Útvarpslög og samkeppnislög

Fimmtudaginn 13. maí 2004, kl. 14:26:56 (8102)

2004-05-13 14:26:56# 130. lþ. 114.1 fundur 974. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum) frv. 48/2004, HHj (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 114. fundur, 130. lþ.

[14:26]

Helgi Hjörvar (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er gott að frétta það í þessari umræðu að hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson sé ekki orðinn helsti sporgöngumaðurinn að útgáfu ríkisdagblaða á Íslandi. En hv. þm. hefur nú snúist eins og vindhani í meiningum sínum undanfarna daga og skilið við fyrri sannfæringu sína í öllum grundvallaratriðum, held ég, í því máli sem hér liggur fyrir og þess vegna full ástæða til að ganga eftir því hvort hann væri ekki fullkomlega genginn í björgin með ríkisdagblaðinu og öllu.

Þegar hann spyr hvort ég sé sammála hv. þm. Jóhanni Ársælssyni um það að Fréttablaðið sé auglýsingablað þá vil ég nú fyrst segja að ég tel að hv. stjórnarliðar hafi verið alveg einfærir um að svívirða starfsmenn Fréttablaðsins og að hv. þm. Jóhann Ársælsson hafi ekki gert það í ræðu sinni, enda með eindæmum málefnalegur og kurteis þingmaður þar á ferð. Það sem hv. þm. Jóhann Ársælsson var að draga fram var að Fréttablaðið væri fjármagnað með auglýsingum og í þeim skilningi auglýsingablað en ekki áskriftarblað. Það breytir því ekki að í því birtast fréttir og ágætar fréttir oft og stundum auðvitað aðrar og verri fréttir. Ég hef þannig sjálfur verið titlaður siðblindi blindrahöfðinginn af ritstjórum Fréttablaðsins og DV í skrifum þeirra og getur mönnum auðvitað sýnst sitt hverjum um það. En mér finnst nú samt að þeir menn og eigendur þessara blaða og hver sem er eigi að fá að prenta blöð, útvarpa eða sjónvarpa skoðunum sínum meðan ekki eru nein takmörk fyrir því hve margir komast að í því efni. Það er grundvallaratriðið sem hér er undir, þ.e. að allir, hverju nafni sem nefnast, háir sem lágir, svartir sem hvítir, hægri menn, vinstri menn, góðir menn, vondir menn, fangar og frjálsir menn, allir megi prenta, útvarpa og sjónvarpa að vild sinni fyrir Íslendinga á íslensku.