Útvarpslög og samkeppnislög

Fimmtudaginn 13. maí 2004, kl. 13:31:33 (8094)

2004-05-13 13:31:33# 130. lþ. 114.1 fundur 974. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum) frv. 48/2004, HHj
[prenta uppsett í dálka] 114. fundur, 130. lþ.

[13:31]

Helgi Hjörvar (frh.):

Virðulegur forseti. Ég vildi áður en ég hef ræðu mína fá að spyrja eftir því hvort hæstv. forsrh. sé staddur í þinginu.

(Forseti (SP): Það mun vera svo að hæstv. forsrh. er staddur í húsinu.)

En hæstv. utanrrh. og formaður allshn. sömuleiðis?

(Forseti (SP): Hæstv. utanrrh. mun ekki vera staddur í húsinu. Formaður allshn. er ekki staddur hér heldur, en forseti mun gera ráðstafanir til þess að óska eftir að hann komi í húsið ef hv. þm. æskir þess.)

Já, virðulegur forseti, ég æski þess eindregið að formaður allshn. sé viðstaddur umfjöllun um það frv. sem hann mælir hér fyrir nefndaráliti um og svari mikilvægum spurningum þar að lútandi. Það væri jafnframt æskilegt ef formaður hins stjórnarflokksins, Framsfl., hæstv. utanrrh. Halldór Ásgrímsson, sæi sér það fært en um það hef ég ekki neinar óskir fram að færa, en þykir vænt um að heyra að hæstv. forsrh. er staddur í þinginu og bið um að því verði komið til hans að ég ætlist ekki til að hann sitji hér undir ræðu minni en í lok ræðu minnar er það ætlun mín að beina til hans nokkrum spurningum sem mér þætti vænt um að honum gæfist a.m.k. kostur á að heyra og jafnvel svara.

Virðulegur forseti. Áður en ég gerði hlé á ræðu minni gerði ég grein fyrir því hversu mikilvægt er að þeir þingmenn sem hafa efasemdir um að þessi löggjöf standist grundvallaratriði í stjórnskipan landsins og/eða að hér sé á ferðinni algerlega ómálefnaleg löggjöf sem hafi það eitt að markmiði að knésetja eitt fyrirtæki, geri vel og skilmerkilega grein fyrir því hvernig í ósköpunum þetta gat orðið í þinginu, þannig að þeir sem um málið fjalla á eftir okkur, m.a. ýmsir áfrýjunaraðilar, geti reynt að átta sig á því ástandi sem er á Alþingi. Ástandi, segi ég, því að ég sýndi og sannaði í máli mínu, virðulegur forseti, að meðferð málsins á Alþingi er fullkomlega ómálefnaleg. Í henni hefur ekki verið gætt meðalhófs, í henni hefur einskis hófs verið gætt vegna þess að markmiðið er ekki að ná fram lögmætum sjónarmiðum, heldur er markmiðið að knésetja eitt fyrirtæki, knésetja einn aðila, og í þeirri aðför mega ekki málefnaleg sjónarmið komast að og þess vegna hefur því verið hafnað að leitað verði álits lögfræðinga, stofnana ýmissa sem fái hæfilegan tíma til að gefa álit og kanna mikilvæga þætti sem varða framgang málsins.

Þá kunna menn að spyrja sem ekki þekkja til á Alþingi Íslendinga: Hvernig má slíkt vera? Þá er því til að svara að Alþingi Íslendinga er stjórnað úr Stjórnarráðinu. Því er stjórnað úr Stjórnarráðinu af hæstv. forsrh. og hér fer allt fram eftir tilskipunum þaðan. Þær tilskipanir eru augljóslega með þeim hætti að afgreiða eigi málið, enda yfirleitt snöfurmannlegar tilskipanir gefnar úr Stjórnarráðinu. Það lýsir auðvitað fyrst og fremst því að við Íslendingar búum við það sem í réttarheimspeki hefur gjarnan verið nefnt fyrstukynslóðarlýðræði en það er kannski stig í lýðræðisþróuninni sem flestar vestrænar þjóðir hafa skilið að baki sér. Það einkennist af meirihlutaræðinu, af því að meiri hlutinn, gjarnan naumur, fer sínu fram hvað sem tautar og raular, hefur sitt fram, hirðir ekki um hvað málefnalegt kunni að vera, hvað eðlilegt kunni að vera, hver önnur sjónarmið kunni að vera uppi eða hvort aðilar skaðist af athöfnum meiri hlutans. Það meirihlutaræði einkennir meira og minna alla stjórn þingsins og alla stjórnarathöfn raunar í Stjórnarráðinu yfirleitt. Þetta meirihlutaræði, sem ekkert tillit tekur til annarra sjónarmiða en fer bara sínu fram, helgast auðvitað sumpart af stjórnmálasögu okkar Íslendinga og stöðu þess aðila sem nú hefur ákveðið með þessari ómálefnalegu löggjöf að klekkja á einu fyrirtæki. Sá aðili er Sjálfstfl. og það er þannig að í stjórnmálasögu Íslendinga bar Sjálfstfl. um áratuga skeið höfuð og herðar yfir aðra stjórnmálaflokka, var langtímum saman stærsti flokkurinn í hlutaðeigandi ríkisstjórn, réði meira og minna lögum og lofum sem langstærsti þingflokkurinn þar til að þingflokkur Samf. kom til árið 1999.

