefur enn eitt atriðið komið upp í umræðunni sem mér finnst vera vanreifað og menn hafi ekki skoðað. Menn spurðu: Gætu einstaklingar eignast fjölmiðlana? Gæti íslenskur Murdoch eignast fjölmiðlana á Íslandi? Já, frv. kæmi ekki í veg fyrir slíkt. Og þá finnst mér komið að kjarna máls í allri umræðunni. Ef menn væru spurðir í þessum sal og í þjóðfélaginu hvort þeir kysu fremur dreifða eignaraðild eða samanþjappaða er ég sannfærður um að allir segðu dreifða. En hvers vegna þá ekki að gera það? Hvers vegna stuðlum við ekki að dreifðri eignaraðild? Þá er svarað á móti: Það er enginn nógu burðugur fjármálaaðili sem getur gert það. Hvernig stendur á því? spyr maður þá. Jú, það er vegna þess að átt hefur sér stað slík samþjöppun á fjármagni í þjóðfélaginu gegnum kvótakerfið, gegnum einkavæðingu ríkisstofnana, að það eru aðeins örfáir aðilar með allt fjármagnið í landinu á sínum höndum. Þá spyr ég: Er það ekki vandinn? Er ekki hitt aðeins birtingarformið á djúpstæðari breytingum í íslensku samfélagi á liðnum árum? Og ég spyr aftur: Hvernig stendur á því að fulltrúar stjórnarflokkanna hafa ítrekað og aftur neitað að taka á þeim málum? Þeir hafa neitað að taka á kvótakerfinu. Þeir hafa neitað að stöðva einkavæðinguna eða jafnvel haga henni með þeim hætti að hún stuðli að dreifðri eignaraðild.

Hvers vegna voru ríkisbankarnir, sem ég var andvígur að yrðu yfirleitt seldir af því að ég taldi eðlilegt í okkar litla samfélagi að þeir væru notaðir, a.m.k. einn banki, sem kjölfesta í fjármálalífinu. En þegar ákvörðun hafði verið tekin um að selja þá hvers vegna voru þeir ekki seldir á markaði í litlum bitum? Hvers vegna var það látið gerast að Framsfl., því ég held að hann hafi verið gerandi í því máli, fékk óáreittur að setja í framkvæmd kenningu sína um nauðsyn kjölfestufjárfestis, að ákvörðun var tekin um að selja 45,6% hlut í Landsbanka og Búnaðarbanka? Kjölfestufjárfestar? Þeir lýstu því nú fljótlega yfir þessir miklu kjölfestufjárfestar að þeir ætluðu ekki að staldra við nema í svona tvö, þrjú ár í hæsta lagi, ég held að þeir hafi sagt tvö ár. Þetta var gert til þess að geta tryggt pólitískum vildarvinum aðkomu að kaupunum. Ég held að þarna sé á ferðinni eitt ljósasta og ljótasta dæmi um pólitíska spillingu þegar eignum þjóðarinnar er ráðstafað. Við munum öll síðan hvernig ráðslagið var. Upphaflega var talað um að selja þennan hlut á 11,3 milljarða kr. Síðan var farið að þjarka um verðið. Og viti menn, ef annar aðilinn náði árangri gerði hinn samsvarandi kröfu og fékk sínu framgengt. Hvers vegna? Þetta voru helmingaskipti.

Menn fóru þá, þessir nýju eignaraðilar í bönkunum, að bjóða skuldsettum fyrirtækjum niðurfellingu á lánum vegna þess að það fylgdi í kaupsamningnum að yrðu lán afskrifuð þá lækkaði kaupverðið. Þannig náðu menn niður um 700 millj. kr. Hin leiðin til að ná niður verðinu á bönkunum var sú að það var bundið í dollurum. Gengisbreytingar urðu þess valdandi að ríkissjóður varð af 1 milljarði. Menn náðu því verðinu niður um tæpa 2 milljarða kr.

Nú er fullyrt, ég held að það hafi verið fullyrt í blöðum í gær, að hlutur þessara kjölfestufjárfesta í Landsbankanum sem keyptur var á 11,3 milljarða, en ekki borgaður út náttúrlega strax því að það var beðið eftir því, væri kominn í 25 milljarða. Það er nú bara sæmilegt. Menn eru að kaupa banka og klára það á einu til tveimur árum. Þegar almenningur kaupir íbúð er talið eðlilegt að það gerist á svona 42, 43 árum, er það ekki? Þetta eru vildarvinirnir.

