Útvarpslög og samkeppnislög

Fimmtudaginn 13. maí 2004, kl. 16:13:50 (8106)

2004-05-13 16:13:50# 130. lþ. 114.1 fundur 974. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum) frv. 48/2004, MÞH
[prenta uppsett í dálka] 114. fundur, 130. lþ.

[16:13]

Magnús Þór Hafsteinsson:

Hæstv. forseti. Ég vil leyfa mér að hefja mál mitt á tilvitnun, með leyfi forseta:

,,Ísland er lýðræðisþjóðfélag og fjölmiðlar á Íslandi starfa í lýðræðisumhverfi. Lýðræði nútímans einkennist af tvennu umfram annað: meirihlutareglu og réttindum þegnanna. Lýðræðisríki nútímans styðjast flest við frjálsan markað en á honum leitast ríkisvaldið að setja almennar leikreglur en vera ekki beinn þátttakandi í atvinnustarfsemi.``

Hvaðan skyldu þessar fleygu setningar vera komnar? Jú, þetta eru upphafsorð 2. kafla í frægri greinargerð nefndar menntmrh. um eignarhald á fjölmiðlum á Íslandi sem út kom í byrjun apríl sl., hinni svokölluðu fjölmiðlaskýrslu sem svo mjög hefur verið til umræðu í þjóðfélaginu á undanförnum vikum og hefur í raun og veru hrundið af stað atburðarás sem sett hefur allt í bál og brand, ekki bara á hinu háa Alþingi heldur líka í öllu þjóðfélaginu og er ekki enn séð fyrir endann á þeirri orrahríð.

[16:15]

Ég sem hér stend hef svo sem ekki farið dult með skoðanir mínar á frv. Ég tel að það sé meingallað og kolómögulegt á allan hátt, að því hafi verið staðið með mjög óbilgjörnum og ósanngjörnum hætti í þinginu og það sé í raun og veru þinginu og stjórnvöldum til vansa hvernig að allri málsmeðferð hefur verið staðið. Við vitum það jú, frú forseti, að það hefur ekki verið litið til margra skuldbindinga Íslands, t.d. samkvæmt EES-samningnum. Talað er um í nál. minni hluta allshn., sem ég tek heils hugar undir, að reglur um staðfesturétt, þjónustufrelsi, fjármagnsflutninga og reglur um lögfræðilega vissu og bann við afturvirkni, séu allt reglur sem hafi verið hunsaðar samkvæmt EES-samningnum. Ekki hefur verið tekið tillit til mannréttindasáttmála Evrópu eða samnings Sameinuðu þjóðanna um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi. Umsagnaraðilar hafa ekki fengið nægan tíma til að tjá sig um málið. Efh.- og viðskn. Alþingis og menntmn. hafa ekki fengið að starfa eðlilega, það hefur verið svínað illilega á þessum virðulegu nefndum Alþingis. Þær hafa ekki fengið að vinna sína vinnu, frú forseti, þó svo að málið komi þessum nefndum fyllilega við því að það er ekkert einkamál fyrir allshn. og það má setja stórt spurningarmerki við það hvers vegna í ósköpunum allshn. var falið að fjalla um frv. Eina ástæðan fyrir því er í raun og veru sú að frv. var lagt fram af hæstv. forsrh.

Þetta mál heyrir að sjálfsögðu líka undir efh.- og viðskn. og menntmn. Hér er verið að takast á um prinsippmál í atvinnulífi þjóðarinnar, takast á um mál sem varða mikla fjármuni bæði í bankakerfinu og hjá lífeyrissjóðunum m.a. Þetta er ekki bara einkamál þeirra sem verða fyrir barðinu á lagasetningunni ef hún verður að veruleika, sem ég vona reyndar ekki. Og menntmn., jú, að sjálfsögðu, málið varðar menningu þjóðarinnar. Hér er verið að tala um framtíð íslenskra fjölmiðla og hvaða umhverfi við ætlum að búa íslenskum fjölmiðlum í framtíðinni og fjölmiðlar eru svo sannarlega hluti af menningu þjóðarinnar, ég tala nú ekki um ef þessir fjölmiðlar rækja hlutverk sitt eða eitt af sínum mikilvægustu hlutverkum, sem er einmitt að vera eins konar prímus mótor í allri þjóðmálaumræðu og hlúa að íslenskri tungu og íslenskri menningu, sem ég tel að mjög margir íslenskir fjölmiðlar hafi sem betur fer gert á undanförnum áratugum þó að sjálfsögðu megi gera þar bragarbót á eins og gengur því að það er misjafn sauður í mörgu fé. En nóg um það í bili.

Ef við skoðum frv. þá er það eins og ég sagði áðan algjörlega ótækt og það er af nógu að taka. Það er í raun og veru spurning hversu langt maður á að fara ofan í það. Hér hafa margir ágætir ræðumenn á undan mér farið mjög ítarlega yfir galla frv. og fáir eða engir séð neina kosti við það nema þá ef vera skyldu þeir örfáu stjórnarliðar sem hafa tekið til máls en þá er ekki einu sinni hægt að telja á fingrum annarrar handar. Þeir hafa brillerað með fjarveru sinni frá því að málið kom fyrst til umræðu á hinu háa Alþingi.

Eins og ég sagði áðan veit maður varla hvar maður á að bera niður í gagnrýninni því það er af svo mörgu að taka. Ef maður les texta frv. þá eru þar hlutir sem maður hnýtur strax um sem hvergi eru skilgreindir, t.d. það hvernig í ósköpunum menn ætla sér að fara að að því að skilgreina hugtakið markaðsráðandi staða á einhverju sviði viðskipta. Það er hvergi skilgreint í frv. og maður veit í raun og veru ekki hvað skal teljast markaðsráðandi. Síðan er hin makalausa 5% regla og skilyrði um að fyrirtæki megi ekki velta meiru en 2 milljörðum, sem ég tel vera algjörlega ótækt.

Margt annað mætti tína til, frú forseti, til að klekkja á þessu frv. en eins og ég sagði áðan hefur margoft verið bent á það í fyrri ræðum og ég tel í sjálfu sér ekki ástæðu til að ég fari að tyggja það allt upp. Menn hafa jafnvel staðið hér og lesið upp hinar fjölmörgu umsagnir sem þó hafa borist um málið og þetta hefur allt verið tíundað fram og til baka.

Í það heila er það mín skýra og skorinorða skoðun að taka eigi málið út af dagskrá hið fyrsta og nota sumarið til að vinna í því og vanda lagasetninguna miklu betur en gert hefur verið. Það er ekkert sem segir okkur að það liggi svona mikið á. Stjórnarliðar hafa hvergi getað komið með haldfastar röksemdir fyrir því að það liggi svo mikið á að keyra þetta umdeilda frv. í gegnum þingið á örfáum dögum með þeim handarbakavinnubrögðum, og mér liggur við að segja því svínaríi sem viðgengist hefur gegn lýðræðislegum vinnubrögðum, sem við höfum orðið vitni að. Það er ekkert sem gerir það að verkum eða segir okkur það að slíkt óðagot þurfi í málinu. Við ættum að setjast niður og nota sumarið til að vinna í málunum, kanna þau betur, leita fleiri umsagna og að sjálfsögðu leita ráða hjá þeim sem málið varðar. Þá er ég að tala um bæði þá sem starfa á þessum fjölmiðlum og líka þá sem eru eigendur þessara fjölmiðla í dag. Þetta er fólk sem veit út á hvað fjölmiðlun gengur, skilur eðli fjölmiðla miklu betur en flestir þeir þingmenn og jafnvel embættismenn sem hafa komið að þessari makalausu lagasetningu og jafnvel miklu betur en höfundar skýrslunnar sem á að liggja til grundvallar því fáránlega lagafrv. sem nú liggur fyrir þinginu.

Frjálslyndi flokkurinn hefur aldrei sett sig á móti því að þessi mál yrðu skoðuð. Ég vil fá að minna á það að í haust var lögð fram þáltill. á hinu háa Alþingi þar sem mælst var til þess að gerð yrði könnun á starfsumhverfi fjölmiðla hér á landi. Flutningsmenn tillögunnar voru Álfheiður Ingadóttir, Vinstri grænum, Drífa Hjartardóttir, Sjálfstfl., Guðjón Arnar Kristjánsson, Frjálsl., Hjálmar Árnason., Framsfl., og Steingrímur J. Sigfússon, Vinstri grænum. Fjórir af fimm flokkum á þingi stóðu að þáltill. og skömmu síðar kom Samf. líka með tillögu þar sem lagt var til að farið yrði í að skoða þessi mál.

Það er alveg sjálfsagt, frú forseti, að skoða málin varðandi eignarhald og samþjöppun á eignarhaldi á fjölmiðlum á Íslandi og það er jafnvel þarft að fara yfir það og líta á hvernig eigi að gera það en ég tel að þær aðferðir sem dregnar hafa verið upp af hæstv. forsrh. og komu fram í því frv. sem hér liggur fyrir séu algjörlega ótækar og beri þess vitni að málið hafi hvergi verið hugsað í botn og að mjög illa hafi verið staðið að því.