Fyrir utan að hafa í liðlega 20 ár nær samfellt haft forustu meira og minna fyrir ríkisstjórnum landsins hefur flokkurinn sömuleiðis átt mikil ítök í forustunni í atvinnulífinu í gegnum þann tíma, enda það oft farið vel á að ríkið hafi verið notað til þess að styrkja stöðu manna í atvinnulífinu og öfugt. Þannig má í raun og veru segja að Sjálfstfl. hafi verið ríki í ríkinu í þessu samfélagi langtímum saman, stofnun í sjálfu sér, og haft ákaflega mikil völd yfir langan tíma eins og sá sem fer fyrir honum nú, hæstv. forsrh. Davíð Oddsson, sem á einhvern glæsilegasta valdaferil sem sögur fara af, nær áratug á stóli borgarstjóra í Reykjavík, höfuðborg landsins, og þaðan beint í stól forsrh. á Alþingi og hefur ráðið þar ríkjum í 13 ár samfleytt, Sjálfstfl. og hæstv. forsrh. auðvitað með sínu lýðræðislega umboði sem sótt hefur verið með reglulegum hætti og engin ástæða er til að gera athugasemdir við. En það er rétt að draga upp þessa mynd vegna þess að það að ráða íslenska ríkinu meira eða minna felur í sér gríðarlega mikil völd því að umsvif ríkisins á Íslandi eru meiri en víðast hvar þekkist. Umsvif ríkisins í þjóðarbúskapnum standast helst samjöfnuð við hin Norðurlöndin en þar er þó sá munur á að miklu stærri hluti opinberra umsvifa er í höndum sveitarfélaganna en hér er þannig að þó að samjafna megi hinum opinberu umsvifum frá einu Norðurlandi til annars þá er staða ríkisins mun sterkari hér. Ekki aðeins í samfélagsþjónustunni, heldur hefur ríkið haft drottnandi stöðu á fjölmörgum sviðum atvinnulífsins, á hér enn markaðsráðandi fyrirtækið á fjarskiptamarkaði, hefur rétt nýskilið við það að reka tvo ríkisbanka sem hafa drottnað yfir þeim markaði, rekur stærsta fyrirtæki landsins, Landsvirkjun, sem fer fyrir mestu fjárfestingum í sögunni og þannig mætti áfram telja.

Í öllu þessu er staða Sjálfstfl. líka ákaflega sterk því í þessu meirihlutaræði er hefð fyrir því að hið pólitíska vald beiti sér og að hið pólitíska vald fari með stjórnir opinberra menningarstofnana, fjölmiðla o.s.frv., sem er kannski háttur sem flestar aðrar þjóðir hafa horfið frá. Það gefur kannski einhverja mynd af þessari menningu okkar Íslendinga fyrir þá sem ekki þekkja til að framkvæmdastjóri Sjálfstfl., sem sagt leiðandi stjórnarflokksins, var hygg ég á sama tíma ekki aðeins framkvæmdastjóri flokksins heldur formaður útvarpsréttarnefndar sem gaf út leyfi til starfsemi ljósvakamiðla og hafði eftirlit með þeim, og formaður bankaráðs Landsbankans, helsta og stærsta banka þjóðarinnar, og hygg ég að það gefi nokkuð góða mynd af hinni sterku stöðu Sjálfstfl. í öllum stofnunum íslenska ríkisins og áhrifum hans. Varaformaður flokksins, fyrrverandi, er forstjóri stærsta fyrirtækisins og fer fyrir stærstu framkvæmdum Íslandssögunnar, fyrrverandi borgarstjóri flokksins stýrir Ríkisútvarpinu og þannig mætti áfram telja.

