Útvarpslög og samkeppnislög

Fimmtudaginn 13. maí 2004, kl. 12:46:17 (8093)

2004-05-13 12:46:17# 130. lþ. 114.1 fundur 974. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum) frv. 48/2004, HHj
[prenta uppsett í dálka] 114. fundur, 130. lþ.

[12:46]

Helgi Hjörvar:

Virðulegur forseti. ,,... má aldrei í lög leiða.`` Þessi orð þekkja auðvitað allir alþingismenn, í þeim er hljómur. Það er hljómur úr stjórnarskránni, úr einu grundvallarákvæða stjórnarskrárinnar, ákvæðinu sem tryggir okkur frelsi til orðs og æðis, ákvæðinu um tjáningarfrelsið, að það má aldrei leiða í lög takmarkanir á því nema með þeim fyrirvörum að brýnir almannahagsmunir krefji. ,,Má aldrei í lög leiða.`` Þetta fortakslausa orðalag lýsir ákaflega vel þeim djúpa skilningi sem stjórnarskrárgjafinn hafði á því að ,,má aldrei í lög leiða`` er hornsteinn þessarar stofnunar, hins háa Alþingis Íslendinga. Það að óheimilt sé með öllu að takmarka tjáningarfrelsi manna er sjálfur grundvöllurinn að lýðræðislegri umræðu, að lýðræðislegu samfélagi og þar af leiðandi grunnurinn að æðstu stofnun lýðræðisins, hinu háa Alþingi sem hér stendur. ,,Má aldrei í lög leiða`` er nokkuð sem við höfum öll sem á þingi sitjum tekið að okkur að virða og verja.

Í því máli sem hér er til umfjöllunar, virðulegur forseti, hafa ýmsir málsmetandi menn, fræðimenn, stjórnmálamenn, menn úr atvinnulífinu, almennir borgarar, leitt líkum að því að í því sé gengið gegn þeirri eindregnu yfirlýsingu stjórnarskrárinnar ,,má aldrei í lög leiða``. Við þær aðstæður eru skyldur alþingismanna miklar því þau eru fá ákvæðin í stjórnarskrá íslenska lýðveldisins sem skylda alþingismanna er jafnrík við og orðin ,,má aldrei í lög leiða``. Það er þess vegna fullt tilefni til þess fyrir alþingismenn að ræða hér og fara mjög vandlega yfir það ef það er sannfæring þeirra eða ef þeir hafa minnstu efasemdir um að stjórnarskránni sé fylgt í þessu máli hvað þetta varðar, ef þeir hafa svo mikið sem minnstu efasemdir um það er það skylda þeirra sem alþingismanna, starfsskylda þeirra að koma í ræðustólinn og gera grein fyrir þeim efasemdum og láta sannarlega stjórnarskrána og ákvæðið ,,má aldrei í lög leiða`` njóta vafans.

Þær ræður sem ýmsir þingmenn hafa flutt um þetta hafa af hálfu stjórnarliðsins verið kallaðar málþóf. Hv. formaður þingflokks Framsfl., Hjálmar Árnason, leyfði sér t.d. að hafa uppi þau orð. Það lýsir auðvitað virðingarleysi fyrir skoðunum þeirra þingmanna sem telja að hér sé vegið að grundvallaratriðum í íslensku samfélagi og að ástæða sé til að hafa efasemdir um að einhver mikilvægustu atriði stjórnarskrárinnar séu uppfyllt. Það er ekki málþóf að gera vandlega grein fyrir því.

Það er algjör misskilningur af hálfu stjórnarliðsins að halda að erindi okkar þingmanna stjórnarandstöðunnar og raunar eins stjórnarliða sem þannig er farið um enn sem komið er, sé að sannfæra stjórnarliðið eða yfir höfuð að sannfæra einn eða annan í orðræðunni í salnum, það er auðvitað í fæstum tilfellum svo. Stjórnarliðið þarf engrar sannfæringar við í málinu. Langflestir þingmenn stjórnarinnar vita betur en að fylgja þessu frv. og vita að hér er verið að tefla á tæpasta vað gagnvart grundvallarákvæðum sem þeim ber að standa vörð um. Þannig er því einfaldlega farið. Við þurfum því ekki, þingmenn, að fara í ræðustólinn til að sannfæra þingmenn stjórnarliðsins í þessu máli, síst af öllu til að mynda þingmenn Sjálfstfl. af minni kynslóð, þingmenn eins og hv. þm. Birgi Ármannsson, hv. þm. Guðlaug Þór Þórðarson, hv. þm. Sigurð Kára Kristjánsson og hv. þm. Bjarna Benediktsson, enda eiga þeir hér fullt í fangi með að kyngja sannfæringu sinni.

Ástæðan fyrir því að hér er tilefni til að gera ítarlega og glögga grein fyrir sjónarmiðum manna er að það liggur nú þegar fyrir að því máli sem hér er til umfjöllunar lýkur ekki á vettvangi Alþingis, því verður ekki lokið með afgreiðslunni á Alþingi. Það liggur fyrir að eðli málsins samkvæmt verður málinu skotið annað. Því hefur þegar verið skotið til Eftirlitsstofnunar EFTA, því verður skotið hugsanlega til almennings af hæstv. forseta lýðveldisins, því verður auðvitað skotið til dómstóla af hálfu þess fyrirtækis, þess eina fyrirtækis sem þessum lögum er af alefli beint gegn. Og því verður væntanlega áfrýjað af öðrum hvorum aðila þar til Hæstaréttar og hugsanlega rekið áfram fyrir erlendum dómstólum. Þar eru uppi þær miklu grundvallarspurningar hvort frv. samræmist meginatriðum um löggjöf og um lýðræði.

