Útvarpslög og samkeppnislög

Fimmtudaginn 13. maí 2004, kl. 20:38:39 (8110)

2004-05-13 20:38:39# 130. lþ. 114.1 fundur 974. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum) frv. 48/2004, ÞBack (um fundarstjórn)
[prenta uppsett í dálka] 114. fundur, 130. lþ.

[20:38]

Þuríður Backman (um fundarstjórn):

Herra forseti. Ég vil gera þá athugasemd við stjórn forseta að eftir því sem fram kom í fréttum klukkan hálfsjö segir hæstv. forseti að stjórnarandstæðingar séu ráðnir í að hleypa ekki stjórnarliðum í ræðustól. Mér finnst alvarlegt af forseta að segja þetta. Það er forseta að setja menn á mælendaskrá eftir því sem þeir biðja um orðið. Öllum er frjálst að gera viðvart og biðja um orðið, bæði stjórnarliðum og stjórnarandstæðingum.

Það er ekki við okkur að sakast yfir því að svo fáir stjórnarliðar hafi beðið um orðið. Það er margbúið að kalla eftir viðhorfum stjórnarliða til málsins. Núna eru tveir þeirra á mælendaskrá sem hefðu átt að vera búnir að halda ræður, ef þeir hefðu ekki þráfaldlega fært sig aftar á mælendaskrána. Það er ekki við okkur að sakast þótt stjórnarliðar hörfi undan af einhverjum ástæðum.

Ég hefði viljað að fleiri stjórnarliðar hefðu frá upphafi verið virkir þátttakendur í þessari umræðu. Við hefðum þá getað skipst á skoðunum og farið yfir þetta. Okkur stjórnarandstæðingum er hreint ómögulegt að skilja hug stjórnarliða og hvernig þeir geta stutt þetta frv. Það hefði hugsanlega komið í ljós ef þeir hefðu tekið til máls.