Hvernig á að standa að því? Ég tel mig ekki þurfa að standa skil á því hér og nú vegna þess að ég tel, eins og ég sagði áðan, sú vinna eigi að vera í nánu samstarfi við þá sem málið varðar og það sé ekki tímabært fyrir okkur nú á Alþingi að vera að henda einhverjum tillögum út í loftið um það hvernig við ætlum að fara að því að skoða þessa hluti. Við eigum að gera það í samráði við þá sem málið varðar, það er hin lýðræðislega aðferð í þessu máli, frú forseti, og þá leið eigum við að fara. Síðan væri hægt að leggja fram frv. fyrir hið háa Alþingi í haust og nota næsta vetur til að vinna af kostgæfni og vandvirkni að því að setja einhvers konar lagaumgerð um starfsemi fjölmiðla á Íslandi, og þá ekki endilega bara um eignarhald heldur líka um ritstjórnarlegt sjálfstæði og annað þess háttar, hluti sem sem varða fjölmiðlun á Íslandi miklu. Líta þarf á alla fjölmiðla á Íslandi, skoða alla heildarmyndina eins og hún leggur sig og reyna frekar að setjast niður og smíða þá lagaumgjörð fyrir fjölmiðla sem við gætum notast við í framtíðinni. Það væri langheillavænlegasta aðferðin, að reyna að gera það í sátt við sem flesta, því að þetta er mál, frú forseti, sem varðar alla landsmenn. Neytendur fjölmiðla á Íslandi eru allir landsmenn, fjölmiðlar eru svo stór hluti af daglegu lífi okkar að þetta er ekkert einkamál. Og það er gersamlega forkastanlegt, frú forseti, að farið sé að krukka í málið eingöngu fyrir heift eins manns eða lítils hóps manna í garð einhverra annarra manna í þjóðfélaginu, að hér sé farið út í hálfgerða borgarastyrjöld eingöngu til þess að þjóna dyntunum í einhverri lítilli klíku úti í bæ sem þarf að ná sér niðri á einhverri annarri klíku sem þeir af einhverjum ástæðum, sem enginn kann skil á nema kannski þeir sjálfir þó að ég efist reyndar um það líka, eru að reyna að ná sér niðri á. Það er gersamlega forkastanlegt.

Það er enginn vafi á því, eins og ég benti á, að fjölmiðlarnir eru ein af meginstoðum opins samfélags og lýðræðislegrar stjórnskipunar hér á landi og undirstaða þeirra í þjóðfélaginu þarf ekki að vera neinum vafa undirorpin. Ég hef svo sem bent á það í fyrri ræðu minni hér.

Eitt af því sem ég hef hnotið um er að stjórnarliðar hafa mjög mikið talað um að það þurfi að setja þessi lög til að tryggja fjölbreytni í fjölmiðlun á Íslandi. Á því hefur verið tönnlast nánast stanslaust, að tryggja fjölbreytni í fjölmiðlun, þess vegna þurfi að setja lög á eignarhaldið. Þetta er rakalaust kjaftæði sem nær ekki nokkurri einustu átt vegna þess að það er margoft búið að sýna fram á það í málflutningi í þessum sal að fjölbreytni í fjölmiðlun á Íslandi hefur aldrei verið jafnmikil og núna. Bent er á það og það er líka nánast viðurkennt í fjölmiðlaskýrslunni svokölluðu. Hér hjá 300 þúsund manna þjóð --- ég held að ég leyfi mér að fullyrða að á fáum eða engum stöðum í heiminum er jafnfjölbreytt fjölmiðlun og hér miðað við höfðatölu --- höfum við þrjú dagblöð, 23 héraðsfréttablöð sem koma út á 17 stöðum allt í kringum landið og er dreift um öll héruð landsins og fara mjög víða, líka á höfuðborgarsvæðið þar sem búa mjög margir sem áður bjuggu á landsbyggðinni og vilja gjarnan fylgjast með fréttum úr sínu héraði, viðskiptablað sem kemur út að mig minnir tvisvar í viku og sjávarútvegsblað sem kemur út vikulega. Við höfum tímarit um nánast allt milli himins og jarðar, mat, híbýli, mannlegt líf, sjávarútveg, verslun og svona má áfram lengi telja.

Við höfum ótal útvarpsstöðvar að velja úr sem sinna nánast öllu, frá trúarefnum yfir í dægurmálaútvarp þar sem nánast eingöngu er talað mál, við höfum tónlistarstöðvar sem útvarpa ýmiss konar tónlist og rabbþáttum. Við höfum meira að segja útvarpsstöð sem er eingöngu fyrir börn. Ríkisútvarpið er með sex rásir, fjórar rásir með svæðisútvarp sem senda út reglulega. Við erum með tíu sjónvarpsstöðvar, ef ég man rétt, og fjórar þeirra senda út um allt land. Til viðbótar þessu eru mjög margir sem geta tekið við gervihnattasjónvarpi, sjónvarpi utan að frá, sjónvarpi í gegnum breiðband og annað þess háttar. Við höfum að sjálfsögðu internetið þar sem er mikil gróska í fjölmiðlun, bæði í fréttaveitum, skoðanaskiptum og ýmiss konar miðlun á upplýsingum sem að sjálfsögðu er fjölmiðlun. Þarna hefur komið fram nýr og öflugur miðill á undanförnum árum. Það er reyndar miðill sem hvergi er nefndur í fjölmiðlafrv., þessu makalausa fjölmiðlafrv. forsrh., kannski vegna þess að hann notar ekki internetið, hann er ekki búinn að uppgötva það enn þá að þarna er miðill sem gæti verið mjög hættulegur fyrir íslensku ráðstjórnina, hver veit? Það er eflaust miðill til framtíðar. Við sjáum að það er farið að senda sjónvarpsefni í gegnum internetið og útvarpsefni. Við t.d. hjá þingflokki Frjálsl. hlustum iðulega á útvarpið í gegnum tölvurnar okkar. Það er oft og tíðum þannig að þegar maður hefur verið á löngum þingfundi og misst af sjónvarpsfréttum fer maður upp á skrifstofu og horfir á fréttirnar á netinu í gegnum tölvuna. Blöðin getur maður lesið á netinu, til að mynda Fréttablaðið, þetta skelfilega Fréttablað sem rænir hæstv. forsrh. svefni og jafnvel viti, segja sumir, það er hægt að nálgast það á netinu nóttina sem það kemur út, nánast um leið og það kemur út úr prentvélunum er það komið út á netið.

Það er raunar mín skoðun, framtíðarsýn varðandi fjölmiðla, að ég trúi því að þegar netið verður enn þá betra í framtíðinni verði búinn til einhvers konar fréttamiðill sem mun sýna bæði lifandi myndefni, fréttir og síðan hljóðskrár, þ.e. hljóðritað efni, og síðan texta, lesefni og ljósmyndir. Við sáum núna í kosningabaráttunni athyglisverðan vísi að þessu á Íslandi þar sem einhverjir ungir hugsjónamenn reyndu að koma á fót fjölmiðli sem þeir kölluðu tunga.is og þeir voru með fréttaflutning úr kosningabaráttunni. Það var mjög gaman að sjá þar hvernig þeir tvinnuðu saman bæði hljóð og lifandi myndir og síðan texta. Þarna var vísir að hlut sem ég held að eigi eftir að skipta meira máli í framtíðinni. Því miður lagðist þessi miðill af eftir nokkrar vikur, honum er ekki lengur haldið úti, en ég er sannfærður um það, frú forseti, að slíkur miðill á eftir að koma upp aftur og hann mun eflast, ef rétt verður að staðið, ná mjög mikilli útbreiðslu og ná að eflast og dafna nema náttúrlega að forsrh. sjái við því líka og setji lög og reyni að koma honum fyrir kattarnef. Það skal engan undra þó að það verði gert, hvort sem það verður núv. forsrh. eða næsti forsrh. eða einhverjir aðrir valdhafar í landinu sem tilheyra þeim öflum sem vilja nú gera þessa heiftúðugu árás á Norðurljós. Því það er enginn vafi á því, frú forseti, að frv. sem hér liggur fyrir er beint gegn einum aðila og engum öðrum og það eru fjölmiðlar Norðurljósa. Það er svo augljóst, það hefur komið fram í málflutningi bæði stjórnarliða, þeirra fáu sem hafa talað hér, það hefur komið fram í ýmsum heiftúðlegum greinaskrifum þar sem menn hafa farið mikinn í því að hatast út í þessa fjölmiðla, m.a. hæstv. dómsmrh. Björn Bjarnason, sem hefur einmitt opinberað heift sína gegn þessum miðlum.