Þá komum við aftur að grundvallarspurningunni um einstaklingana og fjármagnið ef við horfum aðeins undir yfirborðið. Þetta er vandinn. Hitt er bara birtingarform á þeim vanda vegna þess að ég ítreka það að ég held að allir séu á því máli að æskilegast væri að fá dreifða eignaraðild. Reyndar held ég að það þurfi líka að skoða það í þessari umræðu þegar menn eru að tala um áhrif sem menn geti beitt í fjölmiðlum, að ég held að kannski sé stóra málið þar fjárhagslegur grundvöllur fyrirtækisins. Ég held að starfsmenn t.d. á fréttastofu á fjölmiðli sem stendur mjög veikt og rambar stöðugt á barmi gjaldþrots eigi í miklu meiri erfiðleikum gagnvart eigendum sínum og umhverfinu en starfsmenn á stórum fjölmiðli sem býr við traustar rekstrarlegar forsendur. Ég held að þar sé líklegt að skapist innra sjálfstraust í fjölmiðlinum, sterk starfsmannasamtök sem tryggi hið frjálsa orð og tjáningarfrelsið.

Ég hef sjálfur efasemdir um að hægt sé að setja einhverjar reglur um það að tryggja fréttamönnum óhæði, eða hvað kallar maður það? (Gripið fram í: Sjálfstæði.) Sjálfstæði gagnvart eigendum sínum, ég held að það sé ekki hægt. Ef við ákveðum að setja á fót fjölmiðil, ég og hv. Helgi Hjörvar, og við ætlum aðallega að hafa knattspyrnufréttir en ráðum síðan fréttastjóra sem hefur miklu meiri áhuga á handbolta og hann segir: Það er bara mitt faglega mat að hafa handbolta vel í bland við knattspyrnuna. Og við segjum: Ja, það var aldrei meining okkar að vera með handboltastöð. Auðvitað munu sjónarmið okkar ná fram að ganga. Þetta er náttúrlega stórlega ýkt dæmi en ég er bara að draga fram áherslur. Þegar kemur hins vegar að faglegri umfjöllun um efnahagslífið, um stjórnmálin o.s.frv. ítreka ég að ég held að það skipti máli að fjölmiðillinn sé kröftugur, búi við góðar rekstrarlegar forsendur og innra sjálfstraust. Ég held að það skipti mjög miklu máli.

Hæstv. forseti. Ég gleymdi, þegar ég vísaði í álitsgerðirnar sem komu frá umsagnaraðilum, að nefna Alþýðusamband Íslands sem er með mjög góða umfjöllun um málið og leggst algerlega gegn því að frv. nái fram að ganga. Fulltrúi Alþýðusambandsins var með mjög sannfærandi og kröftugan málflutning í efh.- og viðskn. þingsins. Það má vel vera að við síðari umræðu komi ég nánar inn á þá álitsgerð Alþýðusambandsins.

En aðeins þegar fer að síga á seinni hlutann í máli mínu langar mig til að ítreka skoðanir mínar í þessum efnum og nefna að ég hef alla tíð verið mikill áhugamaður um fjölmiðla og aðhylltist sjónarmið sem mörgum finnst og fannst íhaldssöm á sínum tíma þegar menn ræddu um afnám einokunar Ríkisútvarpsins í ljósvakanum. Ég var í hópi þeirra sem lagðist gegn því. Ástæðan var sú að ég var að reyna að sjá inn í framtíðina og fannst liggja í loftinu þá, eins og reyndar núna --- við erum að horfa á þetta í langtímasamhengi --- að þetta væri fyrsta skrefið. Næsta skref væri að hlutafélagavæða eða einkavæða Ríkisútvarpið, selja það, setja það á markað, og þá spurði ég eins og frumvarpshöfundar núna: Hvernig tryggjum við fjölbreytni? Er þetta líklegt til þess að auka gæðin í efni og fjölbreytni?

Hrakspár mínar urðu ekki að veruleika. En fjölbreytnin varð fyrst og fremst í eignarhaldi. Stöðvarnar urðu fleiri en fjölbreytnin í efninu sjálfu varð ekki eins mikil að sama skapi og fjöldi eigenda. Þetta var svipað efni og mér finnst svona almennt útvarps- og sjónvarpsefni ekki hafa tekið þeim framförum sem eðlilegt væri. Við erum því með margar stöðvar sem eru í rauninni með afskaplega svipað efni. Kjölfestan er nú sem fyrr Ríkisútvarpið, gamla Gufan kannski, sem menningarmiðill, en hins vegar eru fréttastofurnar á einkareknum stöðvum heldur að festa sig í sessi, finnst mér, en þurfa að verða miklu kröftugri og miklu öflugri.