Þetta er ekki sagt til að lasta þá menn sem í hlut eiga heldur fyrst og fremst til þess að draga upp mynd af því mikla valdi sem Sjálfstfl. hefur haft í samfélaginu og hefur enn, vegna þess að það er þessi Sjálfstfl. og forusta hans sem hefur ákveðið að ráðast hér að einu starfandi fjölmiðlafyrirtæki. Það er svo að þegar menn hafa haft mikil völd um langan tíma, bæði flokkar og fólk, þá hneigjast þeir til þess að verða nokkuð frekir til fjörsins. Á síðasta ári sáum við margvísleg dæmi um það hvernig menn líta á vald sitt, meirihlutavaldið, sem meira og minna sjálfsagt og nánast á stundum einkamál, því það er annað sem einkennir meirihlutaræðið að ekki aðeins fer meiri hlutinn sínu fram hvað sem tautar og raular heldur lítur hann gjarnan á stjórnarathafnirnar sem einkamál sitt.

Við höfum nýlega dæmi um skipun náfrænda hæstv. forsrh. í Hæstarétt, sem hefur verið gagnrýnt um allt samfélagið, af virtum prófessorum, af kærunefnd jafnréttismála, af umboðsmanni Alþingis og síðast en ekki síst af prófessor Sigurði Líndal, sem hefur haft þá einstæðu stöðu um áratuga skeið að ala upp hverja kynslóð íslenskra lögfræðinga á fætur annarri í Háskóla Íslands og hefur þess vegna kannski hvað gleggsta yfirsýn yfir hverjir eru þar hæfastir manna, allir þessir aðilar hafa harðlega fordæmt þessar ráðstafanir. Og þó láta stjórnarherrarnir bara eins og hér sé um sjálfsagða og eðlilega hluti að ræða að framkvæmdarvaldið setji með bersýnilega ómálefnalegum hætti sína menn inn í annan valdþátt, inn í Hæstarétt sjálfan sem hefur sem betur fer nokkrum sinnum á síðustu árum sett framkvæmdarvaldinu stólinn fyrir dyrnar. Þess vegna er engin tilviljun að framkvæmdarvaldið sé nú farið að krukka í skipun hæstaréttardómara með þessum endemum.

Við höfum frá síðasta ári dæmi úr utanríkismálum þar sem hæstv. forsrh. ákvað að íslenska þjóðin styddi innrásina í Írak án þess að ræða það við utanrmn. og e.t.v. ekki einu sinni utanrrh. Er það þó lögskylt að ræða slík málefni við utanrmn. Alþingis og gefur aðra mynd af því með hvaða hætti meirihlutalýðræðið er rekið hér á landi.

Sömuleiðis er þriðja dæmið nýlegt, það varðar varnir landsins og öryggi þjóðarinnar, að hæstv. forsrh. var tilkynnt að varnarliðið eða herinn í Keflavík væri á förum frá landinu og hæstv. forsrh. leit svo á að þær upplýsingar um grundvallaratriði fyrir hvert samfélag, öryggi þess og varnir, væri hans einkamál og kaus þess vegna að upplýsa ekki þjóðina um það fyrr en löngu, löngu seinna og raunar eftir kosningar, virðulegi forseti.

Þessi dæmi eru auðvitað ágæt til að sýna það hversu sjálfgefið og sjálfsagt þetta meirihlutavald er orðið valdhöfunum og hvernig með það er farið. Og við vitum öll að þegar menn hafa haft mikið vald um langan tíma þá er aðhalds þörf. Það aðhald hafa þessir stjórnarherrar kannski fengið í ríkara mæli á síðari árum og þá kannski einkanlega frá fjölmiðlum og þegar vald eins stjórnmálaflokks og eins stjórnmálamanns er jafnafgerandi og hér um ræðir er mikilvægt að við skoðum hvaða aðhald þeir hafa frá fjölmiðlunum.