[16:30]

Mér þykir einmitt aðkoma hæstv. dómsmrh. að málinu, hann er jú ráðherra í ríkisstjórn Íslands, þeirri ríkisstjórn sem er að reyna að berja frv. í gegn, athyglisverð og eftirtektarverð því að þar fer hluthafi í Árvakri sem er útgáfufélag Morgunblaðsins. Hann er að vísu ekki stór hluthafi en mér er tjáð að hann og ættingjar hans og vinir eigi mjög stóra hluti í því blaði. Árvakur er í eigu lítillar klíku í Sjálfstfl. og bönd þeirrar klíku liggja víða og ég hygg að það sé augljóst að Morgunblaðið muni hafa mikinn hag af því að lögin fari í gegn. Það mun losna við skeinuhætta keppinauta á sviði dagblaða, þá er ég að tala um Fréttablaðið og DV, og mig grunar það, frú forseti, að frv. sé að verulegum hluta samið einmitt með hagsmuni þessara aðila í huga.

Til að mynda er hvergi minnst á það í frv. að Árvakur á bæði næststærsta dagblað landsins og líka stærsta netfréttamiðil landsins, mbl.is. Af hverju eru ekki sett nein lög um eignaraðild á netfréttamiðlum? Hvernig skyldi standa á því? Mér finnst það alveg stórfurðulegt. Framsýnir og víðsýnir stjórnmálamenn sem vilja þjóð sinni vel ættu að sjálfsögðu að hugsa til þess að reyna að setja einhverjar hömlur á netið fyrst þeir eru að hugsa um fjölmiðla á annað borð. En það er að sjálfsögðu ekki gert.

Mér finnst hafa skort svolítið á það að fólk beini sjónum sínum einmitt að því hver gæti verið hlutur þeirra sem sitja í innsta hring Sjálfstfl. og eru jafnframt stórir aðilar í Morgunblaðinu, hver hlutur þeirra gæti verið í þessu máli sem mig grunar að sé ekkert annað en eitt stórt samsæri.

Ég get t.d., máli mínu til stuðnings, bent á það að einn af höfundum fjölmiðlaskýrslunnar, Pétur Gunnarsson, framkvæmdastjóri Framsfl., var á sínum tíma til mjög margra ára blaðamaður hjá Morgunblaðinu, það er ekkert mjög langt síðan hann hætti á Mogganum. Hann á eflaust marga vini þar, kannski meðal ritstjóra og eigenda, hver veit? Mig undrar að hann skuli ekki hafa verið spurður um þann þátt fram að þessu.

Annar maður sem hefur gengið mjög harkalega fram og talað mjög ítarlega fyrir frv. er Jakob Ásgeirsson sem skrifaði sögu fyrsta ritstjóra og aðaleiganda Morgunblaðsins, bók sem kom út rétt fyrir jól. Hann skrifar til að mynda grein í Viðskiptablaðið 28. apríl þar sem hann segir m.a.:

,,Það er ekkert nema sjálfsagt að setja lög sem koma í veg fyrir að einn aðili geti verið mikilsráðandi hvort tveggja á dagblaða- og sjónvarpsmarkaði.``

Hann vitnar m.a. í vin sinn og sálufélaga, Björn Bjarnason hæstv. dómsmrh., í þessari grein sem heitir ,,Til verndar almenningi``, og þá á hann við það frv. sem nú er fram komið og það er að sjálfsögðu til verndar almenningi, það er alltaf verið að hugsa um velferð almennings í Stjórnarráðinu eins og við vitum öll. Hann segir hér, með leyfi forseta, um það sem Björn Bjarnason er að skrifa fyrir þessu frv.:

,,En um þetta snýst í rauninni frumvarp til laga um eignarhald á ljósvakamiðlum: Að koma í veg fyrir að auðjöfrar allsráðandi á sumum sviðum viðskiptalífsins komist í þá aðstöðu að geta stjórnað lýðræðislegri umræðu í landinu og hafa í krafti auðs síns afgerandi skoðanamyndandi áhrif.

Í öllum löndum eru sérstök lög um fjölmiðla sem á einn eða annan hátt hafa áhrif á eignaraðild þeirra og markaðsráðandi stöðu. Frumvarp forsætisráðherra er einfalt og skýrt --- og við eðlilegar aðstæður hefðu flestir verið því samþykkir.

Frumvarpið getur verið skrumskælt í miðlum Baugsveldisins og er með nokkrum ólíkindum hvernig sumir blaðamenn sem þykist annt um starfsheiður sinn hafa leyft sér að skrifa um frumvarp sem þeir hafa ekki séð.

Það er ekkert nema sjálfsagt að setja lög sem koma í veg fyrir að einn aðili geti verið mikilsráðandi hvort tveggja á dagblaða- og sjónvarpsmarkaði. Slík löggjöf er í flestum siðmenntuðum löndum. Og það er ekkert nema sjálfsagt til að tryggja samkeppni og eðlilega viðskiptahætti að setja lög til að koma m.a. í veg fyrir að stærsti auglýsandi á markaði eigi sjálfur meiri hluta í ljósvakamiðlum sama lands.

Það er engum til gagns að tala um þessi efni í fortíð, það er nútíðin sem gildir --- og framtíðin. Umhverfið er breytt og þess vegna þurfa leikreglurnar að vera aðrar en við áður þekktum.``

Það má að mörgu leyti taka undir þetta hjá Jakobi Ásgeirssyni. Það má alveg taka undir markmiðin en ég get ekki skrifað upp á aðferðirnar, það er alveg á hreinu. Þess vegna tel ég að ríkisstjórnin ætti að staldra við og hugsa sinn gang og taka málið út af dagskrá og nota síðan sumarið til að vinna almennilega úr því og hið háa Alþingi fengi það síðan til efnislegrar umfjöllunar næsta vetur og við gætum þá séð hilla undir einhver lög hvað þetta varðar eftir ár. Níu til tólf mánuðir til eða frá geta ómögulega skipt svo miklu máli hvað varðar lagasetningu sem miðar að þessum markmiðum. Það getur ómögulega skipt neinu höfuðmáli, frú forseti, að fara sér svona ofboðslega hratt.

Ég tel að einn af stærstu göllunum við það frv. sem nú liggur fyrir sé einmitt sá að með því er verið að útiloka fjársterka aðila frá því að geta fjárfest í fjölmiðlum. Sá sem hér stendur hefur nokkra reynslu af því að vinna við fjölmiðla, bæði við blöð, útvarp og sjónvarp, og mér er fullkunnugt um að það er gríðarlega dýrt að reka fjölmiðla. Það kostar mjög mikla peninga, það krefst mikils fjármagns. Til að geta rekið fjölmiðil almennilega, til að geta komið honum á fót og rekið hann almennilega verður maður að hafa aðgang að einhverjum bakhjörlum sem eru reiðubúnir til að hætta fé í slíkan rekstur. Þetta er áhættusamur rekstur og hann er mjög dýr.

Útgáfa dagblaða er flókin og kallar á sérfræðikunnáttu á ýmsum sviðum, á sviði ljósmyndunar, á sviði umbrots, á sviði þjóðmála og fólk verður náttúrlega að vera bæði skrifandi og talandi á þá tungu sem fjölmiðillinn kemur út á hverju sinni. Rekstur útvarps er sömuleiðis dýr og krefst bæði sérfræðikunnáttu tæknimanna og góðra dagskrárgerðarmanna með yfirgripsmikla þekkingu á ýmsum málum og síðan að sjálfsögðu fréttamanna með yfirgripsmikla þekkingu. Sjónvarpsrekstur krefst sömuleiðis tæknimanna, dýrs tækjabúnaðar og hæfs starfsfólks á alla vegu.

Allt þetta kostar mjög mikla peninga og það kostar mjög mikla peninga að koma nýjum fjölmiðlum á fót og byggja þá upp og jafnvel að reka þá með tapi fyrstu árin á meðan verið er að vinna land, ef svo má segja, verið er að treysta fjölmiðlana í sessi, fá áskrifendur, eignast viðskiptavini meðal auglýsenda, koma upp dreifingarkerfi og kaupa búnað og tæki og annað sem til þarf.

Að ætla sér að setja eins strangar reglur hvað varðar eignaraðild og eru í þessu frv. er ekkert annað en dauðdómur fyrir fjölmiðlun á Íslandi í framtíðinni. Ef lögin ná að ganga í gegn verður það til þess að fjárfestar munu ekki setja peninga sína í fjölmiðla hér á landi, þeir munu forðast það, ég tel að það sé alveg ljóst. Og hér á landi verða bara örfáir stórir fjölmiðlar sem kannski munu drottna að verulegu leyti yfir markaðnum en öll gróska og öll nýliðun í greininni mun verða fyrir bí nema e.t.v. að til komi einhverjir nýir fjölmiðlar sem nota nýja tækni eins og ég sagði áðan, og þá var ég að tala um internetið. Þar væri hugsanlega hægt að finna einhverjar leiðir til að komast hjá þessu. Síðan væri að sjálfsögðu hægt að finna aðrar leiðir til að komast hjá þessu, sem frv. tekur að sjálfsögðu engan veginn á, og það er að menn fari hreinlega út í það að gefa fjölmiðla fyrir íslenskan markað út erlendis og dreifa þeim hingað til lands, t.d. í gegnum gervihnetti. Það væri hægt að útvarpa til Íslands og það væri hægt að koma því efni til skila hér á landi einmitt í gegnum internetið. Hvernig ætla menn að taka á því? Menn hafa ekkert hugsað út í það. Þetta er enn eitt dæmið, frú forseti, um handarbakavinnubrögðin og það hversu illa allt málið er undirbúið og allt einhvern veginn með endemum og einn allsherjarfáránleiki frá upphafi til enda.

