Útvarpslög og samkeppnislög

Fimmtudaginn 13. maí 2004, kl. 20:35:19 (8109)

2004-05-13 20:35:19# 130. lþ. 114.1 fundur 974. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum) frv. 48/2004, GÁS (um fundarstjórn)
[prenta uppsett í dálka] 114. fundur, 130. lþ.

[20:35]

Guðmundur Árni Stefánsson (um fundarstjórn):

Herra forseti. Það gerðist í fréttum klukkan 18.30 á Stöð 2 að því var haldið fram að við stjórnarandstæðingar beittum stjórnarþingmenn ofríki og kæmum með skipulögðum hætti í veg fyrir að þeir fengju að láta til sín heyra í ræðustól Alþingis um þetta veigamikla mál.

Það var ekki minni maður, herra forseti, en hæstv. forseti Alþingis, Halldór Blöndal, sem hélt þessu fram og sagði í tilgreindu viðtali, með leyfi forseta:

,,Eins og sakir standa núna er búið að halda, bara við 2. umr., 99 ræður um fundarstjórn forseta og 26 eru á mælendaskrá. Það eru kannski allir eða a.m.k flestir stjórnarandstæðingar þannig að þeir eru ráðnir í því að hleypa ekki öðrum að.``

(Forseti (BÁ): Hyggst hv. þm. ræða fundarstjórn forseta eða ummæli forseta í fjölmiðlum?)

Það er nákvæmlega það sem ég er að gera. Það lýtur að þeirri umræðu. Þarna er því haldið fram af hálfu forseta Alþingis að við stjórnarandstæðingar sjáum til þess með skipulegum hætti að gefa ekki stjórnarliðinu kost á að taka þátt í þessari umræðu.

Ég hygg að tveir stjórnarliðar hafi tekið þátt í þessari umræðu en hins vegar hafa verið haldnar 15 eða 20 ræður. Það eru þrír stjórnarliðar á mælendaskrá en hana skipar núna 21 þingmaður. Næsti ræðumaður er hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson. Einnig er á mælendaskrá númer sjö í röðinni hv. þm. Jónína Bjartmarz. Númer 13 í röðinni er hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson.

Ég minnist þess að þeir hv. þingmenn sem ég nefndi hafi skráð sig á mælendaskrá í málinu strax á fyrsta degi umræðunnar. Nú erum við á þriðja degi hennar. Við allar eðlilegar aðstæður ættu þeir að hafa haldið ræður sínar fyrir löngu. Mér er því næst að halda að umræddir þingmenn hafi sjálfir óskað eftir því að vera færðir aftar á mælendaskrá.

Ef það er svo að stjórnarliðar vilji taka þátt í þessari umræðu, sem stjórnarandstæðingar hafa kallað mjög ákveðið eftir, þá vil ég a.m.k. fyrir mína parta lýsa því yfir, og veit ég tala fyrir mun flestra annarra stjórnarandstæðinga, að stjórnarliðum er velkomið að fara fram fyrir marga þá sem á mælendaskrá eru. Þeir þurfa ekki annað en að biðja um það og lyfta litla fingri í þeim efnum.

Ég hafna því algerlega yfirlýsingu hæstv. forseta um að stjórnarliðar fái ekki sín tækifæri við umræðuna. Það eru þeir sem eru á myljandi flótta frá þessari umræðu og hafa ekki, þrátt fyrir ítrekaðar óskir okkar, viljað koma í ræðustól og standa fyrir máli sínu.

Ég mótmæli einnig því sem fram kemur í umræddri frétt af hálfu hæstv. forseta Halldórs Blöndals, sem ég veit að er hér í húsinu og hlýðir á mál mitt og ég vænti þess að hann komi og svari fyrir sig, að hér sé málþóf í gangi sem aldrei hafi sést eða þekkst á hinu háa Alþingi áður. Það er fjarri lagi. Við erum á þriðja degi í mikilvægri umræðu. Hér fer fram mikilvægasta umræða síðari tíma, að minni hyggju, um lýðræðið í landinu. Enn er nóg eftir að ræða um. Ég hef hlýtt á hverja einustu ræðu, herra forseti, og fylgst með því að menn halda sig ákveðið og skýrt við efnið.