[13:45]

Þá verðum við að draga það fram að öflugasti fjölmiðill landsins er Ríkisútvarpið. Sjálfstfl. hefur um langt árabil lagt áherslu á að hafa með höndum menntmrh. sem fer með málefni Ríkisútvarpsins. Fyrrverandi borgarstjóri flokksins er þar útvarpsstjóri og margir trúnaðarmenn í stöðum. Sjálfstfl. hefur stjórnunar- og ráðningarvald yfir Ríkisútvarpinu. Um það er engum blöðum að fletta, um það þarf ekki að deila. Menn geta deilt um hvort því sé beitt eða hvort því sé misbeitt og einhverjar slíkar deilur hafa verið á undanförnum dögum. Einhverjir starfsmenn stofnunarinnar telja að ekki sé heimilt fyrir starfsmenn að vinna fyrir Vinstri hreyfinguna -- grænt framboð en hins vegar þyki sjálfsagt að trúnaðarmenn Sjálfstfl. yfirheyri menntmrh. Sjálfstfl. í stærstu deilumálum samtímans. Um þær deilur skal ég ekki segja, ég held að það hljóti að gilda um starfsfólk Ríkisútvarpsins eins og um starfsfólk Norðurljósa að það fari fyrst og fremst eftir eigin sannfæringu og eigin siðferði. En það sem skiptir máli er að nefndur Sjálfstfl. og hæstv. forsrh. hafa stjórnunarvald og ráðningarvald yfir öflugasta fjölmiðli landsins. (Gripið fram í: Nei.)

Um áratuga skeið var það blað sem drottnaði yfir blaðamarkaðnum, Morgunblaðið, jafnframt málgagn Sjálfstfl. og ritstjórar þess sátu á þingflokksfundum Sjálfstfl. hér í húsinu langt fram eftir og eru kannski farnir að gera aftur ef marka má ritstjórnarlega umfjöllun blaðsins, einkanlega hin síðari missirin, kannski eftir að Matthías Johannessen lét af störfum á blaðinu.

Slík var staða Sjálfstfl. í fjölmiðlum en hér var flóra af frjálsum fjölmiðlum sem gekk ákaflega illa í rekstri en hefur á síðustu tveimur árum orðið nokkuð öflugri, einkum fyrst með tilkomu Fréttablaðsins og síðan með því að Fréttablaðið, DV, Stöð 2 og ljósvakamiðlar Norðurljósa runnu saman í eitt fyrirtæki, en þá var loksins kominn burðugur aðili á fjölmiðlamarkaði til að keppa við hina stóru og öflugu aðila, Morgunblaðið og Ríkisútvarpið.

Það verður þess vegna að horfa á það lagafrv. sem hér liggur fyrir sem aðgerð þess félags, Sjálfstfl., sem fer með stjórnunar- og ráðningarvald á öflugasta fjölmiðli landsins, Ríkisútvarpinu, sjónvarpi, að það félag sé að flytja frv. til að knésetja helsta keppinaut Ríkisútvarpsins, sjónvarps. Það er augljóslega hið pólitíska markmið hér og hefur verið hið pólitíska markmið sl. rúmt ár. Það er ástæðan fyrir öllum hinum ómálefnalega málatilbúnaði að það afl, Sjálfstfl. og hæstv. forsrh., sem hefur meira og minna deilt og drottnað í íslensku samfélagi um áratuga skeið og ráðið því hverjir fengju framgang og hverjir ekki framgang og hverjir nytu gæða og ekki gæða og hverjir fengju að eignast fyrirtæki og ekki eignast fyrirtæki, að það er svo komið að sá flokkur hefur orðið fyrir harðri gagnrýni, harðri stjórnarandstöðu nýrra og nútímalegra fjölmiðla og hann hefur einsett sér að taka úr þeim máttinn þannig að það verði aftur sem áður var að Sjálfstfl. drottni yfir fjölmiðlum landsins.

Þá erum við komin að því hvers vegna stjórnarskrárgjafinn sagði í stjórnarskránni að það mætti aldrei í lög leiða. Ástæðan fyrir því að tjáningarfrelsið er vandlega varið í stjórnarskrám vestrænna ríkja er að menn þekkja það af sögunni að þegar valdið hefur verið lengi og verið mikið sækir það í sig veðrið og þá er því nauðsyn á aðhaldi, einkum aðhaldi frá hinu fjórða valdi, frá fjölmiðlunum. En þá hefur það líka jafnan tilhneigingu til að reyna að berja á fjórða valdinu og setja um það einhvers konar lög eins og eru fjölmörg dæmi um, bæði austan hafs og vestan og nú líka á Alþingi. Það er algjörlega augljóst af þessu frv. að það þjónar þeim tilgangi einum að varna því að sjálfstæðir, nútímalegir fjölmiðlar, sem eru í stjórnarandstöðu við allt og alla, geti haft sterka og öfluga bakhjarla sem sækja afl sitt á alþjóðavettvang en eiga ekki áhrif sín undir náð eða fyrirgreiðslu íslenska stjórnmálakerfisins. Það, virðulegur forseti, er mergurinn málsins. Þess vegna er allur málatilbúnaðurinn með þessum ólíkindum, þess vegna hefur enginn tími unnist til þess að vinna málið svo vel sé, þess vegna er öllum sáttatillögum um að menn sameinist um hóflegar og eðlilegar ráðstafanir til þess að forða óhóflegri samþjöppun á fjölmiðlamarkaði hafnað. Það er vegna þess að hér eru ómálefnaleg markmið á ferðinni um það að draga svo mátt úr þeim fjölmiðlum sem veita þó ríkisstjórninni aðhald að vald hennar verði áfram tryggt og að valdheimildir hennar verði heldur rýmri en hitt því að hún hafi ekki aðhald frá sterkum fjölmiðlum með sterka bakjarla. Það er mergurinn málsins.