Af einhverjum ástæðum er frv. lagt fram til höfuðs samsteypu sem er í eigu Baugsveldisins a.m.k. að hluta til, Norðurljósum, til að reyna að klekkja á því. Valdhafar í landinu hafa af einhverjum ástæðum, sem ég skil reyndar ekki alveg, ákveðið að ganga milli bols og höfuðs á til að mynda Fréttablaðinu og DV. Ég á erfitt með að skilja af hverju. Þau blöð hafa að sjálfsögðu verið gagnrýnin á valdhafa hér á landi á undanförnum missirum en mér finnst það bara allt í lagi, þau veita visst aðhald og það er gott og þarft í lýðræðisþjóðfélagi að fyrir hendi séu fjölmiðlar á hverjum tíma sem eru grimmir út í stjórnvöld.

Ég bjó sjálfur lengi erlendis, bjó í Noregi í 13 ár, og þar voru dagblöð sem voru mjög gagnrýnin og grimm og stærstu dagblöð landsins, til að mynda norska blaðið Verdens Gang, voru alltaf mjög á varðbergi og mjög gagnrýnin og krítísk á ríkjandi stjórnvöld á hverjum tíma. Þar var og er ekkert elsku mamma, þar eru stjórnmálamenn virkilega teknir fyrir og þeir fá virkt aðhald frá fjölmiðlunum, en þar í landi dettur engum í hug, frú forseti, ekki einu sinni að impra á því að fara að setja lög viðlíka þeim sem liggja á borði okkur. Engum dettur það í hug og það hefði aldrei hvarflað að mér að við ættum eftir að sjá slík lög á Íslandi. Maður er oft ósammála þessum fjölmiðlum, mikil ósköp. Stundum er það svo að manni finnast þeir vera ósanngjarnir. En það er ekki þar með sagt að manni detti í hug að ætla að fara að reyna að setja einhver lög til að koma þeim fyrir kattarnef, alls ekki.

Við í Frjálsl. höfum ekki verið tekin neinum vettlingatökum af þessum fjölmiðlum í gegnum tíðina, alls ekki. En það er ekki þar með sagt að við teljum okkur eiga harma að hefna. Nei, við teljum okkur ekki eiga harma að hefna, langt í frá. Það hefur aldrei hvarflað að okkur og aldrei verið rætt innan okkar flokks að ætla að fara að reyna að koma einhverjum ákveðnum fjölmiðlum fyrir kattarnef eða ljá því máls að taka þátt í einhverju slíku samsæri eins og nú liggur fyrir Alþingi. Það hefur aldrei hvarflað að okkur.

Ég vil líka fá að nota tækifærið, fyrst ég er kominn inn á þessa braut, forseti, til að lýsa því yfir að Frjálsl. á ekkert inni hjá þessum fjölmiðlum, þessir fjölmiðlar eiga ekkert inni hjá Frjálsl., Frjálsl. á ekkert inni hjá Baugi og Baugur á ekkert inni hjá Frjálsl. Baugur hefur aldrei styrkt Frjálsl. flokkinn með einni einustu krónu, t.d. í kringum kosningar og annað þess háttar, bara svo að það sé sagt. Það er hægt að leggja fram bókhaldsgögn því til stuðnings.

En hvers vegna eru stjórnvöld þá svona hrædd við þessa fjölmiðla? Hvað er það sem gerir það að verkum að stjórnvöld á Íslandi eru svo hrædd við blað eins og Fréttablaðið? Gæti það verið vegna þess að Fréttablaðið er ekki undir þeirra stjórn að neinu leyti og hefur margoft sýnt það og sannað að það lætur ekki þessa ráðamenn vaða yfir sig? Getur verið að hið sama gildi um DV og getur verið að hið sama gildi um Stöð 2 og þá er ég sérstaklega að tala um fréttastofuna og Bylgjuna? Gæti það hugsast? Gæti hugsast að það teljist vera mjög hættulegt að nú sé komið fram dagblað sem alþýðan í landinu getur lesið, ókeypis dagblað sem borið er inn á flest heimili? Ég veit það ekki en mig grunar að svo sé.

Á þessum síðustu og verstu tímum er það oft þannig að þegar manni blöskrar hvernig stjórnvöld fara fram með offorsi þá sest maður niður og leitar sér hugarhægðar til að mynda í heimsbókmenntunum, og ég hef, frú forseti, gert það nú á undanförnum dögum þegar ég hef verið að fylgjast með umræðunni og velta málinu fyrir mér og svo þegar manni hefur verið ofboðið. Maður reynir þá að grípa í eitthvað og velta hlutunum fyrir sér og jafnvel að sjá spaugilegu hliðina á þeim fáránleika sem við búum við og upplifum núna.

[16:45]

Ein af þeim bókum sem ég blaðaði í er eitt af mínum uppáhaldsritum, Góði dátinn Svejk. Mig langar til að lesa smákafla upp úr þeirri ágætu bók, með leyfi forseta, og hann hljóðar svona:

,,--- Þarna sjáið þið, sagði Svejk. --- Allir verða að fórna einhverju fyrir keisarann. Jafnvel stólpípu og magadælu. Þegar ég var í herþjónustu fyrir mörgum árum, var það miklu verra en þetta. Þá bundu menn skrópagemlingana saman á höndum og fótum og fleygðu þeim í myrkrastofu svo að þeir gætu jafnað sig. Þá voru hvergi rúm eða hrákadallar, eins og nú er. Það voru bara hörð flet sem sjúklingarnir lágu á. Einn hafði ósvikna taugaveiki og annar bólusótt. Báðir voru bundnir á höndum og fótum og herdeildarlæknirinn sparkaði í magann á þeim og sagði að þeir væru skrópagemlingar. Þegar svo báðir dátarnir dóu kom málið fyrir þingið og stóð í blöðunum. Okkur var strax bannað að lesa blöðin og rannsókn var látin fara fram til þess að vita hverjir okkar hefðu blöð. Og þar eð ég hefi alltaf verið mesti hrakfallabálkur var ég sá eini í allri herdeildinni sem blað fannst hjá. Svo var ég leiddur til yfirheyrslu, og ofurstinn okkar, sem var mesti gapuxi, guð sé honum syndugum líknsamur, fór að öskra upp í eyrun á mér, sagði mér að standa beinum og spurði hver hefði skrifað blöðunum þessa frétt og ef ég segði sér það ekki myndi hann rífa út úr kjaftvikunum á mér og láta loka mig inni. Því næst kom herdeildarlæknirinn, steytti framan í mig hnefana og jós yfir mig ókvæðisorðum. Loks kom ofurstinn aftur og öskraði inn í eyrað á mér: --- Ertu fífl eða ertu ekki fífl?

--- Herra ofursti, ég er fífl.

--- Tuttugu daga varðhald, enginn matur, bundinn í fjörutíu og átta klukkutíma svo að hann geti fullvissað sig um að herinn hefur enga þörf á fíflum. Við munum áreiðanlega geta lamið allar grillur út úr hausnum á þér, lúsablesinn þinn, sagði ofurstinn og æddi fram og aftur. Meðan ég sat inni fór allt í hund og kött í herbúðunum. Ofurstinn okkar harðbannaði hermönnunum að lesa, hvað sem það væri. Og þó að þeir færu á matsölustaði máttu þeir ekki vefja blöðum um pylsur eða ostbita. Upp frá því byrjuðu hermennirnir að lesa og herdeildin okkar varð sú langvíðlesnasta í öllum hernum. Allir lásum við blöðin og sérhver sveit orti háðvísu um ofurstann okkar. Og ef eitthvað kom fyrir herdeildina okkar, kom einhver dátinn því í blöðin undir fyrirsögninni ,,Hermannapyntingar``.``

Þetta var úr bókinni Góði dátinn Svejk eftir Jaroslav Hasek í þýðingu Karls Ísfelds, 8. kafla, ,,Svejk hjá skrópagemlingunum``. Og það var sjálfur góði dátinn Svejk sem einhvern tíma sagði þau fleygu orð að agi verði að ríkja í hernum. Þetta var einmitt góði dátinn Svejk sem var að segja félögum sínum sögu af því þegar ritskoðun upphófst í hernum og hermennirnir máttu ekki lengur lesa blöðin vegna þess að einhver fór að leka eða skrifa eitthvað í blöðin sem ekki þóknaðist hershöfðingjunum og keisaranum.

En það fór nú svo, frú forseti, að sú ritskoðun varaði skammt og hinir óbreyttu hermenn í her keisarans náðu sér í sína fjölmiðla hvað sem það kostaði og lásu þá og notfærðu sér þá. Það er nefnilega þannig, frú forseti, og sagan sýnir það að þegar hið opinbera eða stjórnvöld reyna að beita einhvers konar ritskoðun finnur frelsið alltaf leiðir fram hjá því, það er alveg ljóst. Og ég reikna með því að þó að valdhöfunum takist í þetta sinn að klekkja á fjölmiðlum hér landi með því makalausa frv. sem nú liggur fyrir Alþingi muni frelsisunnandi Íslendingum takast að komast fram hjá þeirri löggjöf og valdhöfunum muni ekki líðast og þeir muni ekki komast upp með það að reyna að berja undir sig fjölmiðla hér á landi. Það er sannfæring mín, þó að það sé svo, frú forseti, að valdhafarnir sýni einmitt tilburði til þess að gera það, sýni tilburði til ritskoðunar.