Þeir þingmenn sem hafa efasemdir um það hafa skyldum að gegna í ræðustólnum á Alþingi að gera ítarlega grein fyrir þeim efasemdum sem þeir hafa vegna þess að það eru gögn í málinu, virðulegur forseti, vegna þess að á síðari stigum málsins, ef ríkisstjórnarmeirihlutinn heldur áfram því ofbeldi sem hann hefur haft uppi við meðferð þess, þá eru þær ræður sem hér eru fluttar gögn þessa máls. Þeim þingmönnum sem hafa efasemdir um að grundvallarákvæði séu virt við lagasetningu þessa ber skylda til að gera ítarlega grein fyrir því hvernig það er þannig að þeim efasemdum sé þá komið á framfæri við þær eftirlitsstofnanir og þá dómendur sem eiga eftir að fjalla um málið. Þingmenn eru þess vegna með einum eða öðrum hætti að bera hér vitni um með hvaða hætti til þessa verknaðar var stofnað, sem þeir telja að hafi brotið gegn grundvallarákvæðum mannréttinda eða stjórnarskrár.

Það er algerlega tvímælalaust af minni hálfu, þess þingmanns sem hér stendur, virðulegur forseti, að það eru ekki málefnaleg sjónarmið sem ráða för í þeirri lagasetningu sem hér liggur fyrir. Hver sá maður sem skoðar þau vinnubrögð sem höfð hafa verið uppi í aðdraganda þessa máls og vinnslu þess á Alþingi, hver sá maður, sæmilegri skynsemi gæddur og meðalhófi, virðulegur forseti, sem skoðar það með hvaða hætti málið hefur verið unnið hér gerir sér strax grein fyrir því að það hefur ekki verið málefnalega unnið. Það hefur verið keyrt áfram með ótilhlýðilegu offorsi og sjálfsögðum og eðlilegum sjónarmiðum um varúð þegar annars vegar eru ákvæði stjórnarskrár og mannréttindasáttmála, sjálfsögðum ákvæðum um varúð, íhygli og aðgætni við löggjöf af þessu tagi hefur verið kastað fyrir róða.

Sagt er að nú fáum við að tala eins og við viljum á Alþingi og halda allar þær ræður sem við viljum og út af fyrir sig er þakkarvert að við fáum þó að gera það. En á þessu stigi í vinnslu málsins er það þó að sumu leyti of seint, virðulegur forseti, vegna þess að við undirbúning málsins og einkanlega við vinnslu þess í hv. allshn. hafa engar sæmilegar leikreglur verið virtar.

Þegar málsmetandi menn um allt samfélag, prófessorar, forustumenn í atvinnulífi, þingmenn, trúlega 30 þingmenn, telja að hér sé teflt á tæpasta vað hið minnsta gagnvart stjórnarskrá og mannréttindasáttmálum, er auðvitað ekki nema sjálfsagt ef hér væru málefnaleg sjónarmið á bak við að leitað væri eftir áliti stofnana, háskólastofnana til að mynda, á því hvort þær efasemdir séu á rökum reistar. Það eitt að hafna þeirri málaleitan sýnir að þeir sem flytja frv. gera það ekki á málefnalegum grundvelli og hafa viljað varna því að fram kæmu málefnaleg sjónarmið og álit þeirra sem gerst þekkja á efnisatriðum frv. Málið hefur þvert á móti verið keyrt áfram, sannarlega með ofbeldi, og umsagnaraðilum boðinn algjörlega óhæfilega skammur tími til að undirbúa mál sitt. Fram hefur komið að veigamiklir þættir sem lúta að réttarhlið málsins höfðu alls ekki verið rannsakaðir. Fram hefur komið að stofnanir eins og Lögmannafélagið, Evrópuréttarstofnunin og aðrir slíkir töldu sig ekki með málefnalegum hætti fá tækifæri og tíma til að veita þær umsagnir sem veita þyrfti um jafnmikilsvert mál. Allt þetta hefur verið hunsað. Það hefur verið hunsað vegna þess að frv. er ekki á málefnalegum rökum reist, það er ekki flutt til þess að ná fram lögmætum, málefnalegum sjónarmiðum, það er flutt með offorsi og ofbeldi vegna þess að það er leiðangur gegn einu fyrirtæki og aðstandendum þess til þess hafinn og rekinn að koma í veg fyrir að fjölmiðlar á vegum þess fyrirtækis fái haldið uppi harðri gagnrýni á stjórnvöld í landinu, þau stjórnvöld sem þetta frv. reka.

Virðulegur forseti. Mætti ég spyrja hvað tíma mínum líður?

(Forseti (SP): Klukkan er alveg að verða eitt. Það stendur til að gera hlé milli klukkan eitt og hálftvö þannig að ef hv. þm. óskar eftir að gera hlé á ræðu sinni núna þá er sjálfsagt að verða við því. Óskar hv. þm. eftir því?)

Já, ég óska eftir því.