Þess vegna var prófessor Davíð Þór Björgvinsson fenginn til að leiða fjölmiðlanefndina, vegna þess að það lá fyrir að sá ágæti prófessor hafði gefið út um það margar yfirlýsingar og haldið um það ræður og skrifað um það greinar að Hæstiréttur hefði takmarkað óhóflega athafnafrelsi stjórnmálamanna. Ríkisstjórnin vissi þess vegna að þar væri á ferðinni fræðimaður sem túlka mundi heimildir stjórnvalda til að ganga á réttindi manna með mjög rúmum hætti, vegna þess að sá sami maður hafði ítrekað gagnrýnt Hæstarétt fyrir að setja ríkisstjórninni valdmörk, hafði gagnrýnt Hæstarétt fyrir að setja ríkisstjórninni valdmörk hvað varðaði til að mynda öryrkjamálið sem mér tókst nú að kynnast ágætlega og hefur alltaf þótt með miklum ólíkindum að hafi verið afgreitt á Alþingi, en þar var ávöxturinn af meirihlutaræðinu sú lögfesta ákvörðun Alþingis að hópur Íslendinga ætti að framfleyta sér á 18 þús. kr. á mánuði ævina út.

Nei, virðulegur forseti, þegar rökin sem sett eru fram í málinu eru skoðuð kemur auðvitað í ljós að það eru ekki annað en pótemkintjöld, það eru afsakanir fyrir þessu framferði, það er reynt að fela hinn raunverulega tilgang sem er einfaldlega að draga máttinn úr þeim fjölmiðlum sem þótt hafa gagnrýnt ríkisstjórnina óhóflega. Og það stendur auðvitað ekki steinn fyrir steini. Fjölbreytileikarökin hafa hér verið nefnd og það hefur auðvitað verið farið nógsamlega yfir það að aldrei hefur fjölbreytni verið meiri í fjölmiðlun á Íslandi og því tómt mál að tala um að hér sé einhver knýjandi nauðsyn til þess að setja lög á því sviði nú á þessu vori. Hér hefur einfaldlega aldrei verið meiri fjölbreytni og raunar jafnvel meiri fjölbreytni í eignarhaldi en oft áður því það eru þó a.m.k. fjölmörg fyrirtæki og einstaklingar sem nú eiga í fjölmiðlafyrirtækjum meðan ríkið hafði þar áður algera einokun og því sannarlega til framfara horft á síðustu árum fremur en hitt.

Þegar þessar takmarkanir eru skoðaðar eru þær líka svo algjörlega gegn straumi tímans því hér á að takmarka útgáfu útvarpsleyfa. Slíkar takmarkanir þekkjast vissulega í löndunum í kringum okkur mörgum en það eru miklu stærri lönd og þar eru útvarpsleyfi takmörkuð gæði. Þess vegna hafa menn orðið að finna sér einhverjar reglur til þess að ákvarða um það hverjir megi fá þau takmörkuðu gæði. Við Íslendingar höfum ekki búið við þann veruleika og nú mun ný tækni gera það að verkum að við munum aldrei þurfa að búa við þann veruleika að rásir fyrir sjónvarp eða útvarp verði takmörkuð gæði. Þar er einfaldlega nóg til, það er nóg til handa öllum og það er enginn sem bíður úti í kuldanum og fær ekki að reka sjónvarp vegna þess að einhver hafi bolað honum út af markaðnum. Það er einfaldlega ekki svo.