Eitt skýrasta dæmið um það kom einmitt fram í kjölfar ræðu sem ég flutti á hinu háa Alþingi fyrir ekki mjög mörgum dögum síðan. Það var mjög undarleg uppákoma svo vægt sé til orða tekið, frú forseti, mjög undarleg ritskoðun sem þar fór í gang og það voru framsóknarmenn sem fóru að ritskoða. Eins og við vitum öll er Framsfl. í ríkisstjórnarsamstarfi og þingmenn hans hafa nánast eindregið lýst því yfir að þeir ætli sér að styðja þetta makalausa frv. Framsfl. er dreginn, eins og hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon sagði, inn í þetta mál á skottinu og hann ætlar að láta sig hafa það, a.m.k. megnið af honum, að styðja þá ósvinnu sem hér er verið að bera á borð fyrir þjóðina.

En það var þannig, frú forseti, að ég vitnaði í ákveðna grein á vefriti ungra framsóknarmanna og það olli miklu írafári að ég skyldi vitna í þá grein og skömmu eftir að ég steig niður úr ræðustól hins háa Alþingis var þetta að sjá á forsíðu Maddömunnar, sem hefur breytt nafni sínu úr Málgagni ungra framsóknarmanna í Málgagn ungra miðjumanna, rétt áður en vefsíðunni var lokað stóð á forsíðunni: ,,Maddaman er því miður óaðgengileg vegna bilunar í hugbúnaði. Maddaman biðst velvirðingar á uppákomunni.`` Fyrir neðan er teikning af einhverri fígúru með kökukefli sem reyndar líkist grunsamlega mikið ákveðnum manni sem ég ætla ekki að nefna. En nóg um það.

Þessari vefsíðu lokuðu framsóknarmenn snarlega. Og hvers vegna skyldu þeir hafa gert það? Jú, ég tel að þar hafi grímulaus ritskoðun verið á ferðinni og hér sé á ferðinni dæmi um það sem koma skal ef núverandi ríkisstjórnarflokkar verða áfram við völd. Þetta er sú ritskoðun sem þeir flokkar eru að leita eftir. En þó að Framsfl. stundi ritskoðun á vefsíðu sinni skal Framsfl. ekki láta sér detta í hug að hann verði látinn komast upp með þá ritskoðun því að Maddaman hefur lengi verið opin á vefnum og því efni sem þar var var hægt bjarga og varðveita um langan aldur og það hefur verið gert.

Ég vil fá að lesa og ætla mér að lesa hér, vegna þess að ég tel að það eigi hreinlega erindi inn í þingtíðindi, hluta úr þeirri grein sem ég las upp á sínum tíma. Ég tel að það eigi erindi inn í söguna vegna þess að ef það frv. sem við erum að ræða núna verður að veruleika verður það sögulegur atburður og ég tel að það sé mikilvægt fyrir sagnfræðinga framtíðar að þeir hafi aðgang að þeim gögnum og þeirri atburðarás sem varð til þess að þetta ógæfufrumvarp fór í gegnum þingið á vordögum árið 2004.

Sú grein sem ég las upp úr á sínum tíma og olli svo miklu írafári og olli kannski írafári að verulegu leyti vegna þess að þar var á ómaklegan hátt vegið að einum hv. þm. á Alþingi og ég ætla því ekki að lesa þann kafla, enda er ég alveg sammála því að þar var mjög ómaklega vegið að ágætum dreng og hann átti alls ekki skilið að það væri gert með þessum hætti. Ég sleppi því þeim hluta en gríp niður í umrædda grein eftir Jón Einarsson, sem er í stjórn Félags ungra framsóknarmanna í Skagafirði og varamaður í stjórn Sambands ungra framsóknarmanna og var prímus mótor á vefsíðunni maddaman.is áður en henni var lokað. Jón Einarsson skrifar í þessari grein, með leyfi forseta:

,,Nú er það svo að reynt hefur verið að koma í veg fyrir lýðræðislega umræðu um málið með því að fela frumvarpið fyrir almenningi. Þannig hafa þingmenn Sjálfstæðisflokksins reynt að kasta ryki í augu almennings með því að segja að hann geti ekki fjallað um frumvarpið því það hefur ekki birst á vef Alþingis. Frumvarpið hefur hins vegar birst á heimasíðu Helga Hjörvars alþingismanns sem á heiður skilinn fyrir. Og þar las undirritaður það [þ.e. Jón Einarsson].

Undirritaður benti á það í pistli á maddaman.is þann 23. desember 2003, sem bar yfirskriftina Ein er nefndin ofsafín, ofan úr ráðuneyti, að allar tilraunir til að takmarka fjölmiðlun með fyrir fram boðum og bönnum væru brot gegn tjáningarfrelsisákvæði stjórnarskrárinnar. Jafnframt var þar bent á að úthlutun leyfa fyrir útvarps- og sjónvarpsútsendingum yrði að fara fram á grundvelli málefnalegra reglna og með málefnalegum hætti. Undirritaður hafði því aldrei trú á að nefnd um eignarhald á fjölmiðlum mundi skila af sér miklu eða góðu starfi. Og nú er það komið á daginn. Undirritaður hefur lesið skýrslu nefndarinnar, vegið hana og metið og fundið harla léttvæga. Nefndin hefur skautað fram hjá lögfræðilegum álitamálum svo sem um stjórnarskrárvarða vernd eignarréttinda, bann við afturvirkni laga og sá kafli skýrslunnar sem fjallar um tjáningarfrelsisákvæði stjórnarskrárinnar er snubbóttur og ber þess glögg merki að sá/þeir sem hann samdi hefur litla þekkingu á réttarsögu Íslands.`` --- Ég tek það fram að Jón Einarsson mun vera menntaður lögfræðingur og er einn helsti vonarpeningur í ungliðahjörð Framsfl. Ég held áfram, með leyfi forseta: ,,Það er nefnilega þannig að ákvæðið var eitt sinn þannig að ritskoðun og aðrar hamlanir á tjáningarfrelsinu mátti aldrei aftur í lög leiða. Því allt fram yfir miðja 19. öld var virk ritskoðun í Danaveldi. Hugsunin á bak við hana að sjálfsögðu að koma í veg fyrir að almenningur gæti fengið upplýsingar til að hugsa sjálfstætt. Öll gagnrýnin hugsun var þá, rétt eins og nú, eitur í beinum einvaldsherra. Og það var reynslan af ritskoðuninni sem leiddi til þess að menn settu svo afdráttarlaust ákvæði í stjórnarskrána. Hömlurnar á prentfrelsi ,,... má aldrei aftur í lög leiða``. Það lýsir eindregnum vilja og einlægri ósk. Þess má til upplýsingar geta að Benedikt Sveinsson, faðir Einars skálds og frumkvöðuls, leið á sínum tíma fjárhagslegt tjón af því að hafa ekki fengið leyfi til að starfrækja prentverk, en þá þurfti opinbert leyfi til þess. Var hann sannfærður um að tregðan skýrðist af því hve eindregna afstöðu hann hefði tekið í sjálfstæðisbaráttunni.

Það verður að segjast alveg eins og er að málið allt heldur ekki vatni og þau rök sem reynt hefur verið að setja á flot sökkva jafnharðan. Tökum nokkur dæmi:

Dæmi 1. Því hefur verið haldið fram að þetta sé gert til að tryggja frelsi á fjölmiðlamarkaði. Reyndin er sú að frelsið er einmitt tryggt með því að það sé ekki háð hindrunum og duttlungum hvort maður megi eiga fjölmiðla. Samkeppnislög taka á þeim hluta sem að samkeppninni snýr og verður ekki betur séð en þau tól sem þau lög innihalda eigi að duga til að koma í veg fyrir misnotkun á markaðsráðandi stöðu.

Dæmi 2. Því hefur verið haldið fram að þetta sé til að vernda fréttamenn frá óeðlilegum þrýstingi frá eigendum. Reyndin er sú að fréttamenn eru undir meiri þrýstingi frá stjórnmálamönnum en frá eigendum. Sést það til dæmis vel á því hvernig sumir fjölmiðlamenn skríða fyrir Davíð Oddssyni forsætisráðherra af ótta við að reita hann til reiði. Jafnframt ber að benda á að fréttastofur ríkisfjölmiðlanna eru miklu mun óháðari í raun er fréttastofur frjálsu fjölmiðlanna, því þar ná stjórnmálamenn að koma fram áhrifum sínum í gengum pólitískt skipað útvarpsráð.