Ég er ekki talsmaður þess að við skrúfum klukkuna til baka, alls ekki. Við erum komin með fleiri fjölmiðla inn á markaðinn, inn í flóruna, og nú finnst mér verkefnið vera að finna umhverfi sem tryggir þeim öllum sanngjarnar og heppilegar rekstrarforsendur. Og þá ítreka ég að ég tel skipta höfuðmáli hver verður framtíð Ríkisútvarpsins. Hérna langar mig til að vísa í nefndina eða álit fjölmiðlanefndarinnar sem reifar einmitt þetta atriði. Það sem mér finnst athyglisvert í umfjöllun hennar, og það hefur snertiflöt við afstöðu mína, er að hún segir: Ef við styrkjum Ríkisútvarpið og höfum það sem gagnpól gegn markaðnum í þessari flóru þá er þörfin fyrir lagasetningu hugsanlega ekki fyrir hendi. Þetta finnst mér vera innlegg í umræðuna. Ég ætla að taka fjórar, fimm mínútur í að lesa úr álitsgerðinni um þennan efnisþátt vegna þess að það snertir afstöðu mína í málinu --- reyndar tek ég fram að þessi nefnd er einkavæðingarsinnuð. Hún vill að verkefni sem hún segir að einkaaðilar geti sinnt eigi að fara á markað. Ég tel reyndar að einkaaðili geti sinnt öllum verkefnum, að sjálfsögðu geta einkaaðilar selt brennivín og læknað fólk og hvaðeina. Spurningin er hins vegar hvar við viljum virkja markaðslögmálin og hvar ekki, hvar við viljum setja á þau hömlur. Hér segir, með leyfi forseta:

[12:30]

,,Nefndin leggur fyrst til að hugað verði að stöðu Ríkisútvarpsins, með það að markmiði tryggja því trausta stöðu til frambúðar á markaði fyrir hljóðvarp og sjónvarp. Ástæðan fyrir því að þetta er nefnt fyrst er að sú leið felur ekki í sér neina beina íhlutun í málefni einkamarkaðar fyrir fjölmiðla, þótt sterkt ríkisútvarp þrengi auðvitað svigrúm einkaaðila til vaxtar á sama markaði. Trygg staða og umtalsverð hlutdeild Ríkisútvarpsins á markaði fyrir hljóðvarp og sjónvarp er þannig til þess fallin að nokkru leyti að hafa samsvarandi áhrif og beinar takmarkanir á eignarhaldi þar sem vaxtarmöguleikum einkafyrirtækja í útvarpsrekstri eru settar skorður og dregið úr líkum á því að einn aðili nái slíkri stærð á markaði að ógnað yrði markmiðinu um fjölbreytni í fjölmiðlun.

Nefndarmenn deila því almenna viðhorfi að takmarka beri afskipti ríkisins af fyrirtækjarekstri`` --- þetta er það sem ég vísaði í áðan --- ,,og atvinnustarfsemi sem einkaaðilar geta sinnt. Engu að síður telur nefndin eðlilegt að leggja til að hugað verði að því að tryggja stöðu Ríkisútvarpsins sem almenningsútvarps. Ýmis rök má færa fram því til stuðnings. a) Í fyrsta lagi má vísa til framangreindra tilmæla Evrópuráðsins R (99) 1 þar sem mælt er með því að þessi leið sé farin. b) Í öðru lagi er bent á þetta sem æskilega leið til að tryggja þá hagsmuni sem felast í pólitískri og menningarlegri fjölbreytni í lýðfrjálsu þjóðfélagi og þar með til að mæta skyldum ríkisins í þessum efnum. Er bent á að því er gjarnan haldið fram að einkareknir fjölmiðlar hafi tilhneigingu til að vera mun einsleitari í dagskrá en almenningsútvarp til að mæta kröfum þorra neytenda um skemmtun og létta afþreyingu. Slíkt efni verði þá jafnvel uppistaðan í dagskrá miðils, gjarnan á kostnað upplýstrar og málefnalegrar umræðu um mikilvæg samfélagsleg málefni, einkum þeirra miðla sem byggja rekstur sinn á auglýsingum og kostun. c) Í þriðja lagi`` --- og taki menn nú eftir --- ,,má benda á að yrði þessi leið ein fyrir valinu, fæli hún ekki í sér neina beina reglusetningu sem beindist gegn einkareknum fjölmiðlum. Hún samræmist þar með að því leyti vel meginreglum um frelsi markaðarins, að öðru leyti en því að almenningsútvarpi yrði tryggður hluti markaðarins, en einkaaðilar skipti honum að öðru leyti á milli sín í frjálsri samkeppni. d) Í fjórða lagi sýnist vera hægt að hrinda slíkum áformum í framkvæmd að mestu án breytinga á gildandi lögum.``