Það er mikilvægt fyrir íslenska þjóð, fyrir íslenska tungu og fyrir framtíð þjóðarinnar að ekki verði settar neinar skorður við því að menn fái að leggja fé sitt í innlenda dagskrárgerð, í það að hafa hér á markaðnum öflugar íslenskar sjónvarpsstöðvar til þess að vera valkostur við þá alþjóðamenningu sem sífellt harðar sækir á í gegnum internetið, í gegnum gervihnetti o.s.frv. Ef við höfum ekki fjársterka aðila, burðuga aðila sem leggja fjármagn til framleiðslu á íslensku efni, til þess að byggja upp íslenska miðla þá mun til lengri tíma litið, virðulegur forseti, okkar litla málsvæði láta undan síga í hinni hörðu alþjóðlegu samkeppni um athygli neytenda og afþreyingu í þessum miðlum öllum.

Hér hefur svo sannarlega ekki verið gætt neins meðalhófs í málsmeðferð enda tilgangurinn sannarlega ekki sá að gæta neins meðalhófs. Hér á einfaldlega af hálfu eins flokks og forustu hans að setja lög um eitt fyrirtæki til þess að koma í veg fyrir gagnrýni. Slíkt má aldrei í lög leiða. Ef meiri hlutinn á Alþingi knýr málið í gegn liggur það fyrir að því verður áfrýjað til annarra aðila og við verðum bara að vona að það grundvallarsjónarmið um tjáningarfrelsi reynist standa nægilega traustum fótum í stjórnarskránni til þess að það verði varið, vegna þess að ég er, virðulegur forseti, þeirrar skoðunar að Jón Jónsson megi vera hver sem er og hvernig manneskja sem er og hafa gert af sér hvað sem er. Hann á skilyrðislaust að mínu mati rétt á því að prenta blöð, útvarpa eða sjónvarpa sjónarmiðum sínum svo fremi að markaðshlutdeild þeirrar starfsemi fari ekki yfir óhófleg mörk að samanlögðu. En til þess höfum við einfaldlega almenna samkeppnislöggjöf og hún hefur dugað okkur hingað til.

Ein af þeim afsökunum sem beitt hefur verið er sú að hér sé samþjöppun á matvörumarkaði svo mikil og veldi þess fyrirtækis sem knésetja á, Baugs, svo mikið að það verði að setja bönd á það. En það er, virðulegur forseti, ákaflega skrýtið að ætla sér að koma böndum á samkeppni á matvörumarkaði með því að banna Bónus að eiga í sjónvarpsstöð. Það, virðulegur forseti, nær náttúrlega ekki nokkurri átt og eru algjörlega óboðleg rök. Ef menn vilja gera eitthvað í fákeppni á matvörumarkaði verða þeir að beina sjónum sínum að matvörumarkaðnum og samkeppnislöggjöfinni sem að honum lýtur en ekki ráðast á fjölmiðlana.

Sömuleiðis hefur því verið haldið fram að þessi staða hér sé einsdæmi og það er auðvitaða út af fyrir sig rétt. En það er líka bara retorísk yfirlýsing vegna þess að staða þessa nefnda fyrirtækis á matvörumarkaði er einsdæmi í heiminum og þess vegna skiptir engu máli hvað þetta fyrirtæki tekur sér fyrir hendur, það er allt einsdæmi. Ef þetta fyrirtæki opnar ísverslun í Austurstræti þá er það einsdæmi að fyrirtæki með slíka stöðu á matvörumarkaði opni ísbúð í aðalgötu, því það er staðan á matvörumarkaði sem er einsdæmi og hefur oft og tíðum sannarlega verið áhyggjuefni. Víst höfðum við mörg efasemdir um að rétt væri að heimila samruna Bónuss og Hagkaups en við leysum það auðvitað ekki með því að banna þeim að reka sjónvarp. Þeim á að vera frjálst, hverjir svo sem þeir eru, hvað svo sem þeir hafa gert, að prenta blöð, útvarpa og sjónvarpa. Það er grundvallarsjónarmið.

Því hefur verið haldið fram í umræðunni, m.a. af hæstv. forsrh., að nú séu komin í stað gömlu flokksblaðanna fyrirtækjablöðin og þau séu nú hálfu verri og hið mikilvæga sé að hafa eftirlit og aðhald með fyrirtækjunum enda séu völd þeirra og umsvif sífellt meiri. Það síðasta má til sanns vegar færa. En sá er nú munurinn á að ástæðan fyrir því að fjórða valdið, fjölmiðlarnir, á að hafa aðhald með löggjafanum, framkvæmdarvaldinu og dómsvaldinu er að enginn þessara valdþátta er á markaði. Fyrirtækin í landinu eru á markaði. Á hverjum degi þurfa þau að keppa um hylli neytenda og markaðurinn er einfaldlega þannig að ef þau ekki til lengri tíma sinna vel starfsskyldum sínum glata þau stöðu sinni á markaði, enda séu samkeppnisreglur sæmilega skýrar.