Dæmi 3. Því hefur verið haldið fram að þetta sé gert til að koma böndum á hið svo kallað fjórða vald. Reyndin er hins vegar sú að fjölmiðlar eru ekkert fjórða vald. Það er almenningur sem hefur sitt vald til að taka upplýsta ákvörðun. Og það er þvert á móti mikilvægt fyrir almenning að fá sem bestar upplýsingar um einstök mál sem hann hefur áhuga á að kynna sér. Og aðgengi að slíkum upplýsingum er best tryggt með því að viðhalda frelsi í fjölmiðlum.

Dæmi 4. Því hefur verið haldið fram að frumvarpið komi í veg fyrir tengsl milli auglýsenda og fjölmiðils sem skekkja samkeppnina á auglýsingamarkaði. Reyndin er hins vegar sú að stærsta skekkjan á auglýsingamarkaði eru ríkisfjölmiðlarnir. Jafnframt því sem það verður ekki séð að þjóðfélaginu stafi ógn af því ef fyrirtæki í ólíkum rekstri kjósa að setja fé í fjölmiðla til að fá breiðari vettvang fyrir auglýsingar sínar.

Dæmi 5. Því hefur verið haldið fram að hvergi á byggðu bóli sé fjölmiðlun engum takmörkunum háð. Skýrslan sýnir hins vegar að bæði í Danmörku og Finnlandi eru takmarkanirnar litlar sem engar utan þær sem byggja á samkeppnislögum.

Dæmi 6. Því hefur verið haldið fram að þessu máli sé ekki beint gegn útgáfufélaginu Norðurljósum og aðaleigendum þess. Reyndin er hins vegar sú að verði frumvarpið að lögum mun það fyrst og fremst hafa áhrif á Norðurljós. Og því hefur verið haldið fram að óheft eignaraðild feli óhjákvæmilega í sér samþjöppun á markaði, þar til einn hefur ráðandi stöðu. Ekki verður annað séð en að reynsla okkar Íslendinga sjálfra sýni að það er alls ekkert lögmál. Tilvísanir til Berlusconi hins ítalska og fjölmiðlarisa hans hafa ekkert gildi í þessu máli, nema til að sýna að samkeppnisyfirvöld þurfa að vera vakandi.

Það er nefnilega staðreynd að eignarhald, hvort heldur er dreift eða þjappað, er engin trygging fyrir góðri fréttamennsku. Þar er það fyrst og fremst siðferðiskennd fréttamannsins sjálfs sem mestu skiptir. Sem og hæfileiki hans til að greina góðar fréttir frá vondum, til að greina rétt frá röngu og til að lesa í heimildirnar og átta sig á sannleiksgildi og fréttagildi þeirra. Enda er það svo að á endanum ber fréttamaðurinn ábyrgð á sinni vinnu, ábyrgð á því sem hann lætur frá sér fara. Bæði ber hann lagalega ábyrgð með bótaskyldu og mögulegri refsingu fyrir meiðyrði og jafnframt ber hann faglega ábyrgð með því að rangar fréttir kalla hneisu yfir hann sjálfan og þá fréttastofu sem hann vinnur fyrir og getur haft áhrif á trúverðugleika beggja.

Jafnframt er alveg ljóst að útfærsla laganna, ef frumvarpið verður þá að lögum, verður kostuleg svo ekki sé meira sagt. Hvernig ætla menn að taka á því að tæknin er alltaf að breytast. Nú gera svokölluð pdf-skjöl mönnum kleift að lesa ,,blöðin`` heima í stofu í tölvunni. Verður þá litið á Fréttablaðið sem dagblað í skilningi lokamálsliðs a-liðar 1. gr. frumvarpsins? Eða verður litið á það sem rafrænan miðil og þar af leiðandi ekki takmarkandi gagnvart eign í hljóðvarpi/sjónvarpi? Hvað ætla menn að gera varðandi vefsíður? Þar eru margvíslegar fréttir og upplýsingar og ekki allt saman satt eða fallegt. Er næst á dagskrá að þeim verði lokað? Eða verður ef til vill lokað fyrir aðgang á internetið að hætti kommúnistastjórnarinnar í Kína? Verður ef til vill bara aðgangur að heimasíðum sem eru sjálfstæðismönnum þóknanlegar? Hvernig ætla menn að taka á muninum á dagblöðum annars vegar og til dæmis auglýsingapésum hins vegar? Má Bónus ef til vill ekki senda okkur bækling um tilboð vikunnar? Eða tilboð dagsins ef þeir kjósa að senda það út daglega? Teldist það dagblað í skilningi laganna? Og hvað með svokallað rafrænt sjónvarp og útvarp? Þörfin fyrir að takmarka aðgang að burðarbylgjum verður eftir nokkur ár alls ekki eins brýn og verið hefur. Allt bendir til að tæknin sé nú þegar búin að kollvarpa meintum röksemdum fyrir því að hneppa kerfið í fjötra. Fullt af spurningum er því enn ósvarað og undirrituðum sýnist að hvorki höfundar ofangreindrar skýrslu, Davíð Oddsson forsætisráðherra, sem í haturshug sínum gagnvart fyrirtækjasamsteypunni Baugi og eigendum hennar er sérstaklega umhugað um að keyra málið í gegnum Alþingi, né aðrir þeir sem málinu mæla bót hafi hugsað nokkuð út í þessi atriði. Reyndar fara höfundar skýrslunnar aðeins ofan í stafrænt útvarp og sjónvarp í kafla 6.4.5 í skýrslunni. Þar er hins vegar ekkert að finna sem rökstyður eða kallar á að slíkar útsendingar verði leyfisskyldar.

[17:00]

Samkvæmt fréttum hefur þingflokkur Framsóknarflokksins samþykkt frumvarpið fyrir sitt leyti. Það verða að teljast ill tíðindi. Frumvarpið er eins og að ofan segir ófrelsisfrumvarp. Undirritaður vill jafnvel taka svo djúpt í árinni að segja að frumvarpið hafi á sér einkenni fasisma. Segir ekki máltækið að vegurinn til vítis sé þakinn góðum áformum. Og þó svo menn segist vera að vernda þjóðina með því að takmarka frelsið þá er það sannast að þjóðin þarf ekki slíka vernd að hún sé hneppt í ófrelsishlekki. Hvernig var það ekki þegar Adolf Hitler og félagar hans í nasistaflokknum komust til valda í Þýskalandi, voru þá ekki sett sérstök lög í kjölfar þinghúsbrunans til að vernda Þjóðverja frá innanlandsófriði? Ég man ekki betur. Allt undir því yfirskini að verið væri að vernda þjóðina frá meintri ógn. En ógnin reyndist hins vegar nasistar sjálfir. Og Þjóðverjar komust að því, en því miður fyrir þá var það of seint.

Þingmenn Framsóknarflokksins skulda skýringar á því hvers vegna þeir kjósa að leggja þessum fasisma lið. Þeir skulda flokksfélögum sínum skýringar. Þeir skulda kjósendum sínum skýringar. Og þeir skulda þjóðinni allri skýringar. Framsóknarflokkurinn hefur hingað til ekki verið fasistaflokkur. Hann hefur þvert á móti barist gegn öfgastefnum til hægri og vinstri og tilvist hans nú og langlífi sannar að sú stefna var og er rétt. En nú ber nýrra við. Eftir áratugalanga baráttu fram á við, fyrir betra þjóðfélagi og bættum hag þjóðarinnar, ætla núverandi þingmenn flokksins skyndilega að breyta um stefnu, venda seglum og snúa stýri, svo Framsóknarskútan stefni allt í einu í átt að fasisma. Eru menn svo taugaveiklaðir yfir stjórnarsamstarfinu og spenntir yfir að taka við forsætisráðuneytinu þann 15. september næstkomandi að menn eru tilbúnir að samþykkja hvað sem er? Eru menn reiðubúnir að fylgja Davíð Oddssyni og blindu hatri hans á tilteknu fyrirtæki út á hvaða fúafen sem er? Hér þarf að spyrna við og taka í tauma áður en verra hlýst af. Undirritaður vill því leggja til að þegar í stað verði boðað til sérstaks aukaflokksþings Framsóknarflokksins þar sem þessi stefnubreyting verði rædd. Það að vera framsóknarmaður felur í sér trúnað við grundvallarhugsjónir og grundvallarstefnu flokksins. Og ég kannast ekki við að þingmenn flokksins hafi neitt páfabréf fyrir því að snúa af réttri leið yfir á ranga. Enda hefur enginn vald til útgáfu slíkra aflátsbréfa, hvorki páfinn né aðrir.``

Þessi grein var skrifuð af Jóni Einarssyni. Höfundur er í stjórn Félags ungra framsóknarmanna í Skagafirði og varamaður í stjórn Sambands ungra framsóknarmanna, lögfræðimenntaður maður, mjög vel ritfær eins og við sjáum hér og greinilega maður með heilbrigðan hugsunarhátt. Það verður að segja þeim ágæta manni sem ég þekki ekki neitt, hef aldrei séð eða hitt, til hróss. En þetta var of harður kostur. Þessi grein var lögð út á netið 27. apríl og vefsíðunni var lokað að mig minnir eitthvað í kringum 6. maí. Og hvers vegna var henni lokað? Ja, spyr sá sem ekki veit.