Mér finnst þetta vera umhugsunaratriði og er þungamiðjan í afstöðu minni til málsins. Þess vegna hef ég sagt: Tökum fyrst umræðuna um framtíð Ríkisútvarpsins. Ætla menn að fara leið hv. þm. Sigurðar Kára Kristjánssonar og félaga hans í Sjálfstfl., eins og kveðið er á um í samþykkt landsfundar Sjálfstfl., að hlutafélagavæða Ríkisútvarpið, væntanlega með það fyrir augum að selja það, leggja það niður og selja það, eða eru menn tilbúnir að ljá þessari hugsun lið sitt? Mér finnst þetta skipta grundvallarmáli.

Mér fannst yfirlýsingar sem fram komu frá oddvitum ríkisstjórnarflokkanna setja málið í fullkomið uppnám. Hvað sögðu þeir? Þeir sögðu að þeir teldu að afnema ætti afnotagjöldin hjá Ríkisútvarpinu. Það kann vel að vera að spurning sé um aðrar leiðir til að afla Ríkisútvarpinu tekna, t.d. með hliðsjón af fasteign eða einhverjum öðrum leiðum. Við þurfum hins vegar að fá að vita hvort til standi að skerða tekjur Ríkisútvarpsins því hin tekjuleið Ríkisútvarpsins er auglýsingar og það hafa komið fram yfirlýsingar sem í besta falli orka tvímælis um hvaða hugmyndir menn hafi í því efni hvort til standi að svipta útvarpið auglýsingatekjum. Þá segi ég: Ef niðurstaðan verður sú að hert verði að Ríkisútvarpinu, það verði svipt tekjustofnum sínum eins og verið er að gefa í skyn að kunni að gerast, eða það verði hlutafélagavætt og jafnvel selt þá er að sjálfsögðu um ekkert annað að ræða en huga að löggjöf um eignarhald á fjölmiðlum.

Ef við veljum hins vegar ríkisútvarpsleiðina og tryggjum Ríkisútvarpið sem öflugan fjölmiðil, almannaútvarp, finnst mér að við eigum að íhuga það sem fram kemur í álitsgerð fjölmiðlanefndar, hvort yfirleitt þurfi slíkar hömlur á markaðnum. Mér finnst það vera álitaefni og ég er eindregið á þeirri skoðun að við getum ekki afgreitt málið fyrr en við höfum tekið umræðuna um Ríkisútvarpið, mér finnst það algerlega útilokað. Og ef eitthvað er finnst mér álitamálunum fjölga í tengslum við málið. Skiptir ekki máli að halda opinni þeirri, ég ætlaði að segja smugu, stórt gat dugar varla til að lýsa þessu, að halda því opnu að einstaklingur geti eignast alla fjölmiðla á einkamarkaði, íslenskur Berlusconi, sem þess vegna gæti orðið forsrh. líka og orðið hæstvirtur í þessum sal? Þetta er fullkominn möguleiki. Það yrði hægt samkvæmt þessu frv. Þá ítreka ég að við verðum að horfa á af raunsæi hvað hefur verið að gerast í íslensku þjóðfélagi. Eignarhlutur Samson-hópsins í Landsbankanum er núna metinn á 25 milljarða. Þeir voru búnir að þrúkka verðinu niður fyrir 10, var upphaflega í 11,6 og voru komnir með það niður þegar hæstv. viðskrh. Framsfl., Valgerður Sverrisdóttir, var búin að fara höndum um þessa viðskiptavini sína. Þá var búið að gefa afslátt upp á tæpa 2 milljarða en það munu hafa verið 11,3 sem upphaflegt söluverð átti að vera. Þessi hlutur er núna metinn á 25 milljarða, það var upplýst í blöðunum í gær.