[14:00]

En á Alþingi er því ekki að heilsa né í ríkisstjórninni. Hér erum við kosin til fjögurra ára og þess vegna er það fyrst og fremst með valdþáttum ríkisvaldsins, dómsvaldinu, framkvæmdarvaldinu og löggjafarvaldinu, sem fjölmiðlarnir eiga að hafa eftirlit en ríkisvaldið svo aftur með fyrirtækjunum. Og það kallar auðvitað á að það sé mikið gegnsæi hjá ríkisvaldinu og hjá stjórnmálaflokkunum og þær röksemdir sem hafa verið færðar upp á fjölmiðlana í þessu efni eiga auðvitað við um stjórnmálaflokkana, því að ef þeir eiga að geta haft eftirlit með atvinnulífinu verður auðvitað að liggja fyrir hverjir það eru sem eru að setja peninga í það. Stjórnmálaflokkarnir eru jú í vissum skilningi leynifélög og meðan sú mikla leynd hvílir yfir bókhaldi þeirra veit enginn meðan þessi umræða fer fram hvort einstaka hagsmunaaðilar á markaðnum, einstaka aðilar sem þar eigi hagsmuna að gæta, hafi látið hundruð þúsunda, milljónir eða tugi milljóna renna í sjóði þeirra sem nú fara fram með þessi lög. Um það er engar upplýsingar að fá, ekkert gegnsæi þar og það er auðvitað jafnóþolandi eins og þegar við vissum ekki hver ætti Fréttablaðið. Það er mikilvægt að við vitum hverjir eiga blöðin og þau eiga allir að mega gefa út. Hér er, eins og hv. þm. Jóhann Ársælsson sýndi fram á í gær, í fyrsta skipti í sögu landsins verið að setja skorður við prentfrelsi manna, að þeir sem reka útvarps- eða sjónvarpsstöðvar geta ekki eftir lögum þessum gefið út dagblöð.

Virðulegur forseti. Það hefur ítrekað gerst á síðustu árum að Alþingi hefur samþykkt lög sem hafa gengið gegn stjórnarskrá og Hæstiréttur hefur þurft að leiðrétta. Menn hafa einhvern veginn aldrei hirt um að taka það svo mjög alvarlega og raunar í tilfelli öryrkjanna okkar sett önnur lög ofan í dóm sem jafnframt brutu gegn stjórnarskránni og raunar verið teknir upp í Hæstarétt þrisvar til þess að læra grundvallaratriði um íslenska stjórnskipan af Öryrkjabandalaginu einu saman, fyrir utan kvótadómana og ýmislegt annað sem fallið hefur.

Mér finnst þess vegna nauðsynlegt að hv. þm. Bjarni Benediktsson, formaður allshn., og fagna því að hann er í salnum, og e.t.v. hæstv. forsrh. ef hann lætur svo lítið, geri þinginu grein fyrir sinni pólitísku ábyrgð í málinu. Hér hafa verið settar fram efasemdir um að þetta lagafrv. standist grundvallarákvæði í stjórnarskrá og mannréttindasáttmálum, að það kunni að leiða til umtalsverðrar skaðabótaskyldu af hálfu íslenska ríkisins, að það kunni að stefna atvinnu hundruð manna í hættu. Þessum sjónarmiðum hafa hv. þm. Bjarni Benediktsson og hæstv. forsrh. Davíð Oddsson hafnað, og það er þeim heimilt, fullkomlega frjálst og heimilt. Þeir hafa þá skoðun að þessi sjónarmið séu röng, það sé ekki ástæða til að hafa efasemdir um þetta og þessi aðvörunarorð séu að engu hafandi. Það er réttur hæstv. forsrh. og hv. þm. Bjarna Benediktssonar að fara þannig fram með þetta frv. sitt. En ég tel alveg nauðsynlegt að þeir geri þá grein fyrir því þegar þeir hafna athugasemdum og ábendingum um þessi grundvallaratriði, vísa þeim á bug og gera þetta að lögum, hvort þeir hafi þá ekki jafnframt axlað ábyrgð á lögunum og pólitíska ábyrgð á málinu. Ég vil biðja hv. þm. Bjarna Benediktsson, því hann er ólíkt hæstv. forsrh. staddur í salnum, að lokinni ræðu minni að svara til um hvaða afleiðingar hann telur það hafa fyrir sig og sína pólitísku stöðu ef þær aðvaranir sem hann lætur sem vind um eyru þjóta reynast á síðari stigum í meðferð málsins fyrir dómstólum, til að mynda fyrir Hæstarétti Íslands, hafa verið réttar athugasemdir, hver telur hann að ábyrgð hans sé og hvernig mun hann þá axla hana? Ég tel alveg nauðsynlegt að það komi fram.