Þarna var á ferðinni rödd innan úr Framsfl., flokksmaður hv. þm. Framsfl. sem nú virðast ætla að taka þátt í því að hið umdeilda fjölmiðlafrumvarp verði að lögum með lítils háttar breytingum sem skipta raunverulega engu máli. Frumvarpið er jafnslæmt og það var þegar það var fyrst lagt fram og gersamlega svo ónýtt að ef sá sem hér stendur fengi að ráða yrði því hent hið fyrsta.

En einmitt þessi skrif hins unga framsóknarmanns, eins vonarneista Framsfl. af yngri kynslóðinni, hljóta í raun og veru að vekja þá spurningu hvað sé að gerast í Framsfl. Hvað er á seyði í Framsfl.? Við vitum jú nú þegar að hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson er andvígur frv., annað hefur ekki komið í ljós. Hann á reyndar að tala hér síðar í kvöld og það verður mjög fróðlegt að heyra ræðu hans og ég hygg að margir hlakki til að heyra hvað hann muni segja. En það virðist vera á ferðinni alvarlegur klofningur í Framsfl. því ef ég man rétt hafa ungir framsóknarmenn líka ályktað gegn frv. Þarna virðist því vera kominn upp alvarlegur klofningur og flokksforustan brást þannig við á sínum tíma að manni sýnist, a.m.k. á yfirborðinu, með því að reyna að kæfa þessa umræðu og reyna að ritskoða menn og hreinlega banna þá og loka fyrir fjölmiðla ungu kynslóðarinnar til að rödd hennar heyrðist ekki út á við. Það er að sjálfsögðu mjög alvarlegt umhugsunarefni. Ungliðahreyfing minni flokksins í ríkisstjórn er kæfð, ungliðahreyfing stærri flokksins virðist fá að tala svo langt sem það nær þó að hún virðist reyndar sýna mjög mikla fylgispekt við foringjann. Það er í raun og veru ekki annað að sjá af þeim greinum sem maður hefur verið að lesa eftir unga sjálfstæðismenn en að þeir séu meira og minna gersamlega heilaþvegnir og ætli að fylgja foringja sínum út á það hrikalega fúafen sem ríkisstjórnin er að fara út á með frv. En verði þeim að góðu, ég ætla ekki að vorkenna þeim, síður en svo. Það fólk grefur sína eigin gröf og það er fullfært um að gera það sjálft án þess að sá sem hér stendur fari að hjálpa þeim við það.

Undanfarna daga hefur geisað nánast styrjöld í þingsölum á milli stjórnarandstöðu og stjórnarliða út af þessu frv. Það er í raun og veru ekkert skrýtið vegna þess að manni hefur gersamlega ofboðið hvernig stjórnarliðar hafa með óbilgirni ætlað að reyna að koma frv. í gegnum þingið fyrir þinglok nánast hvað sem það kostar.

Stjórnvöld lágu á fjölmiðlaskýrslunni svokölluðu í margar vikur eins og ormur á gulli. Skýrslan kom út að ég hygg 4. apríl og ef ég man rétt lágu stjórnarliðar á henni í þrjár vikur. Þá birtist hún allt í einu á vefsíðu hv. þm. Samf. Helga Hjörvars. Hann hafði komist yfir hana með einhverjum hætti, henni hafði verið lekið í hann. Daginn eftir birtist síðan sjálft frv. einmitt líka á vefsíðu sama hv. þm. Helga Hjörvars. Einhverjir stjórnarliðar höfðu sem sagt lekið bæði skýrslunni og frv. til Helga Hjörvars.

Í því samhengi rifjast upp fyrir manni frægur leki í haust þegar þing var að byrja þegar stefnuræðu forsrh. var lekið í fjölmiðla. Þá voru höfð uppi stór orð og stjórnarandstaðan sökuð um að hafa stundað þann leka en mér er nær að halda að sá leki hafi komið frá stjórnarliðum sjálfum. Ef stjórnarliðar sjálfir eru þannig innréttaðir að ekki er hægt að treysta þeim fyrir skýrslu eins og fjölmiðlaskýrslunni eða einhverju umdeildu lagafrv. hvernig í ósköpunum á þá að vera hægt að treysta þeim fyrir stefnuræðu forsrh.? Mér er spurn. Ég held að öryggisvandamál ríkisstjórnarinnar sé miklu þarfara málefni fyrir stjórnina sjálfa til að skoða en eignarhald á fjölmiðlum í dag. Þeim væri nær að líta á sitt eigið þingmannalið og fara nánar ofan í saumana á hvernig því þingmannaliði tekst að halda utan um það sem á að vera leyndarmál á hverjum tíma. Ég vildi a.m.k. ekki vera í stjórnarsamstarfi með því fólki, ég verð að segja það alveg eins og er. Ef ekki er hægt að treysta fólki fyrir einföldustu leyndarmálum í smátíma er illa komið fyrir samstarfi.

En það má kannski víkja aðeins að undirferli í stjórnmálum. Og af því að ég var að vitna áðan í Góða dátann Svejk langar mig líka til að vitna í aðra bók úr heimsbókmenntunum og það er Furstinn eftir Nicolo Machiavelli, sígilt rit sem kom fyrst út undir heitinu Il Principe árið 1532, og kom út í íslenskri þýðingu Ásgríms Albertssonar árið 1987. Þetta er afskaplega merkileg og gagnleg bók og mig langar til að lesa hér aðeins upp úr 18. kaflanum. Það er margt í þessari bók sem á afskaplega vel við Ísland í dag og íslenska stjórnarhætti og ég tel alveg tilhlýðilegt að fara aðeins ofan í textann í 18. kafla sem ber heitið ,,Ber fursta alltaf að virða trúnað og halda heit sín?``, með leyfi forseta:

,,Allir hljóta að vera sammála um að það sé lofsvert að fursti haldi vel heit sín og sé hreinskiptinn en ekki undirförull í framkomu sinni. Samt er það svo að reynslan sýnir okkur að þeir furstar sem hafa komið miklu til leiðar nú á tímum hafa einmitt verið þeir sömu og einskis mátu gefin loforð, kunnu að vefja öðrum um fingur sér og reyndust síðar ofjarlar þeim sem virtu heiðarlegar leikreglur.

Það er augljóst að í baráttu er um tvennt að ræða, að láta lögin ráða eða valdið bert. Hið fyrra er mönnum sæmandi, hið síðara er aðferð dýrsins. En þar sem hið fyrrnefnda dugir í mörgum tilfellum ekki, þá þarf að grípa til þess síðara. Furstinn verður því bæði að kunna það sem er mannsins og dýrsins. Sagnaritarar fornaldar hafa gefið þetta til kynna með líkingamáli. Þeir lýstu því hvernig Akkilles og margir kappar aðrir voru settir í fóstur hjá kentárnum Kíróni til þess að hann agaði þá eftir sínu eðli. Þessi líking að hafa fóstrann að hálfu mann og hálfu dýr þýddi það að furstinn þyrfti að kunna að haga sér eftir eðli beggja, því að annað án hins væri ófullnægjandi.

Þar sem fursta var nauðsynlegt að tileinka sér hegðun dýrs, þá þurfti hann að læra af refnum og ljóninu. Ljónið hefur ekki vit á að forðast gildru og refurinn er varnarlaus gagnvart úlfinum. Þess vegna þarf hann bæði eðli refs til þess að varast gildrur og eðli ljóns til þess að fæla burt úlfinn. Þeir sem hafa ljónið eitt að fyrirmynd skortir hyggindi. Af þessu leiðir að virtur fursti mun ekki og má ekki halda orð sín ef það er honum í óhag og ef brott eru fallnar ástæður þess að hann gaf heit sín. Ef allir menn væru góðir, þá væri þetta slæm ráðlegging, en af því að mennirnir eru ills eðlis og halda ekki sín orð, þá er óþarft að halda orð sín við þá. Fursti getur líka alltaf fundið lögmætar aðferðir til þess að fegra brigð sín.

Nefna mætti ótal dæmi nú á tímum sem sýna að margir samningar og mörg heit hafa verið þverbrotin af hálfu fursta og að þeim sem fara að dæmi refsins mun best farnast.

En menn þurfa að kunna að breiða fagra blæju yfir refsskap sinn, og að ná leikni í hræsni og falsi. Það er alltaf nóg af þeim sem eru svo einfaldir og háðir áhrifum líðandi stundar, að sá sem vill blekkja finnur alltaf einhvern sem lætur blekkjast.

Ég vil ekki láta ógetið dæmis sem mönnum er í fersku minni. Alexander VI. páfi lék alltaf þá list sem átti hug hans allan, að blekkja fólk, og það var aldrei skortur á mönnum sem ginu við agni hans. Það hefur aldrei verið til maður leiknari í fortölum né reiðubúnari að sverja eiða að því sem hann var staðráðinn í að svíkja. Blekkingar hans báru samt alltaf tilætlaðan árangur, því hann gjörþekkti þessa hlið mannslífsins.

