Útvarpslög og samkeppnislög

Fimmtudaginn 13. maí 2004, kl. 22:08:10 (8128)

2004-05-13 22:08:10# 130. lþ. 114.1 fundur 974. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum) frv. 48/2004, BjörgvS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 114. fundur, 130. lþ.

[22:08]

Björgvin G. Sigurðsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta var athyglisverð og vönduð ræða hjá hv. þm. Kristni H. Gunnarssyni. Ekki var hægt að heyra annað á honum en hann væri þeirrar skoðunar að hér væru á ferðinni sértæk lög sem lytu fyrst og fremst að því að knésetja eitt ákveðið fyrirtæki í landinu, Norðurljós hf., og koma því þannig fyrir að fyrirtækinu verði ekki líft á markaði. Hann virtist telja að takmarkanir frv. næðu skammt í ljósi þeirra byltinga sem í vændum eru í miðlun upplýsinga, sjónvarpi og útvarpi.

Ég vildi spyrja hv. þm. að því hreint og beint hvort hann teldi að hér væri um að ræða sértæka löggjöf sem lyti að því að knésetja Norðurljós hf. og koma miðlum fyrirtækisins út úr rekstri. Er það hinn eini sanni tilgangur laganna? Ég vildi fá þingmanninn til að skýra það sérstaklega fyrir okkur.