Útvarpslög og samkeppnislög

Fimmtudaginn 13. maí 2004, kl. 20:56:26 (8116)

2004-05-13 20:56:26# 130. lþ. 114.1 fundur 974. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum) frv. 48/2004, ÖJ (um fundarstjórn)
[prenta uppsett í dálka] 114. fundur, 130. lþ.

[20:56]

Ögmundur Jónasson (um fundarstjórn):

Hæstv. forseti. Það er eðlilegt að þessi umræða fari fram undir þessum lið og er í raun virðingarvottur við forseta þingsins. Hún ber þess vott að menn vilja taka forseta Alþingis alvarlega.

Hann lýsti því yfir í fjölmiðlum í kvöld að hann hefði áhyggjur af því að hér væri gengið á rétt stjórnarsinna í umræðunni. Reyndar kvað hann nokkuð fast að orði í því efni. Hann sagði að stjórnarandstæðingar væru ráðnir í að hleypa ekki öðrum að umræðunni. Hér hefur komið fram og verið staðfest af fjölmörgum þingmönnum stjórnarandstöðunnar að þetta er misskilningur í besta falli, mistúlkun og útúrsnúningur í versta falli.

Ég vil leggja áherslu á að í dag hefur margoft verið óskað eftir því að stjórnarþingmenn taki þátt í umræðunum. Ég minnist þess að í morgun var þeim orðum sérstaklega beint til hæstv. viðskrh. Valgerðar Sverrisdóttur að hún kæmi inn í umræðuna og fjallaði um þá þætti sem að henni og ríkisstjórninni snúa. Hér hefur mikið verið fjallað um þær miklu breytingar sem orðið hafa á íslensku samfélagi í kjölfar einkavæðingar undangenginna ára og samþjöppunar á fjármagni. Ég tel að það mál sem hér hefur verið til umræðu, fjölmiðlamálið, sé aðeins yfirborðið á þeirri umræðu. Ríkisstjórnin hefur alltaf hafnað því að taka á rótum vandans en við höfum kallað eftir viðhorfum og afstöðu hæstv. viðskrh. og annarra ráðherra til þessarar umræðu.

Ég óska eftir að því verði komið á framfæri við stjórnarþingmenn, ekki síst ráðherra í ríkisstjórn, að þeir komi til þessarar umræðu.