Útvarpslög og samkeppnislög

Fimmtudaginn 13. maí 2004, kl. 14:13:26 (8096)

2004-05-13 14:13:26# 130. lþ. 114.1 fundur 974. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum) frv. 48/2004, HHj (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 114. fundur, 130. lþ.

[14:13]

Helgi Hjörvar (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég er ekki hissa á því að hv. þm. Bjarni Benediktsson hafi ekki verið tilbúinn til að lýsa því yfir hér að hann sem formaður allshn. væri reiðubúinn til að axla pólitíska ábyrgð á því frv. með þeim breytingum sem hann hefur nú lagt fyrir þingið. Ég hygg, virðulegur forseti, að hv. þm. Bjarni Benediktsson vísi ábyrgðinni á alla félaga sína í stjórnarmeirihlutanum vegna þess að hann veit að hér eru uppi veruleg álitaefni um grundvallaratriði sem knúin eru í gegn algerlega að nauðsynjalausu.

Það er engu að síður þannig, hv. þm. Bjarni Benediktsson, að ef það reynist svo að þú, hv. þm., hafir haft að engu aðvörunarorð um að gengið væri gegn grundvallarákvæðum stjórnarskrár svo sem eins og um eignarrétt eða tjáningarfrelsi, þá er ábyrgðin þín. Og sú ábyrgð eins alþingismanns að fá aðvaranir frá mætustu mönnum um að hann sé að brjóta gegn stjórnarskránni, hafa þær að engu og keyra það í gegn, er mikil og það verður ekki hjá því komist að hv. þm. Bjarni Benediktsson axli þá ábyrgð og lýsi því yfir að hann beri fulla og óskoraða ábyrgð á því frv. sem hér liggur fyrir og leggi starfsheiður sinn og stjórnmálaframa að veði í því efni því hér eru svo mikilsverð álitaefni uppi.

Til að svara spurningunni um fyrirtæki á fjölmiðlamarkaði liggur það væntanlega fyrir að Ríkisútvarpið, sjónvarp hefur sterkasta stöðu og ég hef lýst þeirri skoðun að e.t.v. sé sú staða svo sterk að hún valdi því að ekki hafi verið nægileg gróska á einkamarkaði á undanförnum árum, að sú markaðsstaða hafi verið óhófleg. (Forseti hringir.) En það er það eina sem mér kemur í hug.

(Forseti (SP): Forseti vill minna hv. þm. á það að ræðumaður skal jafnan víkja ræðu sinni til forseta eða fundarins en eigi ávarpa nokkurn einstakan þingmann.)