Við höfum öll fengið fréttirnar af risavöxnum hagnaðartölum úr þessum einkavæddu bönkum og það er staðreynd, það er veruleiki að fjármunirnir og völdin eru að færast á mjög fáar hendur í íslensku samfélagi. Þess vegna væri fróðlegt að heyra frá þingmönnum Sjálfstfl., hv. þm. Sigurði Kára Kristjánssyni, frá forsrh., flutningsmanni frv., hvort ekki sé nokkuð til í þeirri kenningu að vandinn sem blasi við sé ekki sá sem frv. taki á, heldur samþjöppun fjármagns í íslensku samfélagi sem runnið er undan rifjum ríkisstjórnarstefnunnar í sjávarútvegsmálum, í einkavæðingu og nánast öllu því sem tekur til efnahags- og peningamála í landinu. Það er vandinn.

Hin rétta spurning er: Hvernig stendur á því að ekki er hægt að koma á dreifðri eignaraðild á fjölmiðlum? Það er vegna þess að peningarnir eru ekki nægilega dreifðir í þjóðfélaginu. Það er vandinn og það er afleiðing þeirrar stefnu sem við höfum búið við. Aldrei hefur verið sýndur neinn vilji í verki, enginn raunverulegur vilji til að taka á því nákvæmlega.

Þegar bankarnir voru seldir kom fram tillaga í þinginu um að eignarhald á bönkunum yrði takmarkað við 8%, að enginn einn aðili mætti eiga meira en 8% í fjármálastofnunum sem voru síðan skilgreindar með tilteknum hætti, stórum fjármálastofnunum. Þessu þingmáli var vísað til efh.- og viðskn. og þar var það látið sofna. Aftur endurvakið og látið sofna. Ríkisstjórninni er nákvæmlega sama um þetta. Ríkisstjórninni er nákvæmlega sama um samþjöppun á peningum og valdi í íslensku þjóðfélagi, vill ekkert gera í því. En í þessu tilviki taka menn einn þáttinn út úr, mikilvægan þátt, fjölmiðla, og eru reiðubúnir að setja lög um hann. Ég held að menn séu að byrja hér á röngum enda, ég tel svo vera.

Ég tek undir það sem kom fram í umræðunni fyrr í dag að nú finnst mér mál til komið að ráðherrar Framsfl. láti í sér heyra við umræðuna. Hefur viðskiptaráðherra landsins ekkert um þetta að segja, hæstv. viðskrh. Valgerður Sverrisdóttir? Nú er umræðan farin að beinast inn í þann farveg, inn í afleiðingar verka ríkisstjórnarinnar sem hefur fært örfáum sterkum aðilum öll þessi völd og þessa miklu peninga í hendur. Ég held reyndar og ætla kannski ekki að kveða fastar orði en tilfinning mín er sú að það sé miklu alvarlegra en það sem er að gerast í fjölmiðlaheiminum. Við erum búin að verða vitni að því á undanförnum mánuðum hvernig þeir aðilar sem fengu ríkisbankana að gjöf --- þeir voru afhentir í Þjóðmenningarhúsinu, ég held að það hafi verið á gamlársdag, það voru allir skartklæddir sem komu til veislunnar þegar þeir fengu eitt stykki banka í hendur --- hafa síðan verið að brjótast til áhrifa í efnahagslífinu. Mér finnst að taka verði umræðu um þessi grundvallarmál áður en að við förum að krafsa svona í yfirborðið.

Síðan er verið að stilla þessu þannig upp og íslensku þjóðinni, í hvoru liðinu hún sé, hvort menn séu í Baugsliðinu eða einhverju öðru liði. Við erum bara í liði með Íslendingum, við viljum bara hafa sanngirni í þjóðfélaginu, lýðræði, lýðræðisleg vinnubrögð. Ég held að við séum öll andvíg því að halda frekar inn á þær brautir þar sem til verða nokkrir auðkýfingar í landinu. Við erum ekki í neinu slíku liði. En ég er í liði með starfsfólki í fjölmiðlum sem hugsanlega er verið að setja í mikla óvissu með þessari lagasmíð, ég er í liði með því. Ég held að við eigum það öll sammerkt í stjórnarandstöðunni. Og mér segir hugur um að það fjölgi í okkar liði, ekki bara í þjóðfélaginu heldur einnig í þingsalnum.

Ég held að við ættum að rifja upp aftur og taka alvarlega áminningu formanns þingflokks Framsfl. frá í gær um að hafa Berlusconi-ástandið í huga. Ekki bara utan þings, heldur einnig innan veggja þingsins.