Vegna þess að ég heyrði hv. þm. Pétur H. Blöndal hafa hér úr hliðarsal uppi einhver orð kemur mér jafnframt í hug annað atriði sem ég tel að sé mjög mikilvægt að við fáum svar við hér og raunar að við fáum svar við frá hæstv. forsrh. Davíð Oddssyni, því að það mál varðar óvissu í stjórnskipan Íslands sem ég tel satt að segja algerlega óviðunandi og mikilvægt að hæstv. forsrh. taki af öll tvímæli um hér á Alþingi hvernig því máli víkur við, því að hafin er söfnun áskorana á hæstv. forseta Íslands um að undirrita ekki þau lög sem hér stefnir í að verði samþykkt. Á þeirri áskorun ætla ég ekki að hafa neina skoðun en ég hef þó talið að forseti lýðveldisins hefði heimild til að synja lögum um staðfestingu. En ég heyrði í morgunsjónvarpi Stöðvar 2 í morgun að Pétur H. Blöndal alþingismaður vefengir að hæstv. forseti Íslands hafi þá heimild. Nú er það út af fyrir sig svo að það er almennt viðurkennt að embætti forseta Íslands er fremur valdalítið embætti og fyrst og fremst táknrænn forustumaður þjóðarinnar, en þó hélt ég satt að segja að ekki væri um það deilt að stjórnarmyndunarumboðið afhenti forsetinn annars vegar og hins vegar gæti hann með þessum hætti, þó að hann hafi aldrei gert það, neitað að staðfesta lög.

En ef staðan er sú hér í lýðveldinu að ríkisstjórnin, hv. þm. Pétur H. Blöndal og hæstv. forsrh. --- því að ég mundi þá líka eftir sambærilegum yfirlýsingum hæstv. forsrh. í tengslum við ríkisráðsfund --- viðurkenna ekki, ef hæstv. ríkisstjórn viðurkennir ekki að forseti Íslands hafi þessa heimild, ja, hvar erum við þá stödd, hæstv. forseti? Erum við þá þar stödd að ríkisstjórnin mun láta sig það engu varða hvaða afstöðu forseti lýðveldisins kann að hafa til efnisins? Mun það engu skipta hvað hann gerir? Hafnar ríkisstjórnin og ríkisstjórnarflokkarnir því að forseti Íslands hafi yfir höfuð nokkuð um málið að segja?

Hér er um að ræða óvissu um slíkt grundvallaratriði í stjórnskipan landsins að ég tel algerlega nauðsynlegt að forustumaður ríkisstjórnarinnar, hæstv. forsrh. Davíð Oddsson, geri grein fyrir því hvort hann hafni því að forseti Íslands hafi þetta vald. Ef það er svo að forsrh. hafnar því að forseti Íslands hafi þetta vald og ef einhvern tíma í framtíðinni, við skulum láta þetta frv. liggja milli hluta, en jafnvel ef forseti Íslands neytti þessa réttar síns við þetta frv., hver er staða okkar þá ef hæstv. forsrh. neitar að viðurkenna þá athöfn? Ríkir þá stjórnskipunarleg kreppa í landinu? Telur hæstv. forsrh. og telur hv. þm. Pétur H. Blöndal að hæstv. forseti Íslands hafi engin völd?

Það er alveg nauðsynlegt að þetta komi fram vegna þess að allur þorri almennings telur að forseti Íslands hafi þetta vald og hefur ítrekað komið til hans áskorunum um að hann beiti því valdi. Ef það er svo að það skiptir engu máli og ríkisstjórnin mundi hvort eð er bara hunsa slíka ákvörðun og halda áfram að stjórna landinu eins og ekkert hefði í skorist, hvar erum við þá stödd? Þess vegna tel ég að það sé algerlega nauðsynlegt, fyrst hæstv. forsrh. er ekki kominn í salinn, að hv. þm. Bjarni Benediktsson og hv. þm. Pétur H. Blöndal geri grein fyrir því hvort þeir hafni því með öllu að hæstv. forseti Íslands hafi yfir höfuð nokkur völd í íslenskri stjórnskipun.