Fursti þarf ekki endilega að hafa alla þá kosti til að bera sem áður voru nefndir. En hann á vissulega að láta líta svo út sem hann væri þeim prýddur. Ég vil jafnvel ganga svo langt að segja að hefði hann þá alla og sýndi þá í verki, yrði það honum til falls. En það er gagnlegt fursta að láta líta svo út að hann sé miskunnsamur, orðheldinn, mannúðlegur, trúaður og hreinskilinn --- og að vera það, en hafa þó hug sinn opinn fyrir því að bregða hinu gagnstæða ef þörf krefur. Menn verða að gera sér ljóst að fursti, og sér í lagi sá sem er nýr í sessi, getur ekki hagað sér í öllu eftir því hvað færir mönnum vinsældir. Ástæðan er sú að til þess að halda ríki sínu neyðist hann oft til aðgerða sem eru andstæðar samvisku hans, stríða gegn trú, góðgirni og hjartagæsku. Hann þarf að eiga sveigjanleika, geta ekið siglum eftir vindi, hagað sér eftir því hvernig gæfuhjólið snýst og allar aðstæður krefjast. Eins og ég hef áður sagt á hann ekki að víkja af vegi þess góða ef það er mögulegt en hann þarf að kunna að þræða refilstigu hins illa ef nauðsyn býður.``

Mér finnst þetta smellpassa við vinnubrögð ríkisstjórnarinnar núna. Ríkisstjórn Íslands lætur valdið bert ráða og hún notar núna aðferð dýrsins til að ná fram vilja sínum og hún ætlar að nota aðferð dýrsins með því að setja lög sem eru ómöguleg.

Ég hygg að margir stjórnarliðar, því að ég ætla ekki öllum stjórnarliðum svo illt að þeir styðji málið innst í hjarta sínu, ég hygg að einhverjir þeirra hafi fallist á að til þess að dýrið megi halda ríki sínu þá neyðist menn nú til aðgerða sem eru andstæðar samvisku þeirra, trú þeirra, góðgirni og hjartagæsku. Þeir hafa sennilega fallist á að þeir þurfi að eiga sveigjanleika og geta ekið seglum eftir vindi, hagað sér eftir því hvernig gæfuhjólið snýst og allar aðstæður krefjast. Við höfum jú heyrt hv. þm. lýsa því yfir að ef þeir spili ekki með í liðinu sé frami þeirra og framtíð í veði. Það á kannski við einmitt núna, hver veit?

[17:15]

Ég ráðlegg stjórnarliðum að blaða aðeins í gegnum Furstann eftir Niccolo Machiavelli og ígrunda svolítið á hvaða vegferð þeir eru í dag og vona þá að lestur þeirra úr því ágæta klassíska riti frá Ítalíu verði til þess að þeir sjái kannski ljósið og snúi af villu síns vegar, hugsi ráð sitt og láti gott af sér leiða og komi í veg fyrir það þetta ömurlega og makalausa frv. verði að veruleika og þeir komist þá kannski hjá því að verða fyrir bæði hatri og fyrirlitningu í framtíðinni. En um það snýst einmitt 19. kafli í bók Machiavellis, Furstanum, sem heitir einmitt ,,Um nauðsyn þess að komast hjá hatri og fyrirlitningu.`` Þar er smákafli sem mig langar líka til að lesa, með leyfi forseta:

,,Eftir að ég hef hér á undan rætt um mikilvæga mannlega eiginleika ætla ég á grundvelli þessa almenna yfirlits að ræða stuttlega um það mikilverðasta, en það er að fursta ber að varast allt sem getur bakað honum hatur og fyrirlitningu. Hef ég að vísu rætt nokkuð þar um, en á meðan honum tekst þetta, hefur hann gert sitt til þess að ásakanir um aðra lesti sem ég hef nefnt verði honum ekki að fótakefli.

Eins og ég hef sagt áður mun hann baka sér hatur fyrst og fremst með því að gerast rángjarn og ágengur við eignir og eiginkonur þegna sinna. Á meðan hann lætur í friði eignir manna og misbýður ekki heiðri þeirra verða þeir ánægðir. Hann hefur þá aðeins við að kljást metnaðargirnd fárra manna. En það mun reynast honum auðvelt því að til þess hefur hann mörg ráð.

Hann verður fyrirlitinn ef hann fær á sig orð fyrir að vera ístöðulaus, léttúðugur, teprulegur, kjarklaus og óákveðinn. Þetta skyldi fursti umfram allt varast, en leggja sig fram um að sýna í athöfnum sínum göfuglyndi, hugrekki, alvöru og styrk. Þegar hann sker úr málum verður hann að tryggja að úrskurðum hans geti enginn hnekkt, halda svo á virðingu sinni og myndugleik að engum detti í huga að blekkja hann né beita hann brögðum.

Sá fursti sem megnar að afla sér slíkrar viðurkenningar verður mikils metinn og það verður erfitt að koma af stað samsæri gegn honum. Það verður líka erfitt að ráðast á hann sé hann viðurkenndur sem mikilmenni og njóti virðingar þegna sinna.``

Þetta er merkilegur texti sem ég tel að stjórnarliðar ættu aðeins að ígrunda, 19. kafli í bók Machiavellis, Furstanum. Furstinn verður fyrirlitinn ef hann fær á sig orð fyrir að vera ístöðulaus, léttúðugur, teprulegur, kjarklaus og óákveðinn. Það skyldi furstinn varast.

Hvað eru stjórnarliðar að gera núna með því að láta teyma sig út á það mikla fúafen sem hér hefur verið brallað saman af einhverjum stjórnarliðum og þröngri klíku í kringum þá? Hvað skyldi koma út úr því og hvaða dóm skyldu stjórnarliðar fá á sig þegar þeir, sennilega, verða búnir að samþykkja frv. og það verður farið að virka í þjóðfélaginu? Væri mönnum ekki nær, stjórnarliðum, að reyna frekar núna, þegar þeir hafa tækifæri til þess, að sýna göfuglyndi, hugrekki, alvöru og styrk í þessu máli og láta ekki blekkjast af frv.? Taka heldur undir orð stjórnarandstöðunnar og staldra við, hlusta á aðvörunarorð okkar og fallast á það að málinu verði vikið af dagskrá þannig að það fái almennilegan undirbúning á Alþingi. Það tel ég vera.

Ég heiti á stjórnarliða að sýna göfuglyndi, hugrekki, alvöru og styrk í þessu máli og láta ekki yfirboðara sína teyma sig, jafnvel þvert á sína sannfæringu, út í þetta vonda mál. Það er nefnilega svo að ríkisstjórnin gengur þvert á þau prinsipp sem hún hefur oft og tíðum boðað í málflutningi sínum. Stjórnarliðar eru að ganga þvert á þau prinsipp sem þeir hafa í orði sagst berjast fyrir í gegnum tíðina. Það er þannig, frú forseti, því miður.

Þess vegna vil ég í lokatilvitnun minni úr þessari stórkostlegu bók sem er að verða 500 ára gömul vona að sem flestir stjórnarliðar séu að hlusta því að þetta á svo vel við þá núna, það er hollt fyrir þá að heyra þetta. Með leyfi forseta:

,,Fursti þarf að sýna að hann kunni að meta góðar gáfur, vera ötull við að hvetja hæfileikamenn til dáða og verðlauna þá sem skara fram úr í einhverri iðn eða list. Hann á að uppörva þegna sína svo að þeir gangi friðsamlega að störfum sínum, hvort sem það eru viðskipti, búskapur eða önnur iðja. Menn eiga ekki að þurfa að hika við að endurbæta eignir sínar af ótta við að þær verði frá þeim teknar, né heldur að stofna til nýrra viðskipta vegna hárra skatta. Furstinn á að vera ör á ívilnanir til þeirra sem hafa áhuga á þessum efnum og til þeirra sem leitast við á einhvern hátt að auka velsæld borgar sinnar eða ríkisins. Sömuleiðis á hann á heppilegum tímum árs að efna til hátíðahalda og leiksýninga. Og þar sem hver borg skiptist í gildi og hópa með ættartengsl á hann að sýna þeim virðingu, koma út á meðal þessa fólks og láta það sjá merki um hæversku hans og örlæti. En samt verður hann að halda svo virðingu sinni sem sæmir stöðu hans. Þar má ekkert á skorta.``

Ég hygg, frú forseti, að ef frv. fer í gegn muni mikið á skorta að þegnar landsins geti horft virðingaraugum til þeirrar ríkisstjórnar sem nú fer með völd. Og ég vil nú í lok máls míns lýsa því yfir að komist ég í gegnum minn flokk, Frjálsl., einhvern tíma í þá aðstöðu að vera í meiri hluta á þinginu mun ég vinna að því af heilum hug að þau lög verði afnumin og sú vinna fari í gang að þessi mál verði vandlega endurskoðuð með þeim hætti sem þjóðin á skilið en ekki með þeim ömurlegu handarbakavinnubrögðum, valdníðslu og offorsi sem við verðum vitni að í dag. En ég mun væntanlega geta komið meira inn á þetta merka mál í seinni ræðu minni. Þetta eru ekki mín síðustu orð í málinu.